Íslendingana Heim
Það er gott mál ef Ísland er að ná til sín hátæknifyrirtækjum. Þjóðin er vel menntuð og á að geta verið brautryðjandi í flestu sem henni dettur í hug að taka sér fyrir hendur.
Fólksflótti eftir hrun getur þó sett strik í reikninginn. Fólk sem flytur að heiman virðist yfirleitt vera vel menntað, fólk sem kemst tiltölulega auðveldlega í góð störf í nágrannalöndunum. Þessu fólki þarf að ná til baka.
Ég hjó eftir þessu í fréttinni: „…meðal annars var Alvogen veittur frestur til þriggja ára á greiðslu gatnagerðargjöldum í Reykjavík.“
Væri það ekki hugmynd að gera svipað fyrir íslendinga sem vilja koma heim? Gefa fólki sem átt hefur lögheimili erlendis í fimm ár eða lengur skattaafslátt, fella niður gatnagerðagjöld eða eitthvað svipað fyrstu 1-3 árin?
Málið er nefninlega að þjóðin er verðmætasta auðlind okkar, og ef við látum það óafskipt að best menntaða fólkið fari úr landi og komi ekki aftur, erum við í vanda. Framsækin fyrirtæki með vel menntað fólk innanborðs er sennilega besta tekjulind sem til er.
Svo er það auðvitað bónus að fá fólk heim sem kynnst hefur öðrum samfélögum, því víðsýni hlýtur að vera af hinu góða.
Þessi færsla var upphaflega birt á Moggablogginu og þar er hægt að lesa athugasemdir við hana.