Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
ísland – Villi Asgeirsson

Browsed by
Tag: ísland

Leica, leynibloggið og einsemdin

Leica, leynibloggið og einsemdin

Þegar ég ákvað að fara í framboð, ákvað ég líka að búa til einkablogg. Leyniskrif sem enginn má sjá. Mínar einkahugsanir sem eiga ekki endilega heima í opinberri umræðu. Þetta er ekkert stórmerkilegt, engar samsæriskenningar, níð eða tuð. Þetta er meira persónulegar hugleiðingar um framboðið og framtíðina. Dagbók sem ég get lesið seinna, eftir kosningar, þegar þessum kafla lífsins er lokið. Þetta er svo saklaust að ég gæti hugsanlega gefið það út í bókarformi. Hver veit? Til að gefa hugmynd um losandaháttinn og blaðrið, datt mér í hug að deila færslu dagsins í dag.

MatsÍ dag er þrettándi júlí og mér líður betur. Er farinn að sætta mig við ákvörðunina um að bjóða mig fram. Mér fannst ég vera að skíta mig út, að stíga ofan í drullupoll þegar ég bauð mig fram í stjórnmálastarf, en það þarf svo sem ekkert að vera þannig.

Í gær var grein á netmiðlunum þar sem talað var um að mikil barátta væri framundan í prófkjörum Pírata. Drulluslagur eða eitthvað. Mitt komment á það var; Ég veit ekki með Reykjavíkina en ég ætla allavega að vera til friðs í suðurpottinum. Er ekki að standa í þessu til að kúka á fólk.

Og þannig er það. Þetta þarf ekki að vera drulluslagur. Ég fór í þetta af því ég er með hugsjónir, ekki til að fá þægilega innivinnu. Ég vil búa í réttlátu samfélagi sem allir geta blómstrað í.

Ég sagði Hildi að ég myndi taka íbúðina. Spáði í miða um borð í Norrönu fyrir mig og bílinn. Miriam er sátt við þetta. Og lífið er ekkert ef maður hoppar ekki út fyrir þægindarammann af og til.

Annars var ég að horfa á Leica unboxing video. Einhver myndavél sem hoppar og hóar yfir því að 60 ár séu liðin frá því að Leica M3 kom á markaðinn. Og það minnti mig á bókina sem ég þarf að klára. Blood and rain, þar sem Gunnar fer til Barcelona í miðju borgarastríði og finnur út að það er meira en að segja það að vera heimsfrægur blaðamaður. Lesandinn mun, þegar þar að kemur, komast að því hvort Gunnari tekst að verða heimsfrægur blaðamaður, eða hvort hann klúðri öllu. Stríð á það nefninlega til að breyta áætlunum fólks. Þarf sennilega ekki stríð til. Leica spilar töluvert stórt hlutverk í bókinni. Leica IIIc, svo maður nördist.

Myndbandið minnti mig líka á fallegu Fujifilm myndavélina sem ég keypti af því ég var orðinn leiður á stærð og þyngd Canon vélanna. Og Fujifilm er Leica 21. aldarinnar.

En hvað um það. Þetta verður allt í lagi. Ég fer í framboð. Annað hvort kemst ég í baráttusæti, eða ég mun taka þátt í grasrótarstarfinu. Og taka myndir af ferlinu. Búa til heimild um framboð og aðdraganda kosninga.

Seinna í dag fer ég að leika mér með flugvélar, vinna við að búa til loadsheets og þannig. Og Mats kemur heim úr skólanum eftir rúman klukkutíma og honum þarf að sinna. Sem er auðvitað bara gaman, enda er hann svo mikið krútt. Ég á eftir að sakna hans óendanlega í vetur. Það er þó tímabundin fórn. Vonandi virkar þetta allt og þegar við erum búin að byggja draumahúsið á suðurlandinu, verður þetta brölt þess virði.

Í kvöld er svo fundur fyrir frambjóðendur, sem ég get ekki mætt á.

Næstu sex mánuðir eða svo verða spennandi.

Life is what happens to you while you’re busy making other plans.

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Framboð – Píratar í Suðurkjördæmi

Kæru sunnlendingar, píratar og íslendingar,

Eftir töluverð heilabrot hef ég ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Pírata í suðurkjördæmi. Ástæðurnar eru nokkrar og ætla ég að reyna að útskýra þær í eins stuttu máli og mögulegt er.

