Sturla Jónsson, skaphundur eða þjóðhetja?
Kaffið var heitt og sólin skein þegar ég opnaði tölvuna og horfði á tölustafina á hnettinum sem sögðu mér að fullt af fólki ætti erindi við mig. Þarna voru allskonar statusar, greinar sem nánir vinir voru að deila og svör við tuði gærkvöldsins.
Þegar þessu hafði öllu verið gerð skil, las ég það sem fólk hafði að segja á þessari vinsælustu vefsíðu veraldar. Færsla sem Sturla Jónsson setti inn byrjaði svona.
Það var ein sem spurði mig í komendi hvort ég ætlaði að vera reiður alla ævi ?
Hann sæi ekki neina gleði i skrifunum hjá mér.
Það er ekki nema von að fólk spyrji hann hvort hann sé alltaf reiður, enda hefur hann áunnið sér nafn sem pirraði gaurinn sem rífst við sýslumenn, lögmenn, bankamenn, dómara og hvern sem á vegi hans verður.
En hann er ekki að tuða. Reiði hans er ekki vegna einhverrar skapvonsku eða persónuleikabrests. Reiði hans beinist gegn yfirvöldum, sem oftar en ekki eru gjörspillt og fara einungis eftir lögum og reglum þegar þeim hentar.
Ég skil svo sem hvernig það er að fá að heyra að maður sé „svo reiður“. Maður póstar einhverju, skrifar eitthvað, deilir einhverju. Og svo kemur athugasemdin.
Af hverju ertu svona reiður?
Ég er kannski mjúk skræfa, en ég reiðist þegar ég sé óréttlæti. Ég pirraðist hrikalega í síðustu viku þegar vinnufélagi var látinn fara vegna mistaka sem voru ekki hennar. Ég stuðaðist hryllilega þegar ég frétti af og sá myndir af dauðum krökkum í Miðjarðarhafi og bröndurum misvitra um að nú myndi velferðarkerfið spara peninga. Ég reiðist þegar ég sé silkibindiklædda karla haga lögum og reglum þannig að þeir græði á auðlindum sem við eigum saman, en láta öryrkja og fólk á lágum launum borga allan kostnað við að halda samfélaginu uppi. Ég brjálast þegar ég sé illa farið með börn og dýr. Hætti meira að segja að borða kjöt fyrir 14 árum því mér fannst það óréttlátt að dýr væri drepið því mig langaði frekar í steik en grænmetisborgara.
Svo ég skil Sturlu. Ég skil reiðina og pirringinn. Ég sé að réttlætiskenndin er drifkraftur hans. Og ég virði hann fyrir það.
Er ekki kominn tími á að við hættum að horfa á reiði sem einhvern löst? Það er ekkert að því að vera reiður þegar svínað er á manni. Það er ekkert að því að vera reiður fyrir hönd þjóðarinnar þegar hún er blóðmjólkuð, áratug eftir áratug.
Án reiðinnar hefðum við aldrei velt spilltum konungum, fengið kosningarétt, stoppað ESB rugl ríkisstjórnarinnar í fyrra og svo framvegis. Reiðin er verkfæri ef við nýtum hana rétt.
Í staðinn fyrir að spyrja af hverju Sturla er vona reiður, ættum við að rækta reiðina innra með okkur. Því við erum ekki hamingjusöm þjóð. Leyfum reiðinni að gera það sem hún á að gera. Hugsum hvar við viljum vera eftir eitt ár, tíu ár, tuttugu. Horfum í kringum okkur. Reynum að sjá hvað það er sem kemur í veg fyrir að íslenskt samfélag komist á þann stað. Að það virki, yfir höfuð. Beinum svo reiði okkar þangað.
Breytum Íslandi í það sæluríki sem við viljum að það sé, og þá þurfum við ekki að vera reið.
One thought on “Sturla Jónsson, skaphundur eða þjóðhetja?”
Aveg sammála ,hann er minn maður,úr minni stétt og hefur unnið alla sína tíð og hefur gengið í gegnum súrt og sætt,og hann hefur reynslu á allskonar lífi eins og ég sjálfur, Áfram Sturla