Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
stjórnmál – Villi Asgeirsson

Browsed by
Tag: stjórnmál

Stöðvum heilbrigðiskerfisslysið!

Stöðvum heilbrigðiskerfisslysið!

Nýlega birtist grein eftir mig í Kvennablaðinu. Þar talaði ég á jákvæðum nótum um einkavædd sjúkrahús. Greinin var skrifuð áður en fréttir bárust af fyrirhuguðu einkareknu sjúkrahúsi í Mosfellsbæ.

Ég er, í sjálfu sér, ekki á móti því. En við þurfum að fara varlega. Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður, skrifaði pínlega grein um einkavæðingarferlið og ég er skíthræddur um að hún hafi rétt fyrir sér. Að þetta sé eitt skrefið í ferli sem löngu er hafið. Að svelta heilbrigðiskerfið, fæla starfsfólkið frá, jafnvel til útlanda, leyfa húsnæði og tækjum að úreldast og skemmast án þess að fjármagn sé til að endurnýja eða viðhalda.

Að þetta sé hluti af ferli sem mun ræna stóran hluta þjóðarinnar réttinum til lækningar.

Heilbrigðisráðherra segist koma af fjöllum. Hann heyrði fyrst af áformunum í fréttum. Samt náðist mynd af honum með fólkinu sem stendur að baki einkaspítalans, fyrr á árinu. Auðvitað er þetta allt misskilningur. Pedro, maðurinn á bak við einkaspítalann minntist ekkert á þetta 30.000 fermetra sjúkrahús, tveimur mánuðum áður en samningur við Mosfellsbæ var undirritaður. Hann var að undirbúa verkefni upp á einhverja milljarða og minntist ekkert á það við heilbrigðisráherrann. Ég vil ekki væna ráðherrann um lygar, en trúverðugur er hann ekki.

Borgarspítalinn
Borgarspítalinn

Eins og áður sagði, finnst mér ekkert tiltökumál þótt einkaspítali verði byggður, á meðan hann er einkarekinn. Á meðan ekki ein einasta króna kemur úr opinberum sjóðum. Þessi spítali getur sennilega sinnt sínu hlutverki vel og skilað arði í vasa hluthafanna, og það er í sjálfu sér ekkert slæmt. En einkarekið fyrirtæki á að vera einkarekið, ekki kostað með skattfé.

Hitt er annað. Við verðum að snúa við þeirri þróun að fjársvelta okkar sameiginlega heilbrigðiskerfi. Við megum ekki leyfa sjúkrahúsum að verða myglusveppi að bráð, við megum ekki leyfa tækjabúnaði að úreldast og bila, við megum ekki drepa niður heilsugæsluna á landsbyggðinni, við megum ekki láta íslenska hjúkrunarfræðinga og lækna dragast aftur úr fólki í sambærilegum stöðum í nágrannalöndunum. Núverandi stefna er ávísun á atgervisflótta. Það er hreinlega verið að hrekja fólk úr landi.

Það hljómar ekki þannig. Fjármálaráðherra lofar peningum í heilbrigðiskerfið, en hann hefur haft þrjú ár til að gera eitthvað. Hvað sem er. En það hefur ekkert gerst. Nú á það þó að fara að gerast, enda stutt í kosningar.

Við verðum að fara að hætta að falla fyrir innantómum kosningaloforðum. Þegar það er fullreynt að viðkomandi hafi nokkurn áhuga á velferð þjóðarinnar, ber henni að kjósa hann ekki.

Hnignun heilbrigðiskerfisins okkar virðist vera hönnuð atburðarás. Hana verðum við að stoppa. Það geta engin orð lýst reiðinni, sorginni og vonbrigðunum við að sjá ástvin liggjandi inni í sturtuklefa á síðustu metrunum því það er ekkert pláss, myglusveppurinn er alls staðar og allir eru í verkfalli því engum eru borguð mannsæmandi laun. Það er ógeðslegt að sjá manneskju sem allt sitt líf hefur unnið sína vinnu, borgað sína skatta og aldrei þegið hjálp frá nokkrum manni, alltaf verið sjálfstæð, veslast upp inni í sturtuklefa.

Ég er ekki að gagnrýna starfsfólkið. Það gerði allt sem það gat, en það hafði ekkert til að vinna með, því það var búið að skera allt niður. Það er viðbjóðurinn. Stjórnmálamenn sem virðast engan áhuga hafa á fólkinu í landinu.

Á meðan við lækkum gjöldin af auðlindunum, leyfum kvótagreifunum að leggja bæjarfélög í rúst þegar þeir fara, hagnast um milljarða og stinga þeim undan til Tortóla, eða hvar sem peningahimnarnir eru. Ég um mig frá mér til mín er þeirra mantra. Sjálfselskan að drepa þá, eða réttara sagt, drepa fólkið sem fær ekki þá heilbrigðisþjónustu sem það hefur borgað fyrir.

Þokkaleg heilsa er mannréttindi. Að drepast úr læknanlegum sjúkdómum af því peningunum er varið í eitthvað annað, er mannréttindabrot. Að liggja, dauðvona, í rúmi inni í sturtuherbergi, eftir að hafa greitt skatta í rúmlega háfa öld er mannréttindabrot, móðgun og fyrirlitning stjórnvalda í okkar garð.

Leyfum þeim að byggja einkasjúkrahús sem sinnir útlendingum, sérhæfir sig í aðgerðum sem heilbrigðiskerfið okkar býður ekki upp á (til dæmis lasermeðhöndlun augna, fegurðaraðgerðum og fleira), sjúkrahús sem býður upp á meiri íburð en nauðsynlegur er, einkastofur og annað. Það er allt í lagi. En sjáum til þess að skattpeningarnir okkar fari í að endurbyggja heilbrigðiskerfið okkar, heilbrigðiskerfið sem sér um okkur þegar við veikjumst. Tryggjum að allir þeir peningar sem eyrnamerktir eru heilbrigðiskerfinu fari þangað, ekki í einkaverkefni.

Ef það er stefna Sjálfstæðisflokksins að hreinlega drepa heilbrigðiskerfið, svo hægt verði að einkavæða hræið, er hann ekki atkvæða okkar virði. Við megum ekki gera okkur það að kjósa þannig tortímingu yfir okkur. Megum ekki gera gamla fólkinu það, megum ekki gera framtíðarkynslóðum það.

Ef við gátum haldið úti þokkalegu heilbrigðiskerfi fyrir 30 árum, þegar töluvert minni peningar voru til staðar, getum við gert það núna og í framtíðinni.

Viljinn er allt sem þarf.

Fyrst birt í Kvennablaðinu.

Hvað getur einkavædda heilbrigðiskerfið gert fyrir okkur?

Hvað getur einkavædda heilbrigðiskerfið gert fyrir okkur?

Mikið hefur verið rætt um fjársvelti, einkavæðingu og bónusgreiðslur í heilbrigðiskerfinu. Það stingur fólk að þurfa að greiða þúsundir króna í hvert sinn sem farið er til læknis, og tugþúsundir ef eitthvað meira en heimsókn til heimilislæknis er þörf.

Þetta stangast á við öll eðlileg mannréttindi. Það má aldrei verða að þeir sem minna hafa milli handanna, hafi ekki efni á að leita lækningar. Stéttarskipting í heilbrigðismálum getur ekki verið stefna sem við höfum áhuga á. Þegar eigendur einkarekinna heilsugæslustöðva lifa á ríkisstyrkjum og greiða sjálfum sér 20% ríkisframlagsins í arð, er eitthvað að fara úrskeiðis.

Heilbrigðiskerfið
Heilbrigðiskerfið

Allir skulu eiga skilyrðislausan rétt á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Til að það sé mögulegt, þarf heilsugæslan á öllu landinu að vera í lagi. Það má vel gera ráð fyrir að meðhöndlun á sjaldgæfum sjúkdómum verði eingöngu á höfuðborgarsvæðinu, en öll almenn heilsugæsla á að vera þar sem fólkið er. Öflug sjúkrahús eiga að vera í öllum fjórðungum. Þar yrðu bráðadeildir, legudeildir og öll almenn þjónusta sem sjúkrahús eiga að veita. Einnig geta sjúkrahús aukið nýtingu með því að sérhæfa sig að einhverju leyti. Dæmi um sérþekkingu er bakdeildin á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi. Þetta geta fleiri sjúkrahús á landsbyggðinni (og höfuðborgarsvæðinu) gert. Ríkið þarf að hvertja til nýsköpunar og það er ekki gert með niðurskurði.

Heilbrigðiskerfið þarf líka að vera gjaldfrjálst til að það sé fyrir alla. Öryrkjar, atvinnulausir, ellilífeyrisþegar, láglaunafólk og fleiri hafa ekki efni á að fara til læknis ef það kostar 10.000 kall í hvert skipti. Að gera heilbrigðiskerfið gjaldfrjálst kostar 6,5 milljarða, það er klink í stóra samhenginu og sparar pening til langs tíma þar sem fólk trassar ekki að leita sér lækningar þar til það er orðið of seint og lækningin orðin kostnaðarsamari en nauðsyn er.

En hvernig er best að þróa ríkisrekið versus einkavætt? Skerpa línurnar, svo það sé á hreinu hvað er hvað og hvert peningarnir eiga að fara? Hvað skal vera einkarekið og hvað ríkisrekið? Þetta er flókin spurning og henni verður ekki svarað í stuttri grein, þó ég ætli að reyna að krafsa í yfirborðið.

Landspítalinn að vetri
Landspítalinn að vetri

Heimilislæknar gætu sett upp einkastofur og unnið sem verktakar fyrir ríkið. Þeir fengju fasta upphæð fyrir hvern heimsóknartíma. Sjúklingurinn borgar ekkert, en reikningurinn fer til ríkisins. Það má gera ráð fyrir að nokkrir heimilislæknar setji upp heilsugæslustöð, þar sem þeir vinna saman og skipta sjúklingum á milli sín og hjálpast að þegar einhverjir þeirra fara í frí eða eru fjarverandi af öðrum ástæðum. Það væri þeim þó í sjálfs vald sett, enda verktakar sem geta hagað sinni vinnu eins og þeim sýnist. Heimilislæknar sem vilja frekar vera í fastri vinnu, gætu unnið á ríkisreknum heilsugæslustöðvum og verið á launum hjá hinu opinbera. Það skiptir því ekki höfuðmáli hvort viðkomandi læknir er á launaskrá hjá ríkinu eða vinnur sem verktaki, á meðan kostnaður á sjúkling væri sambærilegur.

Allir sjúklingar færu fyrst til heimilislæknis, sem svo vísaði þeim áfram ef þörf er á. Þetta sparar gríðarlegan kostnað þar sem fólk með minniháttar kvilla væri ekki að fara til sérfræðinga að ástæðulausu.

Sjúkrahús yrðu eign ríkisins, fólksins. Allir sem þar vinna, yrðu ríkisstarfsmenn og enginn sérstakur arður yrði greiddur til launþega. Undantekningar gætu verið þegar um rannsóknarstörf innan sjúkrahúsanna væri að ræða.

Það er ekki þar með sagt að læknar, aðrir en heimilislæknar, gætu ekki rekið einkastofur. Ég heyrði af hollenskum manni með MS sjúkdóm. Lyfin kosta um €35.000 (4,7 milljónir) á ári, að hans sögn. Þau lækna sjúklinginn ekki, þau hægja á hrörnun vöðvanna. Hann notaði samfélagsmiðla til að safna €100.000 (13,5 milljónum) sem þurfti til að greiða fyrir byltingarkennda meðhöndlun í Svíþjóð. Aðferðin er byggð á hvítblæðismeðferð, þar sem sjúklingurinn gengst undir þriggja daga chemo lyfjameðferð og er á lyfjakúr í um sex mánuði eftir það. Það er slökkt á ónæmiskerfinu, það endurræst og byggt upp aftur. Það man því ekki að það var með þennan hrörnunarsjókdóm og sjúklingurinn er læknaður. Þótt meðferðin hafi kostað tæpar 14 milljónir króna, mun hún borga sig upp á rúmum þremur árum þar sem áframhaldandi lyfjagjöf er óþörf. Þar fyrir utan er ekki hægt að meta heilsu og vellíðan sjúklingsins til fjár.

Þetta er dæmi um sérhæfingu. Um lækningu sem getur laðað að heilsufarstúrisma. Hann fór til Svíþjóðar, þar sem þetta hefur verið stundað í 10-15 ár, því Holland býður ekki upp á þessa aðferð. Hann þurfti að greiða kostnaðinn, þótt hollenska tryggingakerfið muni spara milljónir á ári. Þótt við setjum næstum allan skattpeninginn sem eyrnamerktur er heilbrigðiskerfinu í opinbera kerfið, er ekki þar með sagt að einkavæddar klíníkur og stofur myndu gefast upp.

Tækifærin fyrir einkareknar stofur eru til staðar. Læknar sem hafa áhuga á að rannsaka nýjar lækningaraðferðir og bjóða upp á sérhæfða meðferð við sjaldgæfum sjúkdómum, geta selt sig á alþjóðlegum mörkuðum og fengið efnað fólk til landsins í meðferð. Svo geta einkareknar stofur boðið upp á eitthvað meira en hin almennu sjúkrahús. Einkastofur, aukin þægindi, staðsetningu í náttúrunni þar sem allir hafa útsýni til fjalla eða út á hafið, betri mat, meiri íburð, fleira starfsfólk og betri þjónustu. Allskonar þægindi sem eru ekki beint nauðsyn, en þeir efnameiri gætu viljað borga fyrir. Þessar einkareknu stofur fengju enga ríkisstyrki, enda um lúxusþjónustu að ræða.

Með því að bjóða upp á sterkt og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi á Íslandi og styðja við rannsóknarstörf innan háskólanna og sjúkrahúsanna, getum við veitt Íslendingum þá heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á, byggt upp stétt lækna á heimsmælikvarða og leyft opinberu og einkareknu heilbrigðiskerfunum að lifa í sátt og vinna saman.

Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu.

Leica, leynibloggið og einsemdin

Leica, leynibloggið og einsemdin

Þegar ég ákvað að fara í framboð, ákvað ég líka að búa til einkablogg. Leyniskrif sem enginn má sjá. Mínar einkahugsanir sem eiga ekki endilega heima í opinberri umræðu. Þetta er ekkert stórmerkilegt, engar samsæriskenningar, níð eða tuð. Þetta er meira persónulegar hugleiðingar um framboðið og framtíðina. Dagbók sem ég get lesið seinna, eftir kosningar, þegar þessum kafla lífsins er lokið. Þetta er svo saklaust að ég gæti hugsanlega gefið það út í bókarformi. Hver veit? Til að gefa hugmynd um losandaháttinn og blaðrið, datt mér í hug að deila færslu dagsins í dag.

MatsÍ dag er þrettándi júlí og mér líður betur. Er farinn að sætta mig við ákvörðunina um að bjóða mig fram. Mér fannst ég vera að skíta mig út, að stíga ofan í drullupoll þegar ég bauð mig fram í stjórnmálastarf, en það þarf svo sem ekkert að vera þannig.

Í gær var grein á netmiðlunum þar sem talað var um að mikil barátta væri framundan í prófkjörum Pírata. Drulluslagur eða eitthvað. Mitt komment á það var; Ég veit ekki með Reykjavíkina en ég ætla allavega að vera til friðs í suðurpottinum. Er ekki að standa í þessu til að kúka á fólk.

Og þannig er það. Þetta þarf ekki að vera drulluslagur. Ég fór í þetta af því ég er með hugsjónir, ekki til að fá þægilega innivinnu. Ég vil búa í réttlátu samfélagi sem allir geta blómstrað í.

Ég sagði Hildi að ég myndi taka íbúðina. Spáði í miða um borð í Norrönu fyrir mig og bílinn. Miriam er sátt við þetta. Og lífið er ekkert ef maður hoppar ekki út fyrir þægindarammann af og til.

Annars var ég að horfa á Leica unboxing video. Einhver myndavél sem hoppar og hóar yfir því að 60 ár séu liðin frá því að Leica M3 kom á markaðinn. Og það minnti mig á bókina sem ég þarf að klára. Blood and rain, þar sem Gunnar fer til Barcelona í miðju borgarastríði og finnur út að það er meira en að segja það að vera heimsfrægur blaðamaður. Lesandinn mun, þegar þar að kemur, komast að því hvort Gunnari tekst að verða heimsfrægur blaðamaður, eða hvort hann klúðri öllu. Stríð á það nefninlega til að breyta áætlunum fólks. Þarf sennilega ekki stríð til. Leica spilar töluvert stórt hlutverk í bókinni. Leica IIIc, svo maður nördist.

Myndbandið minnti mig líka á fallegu Fujifilm myndavélina sem ég keypti af því ég var orðinn leiður á stærð og þyngd Canon vélanna. Og Fujifilm er Leica 21. aldarinnar.

En hvað um það. Þetta verður allt í lagi. Ég fer í framboð. Annað hvort kemst ég í baráttusæti, eða ég mun taka þátt í grasrótarstarfinu. Og taka myndir af ferlinu. Búa til heimild um framboð og aðdraganda kosninga.

Seinna í dag fer ég að leika mér með flugvélar, vinna við að búa til loadsheets og þannig. Og Mats kemur heim úr skólanum eftir rúman klukkutíma og honum þarf að sinna. Sem er auðvitað bara gaman, enda er hann svo mikið krútt. Ég á eftir að sakna hans óendanlega í vetur. Það er þó tímabundin fórn. Vonandi virkar þetta allt og þegar við erum búin að byggja draumahúsið á suðurlandinu, verður þetta brölt þess virði.

Í kvöld er svo fundur fyrir frambjóðendur, sem ég get ekki mætt á.

Næstu sex mánuðir eða svo verða spennandi.

Life is what happens to you while you’re busy making other plans.

Skráið ykkur í Pírata í dag, eða missið af fjörinu!

Skráið ykkur í Pírata í dag, eða missið af fjörinu!

Sælinú!

Í dag er mánudagurinn 11. júlí, dagurinn sem ég og fleiri hafa hamrað á undanfarið. Flestir þurfa að vinna, en við höfum þó tíma til að skella okkur inn á píratasíðuna og skrá okkur í flokkinn. Tekur um fimm mínútur og kostar ekkert. Í dag er nefninlega síðasta tækifæri til að skrá sig ef fólk vill hafa áhrif í prófkjörinu í ágúst.

Píratar
Píratar

Við vitum að í sumum bæjarfélögum er það litið hornauga að kjósa eitthvað annað en það sem forstjórinn og athafnamaðurinn gerir, en það skiptir ekki máli. Kosningar eru leynilegar. Þið þurfið ekkert að segja öðrum að þið séuð skráð í Pírata, þurfið ekkert að góla um það. En þið getið haft áhrif á framtíð Íslands og röðun á framboðslistann fyrir kosningar ef þið eruð skráð í flokkinn 30 dögum áður en prófkjöri lýkur.

Það eru tiltölulega fáir skráðir í flokkinn á suðurlandi. Ástandið er betra á suðurnesjum. Það er því hætt við að suðurnesin ákveði uppröðun á lista, nema sunnlendingar taki við sér. Suðurnesjapíratar eru glæsilegur flokkur. Þar er flott fólk í grasrótinni og framboði, en suður-kjördæmi er stórt og jafnvægi er öllum fyrir bestu.

Það eru fimm skráðir í Bláskógabyggð, innan við fjórir í Flóahreppi, Hrunamannahreppi og Rangárþingi Eystra.

Það eru 139 skráðir píratar í Reykjanesbæ á móti 66 í Árborg.

Nýtum tímann í dag til að skrá okkur og rétta af þetta ójafnvægi. Tökum svo öll þátt í prófkjörinu í ágúst.

Hér er hægt að skrá sig í Pírata.

Endilega deila þessum pósti.

Höfum áhrif! Skiptum máli!

Villi

Einokunarverslunin og bændamarkaðurinn

Einokunarverslunin og bændamarkaðurinn

Þessi pistill birtist upphaflega í Kvennablaðinu.

Verksmiðjan eða vöruskemman – ég er ekki viss hvað þessi bygging hafði verið í fyrra lífi – var björt og iðandi af fólki. Við gengum milli söluborða, smökkuðum heimagerða osta og smjör. Konan smakkaði kryddpylsu og var svo hrifin að hún keypti tvær. Ég er hrifnari af ostunum og smakkaði því allt of mikið. Bita hér og bita þar. Ótrúlega skemmilegt hvað úrvalið var mikið og framleiðsla bændanna ólík. Þurfti engan kvöldmat þennan daginn. Bóndinn sem ég ræddi hvað mest við sagði mér að hann hefði sjálfur mjólkað kýrnar og unnið ostinn. Hann hafði byggð skemmu bak við fjósið og þar fullynni hann mjólkina. Mjólkurbíllinn var löngu hættur að koma. En hvernig ferðu af því að lifa á þessu? Bændamarkaðurinn er skemmtilegur og allt það, en varla lifirðu á þessu oststykki sem ég var að kaupa? Nei, sagði bóndi, það er rétt. Ég sel líka í verslanir. Og það er rétt sem hann segir. Stórmarkaðir eru farnir að selja meira af lífrænum og hreinum íslenskum vörum. Þær eru eitthvað dýrari en verksmiðjuframleiðslan, en snýst lífið ekki um val? Að geta keypt bragðgóðan ost sem framleiddur var á búinu þaðan sem mjólkin kemur?

Þessir “beint frá búi” markaðir hafa verið að spretta upp um allt land. Íslendingar eru yfir sig hrifnir, ferðamenn sækjast í þetta og bændur brosa mest allra. Talandi um ferðamenn. Sveitavinnutúrisminn er farinn að blómstra, og sumir sem koma hingað til að njóta sveitasælunnar koma með hugmyndir og vinnsluaðferðir sem við höfum ekki þekkt.

Eða hvað? Sagan sem þú varst að lesa er uppspuni, skálduð hugarsmíð, því þetta má ekki. Það eru engir bændamarkaðir. Beint frá búi er hugtak sem hefur verið fleygt fram, en það einhverskonar þversögn. Bóndi má víst búa til ost, en aðeins með mjólk sem hann kaupir af MS. Þótt hann sé kúabóndi og framleiði eigin mjólk, þarf hann að selja hana og kaupa aftur á hærra verði.

Dýrin í sveitinni
Dýrin í sveitinni

Bændamarkaðir eru skemmtileg hugmynd. Þeir finnast víða í Evrópu og þar standa bændur með sínar vörur. Stundum sameinast nokkrir bændur um framleiðsluna, en þeir standa í þessu sjálfir. En þetta má ekki á Íslandi. Þar eru reglur sem sjá til þess að einhver smá hópur geti ráðið hver má kaupa mjólk, á hvaða verði. Það er frægt að Kjörís fór að framleiða jurtaís til að losna undan oki MS. Mjólka fékk mjólkina á hærra verði en KS, sem setti Mjólku næstum í þrot, KS keypti Mjólku, MS fór svo í tölfræðileik og útkoman var að Mjólka borgaði sjálfa sig og KS stóð eftir með fyrirtæki sem það borgaði ekkert fyrir. Fyrir einhverjum mánuðum fór heill Kastljósþáttur í að fletta ofan af mjólkurspillingunni. Og hvað gera stjórnvöld? Þau skella 10 ára búvörusamning á borðið sem styrkir hálstakið sem MS og KS hafa á markaðnum.

Ég skil að ríkið vilji halda utan um tóbaks- og áfengissölu. Annað efnið er krabbameinsvaldandi, bæði eru ávanabindandi og áfengi getur tvístrað fjölskyldum ef fólk ánetjast. En mjólk? Af hverju erum við með einokun á mjólk? Mjólkursala á að vera frjáls. Það eru engin rök sem ég get séð fyrir einokun á mjólkurmarkaðnum. Bændur eiga að geta selt afurðirnar hverjum sem er, hvort sem þær eru fullunnar eða ekki. Á meðan eftirlit er í lagi – þetta er jú matvælaframleiðsla – á það ekki að skipta máli hver framleiðir og selur landbúnaðarafurðir.

MS þarf ekkert að hverfa. Bændum er velkomið að selja mjólkina á sama hátt og verið hefur, enda eru heimaunnar og lífrænar vörur dýrari og ekki fyrir alla, en bændur verða að hafa val. Annað er einokun og einokun er eitthvað sem við áttum að vera löngu búin að losa okkur við.
Höfundur er í framboði í prófkjöri Pírata í suður-kjördæmi.

Grípum vopnin!!!

Grípum vopnin!!!

Þriðjudaginn 5. júlí tók ég af skarið og sendi tilkynningu um framboð til kjörnefndar Pírata í suður-kjördæmi. Stærra skerf en ég hafði búist við. En það er búið og gert og nú er að rölta þennan veg á enda. Sjá hvert hann leiðir. Þessi pistill er þó ekki um mig og hvað ég vil gera. Þessi pistill er um þig.

Lýðræðið er einskis virði nema lýðurinn taki þátt í því. Við þurfum að láta okkur málin varða. Stjórnsýslan hefur aldrei verið nær okkur en nú, og því getum við þakkað netinu að hluta. Píratar vilja færa stjórnsýsluna enn nær fólkinu. Þjóðin á að fá mikið meiri völd, hún á að geta haft raunveruleg áhrif á eigin framtíð.

En hvað getur þú gert? Til hvers er ætlað af þér? Hvaða völd hefurðu núna?

Píratar
Píratar

Opnað var fyrir framboð til prófkjörs Pírata í suður-kjördæmi og á höfuðborgarsvæðinu mánudaginn 4. júlí. Skilafrestur framboða er til 1. ágúst. Kosning stendur svo yfir 2. – 12. ágúst.

Það hljómar því eins og mikill tími sé til stefnu. Það er þó ekki svo. Til að hafa atkvæðisrétt, þarf viðkomandi að hafa verið skráður í 30 daga í flokkinn. Allir sem gerast meðlimir í síðasta lagi 11. júlí hafa atkvæðisrétt, aðrir ekki. Þegar þetta er skrifað, eru fimm dagar í að sá gluggi lokist. Ég þekki það að ætla sér að gera hlutina seinna. Svo gleymast þeir og maður verður of seinn. Það er best að gera hlutina strax.

Hvernig er þá hægt að skrá sig í Pírata? Hér fyrir neðan er myndband sem sýnir ferlið. Það tekur innan við fimm mínútur. Ég mæli því með að allir sem einhvern áhuga hafa á stjórnmálum, betri framtíð og vilja hafa alvöru áhrif, skrái sig strax í dag og verði tilbúin til að kynna sér frambjóðendur og raða á lista eftir tæpan mánuð.

Grípum vopnin, þessi lýðræðistæki sem okkur eru gefin! Búum svo til fleiri og betri tæki. Lýðræðið virkar best þegar það er virkt.

Hér er hægt að skrá sig í flokkinn.

Hér eru upplýsingar um prófkjörið í suður-kjördæmi.

Hér er myndband sem sýnir hvernig þú gengur í Pírata.

Framboðið er staðreynd

Framboðið er staðreynd

Nú verður ekki aftur snúið. Var að senda inn persónuupplýsingar og hagsmunaskráningu (ég á ekkert nema húsnæðislán (og húsið sem fylgir (með konunni, sko)) og gamlan bíl). Kjörstjórn í suður-kjördæmi hefur fengið allt og ferlið er farið af stað. Hér fyrir neðan eru mínar helstu áherslur og upplýsingar sem ég sendi með.

Þar sem margir minna Facebook vina eru ekki íslendingar og munu ekkert skilja í þessari endalausu íslensku pólitík, bjó ég til sér síðu utan um framboðið. Endilega farið þangað. lækið hana og fylgist með.

En textinn sem ég sendi á kjördæmaráð…

Píratar
Píratar

Ég er giftur hollenskri konu og við eigum einn níu ára son. Ég er fæddur í Reykjavík og ólst þar upp þegar ég var ekki hjá ömmu og afa á Bitru. Öll sumur og margar helgar var ég í sveitinni. Þar lærði ég sveitastörfin, mjólkaði kýr, keyrði traktora, tók þátt í heyskapnum og hverju sem ætlast var til af krakkanum. Átti minn eigin hest, kött og naut. Í sveitinni lærði ég að bera virðingu fyrir landinu og dýrunum. Tengslin við suðurlandið eru þó ekki bara þar. Ég fór í Héraðsskólann á Skógum og Menntaskólann að Laugarvatni og ólst upp við sögur úr Meðallandinu, þar sem afi fæddist í torfkofa og skip strönduðu allt of oft.

Rætur mínar eru því kyrfilega festar á suðurlandinu, þótt ég hafi búið í Reykjavík, London og á mörkum Amsterdam.

Ég er menntaður í fjölmiðlun, hljóðupptökum og kvikmydagerð. Vinn núna fyrir Menzies Aviation á Schiphol flugvelli þar sem ég sé um easyJet, Norwegian og Jet2 flugvélar. Ég leik mér líka við skriftir og gaf út skáldsöguna Under the Black Sand fyrir þremur árum. Ný er bók er í vinnslu.

Við fjölskyldan höfum gælt við að flytja til Íslands á undanförnum árum. Það sem komið hefur í veg fyrir það eru gríðarlega óhagstæð húsnæðislán og ótryggt atvinnuumhverfi. Sveiflur í íslensku efnahagslífi eru allt of miklar og okkur langar ekki að lenda í fjárhagsvandræðum vegna forsendubrests sem við áttum engan þátt í að skapa. En okkur langar að búa á Íslandi, þar sem fjölskyldan er, þar sem sonur okkar getur lifað í heilbrigðu samfélagi, andað að sér hreina loftinu og kynnst fjölskyldu sinni almennilega.

Eftir að hafa kynnst mörgum pírötum á undanförnum árum, sé ég að það eru alvöru tækifæri til að breyta stjórnsýslunni og búa til samfélagið sem Ísland getur orðið, og hefði kannski alltaf átt að vera.

Það eru svo mörg mál sem ég vil vinna í. Að allar ákvarðanir séu teknar með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi og að ákvarðanaferlið sé opnið og gagnsætt; beint frá búi þar sem bændur geta selt sínar fullunnu afurðir milliliðalaust; afnám verðtryggingar og vexti á við það sem gerist í nágrannalöndunum og margt fleira. Þrennt vil ég þó nefna sérstaklega.

– Ég vil gera allt til að auka þáttöku yngri kynslóðarinnar í lýðræðinu. Á undanförnum áratugum hefur unga fólkið tekið tiltölulega lítinn þátt í kosningum og innra starfi stjórnmálaflokkanna. Afleiðingarnar eru að lífið kemur fyrir fólk án þess að það hafi haft teljandi áhrif. Spillingin grasserar, milljörðum er stungið undan og ungt fólk er hneppt í skuldafangelsi. Af því það er bara þannig. Hefur alltaf verið þannig. Og mun alltaf verða þannig, nema þjóðin grípi inn í. Það þarf ekkert meira en að unga fólkið fari að sýna stjórnmálum áhuga og fari á kjörstað. Þá er hálfur sigurinn unninn. Þetta verður mitt aðal baráttumál, því við eigum öll að skipta máli.

– Ég vil koma í veg fyrir áframhaldandi atgervisflótta (brain drain) og létta íslendingum erlendis að snúa heim. Það er nefninlega óþarflega flókið. Ísland gæti verið mikið sterkara ef við nýttum krafta fólksins sem býr erlendis en vill koma heim. Mikið af því er vel menntað, með reynslu sem ekki er hægt að öðlast heima og hefur nýja sýn á vandamálin sem við er að etja. Með netvæðingu heimsins er þetta fólk vel inni í málunum og gæti haft góð áhrif á samfélagið.

– Ég vil jafna kjör þjóðarinnar. Það gerist að einhverju leyti með því að innheimta rentu fyrir auðlindanotkun og nýta peningana til að styrkja innviði samfélagsins. Þar á ég auðvitað við heilbrigðis- og menntakerfin sérstaklega. En það er ekki nóg. Við þurfum að losa okkur við stimplana sem festa fólk í hlutverki fórnarlambsins. Neikvæður tekjuskattur gæti komið í staðinn fyrir örorkubætur og eftirlaun. Hann virkar þannig að sett er viðmið um hver sé eðlileg lágmarksframfærsla. Sé viðkomandi með laun yfir þeirri tölu, borgar hann tekjuskatt. Sé viðkomandi með lægri tekjur, fær hann endurgreiðslu. Þar sem endurgreiðsla skatta eru ekki bætur, mun hún ekki hafa neikvæð áhrif á tekjur og sjálfsmynd viðkonandi. Fólki verður ekki lengur refsað fyrir að vinna, þótt vinnugetan sé takmörkuð.

Ástæðan fyrir framboði í Suður-kjördæmi er að við munum flytja á Selfoss í lok sumars. Ég ólst upp að hluta í Hraungerðishrepp og þar eru mínar rætur. Þangað vil ég fara, þar vil ég nýta mína krafta.

Yarr…
Villi Asgeirsson

Stjórnmálin og óbragðið

Stjórnmálin og óbragðið

Fyrr í dag tók ég endanlega ákvörðun um að bjóða mig fram í prófkjöri Pírata í Suður-kjördæmi. Þetta var erfið ákvörðun, því hún þýðir að nú þarf ég að fara að drattast heim. Hef verið að spá í það í nokkur ár, en nú get ég ekki dregið það lengur.

Þetta var erfið ákvörðun, því ég þarf að segja upp í vinnunni, skilja fjölskylduna eftir í Hollandi í nokkra mánuði á meðan ég kem mér fyrir á Íslandi. Þau fylgja svo í vor þegar ég er kominn með vinnu. Hver sem sú vinna verður.

Píratar
Píratar

En það er annað. Þetta var rosalega erfið ákvörðun, því stjórnmál eru skítug. Orðið er skítugt. Mér leið eins og ég væri skítugur þegar ég sendi fólki boð um að læka fésbókarsíðuna sem ég setti upp fyrir framboðið. Því stjórnmál eru samnefnari fyrir sjálfsdýrkun, framapot og vasafyllingar.

Ég veit að nú þarf ég að fara að tala um mig. Það er ekkert sem ég er sérstaklega spenntur fyrir. Ég hef meira gaman af því að tala um hugmyndir, lausnir og þannig lagað. Ég mun þurfa að segja hvaða menntun ég er með, hvað ég hef unnið við, hvað ég sé klár í þessu og hinu og baða mig í ljósi einhverrar sjálfsdýrkunnar. Ég þarf að fara að selja mig.

Það er allavega líklegt að sú leið sé best ef mig langar að vinna þetta kapphlaup.

Málið er bara að ég sé þetta ekki sem kapphlaup. Ég vil betra samfélag. Ég þarf ekkert endilega að ráða. Þetta snýst ekki um mig. Ég skil af hverju fólk treystir ekki stjórnmálamönnum. Ég geri það ekki sjálfur. Mér fannst ég vera að kúka á prófíla fólks með því að benda því á þetta framboð mitt.

En málið er að ég vil koma heim. Ég vil búa í fallegu landi, í samfélagi sem er gott fyrir alla. Hingað til hefur engum tekist að búa það til. Það hafa ekki margir reynt.

Það er kannski kominn tími á að taka skítinn úr stjórnmálunum.

Hér er þessi blessaða framboðssíða. Sjáum hvernig þetta fer.

Og hér er hægt að skrá sig í Pírata. Um að gera að hafa áhrif.

Love to ye all.

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Kæru sunnlendingar, píratar og íslendingar,

Eftir töluverð heilabrot hef ég ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Pírata í suðurkjördæmi. Ástæðurnar eru nokkrar og ætla ég að reyna að útskýra þær í eins stuttu máli og mögulegt er.

Villi Ásgeirsson
Villi Ásgeirsson

Ég hef búið erlendis í tvo áratugi. Sumarið 2013 vorum við fjölskyldan í sumarfríi á Íslandi. Veðrið var gott, við fengum húsbílinn hennar mömmu lánaðan og keyrðum um suðurlandið og Borgarfjörðinn. Það var í lok þessarar ferðar að konan mín, sem er hollensk, sagði að hún hefði áhuga á að flytja til Íslands. Við ræddum þetta eftir að við vorum aftur komin út til Hollands. Hún ræddi allskonar möguleika, en ég dróg lappirnar. Talaði um spillingu, okurvexti á húsnæðislánum og veðráttu.

Samt fannst mér þetta spennandi hugmynd. Hún þróaðist og um haustið vorum við búin að ákveða að skoða möguleikana á búsetu á suðurlandi. Við vildum ekki búa í borg, heldur búa til okkar draumaheim, draumaheimili. Ég notaði netið til að finna hús, lóðir og hvað sem er. Fann nokkrar lóðir rétt utan við Selfoss. Sumarið 2014 komum við aftur heim, skoðuðum lóðirnar og féllum endanlega fyrir hugmyndinni. Þar sem við stóðum og virtum fyrir okkur mýrina og ímynduðum okkur hvernig húsið myndi taka sig út, flaug ugla fram hjá okkur og settist við vegkantinn. Þetta var allt voðalega ljóðrænt og fallegt. Ég hafði þá hannað hús í tölvunni og hafði passað mig á að stofan snéri í suður, en Heklan væri sýnileg út úm eldghúsgluggann. Eins og það var hjá afa og ömmu þegar ég var að alast upp.

Eftir að hafa búið erlendis þetta lengi, getur verið erfitt að tala um einhvern einn stað sem heimili manns. Heimurinn er heimilið. Engin lönd eru algóð og engin eru alvond. Þjóðernishyggjan hverfur við að kynnast fólki allsstaðar að úr heiminum. Við erum öll eins, inni við beinið.

Afi og kýrnar
Afi og kýrnar

En ef ég á enn rætur einhversstaðar, er það á suðurlandinu, rétt utan við Selfoss. Þar sem afi og amma bjuggu í þrjá áratugi, voru með kýr, kindur, hesta, hænur, svín og gæsir. Ég ólst upp að töluverðum hluta hjá þeim, með Hekluna í eldhúsglugganum og tjarnirnar sunnan- og austan við bæinn. Tjarnirnar sem við syntum í og sigldum á flekum langt fram á kvöld. Ég fór í tvo heimavistarskóla, á Laugarvatni og Skógum. Að koma í Meðallandið, þar sem afi fæddist og ólst upp, var alltaf ævintýri. Og heimurinn sem langafi og amma bjuggu til í Hveragerði var heillandi.

Þrátt fyrir að hafa verið í burtu í allan þennan tíma, á ég heima á suðurlandinu. Í hvert sinn sem ég heimsæki landshlutann, finnst mér ég vera kominn heim.

Og nú hefur stefnan verið sett á heimför. Ekki í frí, heldur til að búa.

Það verður þó að segjast að efasemdirnar um samfélagið, og þá á ég við stjórnsýsluna, eru enn til staðar. Á meðan ég greiði 2% í vexti af húsnæðisláninu hér í Hollandi, mun ég sennilega þurfa að greiða fjórfalt það á Íslandi. Það er ekkert óvíst að flutningurinn heim muni koma okkur í fjárhagsvandræði, sem eru mikið til óþarfa áhyggjur í Hollandi. Forsendubrestir og kreppur eru hlutir sem við þurfum að gera ráð fyrir. Ráðamenn sem axla ekki ábyrgð. Eins fallegt og landið er, eins sterkar og ræturnar eru, eins mikið og ég virði fólkið sem byggir landið, er stjórnsýslan og efsta lagið ekki í takti við það sem gerist í vestrænum löndum.

Það var að hluta til þess vegna sem ég mætti á fund Pírata í Árborg síðasta haust og á aðalfund flokksins í júní. Ef ég var að fara að flytja heim, vildi ég gera allt sem ég gæti til að laga samfélagið og gera stjórnsýsluna eins aðlaðandi og landið og fólkið sem í því býr. Ég hef verið virkur í vinnuferlinu undanfarna mánuði og tekið þátt í undirbúningi stofnunar Pírata í Suðurkjördæmi.

Mínar áherslur eru eftirfarandi:

Ný stjórnarskrá. Árið 2011 lagði stjórnlagaráð fram frumvarp um nýja stjórnarskrá. Hún var svo samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið eftir. Hún tekur fyrir margt af því sem er að í samfélaginu. Hún festir náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar allrar og bætir vinnureglur stjórnkerfisins. Hún er grunnurinn að endurreisn lýðræðis í landinu.

Unga fólkið á Íslandi dregst aftur úr í tekjum, en kýs ekki. Það er sorglegt að sjá unga fólkið festast í skuldafeni án þess að það geti nokkuð gert. Sorglegra er að sjá áhugaleysi þessa þjóðfélagshóps um stjórnmál. Fólk hefur ekki trú á stjórnkerfinu og telur sig ekki geta haft áhrif. Það er bara eitt atkvæði í hafsjó atkvæða. En þetta er ekki alveg svona. Það munaði til dæmis sex atkvæðum að Píratar kæmu manni inn í Hafnarfirði í síðustu kosningum. Sex atkvæðum. Þar fyrir utan er ákvarðanaferli Pírata opið og allir geta tekið þátt. Unga fólkið mun lifa með ákvörðunum sem teknar eru í stjórnsýslunni, og það er sorglegt að sjá eldra fólk sem fast er í gömlum hugmyndum, skotgröfum oft á tíðum, ákveða hvar tvítugt fólk í dag verður um fertugt. Við þurfum að virkja ungt fólk, svo það taki málin í sínar hendur og hafi áhrif á eigin framtíð.

Beint frá býli er hugmynd sem ég hef mikinn áhuga á. Bændur hafa margir gaman af að skapa og búa til. Ég man að afi bjó til sitt eigið smjör og skyr, slátraði heima og framleiddi pylsur og bjúgu. Hann mátti auðvitað ekki selja þessar afurðir, en þetta var lostæti sem fjölskyldan naut. Ég hefði gaman að því að sjá bændur fullvinna vörur og selja á bændamörkuðum í kjördæminu. Hvað er betra en að skoða það sem er í boði og smakka osta framleidda í Flóanum, lúpínuborgara framleidda á Rangárvöllum, ís frá Hveragerði, kartöflusalöt úr Þykkvabæ og matarolíu framleidda í Meðallandinu? Bændur eiga að geta fengið útrás fyrir sköpunargáfuna og neytendur eiga að geta haft meira úrval. Miðstýring landbúnaðarins er barn síns tíma. Hér í Hollandi get ég farið á bændamarkaði og keypt allskonar osta sem framleiddir eru að bændunum í héraðinu. Ég vil geta gert það sama á Íslandi. Ekki allt þarf að fara í gegn um MS eða álíka apparat.

Umhverfisvæn nýting landsins og auðævanna. Því miður er það þannig að landið virðist vera einskis vert nema því sé komið í verð. Og oft sjáum ekkert verðgildi nema framkvæmdir sem hafa umhverfisspjöll í för með sér séu framin. Við höfum virkjað ár og vötn, og getum ekki hætt. Ísland framleiðir meiri raforku en nokkurt annað land í heiminum miðað við höfðatölu, en þó á að virkja meira. Suðurlandið hefur upp á svo margt annað að bjóða. Ísland er hreint land og tiltölulega ómengað og bændur geta nýtt sér það með því að nýta umhverfisvæna tækni og markaðssetja sig á þeim forsendum. Við þurfum að vernda náttúruperlur gegn átroðningi ferðamanna, ekki með því að takmarka ágang, heldur með því að stýra honum, byggja göngustíga og aðstöðu. Nýlega birtist grein eftir mig í Dagskránni þar sem ég ræddi mennta- og fræðasetur á Eyrarbakka. Suðurland hefur upp á svo margt að bjóða og það er okkar að nýta tækifærin, og gera það vel. Í kjördæminu eru nokkrar góðar hafnir og við þurfum að sjá til, með hjálp nýju stjórnarskrárinnar, að þær hafi nóg að gera. Að miðin út af höfnunum séu þeirra og að bæjarfélögin geti nýtt sín náttúruauðævi.

Samgöngumál. Það er langt síðan malarvegurinn yfir heiðina var malbikaður. Þó eru enn margir vegir sem má bæta. Í suðurkjördæmi eru tvö samgönguverkefni sem þarf að skoða sérstaklega. Lest, eða álíka samgöngutæki milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Lestir eru dýrar og við verðum að skoða það dæmi vel og vanda okkur. Höfum við efni á verkefninu, og hentar lest íslenskum aðstæðum? Og Landeyjahöfnin. Er hún besta lausnin fyrir Vestmannaeyjar? Siglingin er töluvert styttri en sú gamla, þrír tímar í Þorlákshöfn. En Landeyjahöfn fyllist af sandi og er gríðarlega dýr í rekstri. Ég myndi vilja sjá hlutlausan vinnuhóp skoða allar mögulegar hugmyndir, svo hægt verði að tengja Eyjar við meginlandið á öruggan og ódýran hátt.

Heilbrigðismálin eru endalaust þrætuepli. Nýlega kom fram að það kosti um 6-7 milljarða að bjóða upp á gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi á Íslandi. Þetta er ekki há upphæð í stóra samhenginu, og okkur ber að reyna að finna leið til að koma þessu í framkvæmd. Einnig er ég á því að fjórðungssjúkrahús eigi að vera öflug og geta sinnt öllum helstu bráðatilfellum. Aðeins meiriháttar aðgerðir og eftirmeðferðir megi vera ástæða til að senda fólk til Reykjavíkur. Það er galið að senda fólk í lífshættu í flugferð af því það er engin almennileg bráðamóttaka utan höfuðborgarsvæðisins.

Bótakerfið er ónýtt og þarf algera endurskoðun. Öryrkjum er refsað fyrir að vinna með bótunum. Öryrki er stimpill sem skemmir sjálfstraust og stofufangelsi sem kemur í veg fyrir að fólk komist aftur á vinnumarkaðinn. Borgaralaun myndu leysa þetta vandamál, þar sem allir fá laun án stimplanna sem núverandi bætur hafa í för með sér. Það kerfi yrði þó alger bylting og gæti verið erfitt og dýrt að koma í framkvæmd. Neikvæðir tekjuskattar gætu leyst þetta vandamál, þar sem fólk sem ekki nær samþykktum lágmarkslaunum, fengi endurgreitt úr ríkissjóði. Þetta gæti komið í staðinn fyrir allar bætur, gert það kerfi töluvert léttara og ódýrara, losað fólk við öryrkjastimpilinn og gert því kleyft að koma sér smám saman inn á vinnumarkaðinn ef það hefur getu til.

Spillingin er að ganga af íslensku samfélagi dauðu. Það eru til nægir peningar í nánast allt sem við þurfum að gera, en þeir leka úr okkar sameiginlega sjóðum í vasa fólks sem þekkir rétta fólkið. Ég fermdist í Selfosskirkju í maí 1983 og Sigurður prestur (síðar biskup í Skálholti) talaði um í predikuninni að eina leiðin til að gera eitthvað á Íslandi væri að þekkja mann sem þekkti mann. Mig minnir að hann hafi sett þetta í samhengi við 14 ára krakkana sem sátu á bekknum og yrðu að búa sig undir að lifa í þessum heimi vinagreiðanna. Ekkert hefur breyst á þeim 33 árum sem liðin eru, nema að nú sjáum við spillinguna. Hún hefur flotið upp á yfirborðið. Er ekki kominn tími til að við hreinsum til svo við getum öll haft eitthvað að segja og lifað sómasamlegu lífi í þessu landi?

Jákvæðni er lífsnauðsynleg í heilbrigðu samfélagi. Eftir 26 ár verður lýðveldið 100 ára. Hvernig samfélagi viljum við búa í á þeim tímamótum? Viljum við festast í skotgrafahernaði og karpi, viljum við að ójöfnuður aukist og að reglufargan geri fólki nær ómögulegt að skapa sér atvinnu, eða viljum við jákvætt samfélag þar sem við vinnum saman að því að gera Ísland að því draumalandi sem það getur orðið? Við finnum jákvæðnina ekki með því að stinga hausunum í svarta sandinn, heldur með því að rýna í vandamálin og finna lausnir við þeim. Við þurfum ekki að vera sammála um neitt annað en að við viljum vinna saman. Við vitum hvað gerist ef við gerum það ekki.

Ég er ekki að flytja heim til að fara í stjórnmál. Ég hef aldrei séð mig sem stjórnmálamann og mun sennilega aldrei gera. Ég er að fara í stjórnmál til að hjálpa til við að skapa samfélag sem gott er að búa í. Samfélag þar sem allir skipta máli, allir hafa tækifæri til að hafa áhrif, samfélag sem stimplar fólk ekki eftir getu eða fjárhag. Samfélag sem hvetur fólk til að vera skapandi og gera það sem það er gott í. Samfélag sem er opið og jafn hreint og fallegt og landið sem það hýsir. Samfélag sem afi hefði verið stoltur af og unga fólkið getur blómstrað í.

Píratar
Píratar

Eina aflið sem getur komið þessu til leiðar eru Píratar. Þess vegna er ég að fara í stjórnmál, og þess vegna valdi ég Pírata.

Það sést kannski á þessum pistli að ég er ekki mikið fyrir að tala um sjálfan mig. Mér finnst ég ekki skipta mestu máli í samhengi framboðsins, heldur hugmyndirnar og málin sem ég stend fyrir. Ég mun þó setja inn pistil fljótlega þar sem ég tala um mig og það sem ég hef gert. Það þarf víst að fylgja. En munum að þetta snýst ekki um eitthvert okkar, heldur okkur öll.

Ég er opinn fyrir gagnrýni og hugmyndum. Hver sem er getur haft samband við mig í tölvupósti, á Facebook og við getum rætt málin á Skype. Svo hlakka ég til að hitta fólk augliti til auglitis þegar þar að kemur.

Sjáumst í haust.

Hægt er að hafa samband í tölvupósti vga[hjá]vga.is, á Facebook (https://www.facebook.com/VGAsgeirs/) eða Skype (vgasgeirs). Endilega sendið skilaboð eða póst áður en Skype er reynt, þar sem ég get verið að vinna eða fjarverandi.

Hægt er að skrá sig í Pírata hér. Það kostar ekkert.

2044 – Lýðveldið Ísland 100 ára

2044 – Lýðveldið Ísland 100 ára

Það er kominn 17. júní.

Þjóðhátíðardagur íslendinga. Afmælisdagur Jóns Sigurðssonar forseta. Það er sennilega rigning og við stöndum sennilega brosandi með gegnblauta pappírsfána á Lækjartorgi eftir vel heppnaða skrúðgöngu.

Lýðveldið Ísland var stofnað fyrir 72 árum, þann 17. júní 1944. Loksins, eftir 700 ár sem nýlenda, urðum við sjálfstæð. Sumir vilja halda því fram að tilraunin Lýðveldið Ísland hafi mistekist. Hér er verðtrygging, ofurvextir, hér varð hrun á meðan nágrannalöndin lentu í einhverjum tímabundnum samdrætti. Við rífumst um hvort við eigum að láta túrista traðka náttúrurperlurnar í svaðið eða hvort betra sé að virkja þær. Við stofnum þjóðernisflokka og gleymum bókmenntunum okkar. Ef einhver minnist á Evrópu, hefst nett trúarbragðastríð.

En við erum sjálfstæð og við höfum áorkað mörgu. Bókmenntirnar okkar, Snorri og Halldór, fótboltinn er að gera sig, tónlistin. Þegar við gerum okkar besta, erum við góð. Virkilega góð.

Börn á Íslandi (VGA 2013)
Börn á Íslandi (VGA 2013)

Við erum sjálfstæð þjóð og höfum verið það í 72 ár. Það eru 28 ár í 100 ára afmælið, árið 2044. Það gæti virst langur tími, en ef við förum 28 ár aftur í tímann, lendum við á 1988. Það er ekkert rosalega langt síðan. Duran Duran voru búnir að vera, Reagan og Gorbachev voru komnir og farnir, Með allt á hreinu var orðin sex ára og Ísbjarnarblúsinn átta. Það er ekkert rosalega langt síðan 1988 kom og fór. Það er ekkert rosalega langt í hundrað ára afmælið.

Fólk sem er tvítugt í dag verður tæplega fimmtugt á lýðveldisafmælinu. Trúið mér, maður verður tæplega fimmtugur á korteri.

Þetta er ekki langur tími. Margt getur breyst, en samfélagið getur líka staðnað. 1988 virkar eins og fornöld ef maður horfir á bíómyndir frá þessum tíma, en við erum enn að berjast við sömu púkana. Við erum ennþá í skotgrafarhernaði. Við förum enn í Ríkið. Lánin okkar eru ennþá verðtryggð. Davíð Oddson er ennþá relevant. Þannig lagað.

Hvernig verður framtíðin? Við getum upplifað kreppur eða framfarir. Það er, mikið til, okkar að ákveða hvert við viljum fara og hvar við viljum vera á aldar afmæli lýðveldisins. Við förum þangað saman og við höfum áhrif á hvort annað. Við erum öll við stýrið og höfum öll einhver áhrif, þótt þau séu mismikil.

Mig langar því að spyrja alla tveggja spurninga. Svör má setja hér fyrir neðan. Þeim má líka svara í huganum. Það skiptir ekki máli, á meðan við hugsum málið og erum meðvituð um að afstaða okkar mun hafa áhrif. Maður breytir nefninlega heiminum með því að breyta sjálfum sér fyrst.

• Hvernig samfélag myndirðu vilja sjá á 100 ára afmælinu?
• Hvað getum við gert til að komast þangað?

Hugsum um þetta. Spáum í hvar við viljum vera á aldarafmælinu og förum að vinna í að komast þangað.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube