Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
Stærsti flokkur Norðurlanda er enginn leyndardómur – Villi Asgeirsson
Stærsti flokkur Norðurlanda er enginn leyndardómur

Stærsti flokkur Norðurlanda er enginn leyndardómur

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra skrifaði pistil um pírata. Sjá hér. Ég vil endilega svara spurningunum sem hann setur fram.

Fyrir nokkrum árum leit út fyrir að hreyfing kennd við pírata gæti orðið nýtt pólitískt fyrirbrigði í nokkrum Evrópulöndum. Loftið hefur alls staðar farið úr þeirri blöðru nema hér þar sem hún hefur þanist út síðustu vikur.

Eru píratar blaðra? Næstu kosningarnar munu skera úr um það. Hitt er annað, það er ekki hægt að bera íslenska pírata saman við erlenda. Í nágrannalöndunum hafa þeir haldið sig í upprunalegu hugmyndunum um mál- og netfrelsi. Píratar á Íslandi eru löngu hættir að takmarka sig við þessi mál. Aðstæður á Íslandi eru allt aðrar og flokkurinn hefur tekið upp ýmis mál sem betur mættu fara. Þeir vilja betri og gagnsærri stjórnsýslu og nýja stjórnarskrá sem tryggir meðal annars auðlindirnar í þjóðareign. Þetta eru mál sem þarf virkilega að vinna í á Íslandi eftirhrunsáranna, en minni áhugi er á erlendis.

Píratar eiga nú þrjá þingmenn. Fáir vita með vissu fyrir hvað þeir standa. Vel má líka vera að þeir viti það ekki svo gjörla sjálfir. 

Viti fólk ekki fyrir hvað píratar standa, er því velkomið að lesa píratakóðann. Allar ákvarðanir og stefnur verða að vera í takt við þessa átta punkta. Þeir virðast kannski óljósir við fyrstu sýn, en úr þeim má lesa að flokkurinn er á móti allri spillingu í stjórnkerfinu, þeir eru náttúruverndarsinnar, þeir eru fylgjandi alþjóðasamstarfi, og mannréttindi í hvaða formi sem er eru þeim heilög. Allar ákvarðanir flokksins verða því að fylgja kóðanum. Flokkurinn á því alltaf að geta verið samkvæmur sjálfum sér og kjósendur þurfa ekki að láta koma sér á óvart eftir kosningar.

En út frá hinu má ganga sem vísu að þingmennirnir þrír viti ekki meir en við hin um raunverulegar pólitískar hugmyndir þess mikla fjölda fólks sem lýsir yfir stuðningi við þá.

Það má gera ráð fyrir að stuðningsfólk pírata séu kjósendur sem búnir eru að fá nóg af baktjaldamakki, krókamökun, kjördæmapoti, vinagreiðum, einkavinavæðingum, stanslausri rányrkju, kvótabraski, verðtryggðum lánum, áhlaupum á heilbrigðiskerfið og endalausum óstöðugleika í fjármálum ríkissjóðs og þjóðarinnar. Stuðningsfólk pírata vill sennlega fá frið til að lifa sínu lífi, án þess að stjórnvöld séu endalaust að kippa undan þeim fótunum.

Eftir kosningarnar 2009 var í fyrsta skipti mynduð ríkisstjórn á lýðveldistímanum sem ekki byggðist á málamiðlun yfir miðjuna. Forysta Samfylkingarinnar færði flokkinn langt til vinstri og skildi eftir tómarúm næst miðjunni. Þegar að hálfnuðu því kjörtímabili kom fram í könnunum að kjósendur höfðu ekki áhuga á að færa Ísland til með sama hætti.

Þetta er einfaldlega rangt. Þjóðin fékk ekki nóg af vinstri stjórninni af því hún var svo langt til vinstri. Þvert á móti, skjaldborg var slegin um bankana og fjármálafyrirtækin, frekar en heimilin. Það hefur ekkert með vinstri að gera. Jóhönnustjórnin brást heimilunum, og því missti hún traust kjósenda. Sú stjórn var undir gífurlegu álagi. Ég ætla ekki að reyna að setja mig í spor þáverandi ráðherra, en það er á hreinu að hefði hún komið hreint og sköruglega fram og forgangsraðað öðru vísi, hefði hún ekki tapað fylginu eins og raunin varð. Þjóðin vissi að kjörtímabilið yrði erfitt og hefði fyrirgefið margt, en meint daðrið við fjármálafyrirtækin, IMF og ótímabær umsókn í ESB og Icesave klúðrið varð henni að falli.

Núverandi ríkisstjórn var mynduð undir merkjum hægri þjóðernispopúlisma. Sjálfstæðisflokkurinn hefur eigi að síður reynt að varðveita ábyrga ímynd í ríkisfjármálum. Það hefur þó ekki dugað til. Með samtengingu við þjóðernispopúlisma Framsóknar hefur Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega fjarlægst miðjuna.

Bjarni Ben og heilbrigðiskerfiðÉg ætla ekki að ræða Framsóknarflokkinn. Hann hefur skorað svo mörg sjálfsmörk að hann er sjálfkrafa úr leik. Ég vil halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki reynt að varðveita ábyrga ímynd í ríkisfjármálum. Þeirra fyrsta verk var að lækka auðlegðaskatt. Skatta á stóriðju, sem flytur mestallan hagnaðinn úr landi, á að lækka. Virðisaukaskattur á matvæli var hækkaður. Skattur á munaðarvöru var lækkaður, án þess að nokkrum dytti í hug að fylgjast með ferlinu og sjá til þess að lækkunin skilaði sér í lægra vöruverði. Svo má auðvitað nefna svik á einu stærsta kosningaloforðinu, kosningum um áframhald viðræðna við ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hefur leyft Framsókn að draga sig í svaðið, en hann á sínar gloríur. Þetta litla fylgistap sem hann hefur orðið fyrir, á hann fylliega skilið.

Með hæfilegri einföldun má segja að utanríkisstefnan hafi verið límið í pólitíkinni. Nú er hún helsta uppleysiefnið. Það er afgerandi breyting. … Í þessu ljósi verður fróðlegt að sjá hvernig nýja kjölfestan í pólitíkinni horfir á utanríkismálin og hvernig hún telur skynsamlegast að nálgast ákvarðanir á því sviði. Í fyrstu atrennu snýst sú spurning um hvort þessi stóra kjósendafylking stendur nær ómöguleikakenningunni eða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessum punkti er auðsvarað. Þjóðin á að velja. Píratar eru ekki allir sammála um ESB. Sumir vilja inn, en aðrir ekki. Allir eru þeir þó sammála um að þjóðin eigi að ráða. Þjóðin á að kjósa um ESB og stjórnvöld eiga að fara eftir niðurstöðunum. Það skiptir í raun ekki öllu máli hvort við göngum i ESB eða ekki, en við getum ekki verið föst í þessu máli ár eftir ár. Það er löngu kominn tími til að útkljá þetta og snúa sér að öðru. Af nógu er að taka.

Píratar eru ekkert leyndarmál, þeir eru ekki dulúðugir, ekkert leyndardómsfullir. Píratar eru fólk á öllum aldri, úr öllum stéttum, sem eru orðnir þreyttir á karpinu sem hefur haldið þjóðinni í skotgröfunum í áratugi.

Og að lokum. Sjálfstæðisflokkurinn færðist ekki frá miðju þegar Bjarni tók saman við Sigmund. Flokkurinn hætti að vera miðjuflokkur þegar Davíð tók við. Þetta veit Þorsteinn Pálsson sennilega betur en flestir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube