Í Jésú nafni, farið til andskotans!
Titillinn á færslunni er þungur og hlaðinn, en það er ástæða til.
Hér í Hollandi er enn einn kirkju skandallinn kominn upp. Henk Heithuis fæddist 1935. Hann var tekinn af foreldrum sínum þegar hann var ungur og settur á kaþólskt uppeldisheimili. Þar var honum ítrekað nauðgað af prestum og hærra settum. Árið 1956, þá tvítugur, fór hann til lögreglunnar og gaf skýrslu um málið. Hann komst aftur í hendur kirkjunnar og var sendur til sálfræðings sem úrskurðaði hann veikan á geði. Maður spyr sig hvernig það hafi getað gerst. Síendurtekið barnaníð hlýtur að skilja eftir sig för á sálinni. Enginn kemst í gegn um slíka æsku óskaðaður.
Það sem verra var í augum þeirra trúuðu, var að Henk var samkynhneygður. Þetta var augljóst mál, því hann hafði verið í kynferðislegu sambandi við karlmenn. Það var lítið verið að skoða hvernig það hefði komið til. Hann var hommi því hann hafði gert hommahluti og þeir eru guði óþóknanlegir. Hann var því fluttur á kaþólskt sjúkrahús þar sem skorið var undan honum. Ef engin var kynhvötin, var öfuguggahátturinn læknaður, mætti ætla. Nema þetta hafi verið hefnd kirkjunnar fyrir að hafa kjaftað frá. Nauðgarar vilja nefninlega ekki að litla leyndarmálið spyrjist út. Kannski Henk hafi verið aðvörun til annarra lítilla stráka með stóran kjaft, því nauðgarinn notar líka ofbeldi og hótanir til að halda litla leyndarmálinu okkar á milli.
Henk gerði önnur mistök. Hann sagði frá geldingunni. Hann hélt því meira að segja fram að tíu strákar hefðu fengið sömu meðferð þennan dag. Þessi saga hefur verið staðfest af vitni sem vann á sjúkrahúsinu. Það vitni veit ekki hvað margir fóru undir hnífinn, en þeir voru fleiri en bara Henk. Þetta kom auðvitað ekki fram á sínum tíma. Vitnið hefur ekki þorað að segja neitt, því málið teygði sig upp í samfélaginu. Alveg upp á þing.
Henk átti við geðræn og líkamleg vandamál að stríða eftir aðgerðina. Hann dó í bílslysi ári síðar.
Ég spyr mig hvort slysið hafi verið alveg óvart. Ég hef ekkert fyrir mér í því, en svona mál fá mann til að ímynda sér hina furðulegustu hluti.
Þess má geta að ráðherrann sem sá um þessi mál á þessum tíma, Victor Marijnen, þaggaði ekki bara málið niður. Tveir prestar voru dæmdir í fangelsi og ráðherrann reyndi að fá þá lausa. Það mistókst, en hann reyndi þó.
Sami ráðherra varð forsætisráðherra 1963, fimm árum eftir að Henk lenti í slysinu. Flokkur hans, CDA, er enn einn stærsti stjórnmálaflokkur Hollands. Það er kannski engin tilviljun að hann stendur nú í vegi fyrir að málið verði skoðað í kjölinn.