Er þetta virkilega eitthvað sem við viljum ganga í?
Evrópa er ríkasta svæði í heimi. Þó leggjumst við svo lágt að heimsækja þriðjaheimsríki og biðja um peninga? Kína er á barmi hruns og við mjálmum í þeim að styðja Evrópu í krísunni?
Er ESB gengið af göflunum? Er ekki snefill eftir af sjálfsvirðingui hjá þessu fólki? Skilja þessir „háu herrar“ ekki að ef Kína fer að fjármagna einhverskonar gervibata – því án uppstokkunar kerfisins erum við ekki að leysa neitt – vilja þeir hafa eitthvað um evrópumál að segja? Trúum við virkilega að kínverjar muni hjálpa okkur af því þeir eru svo góðir í sér? Viljum við að ríki sem drepur þegnana án dóms og laga*, leyfir barnaþrælkun og gefur skít í mannréttindi yfirleitt hafi eitthvað með okkur að gera? Viljum við gefa Kína höggstað á okkur?
Svo er þetta skemmtilegt. „Barroso gerði lítið úr mótmælum og verkföllum í einstökum evruríkjum vegna efnahagsástandsins og sagði að það væri réttur fólks að mótmæla í opnum samfélögum.“ Auðvitað gerir hann lítið úr þessu, því Brussel elítunni er skítsama um hvað fólki finnst. Evrópustórnarskráin er gott dæmi. Þegar fólk í nokkrum evrópulöndum hafnaði henni, var nafninu breytt í Lissabonsáttmála og sett í lög. Það þarf nefninlega ekki að kjósa um einhvern sáttmála. Og þegar ekki er hjá kosningum komist, er kosið aftur og aftur þar til rétt niðurstaða fæst. Svo aldrei meir.
Ísland hefur ekkert í þetta samband að sækja. Ekki í bili allavega. Fyrst verðum við að taka til heima hjá okkar, koma efnahaginum í þokkalegt horf. Það getur ekki verið gott að setjast að samningaborðinu með allt niður um sig. Hvernig eigum við að geta samið um nokkurn skapaðan hlut í þeirri stöðu sem við erum nú? Svo er ágætt að bíða átekta þar til róast um evruna og ástandið almennt innan ESB áður en við ákveðum að ganga í sambandið.
ESB er ólýðræðislegt og smáríki hafa sama og engin völd. ESB málið hefur orðið til þess að núverandi stjórn hefur klofnað og ekki komið brýnari málum í verk.
Tökum þessu rólega. Vinnum í okkar málum og fylgjumst með ESB úr fjarlægð. Okkur liggur ekkert á.
* Sjá þessa frétt. Vara við myndum sem geta komið fólki úr jafnvægi. http://barbadosfreepress.wordpress.com/2008/10/03/would-bussa-have-accompanied-barbados-chief-justice-and-prime-minister-to-chinese-embassy-celebration/