Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
sjálfsmorð – Villi Asgeirsson

Browsed by
Tag: sjálfsmorð

Krakkar, þið eruð klisja

Krakkar, þið eruð klisja

Aðdragandi kosninga er eins og vorið. Loforð um betri tíð með blóm í haga. Sterkara heilbrigðiskerfi sem fólk hefur efni á, lækkandi skatta með hækkandi sól, blóm í hnappagötum eins og fíflar í túni, menn í lopapeysum kyssandi börn fyrir framan myndavélar.

Og unga fólkið. Þessi furðudýr sem hugsa öðruvísi en miðaldra stjórnmálamennirnir, þessar kynjaskepnur sem þarf að skilja svo hægt sé að hala þær inn eins og fiska á öngli. Miðaldra pólitíkusinn stúderar bráðina svo hann geti veitt hana.

Barnið við styttuna (VGA 2013)
Barnið við styttuna (VGA 2013)

Það er bara eitt sem gengur ekki upp í þessu dæmi. Unga fólkið er ekki önnur dýrategund sem þarf að skilja. Unga fólkið er fólk með nokkurn vegin sömu þarfir og miðaldra fólk. Það er ekkert erfitt að skilja unga fólkið, nema maður hafi misst tengslin við eigin fortíð og sé búinn að gleyma hvernig var að byrja sjálfstætt líf, eða ef maður hefur aldrei verið þar og aldrei þurft að hafa fyrir neinu.

En allavega…

Krakkar, þið eruð klisja. Eða allavega hluti af stærri klisju.

Fyrir kosningar er talað um ykkur. Talað um að hlusta á ykkur, því þið eruð víst svo frábrugðin okkur gamla fólkinu að við getum ekki sett okkur í ykkar spor. Ykkur er lofað hinu og þessu. Betra LÍNi, fleiri leikskólum, betri framtíð með blóm í haga, betra heilbrigðiskerfi… og allt það. Þið þekkið þetta. Miðaldra mennirnir ætla að gefa ykkur dót til að leika með. Þeir ráða þessu. Þið munið bara að kjósa þá. Eða kjósa ekki, því eldra fólkið sér um þetta með því að kjósa sama gamla aftur og aftur.

Önnur klisja er að þið virðist gleypa við þessu. Virðist allavega ekkert vera að pæla neitt sérstaklega í því. Klisjan er að ungt fólk taki ekki þátt í stjórnmálum. Mörg ykkar láta hlutina bara gerast, annað hvort vegna áhugaleysis eða uppgjafar.

Uppgjöfin er skiljanleg. Hér varð hrun. Mamma og pabbi misstu kannski húsið, frændi framdi sjálfsmorð, afi dó eftir að hafa legið á ganginum á spítalanum vegna peningaskorts og myglusvepps og amma er orðinn farandelliheimilismatur því það er alltaf verið að flytja hana. Hún er ennþá sár yfir að hafa ekki fengið að búa með afa síðustu árin, því hann var veikur en hún ekki. Eina manneskjan sem virðist lifa þokkalegu lífi er frænka sem flutti til útlanda. Hún segir allavega að hún hafi það ágætt. Það er örugglega þannig, því allt er betra en þetta sker miðaldra (og þaðan af eldri) karla. Kannski maður flytji bara út.

Áhugaleysið er samt eiginlega stærra vandamál. Stjórnmál eru leiðinleg, miðaldra karlarnir eru leiðinlegir og þetta virðist ekki vera neitt nema tuð og rifrildi fólks sem á nóg af peningum. Alvörugefnir talandi hausar í sjónvarpinu þykjast vita allt og kunna allt. Boring. Stjórnmál eru samt ekki alveg þannig. Stjórnmál snúast um að hafa áhrif á samfélagið, stýra því í átt til framtíðar. Fólkið sem tekur þátt í stjórnmálum og kýs í kosningum hefur áhrif á framtíðina. Fólk sem nennir ekki að spá í þetta hefur engin áhrif.

Stjórnmál snúast ekki bara um leiðinleg mál eins og fjárlög sem enginn skilur hvort eð er. Þau snúast um stefnu samfélagsins. Stjórnmál nútímans hafa áhrif á framtíðina. Og þá er spurningin. Hver á að ákveða hvernig framtíðin lítur út? Miðaldra karlar, karlar sem ættu að vera að skríða á eftirlaun eða fólkið sem þarf að lifa í framtíðinni sem er sköpuð í dag?

Munum að það vantaði sex atkvæði á að Píratar kæmu inn manni í Hafnarfirði um árið. Sex atkvæði. Ég er ekkert að tala um Pírata, en þetta sýnir að örfá atkvæði geta haft áhrif.

Við getum haldið áfram á sömu braut. Haldið áfram að pæla ekkert í miðaldra körlunum sem lofa „unga fólkinu“ einhvers. Við getum haldið áfram að styðja (beint með atkvæðum eða óbeint með því að kjósa ekki) við gamla bitlingasamfélagið þar sem okkur er lofað hinu og þessu en það svo tekið af okkur strax eftir kosningar þegar stjórnarsamstarf er í húfi. Við getum leyft þeim að hola heilbrigðis- og menntakerfin að innan og lækka framfærsluviðmið LÍN eftir hentugleika.

Við getum líka tekið völdin sjálf. Unnið í hugmyndum um beint lýðræði, fundið lausnir á framfærslukosnaði í námi, reynt að koma vaxtaprósentunni á húsnæðislánum niður í það sem þekkist í löndunum í kring um okkur (þau eru nú 4x hærri á Íslandi en í ESB).

Unga fólkið þarf að vakna. Taka þátt í að skapa eigin framtíð, koma með hugmyndir, kjósa flokka sem virkilega virðast ætla að breyta einhverju. Taka þátt.

Það er nefninlega þannig að breytingar eru ekki endilega slæmar. Við þurfum ekki að vera hrædd. Eftir langan vinnudag er gott að breyta til og fara heim. Eftir 72 ár af því sama, er kannski kominn tími til að breyta til og gera íslenskt samfélag réttlátara og jákvæðara.

Unga fólkið getur breytt samfélaginu. Miðaldra karlarnir eru fastir í gamla farinu. Þeir eru ekki að fara að breyta neinu.

Krakkar, takið til hendinni. Takið þátt, kjósið. Skiptir ekki máli hvað, á meðan þið kjósið.

Ekki gera ekki neitt. Ekki vera áhugalaus um framtíðina. Hún er ykkar, ekki þeirra. Takið það sem ykkur ber. Hafið áhrif. Takið þátt.

Ekki vera klisja.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Vér erum fýlli en…

Vér erum fýlli en…

Vert er að athuga hvernig hægt er að auka hamingju landsmanna svo hægt sé að skattleggja hana.

Þrír hagfræðingar hafa fundið það út að íslendingar eru farnir í fýlu. Við erum allavega ekki eins hress og við vorum meðan við áttum sand af seðlum. Peningar auka þó ekki hamingjuna, samkvæmt kenningum þeirra. Óhætt er þó að gera ráð fyrir að þeir hafi fengið greitt fyrir að hafa unnið skýrsluna.

Kannski er ég að sanna þeirra mál með því að tuða.

Finnar eru næsthamingjusamasta þjóð í heimi. Þó eru þeir þekktir fyrir að vera þungyndir og hafa það tómstundagaman (gaman hér notað vegna málhefðar og skal ekki taka bókstaflega) að fremja sjálfsmorð. Kannski það sé bara ímyndin sem er að flækjast fyrir þeim, nema þeir séu bara nokkuð góðir og hafi bara gaman af iðjunni.

Hollendingar eru í fjórða sæti. Þeir eru verstu tuðarar sem sögur fara af. Segja það sjálfir. En kannski er bara skemmtilegra að tuða en velta sér upp úr jákvæðu hliðum lífsins.

 

Staðreyndin er þó sú að við erum á hraðferð niður þennan vinsældalista eins og úr sér gengið verksmiðjupopp sem er orðið þreytandi vegna síspilunar.

Ég trúi svo sem alveg að íslendigar séu pirraðri en þeir voru fyrir hrun. Það er frekar að ég eigi erfitt með að trúa að við höfum verið hamingjusöm fyrir hrun. Við dunduðum okkur nefninlega við að tuða yfir öllu og öllum þá eins og nú. Við vorum iðin við að klára dæmið þó finnarnir hafi kannski fengið heðiurinn fyrir það.

Hvað um það. Ég bý í landinu sem er í fjórða sæti. Sá að kassinn af Hertog Jan bjór er á tilboði útí búð. Kostar átta evrur. Ætla að fara að kaupa í matinn og njóta þess að vera hamingjusamari en landar mínir sem enn húka á eyjunni gömlu.

Viska hagfræðinganna: http://www.visir.is/islendingar-ekki-lengur-i-hopi-hamingjusomustu-thjodanna/article/2012120409775

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube