Samsæriskenning
Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið forseti í 20 ár. Hann sagðist vera hættur og 15 manns buðu sig fram. Hann hætti við að hætta (aftur) og fór fram. Enginn bauð sig fram gegn sitjandi forseta, sitjandi forseti fór fram gegn öðrum. Kannski gegn þjóðinni.
Hann ber fyrir sig óstöðugleika í þjóðfélaginu. Hann virðist ekki fatta að þetta er Ísland og óstöðugleiki hefur alltaf verið fyrir hendi. Óstöðugleikinn minnkaði ekkert við það að hann varð forseti. Síðustu 20 ár hafa verið rússibani þenslu og kreppu, eins og árin þar á undan. Munurinn er að efnahagurinn hrundi algerlega á hans vakt og gerendurnir voru menn sem hann hafði nælt orðum á og sopið kampavín með. Hann var ekki samnefnari fyrir stöðugleika þá og hann er það ekki núna.
Hann virðist vera pínulítið úr takti við raunveruleikann. Hann sá þúsundir mótmæla ríkisstjórninni á Austurvelli og misskildi mótmælin sem meðmæli með sjálfum sér.
Hann er að misskilja mótmælendur. Það var ekki verið að klappa hann upp í sjötta skiptið. Það var verið að krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar. Þetta hafði ekkert með hann að gera, en hann tók þetta til sín á kolröngum forsendum. Þetta voru mótmæli gegn gamla Íslandi óstöðugleikans og spillingarinnar, gamla kerfinu sem hann tilheyrir. Þetta voru ekki mótmæli gegn forsetanum, en þetta var sannarlega ekki uppklapp með von um meira.
Nema hann sé ekki að misskilja neitt. Kannski vill hann ekki að Nýja Ísland verði til. Kannski er hann tilbúinn til að gera hvað sem er til að koma í veg fyrir breytingar. Kannski er hann tilbúinn til að ganga svo langt að hægt sé að kalla það samsæri gegn þjóðinni.
Segjum sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar fái flest atkvæði í komandi alþingiskosningum. Flest bendir til að flokkarnir fái báðir í kring um 30% atkvæða. Verði munurinn nógu lítill, getur forsetinn ákveðið hver fær umboð til stjórnarmyndunar. Þegar enginn einn flokkur fær yfirburðakosningu, ræður forsetinn hver myndar stjórn.
Stærsti munurinn á flokkunum tveimur er nýja stjórnarskráin. Ólafur Ragnar er á móti nýju stjórnarskránni. Hann vill alls ekki að hún verði afgreidd af Alþingi. Það hefur hann sagt ítrekað og hér eru tvö dæmi, annað frá 2012 og hitt frá þingsetningu 2015.
Hvor flokkurinn fær stjórnarmyndunarumboðið? Flokkurinn sem setur stjórnarskrármálið í algeran forgang eða flokkurinn sem vill halda í þá gömlu?
Val forsetans getur þýtt nýja stjórnarskrá og nýja tíma. Eða áframhaldandi „stöðugleika“ í skjóli gömlu stjórnarskránnar. Meira af því sama. Ofurvöxtum, spillingu, ógagnsæi, lítilli rentu fyrir auðlindirnar, áframhaldandi stóriðjustefnu.
Fái Sjálfstæðisflokkur og Píratar svipaða kosningu, skiptir öllu máli hvor þeirra kemst í stjórn. Þetta veit Ólafur Ragnar Grímsson.
Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér. Við sjáum til. Ef Píratar fá örlítið betri – eða mjög svipaða – kosningu og Sjálfstæðisflokkurinn, en ekki umboð til stjórnarmyndunar, þá vitum við hvað klukkan slær. Þá vitum við að valdaránið er fullkomnað.
Þá vitum við að forsetinn fór fram gegn þjóðinni.