Villi Ásgeirsson
Villi Ásgeirsson

Ég hef búið erlendis í tvo áratugi. Sumarið 2013 vorum við fjölskyldan í sumarfríi á Íslandi. Veðrið var gott, við fengum húsbílinn hennar mömmu lánaðan og keyrðum um suðurlandið og Borgarfjörðinn. Það var í lok þessarar ferðar að konan mín, sem er hollensk, sagði að hún hefði áhuga á að flytja til Íslands. Við ræddum þetta eftir að við vorum aftur komin út til Hollands. Hún ræddi allskonar möguleika, en ég dróg lappirnar. Talaði um spillingu, okurvexti á húsnæðislánum og veðráttu.

Samt fannst mér þetta spennandi hugmynd. Hún þróaðist og um haustið vorum við búin að ákveða að skoða möguleikana á búsetu á suðurlandi. Við vildum ekki búa í borg, heldur búa til okkar draumaheim, draumaheimili. Ég notaði netið til að finna hús, lóðir og hvað sem er. Fann nokkrar lóðir rétt utan við Selfoss. Sumarið 2014 komum við aftur heim, skoðuðum lóðirnar og féllum endanlega fyrir hugmyndinni. Þar sem við stóðum og virtum fyrir okkur mýrina og ímynduðum okkur hvernig húsið myndi taka sig út, flaug ugla fram hjá okkur og settist við vegkantinn. Þetta var allt voðalega ljóðrænt og fallegt. Ég hafði þá hannað hús í tölvunni og hafði passað mig á að stofan snéri í suður, en Heklan væri sýnileg út úm eldghúsgluggann. Eins og það var hjá afa og ömmu þegar ég var að alast upp.

Eftir að hafa búið erlendis þetta lengi, getur verið erfitt að tala um einhvern einn stað sem heimili manns. Heimurinn er heimilið. Engin lönd eru algóð og engin eru alvond. Þjóðernishyggjan hverfur við að kynnast fólki allsstaðar að úr heiminum. Við erum öll eins, inni við beinið.

Afi og kýrnar
Afi og kýrnar

En ef ég á enn rætur einhversstaðar, er það á suðurlandinu, rétt utan við Selfoss. Þar sem afi og amma bjuggu í þrjá áratugi, voru með kýr, kindur, hesta, hænur, svín og gæsir. Ég ólst upp að töluverðum hluta hjá þeim, með Hekluna í eldhúsglugganum og tjarnirnar sunnan- og austan við bæinn. Tjarnirnar sem við syntum í og sigldum á flekum langt fram á kvöld. Ég fór í tvo heimavistarskóla, á Laugarvatni og Skógum. Að koma í Meðallandið, þar sem afi fæddist og ólst upp, var alltaf ævintýri. Og heimurinn sem langafi og amma bjuggu til í Hveragerði var heillandi.

Þrátt fyrir að hafa verið í burtu í allan þennan tíma, á ég heima á suðurlandinu. Í hvert sinn sem ég heimsæki landshlutann, finnst mér ég vera kominn heim.

Og nú hefur stefnan verið sett á heimför. Ekki í frí, heldur til að búa.

Það verður þó að segjast að efasemdirnar um samfélagið, og þá á ég við stjórnsýsluna, eru enn til staðar. Á meðan ég greiði 2% í vexti af húsnæðisláninu hér í Hollandi, mun ég sennilega þurfa að greiða fjórfalt það á Íslandi. Það er ekkert óvíst að flutningurinn heim muni koma okkur í fjárhagsvandræði, sem eru mikið til óþarfa áhyggjur í Hollandi. Forsendubrestir og kreppur eru hlutir sem við þurfum að gera ráð fyrir. Ráðamenn sem axla ekki ábyrgð. Eins fallegt og landið er, eins sterkar og ræturnar eru, eins mikið og ég virði fólkið sem byggir landið, er stjórnsýslan og efsta lagið ekki í takti við það sem gerist í vestrænum löndum.

Það var að hluta til þess vegna sem ég mætti á fund Pírata í Árborg síðasta haust og á aðalfund flokksins í júní. Ef ég var að fara að flytja heim, vildi ég gera allt sem ég gæti til að laga samfélagið og gera stjórnsýsluna eins aðlaðandi og landið og fólkið sem í því býr. Ég hef verið virkur í vinnuferlinu undanfarna mánuði og tekið þátt í undirbúningi stofnunar Pírata í Suðurkjördæmi.

Mínar áherslur eru eftirfarandi:

Ný stjórnarskrá. Árið 2011 lagði stjórnlagaráð fram frumvarp um nýja stjórnarskrá. Hún var svo samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið eftir. Hún tekur fyrir margt af því sem er að í samfélaginu. Hún festir náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar allrar og bætir vinnureglur stjórnkerfisins. Hún er grunnurinn að endurreisn lýðræðis í landinu.

Unga fólkið á Íslandi dregst aftur úr í tekjum, en kýs ekki. Það er sorglegt að sjá unga fólkið festast í skuldafeni án þess að það geti nokkuð gert. Sorglegra er að sjá áhugaleysi þessa þjóðfélagshóps um stjórnmál. Fólk hefur ekki trú á stjórnkerfinu og telur sig ekki geta haft áhrif. Það er bara eitt atkvæði í hafsjó atkvæða. En þetta er ekki alveg svona. Það munaði til dæmis sex atkvæðum að Píratar kæmu manni inn í Hafnarfirði í síðustu kosningum. Sex atkvæðum. Þar fyrir utan er ákvarðanaferli Pírata opið og allir geta tekið þátt. Unga fólkið mun lifa með ákvörðunum sem teknar eru í stjórnsýslunni, og það er sorglegt að sjá eldra fólk sem fast er í gömlum hugmyndum, skotgröfum oft á tíðum, ákveða hvar tvítugt fólk í dag verður um fertugt. Við þurfum að virkja ungt fólk, svo það taki málin í sínar hendur og hafi áhrif á eigin framtíð.

Beint frá býli er hugmynd sem ég hef mikinn áhuga á. Bændur hafa margir gaman af að skapa og búa til. Ég man að afi bjó til sitt eigið smjör og skyr, slátraði heima og framleiddi pylsur og bjúgu. Hann mátti auðvitað ekki selja þessar afurðir, en þetta var lostæti sem fjölskyldan naut. Ég hefði gaman að því að sjá bændur fullvinna vörur og selja á bændamörkuðum í kjördæminu. Hvað er betra en að skoða það sem er í boði og smakka osta framleidda í Flóanum, lúpínuborgara framleidda á Rangárvöllum, ís frá Hveragerði, kartöflusalöt úr Þykkvabæ og matarolíu framleidda í Meðallandinu? Bændur eiga að geta fengið útrás fyrir sköpunargáfuna og neytendur eiga að geta haft meira úrval. Miðstýring landbúnaðarins er barn síns tíma. Hér í Hollandi get ég farið á bændamarkaði og keypt allskonar osta sem framleiddir eru að bændunum í héraðinu. Ég vil geta gert það sama á Íslandi. Ekki allt þarf að fara í gegn um MS eða álíka apparat.

Umhverfisvæn nýting landsins og auðævanna. Því miður er það þannig að landið virðist vera einskis vert nema því sé komið í verð. Og oft sjáum ekkert verðgildi nema framkvæmdir sem hafa umhverfisspjöll í för með sér séu framin. Við höfum virkjað ár og vötn, og getum ekki hætt. Ísland framleiðir meiri raforku en nokkurt annað land í heiminum miðað við höfðatölu, en þó á að virkja meira. Suðurlandið hefur upp á svo margt annað að bjóða. Ísland er hreint land og tiltölulega ómengað og bændur geta nýtt sér það með því að nýta umhverfisvæna tækni og markaðssetja sig á þeim forsendum. Við þurfum að vernda náttúruperlur gegn átroðningi ferðamanna, ekki með því að takmarka ágang, heldur með því að stýra honum, byggja göngustíga og aðstöðu. Nýlega birtist grein eftir mig í Dagskránni þar sem ég ræddi mennta- og fræðasetur á Eyrarbakka. Suðurland hefur upp á svo margt að bjóða og það er okkar að nýta tækifærin, og gera það vel. Í kjördæminu eru nokkrar góðar hafnir og við þurfum að sjá til, með hjálp nýju stjórnarskrárinnar, að þær hafi nóg að gera. Að miðin út af höfnunum séu þeirra og að bæjarfélögin geti nýtt sín náttúruauðævi.

Samgöngumál. Það er langt síðan malarvegurinn yfir heiðina var malbikaður. Þó eru enn margir vegir sem má bæta. Í suðurkjördæmi eru tvö samgönguverkefni sem þarf að skoða sérstaklega. Lest, eða álíka samgöngutæki milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Lestir eru dýrar og við verðum að skoða það dæmi vel og vanda okkur. Höfum við efni á verkefninu, og hentar lest íslenskum aðstæðum? Og Landeyjahöfnin. Er hún besta lausnin fyrir Vestmannaeyjar? Siglingin er töluvert styttri en sú gamla, þrír tímar í Þorlákshöfn. En Landeyjahöfn fyllist af sandi og er gríðarlega dýr í rekstri. Ég myndi vilja sjá hlutlausan vinnuhóp skoða allar mögulegar hugmyndir, svo hægt verði að tengja Eyjar við meginlandið á öruggan og ódýran hátt.

Heilbrigðismálin eru endalaust þrætuepli. Nýlega kom fram að það kosti um 6-7 milljarða að bjóða upp á gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi á Íslandi. Þetta er ekki há upphæð í stóra samhenginu, og okkur ber að reyna að finna leið til að koma þessu í framkvæmd. Einnig er ég á því að fjórðungssjúkrahús eigi að vera öflug og geta sinnt öllum helstu bráðatilfellum. Aðeins meiriháttar aðgerðir og eftirmeðferðir megi vera ástæða til að senda fólk til Reykjavíkur. Það er galið að senda fólk í lífshættu í flugferð af því það er engin almennileg bráðamóttaka utan höfuðborgarsvæðisins.

Bótakerfið er ónýtt og þarf algera endurskoðun. Öryrkjum er refsað fyrir að vinna með bótunum. Öryrki er stimpill sem skemmir sjálfstraust og stofufangelsi sem kemur í veg fyrir að fólk komist aftur á vinnumarkaðinn. Borgaralaun myndu leysa þetta vandamál, þar sem allir fá laun án stimplanna sem núverandi bætur hafa í för með sér. Það kerfi yrði þó alger bylting og gæti verið erfitt og dýrt að koma í framkvæmd. Neikvæðir tekjuskattar gætu leyst þetta vandamál, þar sem fólk sem ekki nær samþykktum lágmarkslaunum, fengi endurgreitt úr ríkissjóði. Þetta gæti komið í staðinn fyrir allar bætur, gert það kerfi töluvert léttara og ódýrara, losað fólk við öryrkjastimpilinn og gert því kleyft að koma sér smám saman inn á vinnumarkaðinn ef það hefur getu til.

Spillingin er að ganga af íslensku samfélagi dauðu. Það eru til nægir peningar í nánast allt sem við þurfum að gera, en þeir leka úr okkar sameiginlega sjóðum í vasa fólks sem þekkir rétta fólkið. Ég fermdist í Selfosskirkju í maí 1983 og Sigurður prestur (síðar biskup í Skálholti) talaði um í predikuninni að eina leiðin til að gera eitthvað á Íslandi væri að þekkja mann sem þekkti mann. Mig minnir að hann hafi sett þetta í samhengi við 14 ára krakkana sem sátu á bekknum og yrðu að búa sig undir að lifa í þessum heimi vinagreiðanna. Ekkert hefur breyst á þeim 33 árum sem liðin eru, nema að nú sjáum við spillinguna. Hún hefur flotið upp á yfirborðið. Er ekki kominn tími til að við hreinsum til svo við getum öll haft eitthvað að segja og lifað sómasamlegu lífi í þessu landi?

Jákvæðni er lífsnauðsynleg í heilbrigðu samfélagi. Eftir 26 ár verður lýðveldið 100 ára. Hvernig samfélagi viljum við búa í á þeim tímamótum? Viljum við festast í skotgrafahernaði og karpi, viljum við að ójöfnuður aukist og að reglufargan geri fólki nær ómögulegt að skapa sér atvinnu, eða viljum við jákvætt samfélag þar sem við vinnum saman að því að gera Ísland að því draumalandi sem það getur orðið? Við finnum jákvæðnina ekki með því að stinga hausunum í svarta sandinn, heldur með því að rýna í vandamálin og finna lausnir við þeim. Við þurfum ekki að vera sammála um neitt annað en að við viljum vinna saman. Við vitum hvað gerist ef við gerum það ekki.

Ég er ekki að flytja heim til að fara í stjórnmál. Ég hef aldrei séð mig sem stjórnmálamann og mun sennilega aldrei gera. Ég er að fara í stjórnmál til að hjálpa til við að skapa samfélag sem gott er að búa í. Samfélag þar sem allir skipta máli, allir hafa tækifæri til að hafa áhrif, samfélag sem stimplar fólk ekki eftir getu eða fjárhag. Samfélag sem hvetur fólk til að vera skapandi og gera það sem það er gott í. Samfélag sem er opið og jafn hreint og fallegt og landið sem það hýsir. Samfélag sem afi hefði verið stoltur af og unga fólkið getur blómstrað í.

Píratar
Píratar

Eina aflið sem getur komið þessu til leiðar eru Píratar. Þess vegna er ég að fara í stjórnmál, og þess vegna valdi ég Pírata.

Það sést kannski á þessum pistli að ég er ekki mikið fyrir að tala um sjálfan mig. Mér finnst ég ekki skipta mestu máli í samhengi framboðsins, heldur hugmyndirnar og málin sem ég stend fyrir. Ég mun þó setja inn pistil fljótlega þar sem ég tala um mig og það sem ég hef gert. Það þarf víst að fylgja. En munum að þetta snýst ekki um eitthvert okkar, heldur okkur öll.

Ég er opinn fyrir gagnrýni og hugmyndum. Hver sem er getur haft samband við mig í tölvupósti, á Facebook og við getum rætt málin á Skype. Svo hlakka ég til að hitta fólk augliti til auglitis þegar þar að kemur.

Sjáumst í haust.

Hægt er að hafa samband í tölvupósti vga[hjá]vga.is, á Facebook (https://www.facebook.com/VGAsgeirs/) eða Skype (vgasgeirs). Endilega sendið skilaboð eða póst áður en Skype er reynt, þar sem ég get verið að vinna eða fjarverandi.

Hægt er að skrá sig í Pírata hér. Það kostar ekkert.

Þrælanýlendan, enn og aftur

Þrælanýlendan, enn og aftur

Þessi pistill birtist upphaflega í Kvennablaðinu, 28. maí 2016.

Húsnæðismálin á Íslandi fá mig til að hlæja og gráta, allt í senn. Ég er ekki hrifinn af tilfinningalegum rússíbönum þegar kemur að fjármálum, svo ég ætla að segja ykkur hvað er svona fyndið og sorglegt. Með því, vona ég að einhver vakni og að kerfinu verði breytt til hins betra.

17. maí s.l. birtist pistill eftir mig á síðum Kvennablaðsins (og hér). Þar bar ég saman vexti á húsnæðislánum í Hollandi og á Íslandi. Lægstu vextir sem ég nefndi voru 7,25% á Íslandi og 1,59%í Hollandi. Ég var að reyna að vera sanngjarn. Þetta eru lægstu almennir vextir sem ég fann.

Viðskiptabankinn minn, ABN Amro, býður nú húsnæðislán með 0,94% vöxtum. Auðvitað hangir eitthvað á spýtunni. Maður þarf þá að vera í viðskiptum við bankann, færa allt sitt til þeirra, en vextirnir eru 0,94%. Innan við eitt prósent.

Á sama tíma eru vextir á Íslandi sjö prósent eða hærri. Það kostar jafn mikið að borga vexti af einni íbúð á Íslandi og af átta íbúðum á sama verði í Hollandi.

En hvað gerist þegar vextirnir eru orðnir svo lágir að þeir skipta ekki mái og það er ekki lengur hægt að lokka fólk með þeim?

Í gær heyrði ég auglýsingu í útvarpinu. Nýtt húsnæðislán (hjá ING minnir mig) er ekki bara á lágum vöxtum, það er með tryggingu. Ef þú missir vinnuna eða verður óvinnufær, borgar bankinn sjálfur af láninu í sex mánuði. Hann gefur þér tíma til að finna nýja vinnu, hann gefur þér tækifæri til að láta þér batna eða gera aðrar ráðstafanir svo að þú lendir ekki í vandræðum með afborganir. Fyrstu sex mánuðina þerftu ekki að hafa áhyggjur af húsnæðisláninu, því bankinn tryggir það. Við fjölskyldan erum með eins tryggingu, en borguðum eitthvað smávægilegt fyrir hana. Nú getur fólk fengið trygginguna frítt.

Blokk í Reykjavík (VGA 2015)
Blokk í Reykjavík (VGA 2015)

Svona virkar samkeppni.

Á meðan, á Íslandi…

Ég var að spá í hvað ég ætti að kalla þennan pistil, en þrælanýlenda er það eina sem mér dettur í hug.

Að lokum… eftir að fyrri pistillinn birtist hér fyrir tæpum tveimur vikum, fékk ég póst frá ÍLS. Þar var sagt að ég færi með rangt mál, og hvort ég vildi leiðrétta mitt mál. Ég sagði að það væri sjálfsagt og sendi sjö spurningar til baka. Sagði að það væri gott að fá svör við þeim svo ég gæti skrifað nýjan pistil þar sem staðreyndirnar væru leiðréttar. Það væri betra en að breyta texta í pistli sem flestir eru búnir að lesa, því þá sér enginn leiðréttinguna. Það er vika síðan ég sendi spurningarnar, en engin svör hafa borist. Þau hafa sína hentisemi á því og ég hef engar áhyggjur. ÍLS hefur þó selt 450 eignir í „opnu ferli“. Opnu, fyrir þá sem geta keypt 450 íbúðir í einu. Lokuðu fyrir okkur hin.

Mér sýnast lánastofnanir á Íslandi vera í einhverjum allt öðrum viðskiptum en þær erlendu. Hér er okrað á fólki, eignirnar miskunnarlaust teknar af því og seldar í einhver fyrirtæki sem virðast vera tengd stjórnmálamönnum.

Þrælanýlenda.

Ég læt spurningarnar sjö til ÍLS fljóta með. Í póstinum sagðist ég vera tilbúinn til að biðjast afsökunar ef um rangfærslur var að ræða. Sjáum til hvernig það fer, en hér eru spurningarnar. Sjáum hvort svör berist. Vonum svo að Ísland komist í hóp siðaðri þjóða í náinni framtíð.

– Það eina sem ég sagði um ÍLS í greininni er að sjóðurinn hafi ekki selt þessar 153 fasteignir á almennum markaði þar sem einstaklingum var gert mögulegt að kaupa staka fasteign. Er það rangt skilið hjá mér?

– Ég geri ráð fyrir að setningin „Á meðan húsnæðisskortur er alvöru vandamál, eru hundruð íbúða seldar í lokuðu ferli.” sé vandamálið. Hafi ferlið verið opið, hverjum var það opið og hverjir höfðu möguleika á að kaupa eignirnar? Hvað buðu margir aðilar í eignasöfnin?

– Sjóðurinn tók til sín margar eignir eftir hrun. Hvað stór hluti þeirra hafa verið seldar í eignasöfnum, og hvað margar hafa verið settar á almennan markað þar sem en einstaklingar hafa haft möguleika á að kaupa þær?

– Af hverju eru eignir seldar í söfnum, frekar en á almennum markaði?

– Hvað eru fasteignir, að meðaltali, lengi í eigu ÍLS eftir að hann tekur þær til sín? Mér skilst að eignir standi oft tómar mánuðum, jafnvel árum saman. Er þetta rétt, og ef svo er, hvers vegna?

– Er eitthvað vitað um eignarhald fyrirtækja sem kaupa eignapakka af ÍLS? Hefur ÍLS áhuga á slíku og skiptir hann sér af því hvað á gera við fasteignirnar eftir sölu?

– Er eitthver samvinna milli ríkisstjórnar og ÍLS, til að reyna að leysa húsnæðisvandann?

2044

2044

Lýðveldið Ísland var stofnað fyrir 72 árum, þann 17. júní 1944. Það eru því 28 ár í 100 ára afmælið, árið 2044. Það gæti virst vera langur tími, en ef við förum 28 ár aftur í tímann, lendum við á 1988.

Fólk sem er tvítugt í dag verður tæplega fimmtugt á lýðveldisafmælinu.

Íslendingur á íslandi
Íslendingur á íslandi

Þetta er ekki langur tími. Margt getur breyst, en samfélagið getur líka staðnað. Við getum upplifað kreppur eða framfarir. Það er mikið til okkar að ákveða hvert við viljum fara og hvar við viljum vera á aldar afmæli lýðveldisins.

Mig langar því að spyrja alla tveggja spurninga. Svör má setja senda á vga[hjá]vga.is eða einfaldlega setja þau hér fyrir neðan. Það væri gaman að fá sem flest svör, svo við getum búið til stefnu sem hægt er að reyna að orða vel og setja í einhverskonar ferli.

  • Hvernig samfélag myndirðu vilja sjá á 100 ára afmælinu?
  • Hvað getum við gert til að það muni rætast?

Tökum endilega öll þátt í að búa til samfélagið sem við viljum búa í.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube