Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
Beint lýðræði? – Villi Asgeirsson
Beint lýðræði?

Beint lýðræði?

Við búum í lýðræðissamfélagi, sem betur fer. Þjóðin fær að taka þátt í ákvarðanatökum og hafa áhrif á framtíð sína. Að takmörkuðu leyti þó. Við megum kjósa okkur fulltrúa á fjögurra ára fresti, en höfum lítil áhrif þess á milli. Þetta er betra en ekkert, en langt í frá fullkomið.

Beint lýðræði þar sem öll þjóðin gæti sagt álit sitt á öllum málum væri fullkomið lýðræði. Það yrði þó erfitt í framkvæmd. Það hafa ekki allir áhuga á öllum málefnum og fólk með sterkar skoðanir gæti haft of mikil áhrif. Þetta getur verið af hinu góða, en getur líka gefið öfgafólki of mikil völd. Þar sem þáttaka í atkvæðagreiðslum yrði sennilega ekki há, yrði einfalt að smala saman fólki til að koma málum í gegn, og ekki öll mál eru góð.

Íslensk sveit sem tengist færslunni ekki beint
Íslensk sveit sem tengist færslunni ekki beint

Annað vandamál er framkvæmdin. Hefðbundnar kosningar eru dýrar í framkvæmd og það tæki of langan tíma að koma málum í gegn. Kosningaþreyta myndi tæra kerfið og það á endanum falla um sjálft sig. Rafkosningar gætu leyst þetta vandamál að einhverju leyti, en tölvukerfi eru yfirleitt ekki hönnuð til að vera leynileg. Persónuvernd yrði vandamál og fólk gæti ekki treyst því að þeirra atkvæði væri leynilegt og órekjanlegt.

Það eru því þrjú vandamál sem standa í vegi fyrir beinu lýðræði. Það er dýrt í framkvæmd ef það á að vera fullkomlega leynilegt, það er auðveldlega misnotað ef smölun fer fram þegar fólk er orðið leitt á að kjósa um öll mál og það er engin trygging fyrir því að kosningar væru leynilegar ef þær færu fram á netinu.

Sennilega myndi einhverskonar blanda af fulltrúa- og beinu lýðræði virka best. Vefsíða yrði sett upp af ríkinu, þar sem allir á kjörskrá gætu skráð sig inn með Íslykli, gegn um heimabanka eða með auðkenni sem ríkið gæfi út. Þar yrðu þingmál á dagskrá útskýrð og útlistuð. Fólk gæti lesið sér til og kynnt sér þingmálin og hakað við þau mál sem því finnst eigi að fara í þjóðaratkvæði. Þetta yrði ekki „já“ eða „nei“, heldur eingöngu staðfesting á að viðkomandi vildi að kosið yrði um málið. Nái mál nógu mörgum „hökum“, yrði kosið um það á vefnum. Alþingi myndi kjósa um mál sem ekki yrðu hökuð nógu oft. Það er líklegt að mikil deilumál veldust í þjóðaratkvæðagreiðslu, en flest yrðu afgreidd eins og gert er í dag, af þingmönnum. Þetta myndi líka gefa þjóðinni tækifæri til að taka til sín mál þar sem Alþingi virðist vera úr takti við þjóðina.

Einnig mætti nota vefinn til að koma málefnum á framfæri við þingið. Nái það nægum stuðningi, yrði Alþingi að taka það til umræðu. Það er farið inn á þetta í nýju stjórnarskránni og hefur verið nýtt á vefnum Betri Reykjavík.

Missi ríkisstjórn traust þjóðarinnar, gæti þjóðin sett fram vantrauststillögu á vefnum. Fái sú tillaga vissan stuðning (hugsanlega 30% kosningabærra*), yrðu kosningar að fara fram. Hluti þjóðarinnar gæti því farið fram á kosningar og neytt ríkisstjórnina til að endurnýja umboð sitt.

Vefurinn yrði að vera vel gerður, því kerfið er einskis virði ef fólk nennir ekki að nýta sér það. Beint lýðræði virkar bara ef fólk tekur þátt í því.

Það virðist vera heppilegast að nýta netið til að koma á beinna lýðræði en nú er, en það verður þá að vera algerlega á hreinu að vefurinn haldi einungis utan um þær persónuupplýsingar sem þörf er á, og engar aðrar. Vefurinn myndi geyma upplýsingar um að viðkomandi einstaklingur hafi kosið um viss málefni, en ekki hvernig hann kaus.

Birgitta Jónsdóttir er nú á ráðstefnuni D-CENT sem fjallar um beint lýðræði. Þar koma fram athyglisverðar hugmyndir sem vert er að skoða. Framtíðin er spennandi.

* 30% virðist mér vera eðlilegt hlutfall, en það yrði að skoða og rökræða. Hlutfallið verður að vera nógu hátt til að ríkisstjórnir verði ekki reknar trekk í trekk, en þó ekki svo hátt að ákvæðið yrði ónothæft.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube