Hvenær kemur Íslenska vorið?
Ég var að skoða bloggfærslur sem ég skrifaði fyrir þremur árum. Búsáhaldabyltingin var þá í fullum gangi. Ég skrifaði um táragasið sem lögreglan beitti gegn mótmælendum og þögnina úr forsætisráðuneytinu. Ísland var að upplifa eitt hrikalegasta efnahagshrun sögunnar og forsætisráðherrann sá enga ástæðu til að tala við þjóðina. Hann beitti lögreglunni þó óspart.
Er það þetta sem við vijum? Sjálfstæðisflokkinn í stjórn aftur? Flokkinn sem keyrði okkur upp í skerjagarðinn og kennir núverandi stjórn um hrunið? Flokkinn sem hikar ekki við að siga löggunni á mótmælendur?
Bjarni Ben vill að alþingi kjósi aftur um það hvort Geir eigi að fara fyrir Landsdóm. Það verður að vera þingmeirihluti fyrir því, segir hann. Var ekki þingmeirihluti til staðar? Var fyrri kosningin ómerk að einhverjum ástæðum? Ef svo er, væri þá ekki hugmynd að kjósa um ráðherrana fjóra sem rannsóknarnefndin mælti með að færu fyrir Landsdóm?
Bjarni er að leika sama leik og ESB, að kjósa um mál þar til rétt niðurstaða fæst og svo ekki meir.
En hvað um það, þetta mál er móðgun við þjóðina. Það er móðgun við fólkið sem missti allt, sem sá sér ekkert annað fært en að flýja land. Það er móðgun við þá sem stóðu á Austurvelli í janúarkuldanum, börðu á potta og pönnur í von um sanngjarnara þjóðfélag og lét sig hafa það að vera spreyjað með piparúða.
Það er sannarlega móðgun við níumenningana sem Ögmundur gat ekki skipt sér af vegna stöðu sinnar sem ráðherra.
Ég vona sannarlega að þingmenn hafi rænu á að fella þessa tillögu. Ekki af því ég vilji sjá Geir H. Haarde dæmdan og lokaðan inni. Alls ekki. Hann má sýkna ef Landsdómi finnst ekki ástæða til annars. Ég vil einfaldlega að allar upplýsingar sem þjóðin á skilið að fá, komi upp á yfirborðið svo hægt verði að gera hrunið upp. Án uppgjörs munum við halda áfram að sleikja sárin og vantreysta hvoru öðru. Við getum ekki byggt upp mannsæmandi samfélag ef við þorum ekki að horfast í augu við fortíðina.
Þjóðin á það inni hjá þingmönnum að þeir geri það eina rétta í stöðunni og láti dómsmál hafa sinn gang afskiptalaus.
Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki mál Ellu Dísar. Kannski rökrétt, fyrst ekkert er talað um það. Það er auðvitað gömul saga og ný að læknar eru á spena hjá lyfjaframleiðendum. Á ekki við alla, en það þarf ekki nema einn til að eyðileggja líf manneskju sem leitar til hans.
Við munum auðvitað öll eftir svínaflensumálinu og offorsinu að kaupa bóluefni handa öllum. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað var í gangi þar.
Ég ætla að kíkja á Útvarp Sögu og skoða þetta. Ekki að óbreyttur bjáni útí bæ eins og ég geti haft einhver áhrif…
Athugasemdir af Moggablogginu.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir 20.1.2012 kl. 17:47
Það er undarlegt að hlusta á gamla klíku tala á alþingi í dag.
Hvar eru þeir sem skilja hversu óréttlátt það var að krefjast þess að níumenningarnir færu í dómssal, vegna sinna réttlátu mannréttindabaráttu við lífeyris og bankarænds almennings á Íslandi. Það er ekki nokkur maður sem hefur komið með kröfur um lagabókstafs-rök fyrir að nokkrir saklausir mótmælendur skyldu þurfa að þola það óréttlæti og niðurlægingu, sem þeir þurftu að þola, vegna síns kjarks að berjast gegn lögbrotum og óréttlæti íslenskar stjórnsýslu og dómskerfisins.
Þetta er rétti dagurinn til að minna á svívirðilegt lögbrot BARNAVERNDARNEFNDAR Reykjavíkur á Rögnu, móður Ellu Dísar, móður langveikrar 9 ára stúlku, sem fékk ranga sjúkdómsgreiningu hjá íslensku lyfjamafíu-læknasvikurunum. Landlæknir er talgervill lyfjamafíunnar á Íslandi, og vissi ekkert um raunveruleikann, miðað við hans svör um málið. Það er ekki þörf á landlækni á Íslandi, ef hann styður hættuleg læknamistök, eins og raun ber vitni.
Rögnu, móður Ellu Dísar var meinað að fara úr landi með dóttur sína, til að bjarga lífi hennar, fyrir jólin. Barnaverndarnefndin meinaði móður að bjarga barninu sínu, með lífsnauðsynlegri læknismeðferð í öðru landi.
Mér er svo misboðið, að hlusta á lyfjamafíustýrða stjórnmála-glæpastýrða flokka á Íslandi, standa í stórræðum, til að bjarga Geir Hilmar Haarde, en ríkis-RÚV hefur ekki minnst einu orði á svívirðilegt mannréttinda og lagabrot gegn einstæðri 3 barna móður, sem berst fyrir lífi barnsins síns.
Hvert er raunverulegt hlutverk barnaverndarnefndar, yfirlækna og dómsstóla á Íslandi?
Ég ætlast til að höfuðpaurar íslenskrar mafíu-stjórnsýslu svari þessari spurningu undanbragðalaust, ef fólk í stjórnsýslu vill láta taka mark á sér, í sambandi við lög, rétt og mannréttindi óréttlátt dæmdra manna kvenna á Íslandi.
Það hefði verið siðferðislega, löglega og mannréttindalega, réttast að eyða þessum degi á alþingi Íslands, í að ræða lögbrot barnaverndarnefndar á Íslandi, ásamt rögbrotum klíkuflokkanna á mafíueyjunni Íslandi.
Barnaverndarnefnd hefur framið fleiri sálar-morð en nokkur önnur stofnun á Íslandi, og gagnvart varnarlausum börnum sem hún á að vernda fyrir sálarmorðum.
Sumum fannst nauðsynlegt að ræða staðgöngumæðrun fyrir nokkrum dögum síðan á alþingi Íslands. Það þykir ekki þörf á að ræða mannréttindi barna á Íslandi á sama tíma! Það eru dauðadæmd vinnubrögð á alþingi Íslands, svo mikið er ég svo sannarlega orðin endanlega viss um!
Útvarp Saga hefur fjallað um mál Rögnu, móður Ellu Dísar. Hægt er að fara inná útvarpsaga.is til að hlusta á það sem íslenska mannréttinda-brotakerfið og barnaverndaryfirvöld eru að gera.
Nú ætlar barnaverndarnefnd Reykjavíkur að svipta Rögnu, móður Ellu Dísar, forræði yfir börnunum sínum, í samráði við erlenda barnaverndarnefnd, vegna þess að hún er að berjast gegn íslenskum lyfjamafíu-stýrðum læknamistökum! Hún er sem betur komin úr landi með barnið, og Ella Dís hefur farið í lífsnauðsynlega aðgerð, sem yfirlæknir barnaspítala Hringsins er væntanlega ábyrgur fyrir að reyna að stoppa í gegnum barnaverndarnefnd Reykjavíkur.
Nú er komið að Kastljósi stjórnmálaklíku-ríkisstjórnarinnar að fjalla um þetta grafalvarlega lögbrot siðlauss kerfisins á Íslandi. Læknaklíkan á Íslandi gerði þau mistök að sjúkdómsgreina barnið rangt, með hörmulegum afleiðingum fyrir barnið.
Það væri fínt að fá skoðun Róbert Spanó prófessors, á þessum lífshættulegu lögbrotum barnaverndarnefndar Reykjavíkur og yfirlækni barnaspítala Hringsins, gagnvart langveiku barni.
Hver er tilgangur stjórnvalda, barnaverndarnefndar, yfirlækna og landlæknis í raun? Ná engin lög yfir þeirra lögbrot?
M.b.kv.