Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
stjórnarskrá – Villi Asgeirsson

Browsed by
Tag: stjórnarskrá

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Kæru sunnlendingar, píratar og íslendingar,

Eftir töluverð heilabrot hef ég ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Pírata í suðurkjördæmi. Ástæðurnar eru nokkrar og ætla ég að reyna að útskýra þær í eins stuttu máli og mögulegt er.

Villi Ásgeirsson
Villi Ásgeirsson

Ég hef búið erlendis í tvo áratugi. Sumarið 2013 vorum við fjölskyldan í sumarfríi á Íslandi. Veðrið var gott, við fengum húsbílinn hennar mömmu lánaðan og keyrðum um suðurlandið og Borgarfjörðinn. Það var í lok þessarar ferðar að konan mín, sem er hollensk, sagði að hún hefði áhuga á að flytja til Íslands. Við ræddum þetta eftir að við vorum aftur komin út til Hollands. Hún ræddi allskonar möguleika, en ég dróg lappirnar. Talaði um spillingu, okurvexti á húsnæðislánum og veðráttu.

Samt fannst mér þetta spennandi hugmynd. Hún þróaðist og um haustið vorum við búin að ákveða að skoða möguleikana á búsetu á suðurlandi. Við vildum ekki búa í borg, heldur búa til okkar draumaheim, draumaheimili. Ég notaði netið til að finna hús, lóðir og hvað sem er. Fann nokkrar lóðir rétt utan við Selfoss. Sumarið 2014 komum við aftur heim, skoðuðum lóðirnar og féllum endanlega fyrir hugmyndinni. Þar sem við stóðum og virtum fyrir okkur mýrina og ímynduðum okkur hvernig húsið myndi taka sig út, flaug ugla fram hjá okkur og settist við vegkantinn. Þetta var allt voðalega ljóðrænt og fallegt. Ég hafði þá hannað hús í tölvunni og hafði passað mig á að stofan snéri í suður, en Heklan væri sýnileg út úm eldghúsgluggann. Eins og það var hjá afa og ömmu þegar ég var að alast upp.

Eftir að hafa búið erlendis þetta lengi, getur verið erfitt að tala um einhvern einn stað sem heimili manns. Heimurinn er heimilið. Engin lönd eru algóð og engin eru alvond. Þjóðernishyggjan hverfur við að kynnast fólki allsstaðar að úr heiminum. Við erum öll eins, inni við beinið.

Afi og kýrnar
Afi og kýrnar

En ef ég á enn rætur einhversstaðar, er það á suðurlandinu, rétt utan við Selfoss. Þar sem afi og amma bjuggu í þrjá áratugi, voru með kýr, kindur, hesta, hænur, svín og gæsir. Ég ólst upp að töluverðum hluta hjá þeim, með Hekluna í eldhúsglugganum og tjarnirnar sunnan- og austan við bæinn. Tjarnirnar sem við syntum í og sigldum á flekum langt fram á kvöld. Ég fór í tvo heimavistarskóla, á Laugarvatni og Skógum. Að koma í Meðallandið, þar sem afi fæddist og ólst upp, var alltaf ævintýri. Og heimurinn sem langafi og amma bjuggu til í Hveragerði var heillandi.

Þrátt fyrir að hafa verið í burtu í allan þennan tíma, á ég heima á suðurlandinu. Í hvert sinn sem ég heimsæki landshlutann, finnst mér ég vera kominn heim.

Og nú hefur stefnan verið sett á heimför. Ekki í frí, heldur til að búa.

Það verður þó að segjast að efasemdirnar um samfélagið, og þá á ég við stjórnsýsluna, eru enn til staðar. Á meðan ég greiði 2% í vexti af húsnæðisláninu hér í Hollandi, mun ég sennilega þurfa að greiða fjórfalt það á Íslandi. Það er ekkert óvíst að flutningurinn heim muni koma okkur í fjárhagsvandræði, sem eru mikið til óþarfa áhyggjur í Hollandi. Forsendubrestir og kreppur eru hlutir sem við þurfum að gera ráð fyrir. Ráðamenn sem axla ekki ábyrgð. Eins fallegt og landið er, eins sterkar og ræturnar eru, eins mikið og ég virði fólkið sem byggir landið, er stjórnsýslan og efsta lagið ekki í takti við það sem gerist í vestrænum löndum.

Það var að hluta til þess vegna sem ég mætti á fund Pírata í Árborg síðasta haust og á aðalfund flokksins í júní. Ef ég var að fara að flytja heim, vildi ég gera allt sem ég gæti til að laga samfélagið og gera stjórnsýsluna eins aðlaðandi og landið og fólkið sem í því býr. Ég hef verið virkur í vinnuferlinu undanfarna mánuði og tekið þátt í undirbúningi stofnunar Pírata í Suðurkjördæmi.

Mínar áherslur eru eftirfarandi:

Ný stjórnarskrá. Árið 2011 lagði stjórnlagaráð fram frumvarp um nýja stjórnarskrá. Hún var svo samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið eftir. Hún tekur fyrir margt af því sem er að í samfélaginu. Hún festir náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar allrar og bætir vinnureglur stjórnkerfisins. Hún er grunnurinn að endurreisn lýðræðis í landinu.

Unga fólkið á Íslandi dregst aftur úr í tekjum, en kýs ekki. Það er sorglegt að sjá unga fólkið festast í skuldafeni án þess að það geti nokkuð gert. Sorglegra er að sjá áhugaleysi þessa þjóðfélagshóps um stjórnmál. Fólk hefur ekki trú á stjórnkerfinu og telur sig ekki geta haft áhrif. Það er bara eitt atkvæði í hafsjó atkvæða. En þetta er ekki alveg svona. Það munaði til dæmis sex atkvæðum að Píratar kæmu manni inn í Hafnarfirði í síðustu kosningum. Sex atkvæðum. Þar fyrir utan er ákvarðanaferli Pírata opið og allir geta tekið þátt. Unga fólkið mun lifa með ákvörðunum sem teknar eru í stjórnsýslunni, og það er sorglegt að sjá eldra fólk sem fast er í gömlum hugmyndum, skotgröfum oft á tíðum, ákveða hvar tvítugt fólk í dag verður um fertugt. Við þurfum að virkja ungt fólk, svo það taki málin í sínar hendur og hafi áhrif á eigin framtíð.

Beint frá býli er hugmynd sem ég hef mikinn áhuga á. Bændur hafa margir gaman af að skapa og búa til. Ég man að afi bjó til sitt eigið smjör og skyr, slátraði heima og framleiddi pylsur og bjúgu. Hann mátti auðvitað ekki selja þessar afurðir, en þetta var lostæti sem fjölskyldan naut. Ég hefði gaman að því að sjá bændur fullvinna vörur og selja á bændamörkuðum í kjördæminu. Hvað er betra en að skoða það sem er í boði og smakka osta framleidda í Flóanum, lúpínuborgara framleidda á Rangárvöllum, ís frá Hveragerði, kartöflusalöt úr Þykkvabæ og matarolíu framleidda í Meðallandinu? Bændur eiga að geta fengið útrás fyrir sköpunargáfuna og neytendur eiga að geta haft meira úrval. Miðstýring landbúnaðarins er barn síns tíma. Hér í Hollandi get ég farið á bændamarkaði og keypt allskonar osta sem framleiddir eru að bændunum í héraðinu. Ég vil geta gert það sama á Íslandi. Ekki allt þarf að fara í gegn um MS eða álíka apparat.

Umhverfisvæn nýting landsins og auðævanna. Því miður er það þannig að landið virðist vera einskis vert nema því sé komið í verð. Og oft sjáum ekkert verðgildi nema framkvæmdir sem hafa umhverfisspjöll í för með sér séu framin. Við höfum virkjað ár og vötn, og getum ekki hætt. Ísland framleiðir meiri raforku en nokkurt annað land í heiminum miðað við höfðatölu, en þó á að virkja meira. Suðurlandið hefur upp á svo margt annað að bjóða. Ísland er hreint land og tiltölulega ómengað og bændur geta nýtt sér það með því að nýta umhverfisvæna tækni og markaðssetja sig á þeim forsendum. Við þurfum að vernda náttúruperlur gegn átroðningi ferðamanna, ekki með því að takmarka ágang, heldur með því að stýra honum, byggja göngustíga og aðstöðu. Nýlega birtist grein eftir mig í Dagskránni þar sem ég ræddi mennta- og fræðasetur á Eyrarbakka. Suðurland hefur upp á svo margt að bjóða og það er okkar að nýta tækifærin, og gera það vel. Í kjördæminu eru nokkrar góðar hafnir og við þurfum að sjá til, með hjálp nýju stjórnarskrárinnar, að þær hafi nóg að gera. Að miðin út af höfnunum séu þeirra og að bæjarfélögin geti nýtt sín náttúruauðævi.

Samgöngumál. Það er langt síðan malarvegurinn yfir heiðina var malbikaður. Þó eru enn margir vegir sem má bæta. Í suðurkjördæmi eru tvö samgönguverkefni sem þarf að skoða sérstaklega. Lest, eða álíka samgöngutæki milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Lestir eru dýrar og við verðum að skoða það dæmi vel og vanda okkur. Höfum við efni á verkefninu, og hentar lest íslenskum aðstæðum? Og Landeyjahöfnin. Er hún besta lausnin fyrir Vestmannaeyjar? Siglingin er töluvert styttri en sú gamla, þrír tímar í Þorlákshöfn. En Landeyjahöfn fyllist af sandi og er gríðarlega dýr í rekstri. Ég myndi vilja sjá hlutlausan vinnuhóp skoða allar mögulegar hugmyndir, svo hægt verði að tengja Eyjar við meginlandið á öruggan og ódýran hátt.

Heilbrigðismálin eru endalaust þrætuepli. Nýlega kom fram að það kosti um 6-7 milljarða að bjóða upp á gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi á Íslandi. Þetta er ekki há upphæð í stóra samhenginu, og okkur ber að reyna að finna leið til að koma þessu í framkvæmd. Einnig er ég á því að fjórðungssjúkrahús eigi að vera öflug og geta sinnt öllum helstu bráðatilfellum. Aðeins meiriháttar aðgerðir og eftirmeðferðir megi vera ástæða til að senda fólk til Reykjavíkur. Það er galið að senda fólk í lífshættu í flugferð af því það er engin almennileg bráðamóttaka utan höfuðborgarsvæðisins.

Bótakerfið er ónýtt og þarf algera endurskoðun. Öryrkjum er refsað fyrir að vinna með bótunum. Öryrki er stimpill sem skemmir sjálfstraust og stofufangelsi sem kemur í veg fyrir að fólk komist aftur á vinnumarkaðinn. Borgaralaun myndu leysa þetta vandamál, þar sem allir fá laun án stimplanna sem núverandi bætur hafa í för með sér. Það kerfi yrði þó alger bylting og gæti verið erfitt og dýrt að koma í framkvæmd. Neikvæðir tekjuskattar gætu leyst þetta vandamál, þar sem fólk sem ekki nær samþykktum lágmarkslaunum, fengi endurgreitt úr ríkissjóði. Þetta gæti komið í staðinn fyrir allar bætur, gert það kerfi töluvert léttara og ódýrara, losað fólk við öryrkjastimpilinn og gert því kleyft að koma sér smám saman inn á vinnumarkaðinn ef það hefur getu til.

Spillingin er að ganga af íslensku samfélagi dauðu. Það eru til nægir peningar í nánast allt sem við þurfum að gera, en þeir leka úr okkar sameiginlega sjóðum í vasa fólks sem þekkir rétta fólkið. Ég fermdist í Selfosskirkju í maí 1983 og Sigurður prestur (síðar biskup í Skálholti) talaði um í predikuninni að eina leiðin til að gera eitthvað á Íslandi væri að þekkja mann sem þekkti mann. Mig minnir að hann hafi sett þetta í samhengi við 14 ára krakkana sem sátu á bekknum og yrðu að búa sig undir að lifa í þessum heimi vinagreiðanna. Ekkert hefur breyst á þeim 33 árum sem liðin eru, nema að nú sjáum við spillinguna. Hún hefur flotið upp á yfirborðið. Er ekki kominn tími til að við hreinsum til svo við getum öll haft eitthvað að segja og lifað sómasamlegu lífi í þessu landi?

Jákvæðni er lífsnauðsynleg í heilbrigðu samfélagi. Eftir 26 ár verður lýðveldið 100 ára. Hvernig samfélagi viljum við búa í á þeim tímamótum? Viljum við festast í skotgrafahernaði og karpi, viljum við að ójöfnuður aukist og að reglufargan geri fólki nær ómögulegt að skapa sér atvinnu, eða viljum við jákvætt samfélag þar sem við vinnum saman að því að gera Ísland að því draumalandi sem það getur orðið? Við finnum jákvæðnina ekki með því að stinga hausunum í svarta sandinn, heldur með því að rýna í vandamálin og finna lausnir við þeim. Við þurfum ekki að vera sammála um neitt annað en að við viljum vinna saman. Við vitum hvað gerist ef við gerum það ekki.

Ég er ekki að flytja heim til að fara í stjórnmál. Ég hef aldrei séð mig sem stjórnmálamann og mun sennilega aldrei gera. Ég er að fara í stjórnmál til að hjálpa til við að skapa samfélag sem gott er að búa í. Samfélag þar sem allir skipta máli, allir hafa tækifæri til að hafa áhrif, samfélag sem stimplar fólk ekki eftir getu eða fjárhag. Samfélag sem hvetur fólk til að vera skapandi og gera það sem það er gott í. Samfélag sem er opið og jafn hreint og fallegt og landið sem það hýsir. Samfélag sem afi hefði verið stoltur af og unga fólkið getur blómstrað í.

Píratar
Píratar

Eina aflið sem getur komið þessu til leiðar eru Píratar. Þess vegna er ég að fara í stjórnmál, og þess vegna valdi ég Pírata.

Það sést kannski á þessum pistli að ég er ekki mikið fyrir að tala um sjálfan mig. Mér finnst ég ekki skipta mestu máli í samhengi framboðsins, heldur hugmyndirnar og málin sem ég stend fyrir. Ég mun þó setja inn pistil fljótlega þar sem ég tala um mig og það sem ég hef gert. Það þarf víst að fylgja. En munum að þetta snýst ekki um eitthvert okkar, heldur okkur öll.

Ég er opinn fyrir gagnrýni og hugmyndum. Hver sem er getur haft samband við mig í tölvupósti, á Facebook og við getum rætt málin á Skype. Svo hlakka ég til að hitta fólk augliti til auglitis þegar þar að kemur.

Sjáumst í haust.

Hægt er að hafa samband í tölvupósti vga[hjá]vga.is, á Facebook (https://www.facebook.com/VGAsgeirs/) eða Skype (vgasgeirs). Endilega sendið skilaboð eða póst áður en Skype er reynt, þar sem ég get verið að vinna eða fjarverandi.

Hægt er að skrá sig í Pírata hér. Það kostar ekkert.

Óttinn, unga fólkið og turnarnir

Óttinn, unga fólkið og turnarnir

Upphaflega birt í Kvennablaðinu.

Það virkar öfugsnúið að eftir því sem fleiri aflands- og spillingarmál koma upp, bæta þeir flokkar sem helst eru vafnir í þann vef við sig. Hvernig getur Sjálfstæðisflokkurinn, með tvo aflandsráðherra og fleira gott fólk innanborðs, aukið við fylgi sitt í skoðanakönnunum? Ekki er þriðjungur þjóðarinnar í samkrullinu, farandi fram hjá gjaldeyrishöftunum og felandi peninga á paradísareyjum?

Ég trúi ekki að þriðjungur þjóðarinnar sé að lýsa yfir stuðningi við spillinguna og einginhagsmunapotið. Það hlýtur að vera eitthvað annað í gangi.

Hér er mín kenning. Og hún er bara kenning og kann að vera röng.

Viðja með fána - VGA 2013
Viðja með fána – VGA 2013

Um það bil þriðjungur þjóðarinnar er hræddur við breytingar. Þessi hluti er hræddur við að umturnun á leikreglum lýðveldisins muni skapa glundroða og kippa fótunum undan stöðugleikanum sem við erum víst að njóta. Það er svo sem ekkert við því að segja. Óttinn við breytingar er skiljanlegur. Eins og þeir segja í útlandinu, better the devil you know. Það skiptir þá engu þótt heilbrigðiskerfið sé að grotna niður, að komugjöld hækki margfalt, að menntakerfið sé að molna og menntafólk geti ekki lifað af lánunum. Þessum verðtryggðu lánum sem seint tekst að borga upp. Það skiptir ekki máli að við lifum við gjaldeyrishöft, þau okkar sem eiga enga peninga. Ekki heldur að vextir af húsnæðislánum hér séu fjórum sinnum hærri en í nágrannalöndunum. Óttinn við breytingar er svo sterkur að fólk lætur bjóða sér næstum hvað sem er. Allt fyrir stöðugleikann og óbreytta ástandið.

Lengi vel var um tvo turna að velja. Sjálfstæðisflokkinn og Pírata. Margir eru hræddir við Pírata, því þeir eru birtingarmynd breytinganna sem fólk er hrætt við. Það skiptir ekki máli þótt breytingarnar séu ný stjórnarskrá sem festir í sessi lýðræðisumbætur, eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og betri vinnureglur fyrir Alþingi. Fólk starir á þá staðreynd að ný stjórnarskrá sé Ísland 2.0 og það telur að Ísland 1.1 væri kannski ekki eins hættulegt.

Annað vandamál Pírata er að margir misskilja þá. Flokkurinn virkar róttækari en hann er. Eitt dæmi er tillaga um að losa um öll höft á leiguakstri. Allir sem eiga bíl gætu notað hann til að keyra aðra gegn gjaldi. 600 leigubílstjórar brjáluðust og hatur á flokknum varð landlægt innan stéttarinnar. Það kom svo á daginn að tillagan var hugarfóstur eins manns, hún var ekki nógu vel unnin og rökstudd og var hafnað af flokksmeðlimum. Auðvitað hefði verið einfaldast fyrir leigubílstjóra að hafa bein áhrif á ferlið, en þeir gerðu það fæstir. Hafa sennilega talið það vera erfitt, að þetta væri mál sem þeir gætu ekki haft áhrif á. Við erum nefninlega vön því að hlutirnig gerist bara án þess að við séum spurð álits. Málið er þó að allar stefnur og tillögur að stefnum innan Pírata eru opnar og hægt er að ræða þær fram og aftur, þar til kosið er um þær.

Að lokum eru innanflokkserjur ekki að hjálpa til. Þær eru að mestu gengnar yfir, en skaðinn er skeður. Þegar áhrifafólk innan flokksins notar fjölmiðla til að rífast um merkingu orðalags, nýta þeir fjölmiðlar sem hliðhollir eru óbreyttu ástandi tækifærið og magna þessi mál. Það sem byrjar sem orðaskipti á Pírataspjallinu – sem er löngu hætt að vera vettvangur pírata – endar oft sem flennifyrirsagnir í engu samhengi við það sem sagt var.

Turnarnir tveir eru því valtir. Annan geta margir ekki hugsað sér að kjósa því hann er útataður í spillingu. Hinn eru margir hræddir við. Þess vegna hefur þriðji turninn verið að vaxa.

VG hafa sloppið við aflandsmálið. Formaðurinn er sjarmerandi. Þeim sem ekki hugnast fyrri turnarnir fara til VG. Þeir eru lausir við aflandsstimpilinn, en eru samt gamaldags stjórnmálaflokkur sem fólk skilur. Það er því skiljanlegt að margir fari þangað. Aðrir flokkar virðast vera mikið til stefnulausir og fylgislausir. Það er ekkert annað í stöðunni en þessir þrír turnar.

Hver leiðir næstu ríkisstjórn fer eftir tvennu. Muni unga fólkið mæta á kjörstað, er líklegt að Píratar verði stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Það yrði því rökrétt að Píratar mynduðu stjórn með VG. Mæti unga fólkið ekki, er líklegra að Sjálfstæðisflokkurinn verði sterkari og þá er spurningin hvort VG vilji fara í stjórnarsamstarf með þeim.

Það er því unga fólkið og VG sem ákveða hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út.

Bloggið – 10 ár

Bloggið – 10 ár

Það var á þessum degi fyrir tíu árum að ég skrifaði mitt fyrsta blogg. Áhuginn hafði verið fyrir hendi í einhvern tíma, en það var ekki fyrr en Mogginn fór að bjóða upp á bloggsvæði sem ég lét slag standa. Í fyrstu var þetta bara tilraun, en það breyttist fljótlega.

Verði blogg...
Verði blogg…

Fyrsta færslan var um bloggið. Þar tókst mér að guðlasta og blanda Önnu Frank í dæmið, önnur færsla var um stuttmynd sem ég var að undirbúa tökur á og þriðja um mansal í tengslum við fótbolta. Eftir það fór ég að nýta bloggið til að gagnrýna stóriðjustefnuna, það var pallur sem ég notaði til að hrópa af í hruninu og í kjölfarið. Við bloggararnir tengdumst, urðum bloggvinir. Ég kynntist frábæru fólki eins og Láru Hönnu, Birgittu Jónsdóttur, Jórunni Sigurbergsdóttur og mörgum öðrum. Ég tel margt af þessu fólki nú til vina og lífið er skemmtilegra og meira spennandi fyrir vikið.

Bloggvinir
Bloggvinir

Moggabloggið virkaði vel í mörg ár. Þangað til Davíð varð ritstjóri. Hans áherslur voru annars staðar og bloggkerfið fór að safna ryki. Ofstæki og persónuárásir urðu tíðari í athugasemdum og bloggið missti mikið af sjarmanum sem það hafði haft. Á tímabili var ég mest lesni bloggarinn á Moggablogginu, en andinn var breyttur og ég fór. Ég setti upp blogg á eigin síðu, skrifaði á ensku, en setti af og til færslur inn á íslenska bloggið. Þær voru þó sjaldgæfar.

2012 setti ég upp mína eigin síðu á íslensku. Þessa sem þú ert að lesa. Ég hef verið að dunda mér við að setja gömlu moggafærslurnar inn svo allt sé á einum stað. Það er mikið verk og klárast þegar það klárast.

Moggabloggið
Moggabloggið

Í fyrstu færslunni, fyrir réttum tíu árum, spurði ég „Mun ég halda þetta út lengur en í viku?“. Það hefur tekist. Það er gaman að fletta í gegnum gömlu færslurnar. Skoða hvernig skoðanir og áherslur hafa breyst. Á tímabili var ég harður ESB andstæðingur, en sé nú kosti og galla við aðild og finnst að þjóðin eigi rétt á upplýstri umræðu og atkvæðagreiðslu um málið. Ég var skeptískur á nýju stjórnarskrána, en eftir að hafa lesið hana í gegn, hef ég snúist og finnst hún vera mikilvægasta verkefni sem framundan er. Sumt hefur þó ekki breyst. Fjórða færslan, þann 5. maí 2006, hét Nárapúkar. Hún fjallar um álfa sem ferðast til Reykjavíkur til að mótmæla því að borg þeirra sé sökkt. Umfangsefnið var Kárahnjúkar, sem þá voru í byggingu. Náttúruvernd var og er ein af grunnhugmyndunum sem ég lifi eftir.

Það sem ég hef kannski helst lært af blogginu er að þó allt breytist, áherslur og skoðanir, er alltaf undirliggjandi sannfæring sem breytist aldrei. Þessi þrá eftir sanngirni og virðingu við land og þjóð. Það má vel vera að einhver muni einhverntíma finna færslu sem fer beint á sannfæringu mína núna eða í framtíðinni, en ég er sannfærður um að breyttar skoðanir séu til komnar vegna meiri upplýsinga.

Margt hefur gerst á þessum tíu árum síðan fyrsta færslan var skrifuð. Það væri gaman að lesa í gegn um þetta allt einhvern daginn. Sjá hvað var að gerast og hvað mér fannst um þau mál á þeim tíma. Kannski næ ég að gera það í ellinni. Þá sit ég í ruggustólnum og les færslur síðustu 40 ára, því það er á hreinu að ég er ekkert að fara að hætta þessu. Það er okkar allra að sjá til þess að samfélagið haldi áfram að vera frjálst, að við getum haldið áfram að tjá okkur í friði fyrir yfirvöldum og að við höfum rétt á að móta eigin skoðanir og skipta um skoðanir ef nýja upplýsingar fást.

Þess vegna er það algert forgangsmál að tjáningarfrelsið verði tryggt um alla framtíð. Við getum ritskoðað okkur sjálf, en yfirvöld eiga aldrei að gera það.

Sjáumst á netinu.

Vilja Píratar breyta fánanum?

Vilja Píratar breyta fánanum?

Eftirfarandi var sett inn á Pírataspjallið í kvöld.

Viljið þið leggja niður íslenska þjóðfánann vegna þess að kross er megininntak hans? Viljið leggja niður íslenska þjóðsönginn vegna þess að megininntak hans er lofsöngur til Guðs og Íslands? Viljið þið leggja niður forsetaembættið, það eina sem þjóðin kýs beint. Viljið þið eyðileggja það sem forfeður og mæður stóðu fyrir í nafni fjölmenningar og eyða menningargildum þjóðar okkar? Fátt eitt spurt en fleira á eftir að koma.

Svörin eru einföld og ekki flókið að finna þau ef fólk skoðar stefnu flokksins.

Merki Pírata
Merki Pírata

Nei, Píratar hafa engan sérstakan áhuga á að breyta þjóðfánanum. Þetta hefur, mér vitanlega, aldrei verið rætt á fundum og hefur aldrei verið sett fram sem stefna. Mér vitanlega er það heldur ekki ætlunin. Það eru mikilvægari mál sem þarf að taka á.

Nei, Píratar hafa engan sérstakan áhuga á að breyta þjóðsöngnum. Einhverjir einstaklingar í þjóðfélaginu hafa gert athugasemdir við að hann sé lofsöngur til Guðs, en þessar athugasemdir koma ekki frá Pírötum. Það er að segja, þeir sem vilja breyta þjóðsöngnum eru að lýsa eigin sannfæringu, ekki stefnu flokksins, enda hefur flokkurinn enga stefnu í málinu og ekki allir sem gagnrýna þjóðsönginn píratar.

Píratar styðja frumvarp um nýja stjórnarskrá sem samin var af Stjórnlagaráði 2011 og samþykkt af þjóðinni 2012. Þar segir að forseti skuli sitja mest þrjú kjörtímabil. Það er ekki stefna Pírata að leggja embættið niður.

Píratar vilja ekki „eyðileggja það sem forfeður og mæður stóðu fyrir í nafni fjölmenningar og eyða menningargildum þjóðar okkar“. Þvert á móti, vilja Píratar varðveita það samfélag sem fyrri kynslóðir byggðu upp. Píratar vilja hinsvegar verja mannréttindi allra til að iðka sína trú og lifa sínu lífi í sátt við samfélagið. Á sömu nótum, er það ekki stefna Pírata að galopna landamærin, eins og sumir virðast halda.

Svo er sagt að fleira muni koma. Vonandi verða þær staðhæfingar í einhverjum tengslum við raunveruleikann og stefnu Pírata. Ef við erum að gera eitthvað rangt, viljum við vita af því. Við ætlumst til að okkar stefur og áherslur séu gagnrýndar og endurskoðaðar ef með þarf. Það væri þó óskandi ef gagnrýnin væri byggð á staðreyndum.

Samsæriskenning

Samsæriskenning

Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið forseti í 20 ár. Hann sagðist vera hættur og 15 manns buðu sig fram. Hann hætti við að hætta (aftur) og fór fram. Enginn bauð sig fram gegn sitjandi forseta, sitjandi forseti fór fram gegn öðrum. Kannski gegn þjóðinni.

Hann ber fyrir sig óstöðugleika í þjóðfélaginu. Hann virðist ekki fatta að þetta er Ísland og óstöðugleiki hefur alltaf verið fyrir hendi. Óstöðugleikinn minnkaði ekkert við það að hann varð forseti. Síðustu 20 ár hafa verið rússibani þenslu og kreppu, eins og árin þar á undan. Munurinn er að efnahagurinn hrundi algerlega á hans vakt og gerendurnir voru menn sem hann hafði nælt orðum á og sopið kampavín með. Hann var ekki samnefnari fyrir stöðugleika þá og hann er það ekki núna.

Hann virðist vera pínulítið úr takti við raunveruleikann. Hann sá þúsundir mótmæla ríkisstjórninni á Austurvelli og misskildi mótmælin sem meðmæli með sjálfum sér.

Forsetinn sem misskildi mótmælendur
Forsetinn sem misskildi mótmælendur

Hann er að misskilja mótmælendur. Það var ekki verið að klappa hann upp í sjötta skiptið. Það var verið að krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar. Þetta hafði ekkert með hann að gera, en hann tók þetta til sín á kolröngum forsendum. Þetta voru mótmæli gegn gamla Íslandi óstöðugleikans og spillingarinnar, gamla kerfinu sem hann tilheyrir. Þetta voru ekki mótmæli gegn forsetanum, en þetta var sannarlega ekki uppklapp með von um meira.

Nema hann sé ekki að misskilja neitt. Kannski vill hann ekki að Nýja Ísland verði til. Kannski er hann tilbúinn til að gera hvað sem er til að koma í veg fyrir breytingar. Kannski er hann tilbúinn til að ganga svo langt að hægt sé að kalla það samsæri gegn þjóðinni.

Segjum sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar fái flest atkvæði í komandi alþingiskosningum. Flest bendir til að flokkarnir fái báðir í kring um 30% atkvæða. Verði munurinn nógu lítill, getur forsetinn ákveðið hver fær umboð til stjórnarmyndunar. Þegar enginn einn flokkur fær yfirburðakosningu, ræður forsetinn hver myndar stjórn.

Stærsti munurinn á flokkunum tveimur er nýja stjórnarskráin. Ólafur Ragnar er á móti nýju stjórnarskránni. Hann vill alls ekki að hún verði afgreidd af Alþingi. Það hefur hann sagt ítrekað og hér eru tvö dæmi, annað frá 2012 og hitt frá þingsetningu 2015.

Hvor flokkurinn fær stjórnarmyndunarumboðið? Flokkurinn sem setur stjórnarskrármálið í algeran forgang eða flokkurinn sem vill halda í þá gömlu?

Val forsetans getur þýtt nýja stjórnarskrá og nýja tíma. Eða áframhaldandi „stöðugleika“ í skjóli gömlu stjórnarskránnar. Meira af því sama. Ofurvöxtum, spillingu, ógagnsæi, lítilli rentu fyrir auðlindirnar, áframhaldandi stóriðjustefnu.

Fái Sjálfstæðisflokkur og Píratar svipaða kosningu, skiptir öllu máli hvor þeirra kemst í stjórn. Þetta veit Ólafur Ragnar Grímsson.

Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér. Við sjáum til. Ef Píratar fá örlítið betri – eða mjög svipaða – kosningu og Sjálfstæðisflokkurinn, en ekki umboð til stjórnarmyndunar, þá vitum við hvað klukkan slær. Þá vitum við að valdaránið er fullkomnað.

Þá vitum við að forsetinn fór fram gegn þjóðinni.

Beint lýðræði?

Beint lýðræði?

Við búum í lýðræðissamfélagi, sem betur fer. Þjóðin fær að taka þátt í ákvarðanatökum og hafa áhrif á framtíð sína. Að takmörkuðu leyti þó. Við megum kjósa okkur fulltrúa á fjögurra ára fresti, en höfum lítil áhrif þess á milli. Þetta er betra en ekkert, en langt í frá fullkomið.

Beint lýðræði þar sem öll þjóðin gæti sagt álit sitt á öllum málum væri fullkomið lýðræði. Það yrði þó erfitt í framkvæmd. Það hafa ekki allir áhuga á öllum málefnum og fólk með sterkar skoðanir gæti haft of mikil áhrif. Þetta getur verið af hinu góða, en getur líka gefið öfgafólki of mikil völd. Þar sem þáttaka í atkvæðagreiðslum yrði sennilega ekki há, yrði einfalt að smala saman fólki til að koma málum í gegn, og ekki öll mál eru góð.

Íslensk sveit sem tengist færslunni ekki beint
Íslensk sveit sem tengist færslunni ekki beint

Annað vandamál er framkvæmdin. Hefðbundnar kosningar eru dýrar í framkvæmd og það tæki of langan tíma að koma málum í gegn. Kosningaþreyta myndi tæra kerfið og það á endanum falla um sjálft sig. Rafkosningar gætu leyst þetta vandamál að einhverju leyti, en tölvukerfi eru yfirleitt ekki hönnuð til að vera leynileg. Persónuvernd yrði vandamál og fólk gæti ekki treyst því að þeirra atkvæði væri leynilegt og órekjanlegt.

Það eru því þrjú vandamál sem standa í vegi fyrir beinu lýðræði. Það er dýrt í framkvæmd ef það á að vera fullkomlega leynilegt, það er auðveldlega misnotað ef smölun fer fram þegar fólk er orðið leitt á að kjósa um öll mál og það er engin trygging fyrir því að kosningar væru leynilegar ef þær færu fram á netinu.

Sennilega myndi einhverskonar blanda af fulltrúa- og beinu lýðræði virka best. Vefsíða yrði sett upp af ríkinu, þar sem allir á kjörskrá gætu skráð sig inn með Íslykli, gegn um heimabanka eða með auðkenni sem ríkið gæfi út. Þar yrðu þingmál á dagskrá útskýrð og útlistuð. Fólk gæti lesið sér til og kynnt sér þingmálin og hakað við þau mál sem því finnst eigi að fara í þjóðaratkvæði. Þetta yrði ekki „já“ eða „nei“, heldur eingöngu staðfesting á að viðkomandi vildi að kosið yrði um málið. Nái mál nógu mörgum „hökum“, yrði kosið um það á vefnum. Alþingi myndi kjósa um mál sem ekki yrðu hökuð nógu oft. Það er líklegt að mikil deilumál veldust í þjóðaratkvæðagreiðslu, en flest yrðu afgreidd eins og gert er í dag, af þingmönnum. Þetta myndi líka gefa þjóðinni tækifæri til að taka til sín mál þar sem Alþingi virðist vera úr takti við þjóðina.

Einnig mætti nota vefinn til að koma málefnum á framfæri við þingið. Nái það nægum stuðningi, yrði Alþingi að taka það til umræðu. Það er farið inn á þetta í nýju stjórnarskránni og hefur verið nýtt á vefnum Betri Reykjavík.

Missi ríkisstjórn traust þjóðarinnar, gæti þjóðin sett fram vantrauststillögu á vefnum. Fái sú tillaga vissan stuðning (hugsanlega 30% kosningabærra*), yrðu kosningar að fara fram. Hluti þjóðarinnar gæti því farið fram á kosningar og neytt ríkisstjórnina til að endurnýja umboð sitt.

Vefurinn yrði að vera vel gerður, því kerfið er einskis virði ef fólk nennir ekki að nýta sér það. Beint lýðræði virkar bara ef fólk tekur þátt í því.

Það virðist vera heppilegast að nýta netið til að koma á beinna lýðræði en nú er, en það verður þá að vera algerlega á hreinu að vefurinn haldi einungis utan um þær persónuupplýsingar sem þörf er á, og engar aðrar. Vefurinn myndi geyma upplýsingar um að viðkomandi einstaklingur hafi kosið um viss málefni, en ekki hvernig hann kaus.

Birgitta Jónsdóttir er nú á ráðstefnuni D-CENT sem fjallar um beint lýðræði. Þar koma fram athyglisverðar hugmyndir sem vert er að skoða. Framtíðin er spennandi.

* 30% virðist mér vera eðlilegt hlutfall, en það yrði að skoða og rökræða. Hlutfallið verður að vera nógu hátt til að ríkisstjórnir verði ekki reknar trekk í trekk, en þó ekki svo hátt að ákvæðið yrði ónothæft.

Vinstri, hægri, snú snú

Vinstri, hægri, snú snú

Katrín Jakobsdóttir var sögð tala fyrir því að Píratar þyrftu að ákveða hvar á vinstri-hægri rófinu þeir væru. Fyrirsögnin var villandi, en hafði tilætluð áhrif. Fréttinni var póstað á Pírataspjallinu og líflegar umræður hófust. Næstum allir sem tjáðu sig höfnuðu því að flokkurinn ætti að skilgreina sig, setja sig á rófið. Ég er sammála og hér eru mínar ástæður.

Vinstri og hægri á rætur að rekja til frönsku byltingarinnar þar sem konungssinnar settust hægra megin í þingið en byltingarsinnar vinstra megin. Þaðan er þessi skilgreining komin. Vinstri eru róttækir og hægri eru íhaldssamir. En þetta stenst ekki alveg skoðun.

2013-08-12 at 15-48-40Vinstri flokkar hafa átt það til að aðhyllast forræðishyggju. Þessu hafna Píratar og eru því hægra megin við miðju. Vinstri flokkar trúa á stórkt og sterkt ríki sem sér um þegnana. Píratar vilja einfalda ríkisrekstur og ekki flækjast fyrir fólkinu í landinu að óþörfu, og eru því hægra megin við miðju.

Hægri flokkar hafa skilgreint sig sem frjálshyggjuflokka, þar sem markaðurinn sér um sig sjálfur og ósýnilega höndin leiðréttir villur í kerfinu. Það hefur sýnt sig að þetta stenst ekki skoðun, þar sem fjársterkir aðilar eru í stöðu til að verða ríkari á kostnað verkafólks. Píratar vilja að allir hafi jöfn tækifæri, að heilbrigðis- og bótakerfin séu réttlát og að frumskógarlögmálið eigi ekki við. Þar eru Píratar vinstra megin.

Ef ég tek sjálfan mig sem dæmi, er ég bæði hægri og vinstra megin. Það fer eftir málefninu. Ég get ekki sett sjálfan mig á einhvern punkt á rófinu, því í sumum málum er ég argasti vinstri maður en í öðrum er ég hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn. Ég get þó sett málefni á rófið. Heilbrigðiskerfið á að vera frítt og jafn aðgengi allra tryggt. Ég myndi því setja heilbrigðismáli vinstra megin. Ekkert að því að einhver hluti þess sér einkarekinn, en þá undir eftirliti og í takt við stóra samhengið. Er það hægri eða vinstri? Eins með öryrkja og annað fólk sem getur lítið sem ekkert unnið. Það fólk á rétt á mannsæmandi lífi og ríki og sveitarfélög eiga að sjá til þess að öryrkjar, atvinnulausir og aldraðir geti átt í sig og á. Þetta yrði vinstra megin við miðju. Ríkið á líka að hætta að refsa fólki sem getur unnið takmarkað fyrir að gera það. Með því að þviinga öryrkja og ellilífeyrisþega til að sitja heima af ótta við að missa bæturnar erum við að búa til hóp fólks sem þorir ekki að taka þátt í samfélaginu. Er það hægri eða vinstri?

Fyrirtæki eiga að geta staðið undir eigin rekstri. Ríkið á ekki að styrkja fyrirtæki nema í algerum undantekningatilvikum, til dæmis þegar um rannsóknir og nýsköpun er að ræða. Þetta er hægra megin við miðju. Ég er mótfallinn vaxta- og húsaleigubótum því þær gera ekkert annað en hækka fasteignaverð og leigu. Við erum föst í því kerfi og getum ekki losað okkur við það sársaukalaust, en ég er á því að þessar bætur hafi verið mistök. Þetta er vel hægra megin við miðju. Að stórfyrirtæki eigi aldrei að fá afslátt eða styrki frá ríkinu er hægra megin við miðju, en þó hafa hægri stjórnir ríkisstyrkt ótal fyrirtæki sem hefðu átt að bera sig sjálf.

Auðlindirnar eiga nær undantekningalaust að vera í almannaeigu. Það er vinstri, en ég myndi vilja sjá nýtingarréttinn boðinn út og það er hægri.

Ég get því sett einstök mál á rófið, en ég get ekki sett sjálfan mig á einhvern einn stað. Ég reyni að styðjast við heilbrigða skynsemi og met hvert mál fyrir sig. Stjórnmál eru nefninlega ekki boltaleikur þar sem maður heldur með sínu liði. Þau eru mikilvægari en það, og það væri glapræði að taka ákvarðanir byggðar á hægri-vinstri rófinu. Ef ég get ekki staðsett sjálfan mig, hlýtur að vera vonlaust að staðsetja heilan stjórnmálaflokk sem mælist með 30% fylgi. Mér dytti ekki í hug að njörva þriðjung þjóðarinnar niður á mælistiku sem hefur lítið annað gildi en að skipta fólki í lið.

Píratar þurfa því ekkert að skilgreina sig á rófinu. Þeir þurfa að halda áfram að meta hvert mál fyrir sig og komast að niðurstöðum sem þjóðinni í vil. Íslensk stjórnmál hafa verið bjánalegur skotgrafarhernaður frá stofnun lýðveldisins og því þarf að breyta. Hleypum heilbrigðri skynsemi af og losum okkur við gamla stimpla sem ekkert gera nema sundra okkur.

Stjórnarskrá: Að Reka Ríkisstjórn

Stjórnarskrá: Að Reka Ríkisstjórn

Síðasta vika hefur verið viðburðarík. Þrír ráðherrar hafa verið staðnir að því að hafa átt fyrirtæki í skattaskjólum. Forsætisráðherra sagði af sér eftir misheppnaða tæklun og „ný“ stjórn tók við. Nema að þessi stjórn er ekki ný. Þetta er sama fólkið. Það hangir á völdum eins og hundur á roði.

Það þarf nefninlega að ljúka mikilvægum verkefnum. Einkavæðing Landsnets er kannski fyrsta stóra verkefnið sem þarf að klára. Miðað við það sem á undan er gengið, efast ég ekki um að nýir eigendur verði vel valdir.

Þjóðin vill ekki þessa stjórn. Hún treystir henni ekki og vill kosningar. Stjórnarandstaðan bar fram vantrauststillögu, en þar sem ríkisstjórnin er í meirihluta, var tillagan felld.

Hljómar furðulega, en það er stjórnarinnar að dæma um hvort henni sé treystandi.

Það er víst engin önnur leið nema að bera fram vantraust og vona að sitjandi ríkisstjórn treysti sjálfri sér ekki.

Jú, fólk getur staðið úti á grasi í öllum veðrum, barið á tunnur, veifað bönunum og öskrað, en það er stjórnarliða sjálfra hvort þeir láti það hafa áhrif á sig.

Núvernandi stjórnarskrá minnist ekki einu orði á vantraust. Hún gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að reka ríkisstjórn. Sú nýja, sem samin var 2011, samþykkt af þjóðinni 2012 og drepin af þingmönnum 2013, minnist á vantraust. Sérstaklega í 91. grein.

91. gr. Vantraust

Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra. Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.

Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

Stjórnarskrá afhent
Stjórnarskrá afhent

Hér er það aftur ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort henni sé treystandi.  Það er því ómögulegt að reka ríkisstjórn, og það mun ekki breytast nema það verði sérstaklega gefið tækifæri til þess í nýrri stjórnarskrá.

Við verðum að koma í veg fyrir farsa og hálfgert valdarán eins og við urðum vitni að nú í vikunni. Þetta má ekki gerast aftur. Ef þjóðin vill stjórnina burt, á hún að geta rekið stjórnina. 66. grein nýrrar stjórnarskrár hljómar svona.

66. gr. Þingmál að frumkvæði kjósenda

Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.

Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.

Svipaða grein mætti skrifa, þar sem þjóðinni er gefið tækifæri til að kalla til kosninga. Þetta má ekki verða tæki stjórnarandstöðunnar til að fella stjórnir trekk í trekk, svo það yrðu að vera varnaglar á. Til dæmis mætti setja lágmark undirskrifta við þriðjung kjósenda. Það er erfitt að safna svo mörgum undirskriftum og myndi sennilega ekki takast nema gríðarleg óánægja væri í samfélaginu. Eins og nú.

Ég er ekki lögfræðingur. Kannski er ég að missa af einhverju ákvæði, en ef svo er ekki, þá þarf að koma þessu inn í stjórnarskrána. Það þarf að gefa þjóðinni tækifæri til að reka ríkisstjórn sem er fullkomlega rúin trausti.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube