Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
Hvað getur einkavædda heilbrigðiskerfið gert fyrir okkur? – Villi Asgeirsson
Hvað getur einkavædda heilbrigðiskerfið gert fyrir okkur?

Hvað getur einkavædda heilbrigðiskerfið gert fyrir okkur?

Mikið hefur verið rætt um fjársvelti, einkavæðingu og bónusgreiðslur í heilbrigðiskerfinu. Það stingur fólk að þurfa að greiða þúsundir króna í hvert sinn sem farið er til læknis, og tugþúsundir ef eitthvað meira en heimsókn til heimilislæknis er þörf.

Þetta stangast á við öll eðlileg mannréttindi. Það má aldrei verða að þeir sem minna hafa milli handanna, hafi ekki efni á að leita lækningar. Stéttarskipting í heilbrigðismálum getur ekki verið stefna sem við höfum áhuga á. Þegar eigendur einkarekinna heilsugæslustöðva lifa á ríkisstyrkjum og greiða sjálfum sér 20% ríkisframlagsins í arð, er eitthvað að fara úrskeiðis.

Heilbrigðiskerfið
Heilbrigðiskerfið

Allir skulu eiga skilyrðislausan rétt á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Til að það sé mögulegt, þarf heilsugæslan á öllu landinu að vera í lagi. Það má vel gera ráð fyrir að meðhöndlun á sjaldgæfum sjúkdómum verði eingöngu á höfuðborgarsvæðinu, en öll almenn heilsugæsla á að vera þar sem fólkið er. Öflug sjúkrahús eiga að vera í öllum fjórðungum. Þar yrðu bráðadeildir, legudeildir og öll almenn þjónusta sem sjúkrahús eiga að veita. Einnig geta sjúkrahús aukið nýtingu með því að sérhæfa sig að einhverju leyti. Dæmi um sérþekkingu er bakdeildin á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi. Þetta geta fleiri sjúkrahús á landsbyggðinni (og höfuðborgarsvæðinu) gert. Ríkið þarf að hvertja til nýsköpunar og það er ekki gert með niðurskurði.

Heilbrigðiskerfið þarf líka að vera gjaldfrjálst til að það sé fyrir alla. Öryrkjar, atvinnulausir, ellilífeyrisþegar, láglaunafólk og fleiri hafa ekki efni á að fara til læknis ef það kostar 10.000 kall í hvert skipti. Að gera heilbrigðiskerfið gjaldfrjálst kostar 6,5 milljarða, það er klink í stóra samhenginu og sparar pening til langs tíma þar sem fólk trassar ekki að leita sér lækningar þar til það er orðið of seint og lækningin orðin kostnaðarsamari en nauðsyn er.

En hvernig er best að þróa ríkisrekið versus einkavætt? Skerpa línurnar, svo það sé á hreinu hvað er hvað og hvert peningarnir eiga að fara? Hvað skal vera einkarekið og hvað ríkisrekið? Þetta er flókin spurning og henni verður ekki svarað í stuttri grein, þó ég ætli að reyna að krafsa í yfirborðið.

Landspítalinn að vetri
Landspítalinn að vetri

Heimilislæknar gætu sett upp einkastofur og unnið sem verktakar fyrir ríkið. Þeir fengju fasta upphæð fyrir hvern heimsóknartíma. Sjúklingurinn borgar ekkert, en reikningurinn fer til ríkisins. Það má gera ráð fyrir að nokkrir heimilislæknar setji upp heilsugæslustöð, þar sem þeir vinna saman og skipta sjúklingum á milli sín og hjálpast að þegar einhverjir þeirra fara í frí eða eru fjarverandi af öðrum ástæðum. Það væri þeim þó í sjálfs vald sett, enda verktakar sem geta hagað sinni vinnu eins og þeim sýnist. Heimilislæknar sem vilja frekar vera í fastri vinnu, gætu unnið á ríkisreknum heilsugæslustöðvum og verið á launum hjá hinu opinbera. Það skiptir því ekki höfuðmáli hvort viðkomandi læknir er á launaskrá hjá ríkinu eða vinnur sem verktaki, á meðan kostnaður á sjúkling væri sambærilegur.

Allir sjúklingar færu fyrst til heimilislæknis, sem svo vísaði þeim áfram ef þörf er á. Þetta sparar gríðarlegan kostnað þar sem fólk með minniháttar kvilla væri ekki að fara til sérfræðinga að ástæðulausu.

Sjúkrahús yrðu eign ríkisins, fólksins. Allir sem þar vinna, yrðu ríkisstarfsmenn og enginn sérstakur arður yrði greiddur til launþega. Undantekningar gætu verið þegar um rannsóknarstörf innan sjúkrahúsanna væri að ræða.

Það er ekki þar með sagt að læknar, aðrir en heimilislæknar, gætu ekki rekið einkastofur. Ég heyrði af hollenskum manni með MS sjúkdóm. Lyfin kosta um €35.000 (4,7 milljónir) á ári, að hans sögn. Þau lækna sjúklinginn ekki, þau hægja á hrörnun vöðvanna. Hann notaði samfélagsmiðla til að safna €100.000 (13,5 milljónum) sem þurfti til að greiða fyrir byltingarkennda meðhöndlun í Svíþjóð. Aðferðin er byggð á hvítblæðismeðferð, þar sem sjúklingurinn gengst undir þriggja daga chemo lyfjameðferð og er á lyfjakúr í um sex mánuði eftir það. Það er slökkt á ónæmiskerfinu, það endurræst og byggt upp aftur. Það man því ekki að það var með þennan hrörnunarsjókdóm og sjúklingurinn er læknaður. Þótt meðferðin hafi kostað tæpar 14 milljónir króna, mun hún borga sig upp á rúmum þremur árum þar sem áframhaldandi lyfjagjöf er óþörf. Þar fyrir utan er ekki hægt að meta heilsu og vellíðan sjúklingsins til fjár.

Þetta er dæmi um sérhæfingu. Um lækningu sem getur laðað að heilsufarstúrisma. Hann fór til Svíþjóðar, þar sem þetta hefur verið stundað í 10-15 ár, því Holland býður ekki upp á þessa aðferð. Hann þurfti að greiða kostnaðinn, þótt hollenska tryggingakerfið muni spara milljónir á ári. Þótt við setjum næstum allan skattpeninginn sem eyrnamerktur er heilbrigðiskerfinu í opinbera kerfið, er ekki þar með sagt að einkavæddar klíníkur og stofur myndu gefast upp.

Tækifærin fyrir einkareknar stofur eru til staðar. Læknar sem hafa áhuga á að rannsaka nýjar lækningaraðferðir og bjóða upp á sérhæfða meðferð við sjaldgæfum sjúkdómum, geta selt sig á alþjóðlegum mörkuðum og fengið efnað fólk til landsins í meðferð. Svo geta einkareknar stofur boðið upp á eitthvað meira en hin almennu sjúkrahús. Einkastofur, aukin þægindi, staðsetningu í náttúrunni þar sem allir hafa útsýni til fjalla eða út á hafið, betri mat, meiri íburð, fleira starfsfólk og betri þjónustu. Allskonar þægindi sem eru ekki beint nauðsyn, en þeir efnameiri gætu viljað borga fyrir. Þessar einkareknu stofur fengju enga ríkisstyrki, enda um lúxusþjónustu að ræða.

Með því að bjóða upp á sterkt og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi á Íslandi og styðja við rannsóknarstörf innan háskólanna og sjúkrahúsanna, getum við veitt Íslendingum þá heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á, byggt upp stétt lækna á heimsmælikvarða og leyft opinberu og einkareknu heilbrigðiskerfunum að lifa í sátt og vinna saman.

Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube