Óttinn, unga fólkið og turnarnir
Upphaflega birt í Kvennablaðinu.
Það virkar öfugsnúið að eftir því sem fleiri aflands- og spillingarmál koma upp, bæta þeir flokkar sem helst eru vafnir í þann vef við sig. Hvernig getur Sjálfstæðisflokkurinn, með tvo aflandsráðherra og fleira gott fólk innanborðs, aukið við fylgi sitt í skoðanakönnunum? Ekki er þriðjungur þjóðarinnar í samkrullinu, farandi fram hjá gjaldeyrishöftunum og felandi peninga á paradísareyjum?
Ég trúi ekki að þriðjungur þjóðarinnar sé að lýsa yfir stuðningi við spillinguna og einginhagsmunapotið. Það hlýtur að vera eitthvað annað í gangi.
Hér er mín kenning. Og hún er bara kenning og kann að vera röng.
Um það bil þriðjungur þjóðarinnar er hræddur við breytingar. Þessi hluti er hræddur við að umturnun á leikreglum lýðveldisins muni skapa glundroða og kippa fótunum undan stöðugleikanum sem við erum víst að njóta. Það er svo sem ekkert við því að segja. Óttinn við breytingar er skiljanlegur. Eins og þeir segja í útlandinu, better the devil you know. Það skiptir þá engu þótt heilbrigðiskerfið sé að grotna niður, að komugjöld hækki margfalt, að menntakerfið sé að molna og menntafólk geti ekki lifað af lánunum. Þessum verðtryggðu lánum sem seint tekst að borga upp. Það skiptir ekki máli að við lifum við gjaldeyrishöft, þau okkar sem eiga enga peninga. Ekki heldur að vextir af húsnæðislánum hér séu fjórum sinnum hærri en í nágrannalöndunum. Óttinn við breytingar er svo sterkur að fólk lætur bjóða sér næstum hvað sem er. Allt fyrir stöðugleikann og óbreytta ástandið.
Lengi vel var um tvo turna að velja. Sjálfstæðisflokkinn og Pírata. Margir eru hræddir við Pírata, því þeir eru birtingarmynd breytinganna sem fólk er hrætt við. Það skiptir ekki máli þótt breytingarnar séu ný stjórnarskrá sem festir í sessi lýðræðisumbætur, eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og betri vinnureglur fyrir Alþingi. Fólk starir á þá staðreynd að ný stjórnarskrá sé Ísland 2.0 og það telur að Ísland 1.1 væri kannski ekki eins hættulegt.
Annað vandamál Pírata er að margir misskilja þá. Flokkurinn virkar róttækari en hann er. Eitt dæmi er tillaga um að losa um öll höft á leiguakstri. Allir sem eiga bíl gætu notað hann til að keyra aðra gegn gjaldi. 600 leigubílstjórar brjáluðust og hatur á flokknum varð landlægt innan stéttarinnar. Það kom svo á daginn að tillagan var hugarfóstur eins manns, hún var ekki nógu vel unnin og rökstudd og var hafnað af flokksmeðlimum. Auðvitað hefði verið einfaldast fyrir leigubílstjóra að hafa bein áhrif á ferlið, en þeir gerðu það fæstir. Hafa sennilega talið það vera erfitt, að þetta væri mál sem þeir gætu ekki haft áhrif á. Við erum nefninlega vön því að hlutirnig gerist bara án þess að við séum spurð álits. Málið er þó að allar stefnur og tillögur að stefnum innan Pírata eru opnar og hægt er að ræða þær fram og aftur, þar til kosið er um þær.
Að lokum eru innanflokkserjur ekki að hjálpa til. Þær eru að mestu gengnar yfir, en skaðinn er skeður. Þegar áhrifafólk innan flokksins notar fjölmiðla til að rífast um merkingu orðalags, nýta þeir fjölmiðlar sem hliðhollir eru óbreyttu ástandi tækifærið og magna þessi mál. Það sem byrjar sem orðaskipti á Pírataspjallinu – sem er löngu hætt að vera vettvangur pírata – endar oft sem flennifyrirsagnir í engu samhengi við það sem sagt var.
Turnarnir tveir eru því valtir. Annan geta margir ekki hugsað sér að kjósa því hann er útataður í spillingu. Hinn eru margir hræddir við. Þess vegna hefur þriðji turninn verið að vaxa.
VG hafa sloppið við aflandsmálið. Formaðurinn er sjarmerandi. Þeim sem ekki hugnast fyrri turnarnir fara til VG. Þeir eru lausir við aflandsstimpilinn, en eru samt gamaldags stjórnmálaflokkur sem fólk skilur. Það er því skiljanlegt að margir fari þangað. Aðrir flokkar virðast vera mikið til stefnulausir og fylgislausir. Það er ekkert annað í stöðunni en þessir þrír turnar.
Hver leiðir næstu ríkisstjórn fer eftir tvennu. Muni unga fólkið mæta á kjörstað, er líklegt að Píratar verði stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Það yrði því rökrétt að Píratar mynduðu stjórn með VG. Mæti unga fólkið ekki, er líklegra að Sjálfstæðisflokkurinn verði sterkari og þá er spurningin hvort VG vilji fara í stjórnarsamstarf með þeim.
Það er því unga fólkið og VG sem ákveða hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út.