Fræða- og Menningarsetur á Eyrarbakka?
Ég var að fara yfir ársreikninga Árborgar fyrir árið 2014. Ástæðan var að sveitarfélagið er skuldsett upp á 166% af árstekjum. Ég velti því fyrir mér hvað gæti valdið, þar sem sveitarfélagið hefur ekki staðið í meiriháttar framkvæmdum. Ég komst ekki að ásættanlegu svari. Skuldastaðan mun þó sennilega ekki batna í bráð. Nýtt aðalskipulag gerir ráð fyrir byggingu nýs miðbæjar á Selfossi. Einhverskonar gamaldags miðbæ sem aldrei var til, en ætti að virka eins og Disneyland á túrista.
Ég er með aðra hugmynd. Hugmynd sem mun kosta margfalt minna. Það þarf nefninlega ekki að búa til fortíð sem aldrei var. Hluti Árborgar er nefninlega með alvöru sögulegt gildi.
Gamli barnaskólinn á Eyrarbakka er til sölu. Mér datt í hug að Árborg keypti húsið og setti upp fræða- og menningarsetur. Húsið virðist ekki vera mjög dýrt og því ætti þetta að geta gengið.
Þetta var fyrsti barnaskólinn á landinu og því við hæfi að setja upp safn um þróun skólamála á Íslandi. Gamlar skólastofur innréttaðar eins og þær voru. Svo væri fræðimönnum boðið að búa í húsinu 3-12 mánuði í senn þar sem þeir eða þær gætu sinnt rannsóknarstörfum. T.d. rannsókn á þróun skólamála á Íslandi, hvernig var menntun fólks fyrir stofnun formlegra skóla, hvernig fræðslukerfi geti gagnast í framtíðinni. Þannig dæmi.
Þetta þyrfti ekki að vera dýrt. Safnið gæti verið í samvinnu við Skógasafn og aðrar stofnanir. Fræðimönnum yrði ekki greitt fyrir að vera í húsinu, heldur feldist styrkurinn í fríu húsnæði og aðstöðu þann tíma sem samið var um.
Svona gæti Eyrarbakki endurheimt hluta af sinni arflegð og Árborg gæti sýnt að hún er meira en Selfoss.