100 milljarðar?
Mogginn er upptekinn við að gera lítið úr þjáningum flóttafólks og mikið úr kostnaði og veseni okkar íslendinga. Nýjasta grínið minnist á 100 milljarðana sem það myndi kosta að taka við 5000 flóttamönnum.
Maður skilur svo sem að það kostar helling að koma fólki inn í samfélagið, en 100 milljarðar eru út úr kú. Þurfa allir sem koma að verkefninu að vera háskólamenntaðir með 15.000 kall á tímann? Er ekki hægt að fá sjálfboðaliða til að hjálpa til? Bara vera með fólkinu, tala við það, kenna því tungumálið og hvernig samfélagið virkar? Borga atvinnulausum og öryrkjum eitthverja þóknun fyrir að eyða tíma í þetta fólk?
Margir bótaþegar einangrast, og með sjálfboðastarfinu mætti koma í veg fyrir einangrun beggja hópanna.
Það má nýta húsnæði sem stendur autt. Atvinnuhúsnæði sem bankarnir hafa tekið til sín gætu orðið félagsmiðstöðvar sem fólk gæti nýtt til að komast inn í málið og menninguna, komast á netið, fá fréttir og leita að vinnu þegar þar að kemur. Tómt íbúðahúsnæði má svo nýta til að koma fólkinu fyrir á meðan það er ófært um að gera það sjálft.
Það er hægt að taka við flóttafólki án þess að það sé yfirdrifið dýrt. Auðvitað mun það alltaf kosta eitthvað, en ef maður á ekki pening, notar maður hugmyndaflugið. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.