Vinsældir Ögmundar skreppa saman?
Var það ekki Gvendur Jaki sem sagði að á meðan Mogginn, og þar með Sjálfstæðisflokkurinn, pirruðust út í hann, væri hann á réttri braut?
Ég las pistil eftir Ögmund í kring um 2005 þar sem hann sagði að bankarnir ættu að fara úr landi. Hann fékk skömm fyrir, var kallaður afturhaldskommi eða eitthvað álíka. Hann vildi, eins og sönnum komma sæmdi, sjá til þess að allir væru jafnir í örbyrgðinni. Svo kom haustið 2008 og Ögmundur virtist ekki hafa verið svo galinn eftir allt.
Hann hefur alltaf virkað sem maður sem fylgir sannfæringunni. Hann hefur ekki látið flokkslínur flækjast fyrir sér. Það er sannarlega hægt að segja að hann hafi ekki fylgt eigin flokki síðustu vikuna.
En hvað fær stjórnmálamann, dómsmálaráðherra, til að skipta sér beint af dómsmáli? Hvað hefur breyst síðan hann kaus að senda Geir í Landsdóm? Af hverju getur hann reynt að hafa áhrif á þetta mál ef hann gat ekki skipt sér af nímenningamálinu vegna stöðu sinnar?
Aðal rökin sem ég hef heyrt eru að ekki sé hæft að dæma einn mann þegar fleiri báru ábyrgð á hinum meinta glæp. Hinir þrír ráðherrarnir sluppu við ákæru, „þökk“ sé Samfylkingunni, svo það væri óréttlátt að draga Geir einan fyrir rétt. Þetta er auðvitað argasta bull, því ekki yrðu þessi rök tekin gild ef um búðarhnupl væri að ræða.
Ég vil ekkert endilega sjá fyrrverandi forsætisráðherra refsað. Ég vil hinsvegar að hann fái tækifæri til að verja sig. Að hann verði ekki að eilífu þekktur sem hrunstjórinn sem slapp vegna flokkaklíkunnar, eða hvað það verður kallað. Ég vil sjá þessi réttarhöld og ég vil að þær upplýsingar sem þar munu koma fram verði notaðar til að gróa sárin, gera upp hrunið eins mikið og hægt er.
Ögmundur er kominn í mjúkinn hjá Bjarna Ben, sem spilaði með milljarða og tapaði gegn um Sjóvá og Vafning. Það er ekki hægt annað en að spyrja, hvað eru þeir að bralla? Á að koma núverandi stjórn á hnén, svo að Jóhanna og Steingrímur geti ekki annað en sagt af sér? Gefið Bjarna og Ögmundi tækifæri til að taka við? Er það málið, að Ögmundur vilji SJS frá, svo hann komist sjálfur í formannssætið? Er Ögmundur að leyfa Bjarna að nota sig sem peð í valdataflinu sem leikið er við Austurvöll, í von um betri stöðu í nýrri stjórn eða sem forystumaður í stjórnarandstöðu?
Trúir hann virkilega að hann sé að gera rétt eða er Ögmundur einfaldlega klækjapólitíkus af gamla skólanum?
Ég vona að hann skammist sín jafn mikið fyrir hrós Bjara Ben og ég myndi gera. Ég vona að íslendingar hafi rænu á að kjósa eitthvað betra næst.
Athugasemdir af Moggablogginu.
Addi 19.1.2012 kl. 22:57
Sjálfstæðismenn ýta undir hégómann í Ögmundi.
Ögmundur er að vaxa, það er rétt. Hann er að vaxa frá því að vera málsvari fólksins, vaxa frá fólkinu sem hefur stutt hann og. Hann er að vaxa inn í Sjálfstæðisflokkinn.
Ég held hann geri sér enga grein fyrir því sem hann er að gera, sem er að stinga rýtingi í bakið á því fólki sem hefur stutt hann í gegnum sætt og súrt.
Ögmundur hefur leikið af sér, skorað sjálfsmark og fagnar með Bjarna Ben. og Geir Haarde og öllu því liði.
Farvel Frans.
Villi Asgeirsson 19.1.2012 kl. 23:20
Ég er ekki viss um að hann viti ekki hvað hann er að gera, en get tekið undir restina.
hilmar jónsson 20.1.2012 kl. 00:00
Hann veit hvað hann er að gera, en veðjaði rangt…Bigtime..