Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
panamaskjöl – Villi Asgeirsson

Browsed by
Tag: panamaskjöl

Velferðarsamfélagið og niðurskurðurinn

Velferðarsamfélagið og niðurskurðurinn

Tækniframfarir og niðurskurður eru tvö orð sem eru alltaf í umræðunni.

Tækninni fleygir fram. Við erum sítengd. Úrið getur mælt hjartslátt og blóðþrýsting, og látið vita ef eitthvað er ekki í lagi. Ég get lesið The Sydney Morning Herald um leið og það kemur út, þótt það sé gefið út hinumegin á hnettinum. Síminn minn er öflugri en tölvan sem ég átti um aldamót.

Tækniframfarir eru hraðar og þær hafa gjörbreytt lífi okkar.

Niðurskurður er hitt orðið sem við heyrum á hverju ári. Það þarf að loka sjúkrahúsdeildum, jafnvel heilum sjúkrahúsum. Bætur eru skornar niður. Öll opinber þjónusta er skorin niður því það er svo dýrt að reka hana.

Samt gátum við rekið hana með mikið meiri reisn áður en hún var skorin niður.

Maður hefði haldið að tækniframfarir gerðu niðurskurð óþarfan. Allavega að þjónustustigið myndi ekki lækka. En það er ekki svo. Það sem samfélagið gat gert fyrir þegnana fyrir 10 árum, 20, 30 og 40, er ekki lengur hægt. Það er of dýrt. Það eru engir peningar til sem hægt er að dæla í öryrkja, atvinnulausa, sjúklinga og annað fólk sem getur ekki unnið fyrir sér.

Það eru engir peningar til.

Af því að allir sem geta hagnast á einhverju í þessu landi virðast þurfa að stinga öllu undan og fela það í skattaparadísum þar sem aumingjarnir ná ekki til.

Spilling
Spilling

Það eru engir peningar til, því það er búið að stela þeim öllum. Löglega.

Það hefur ekkert upp á sig að reyna að búa til betra samfélag. Það er heimskulegt að borga skatta og leggja sitt af mörkum, því fólkið sem getur – oft fólk í stjórnmálum, sem á að vera að vinna fyrir okkur – er skítsama um aumingjana, holóttu vegina og fólkið sem hengdi sig eftir hrun.

Það vill bara hafa sína peninga í friði fyrir pirrandi almúganum.

Ég er ekki að segja allir séu svona, en þetta er svo útbreitt að það þykir fréttamatur ef heiðarlegur hálaunamaður finnst.

Um ómöguleika haustkosninga

Um ómöguleika haustkosninga

„Löglegt en siðlaust.“ Þetta er setning sem Vilmundur Gylfason gerði fræga fyrir um það bil 35 árum. Ekkert hefur breyst síðan þá.

Þingmenn og ráðherrar hafa verið staðnir að því að fela peninga í skattaskjólum. Ég segi fela, því þeir tóku ekki fram að þeir ættu peninga í skattaskjólunum, þrátt fyrir skýrar reglur um að slíkt eigi að gera. Þeir virðast ekki hafa brotið nein lög, en flestum ber saman um að meiriháttar siðrof hafi orðið.

Í stað þess að axla ábyrgð og segja af sér, að minnsta kosti tímabundið, þráuðust ráðherrarnir við og sögðust engin lög hafa brotið. Þrátt fyrir að forsætisráðherra hafi setið beggja vegna borðsins í umræðum um afnám hafta, sá hann ekki ástæðu til að hugsa sinn gang fyrr en staða hans var orðin vonlaus. Fjármálaráðherra hefur enn ekki viðurkennt að hafa gert neitt rangt.

Þjóðin öskrar á kosningar núna, en stjórnarliðið lætur eins og það heyri ekkert. Gulrót er slengt í andlit kjósenda og gefið í skyn að kosningar verði í haust. En bara ef stjórnarandstaðan er ekki með stæla.

Hvers vegna er þeim svona mikið um að ríghalda í völdin? Kenningar eru um að það eigi eftir að einkavæða ríkisfyrirtæki og að þau verði að komast í rétta vasa. Það vakti athygli að strax eftir að „nýja“ stjórnin var komin á koppinn, sögðu fjölmiðlar frá því að nauðsynlegt þætti að breyta eignarhaldi á Landsneti. Hver fær Landsnet? Hvað er næst?

Ómöguleikinn við að halda kosningar í haust eru fjárlögin. Þetta veit Bjarni Ben og hann virðist ætla að notfæra sér þau í einhverri pólitískri refskák. Því hann sér stjórnmál sem leik þar sem takmarkið er að hnekkja á andstæðingnum og koma sjálfum sér í betri stöðu. Hann virðist ekki skilja að stjórnmál snúast um að búa til og viðhalda sómasamlegu samfélagi fyrir alla þegna landsins.

KlækirEn hvenær er hægt að halda kosningar? Fjárlög ber að leggja fram annan þriðjudag í september. Þá eru þau rædd og kosið um þau fyrir áramót. Hvenær sér hann fyrir sér að kosningar eigi að vera? Í miðjum umræðunum um fjárlögin? Rétt áður en þau eru lögð fram, svo að hann geti ákveðið stefnu nýrrar ríkisstjórnar? Er honum treystandi til að ganga þannig frá þeim að ný stjórn lendi ekki í stórkostlegum vandræðum? Maðurinn stundar klækjastjórnmál, svo honum er alls ekki treystandi til að leggja fram fjárlög sem pólitískir andstæðingar þurfa svo að bera ábyrgð á.

Verði fjárlögin til þess að ekki verði hægt að kjósa í haust, þá erum við að tala um kosningar í vor. Bjarna mun þá takast að ríghalda í völdin. Það er nefninlega viss ómöguleiki ef kjósa á í haust og þetta veit Bjarni.

Þess vegna þarf að kjósa sem fyrst. Starx í sumar, svo ný ríkisstjórn geti samið fjárlögin sem hún þarf svo að bera ábyrgð á.

Takist það ekki, verður stjórnarandstaðan, og þá sérstaklega Píratar, að nýta sumarið í að semja sín eigin fjárlög sem yrðu tilbúin í september. Þannig þarf ný stjórn ekki að taka ábyrgð á fjárlögum sem hugsanlega innihalda gildrur til þess fallnar að skemma ímynd nýrrar stjórnar.

Stjórnarskrá: Að Reka Ríkisstjórn

Stjórnarskrá: Að Reka Ríkisstjórn

Síðasta vika hefur verið viðburðarík. Þrír ráðherrar hafa verið staðnir að því að hafa átt fyrirtæki í skattaskjólum. Forsætisráðherra sagði af sér eftir misheppnaða tæklun og „ný“ stjórn tók við. Nema að þessi stjórn er ekki ný. Þetta er sama fólkið. Það hangir á völdum eins og hundur á roði.

Það þarf nefninlega að ljúka mikilvægum verkefnum. Einkavæðing Landsnets er kannski fyrsta stóra verkefnið sem þarf að klára. Miðað við það sem á undan er gengið, efast ég ekki um að nýir eigendur verði vel valdir.

Þjóðin vill ekki þessa stjórn. Hún treystir henni ekki og vill kosningar. Stjórnarandstaðan bar fram vantrauststillögu, en þar sem ríkisstjórnin er í meirihluta, var tillagan felld.

Hljómar furðulega, en það er stjórnarinnar að dæma um hvort henni sé treystandi.

Það er víst engin önnur leið nema að bera fram vantraust og vona að sitjandi ríkisstjórn treysti sjálfri sér ekki.

Jú, fólk getur staðið úti á grasi í öllum veðrum, barið á tunnur, veifað bönunum og öskrað, en það er stjórnarliða sjálfra hvort þeir láti það hafa áhrif á sig.

Núvernandi stjórnarskrá minnist ekki einu orði á vantraust. Hún gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að reka ríkisstjórn. Sú nýja, sem samin var 2011, samþykkt af þjóðinni 2012 og drepin af þingmönnum 2013, minnist á vantraust. Sérstaklega í 91. grein.

91. gr. Vantraust

Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra. Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.

Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

Stjórnarskrá afhent
Stjórnarskrá afhent

Hér er það aftur ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort henni sé treystandi.  Það er því ómögulegt að reka ríkisstjórn, og það mun ekki breytast nema það verði sérstaklega gefið tækifæri til þess í nýrri stjórnarskrá.

Við verðum að koma í veg fyrir farsa og hálfgert valdarán eins og við urðum vitni að nú í vikunni. Þetta má ekki gerast aftur. Ef þjóðin vill stjórnina burt, á hún að geta rekið stjórnina. 66. grein nýrrar stjórnarskrár hljómar svona.

66. gr. Þingmál að frumkvæði kjósenda

Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.

Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.

Svipaða grein mætti skrifa, þar sem þjóðinni er gefið tækifæri til að kalla til kosninga. Þetta má ekki verða tæki stjórnarandstöðunnar til að fella stjórnir trekk í trekk, svo það yrðu að vera varnaglar á. Til dæmis mætti setja lágmark undirskrifta við þriðjung kjósenda. Það er erfitt að safna svo mörgum undirskriftum og myndi sennilega ekki takast nema gríðarleg óánægja væri í samfélaginu. Eins og nú.

Ég er ekki lögfræðingur. Kannski er ég að missa af einhverju ákvæði, en ef svo er ekki, þá þarf að koma þessu inn í stjórnarskrána. Það þarf að gefa þjóðinni tækifæri til að reka ríkisstjórn sem er fullkomlega rúin trausti.

Bráðabirgðabúgí

Bráðabirgðabúgí

Þetta er búið. Simmi, Bjarni og fleiri hafa verið gripnir glóðvolgir. Vantrauststillaga mun verða borin fram á þinginu í dag og það þarf eitthvað mikið til að stjórnin standi þetta af sér, fullkomið siðrof stjórnarþingmanna. Ég geri ráð fyrir – trúi ekki öðru en – að stjórnin segi af sér. Ég neita að trúa að allir stjórnarþingmenn láti bendla sig við aflandsfélagamálið með því að styðja við sitjandi ríkisstjórn.

En hvað svo? Kosningar eftir 45 daga, eða bíðum við með það?

Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.
Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.

Eftir 45 daga er 19. maí. Það er allt of stuttur tími til að vinna úr Panama skjölunum og fá heildarmynd. Það er því líklegt að við færum í kosningar, ekki vitandi allt um það hverjir eiga eignir í skattaskjólum og hvernig þessir 800 íslendingar eru tengdir. Við færum hálf blind inn í kjörklefann. Þetta mál er of stórt til að ana út í kosningar strax.

Smári McCarthy skrifaði í gærkvöldi að besta leiðin væri að koma núverandi stjórn frá, en skipa svo bráðabirgðastjórn. Hún gæti verið skipuð minnihlutanum á þinginu, utanþings- eða þjóðstjórn. Hver besta leiðin er, mun sennilega skýrast á næstu dögum.

Kosturinn við bráðabirgðastjórn er að hún gæti komið brýnum málum í gegn strax, sett lög sem auka á gegnsæi og eru hönnuð til að höggva á spillinguna sem hefur verið viðloðandi íslensk viðskipti og stjórnmál frá upphafi lýðveldisins.

Bráðabirgðastjórnin gæti líka samþykkt nýju stjórnarskrána. Það yrði því tiltölulega einfalt mál að kjósa um hana aftur strax eftir kosningar og koma henni í lög. Það þyrfti því ekki stutt kjörtímabil til. Við gætum verið komin með nýja stjórnarskrá eftir ár, ef við höldum rétt á spilunum.

Hvað sem gerist þegar þing kemur saman í dag, verðum við að vanda okkur. Ekki ana út í neitt. Við klúðruðum efnahagnum 2008 og höfum klúðrað endurreisninni síðan. Ýmist með fljótfærni, vanþekkingu eða brotavilja. Það er kominn tími til að vanda sig. Gera hlutina rétt. Steypa grunn sem hægt er að byggja mannsæmandi og réttlátt samfélag á.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube