Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
Fólk pyntar fólk – Villi Asgeirsson
Fólk pyntar fólk

Fólk pyntar fólk

Stundum les maður fréttir sem fær blóðið til að sjóða. Pyntingar á börnum er það ógeðslegasta sem hægt er að hugsa sér. Ég vona að Assad og aðrir með jafn viðbjóðslegt innræti mæti þeim örlögum sem þeir eiga skilið.

Því miður er það þó svo að maður er farinn að taka öllum svona fréttum með fyrirvara. Ekki að ég efist um að þetta sé að gerast, að sýrlensk börn séu tekin, brennd með sígarettum, gefið raflost og fleira. Að æsku þeirra sé rænt. Ég efast ekki um að svipaðir hlutir gerist í mörgum löndum, um allan heim. Svona fréttir koma bara svo oft upp vegna þess að vesturlönd vilja fara í stríð við viðkomandi land. Vonum að það sé ekki málið hér.

Þegar yfirvöld standa fyrir morðum og pyntingum, þurfa þau hjálp einstaklinga sem eru tilbúnir til að framkvæma voðaverk sem venjulegt fólk getur ekki ímyndað sér. Þetta gerist yfirleitt í nafni einhvers guðs sem fólk telur gefa sér einhvern rétt til að homa fram við aðra af algerri vanvirðingu því þeir aðhyllast ekki sömu hjátrú. Þetta gerist líka vegna óttans við einhvern leiðtoga. Maður er hlekkur í keðju og þorir ekki að fylgja samviskunni vegna þess að þá eru einhverjir bitlingar teknir af manni, eða að refsingin við að óhlýðnast er samviskunni yfirsterkari. Það er betra að pynta börn, en að eiga það á hættu að lenda á svarta lista yfirvalda. Stundum er það geðveiki sem fær fólk til að pynta og drepa, stundum meðvirkni og stundum ótti.

Bradley Manning á að hafa lekið skjölum sem voru svo birt af Wikileaks. Skjölum sem sýndu að hermenn bandamanna voru ekki alltaf að berjast við vondu kallana fyrir hin góðu öfl. Þau sýndu að hermennirnir okkar, sem við sendum til Íraks, Afganistan og Lýbíu með samþykki okkar, voru kerfisbundið að myrða og pynta óbreytta borgara. Skjölin sýndu að við erum ekki góði kallinn. Við erum nasistarnir sem stilltu fólki upp við vegg og skutum það fyrir minnstu sakir, rómverjarnir sem útrýmdu heilu þorpunum ef þau voru ekki til friðs. Við vorum innrásarherinn og við höguðum okkur þannig. Allt gerðist þetta í okkar nafni, því íslendingar samþykktu þessi stríð.

Hann á að hafa lekið þessum skjölum og var því hnepptur í gæsluvarðhald. Honum var haldið vakandi í 23 tíma á dag, hann fékk ekki að tala við neinn nema lögfræðing, hann fékk enga ábreiðu í pínulitla klefanum. Hann var pyntaður, niðurlægður og brotinn niður andlega. Haldið í þessu ástandi í hálft annað ár án þess að vera ákærður. Pyntaður án dóms og laga.

Bandaríkjamenn hafa reynt að þaga tilvist hans í hel síðan málið kom upp. Fæstir sem ég tala við hafa nokkra hugmynd um hver Bradley Manning er, þaðan af síður af hverju þau ættu að vita af honum. Þegar minnst er á hann í fjölmiðlum, er oft tekið fram að hann sé hommi, eins og til að gera minna úr málinu. Snúa því upp í hálfgert grín, beina umræðunni annað.

Af og til koma svo fréttir sem fá mann til að brosa og trúa á mannkynið.

Í dag tók Hreyfingin stórt skref þegar hún tilnefndi Bradley Manning til friðarverðlauna Nóbels. Hvort hann fái verðlaunin er erfitt að segja, en þetta mun auka umfjöllun um hann í heimspressunni. Fólk mun hugsanlega heyra af honum í fyrsta sinn, skilja af hverju hann hefur verið í haldi án dóms og laga og sjá að heimurinn er ekki endilega eins og okkur er talin trú um. Að við séum ekki endilega góðu kallarnir, að það sé ekki hægt að fara í stríð til að halda friðinn, að ástæðan er ekki að viðhalda mannréttindum og bjarga þjóðum heimsins frá illum einræðisherrum. Að það hangi alltaf eitthvað á spítunni þegar ríki fara í stríð. Kannski að fólk fari að skilja að fyrsta fórnarlamb hverrar styrjaldar er sannleikurinn. Almennir borgara fylgja svo fast á eftir.

Almenningsálitið endaði Víetnam stríðið. Það getur líka endað stíðið við hryðjuverkin ef fólk veit um hvað það snýst. Án þegjandi samkomulags þegnanna, geta ríki ekki farið í stríð. Án hermanna sem tilbúnir eru til að drepa, yrði ansi fámennt á vígvöllunum.

Hreyfingin er lítill flokkur á Íslandi, en í dag hafði hún mikil áhrif á heimsvísu. Hún sýndi að örfáir einstaklingar geta haft mikil áhrif. Að við skiptum öll máli. Ég óska þeim innilega til hamingju.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube