Að fullnægja athyglisþörf kompudrauganna
Á jörðinni búa sjö milljarðar. Allavega síðast þegar ég gáði. Hefur sennilega bæst eitthvað við síðan. Það þýðir að heimurinn er upplifaður á sjö milljarða vegu. Ekkert okkar skynjar heiminn eins. Sjónin er ekki sú sama, þar sem litaskyn og skerpa leika hlutverk. Heyrnin er mismunandi. Snertiskynið. Hvernig heilinn vinnur úr upplýsingunum sem skilningarvitin senda honum skiptir svo öllu máli.
Svo má ekki gleyma áhrifunum sem fæðingarstaður og búseta hafa. Ég er karlmaður, fæddur 1969 og bjó mín fyrstu ár á Skólavörðustígnum og þar í kring. Fór fyrstu tvö árin í Ísaksskóla, flutti í Smáíbúðahverfið og svo í Breiðholtið. Endaði svo með því að flytja til London og svo til Hollands.
Ég sé því heiminn út frá þessum forsendum. Stelpa sem fæddist 1990 á Sauðárkróki og flutti sem unglingur á Egilsstaði, sér heiminn allt öðruvísi. Ef við hittumst einhvern daginn á Alexanderplatz í Berlín, er viðbúið að upplifun okkar af staðnum verði ekki sú sama.
En það er erfitt að mæla upplifun. Allt sem við getum gert er að virða upplifun hvers og eins. Allavega ef við erum svo þröngsýn að geta ekki haft áhuga á að reyna að skilja hana.
Því hvað er skemmtilegra en að sjá heiminn með augum annars fólks? Setja sig í spor þess?
Hvernig getur maður skilið heiminn ef maður skilur ekki samferðamennina?
Ég tók dæmi um stelpu frá Sauðárkróki, en ímyndum okkur ef ég hefði tekið dæmi um homma frá Addis Ababa. Eða Nairobi. Teheran.
Þá erum við að tala um eitthvað allt annað. Þá erum við að tala um manneskju sem hefur þurft að fela sína eiginlegu persónu allt sitt líf. Hefur kannski horft upp á elskhugann hengdan vegna kynhneigðar. Þá er ekki lengur gaman að setja sig í spor manneskjunnar, heldur lífsnauðsynlegt. Ekki bara fyrir útlenska hommann (sem okkur kemur við, hvað sem fólk segir) heldur fyrir okkur sem manneskju.
Það tók okkur þúsundir ára að losa okkur við bábiljurnar og kreddurnar sem kostuðu svo marga elskhugana lífið. Þess vegna get ég ekki annað en haft smá ógeð á fólki sem þolir ekki að allir séu ekki eins. Fólki sem vill afhomma. Vill ekki að krakkar heyri af samkynhneigð því þau gætu kannski smitast. Sitja í sínum kompum og rífa kjaft yfir því að einhver sé ekki alveg eins og þau vilji hafa hann.
Ég spyr, hverjum er ekki fjandans sama hjá hverjum fólk sefur? Ef kompudraugurinn er ekki að spá í bólförum með hommanum, af hverju er hann þá að skipta sér af?
Þar fyrir utan. Þetta snýst ekki allt um kynlíf. Og því virðast hommahatararnir steingleyma. Þetta snýst um að ástfangnir einstaklingar megi elska í friði, lausir við þröngsýni, kreddur og tuð kompudrauganna.
Ég fæ ógeð þegar ég heyri hommahatarana jarma úr sínum holum, en ég virði rétt þeirra til að jarma. Ég virði rétt þeirra til að gera sig að fíflum í opinberri umræðu. Jarmið dæmir sig sjálft.
Þess vegna finnst mér það vera mistök af Samtökum 78 að kæra kompudraugana fyrir að láta heimskulega hluti út úr sér.
Tjáningarfrelsið á að vera heilagt. Við eigum öll að hafa rétt á að tjá okkur, jafnvel þó það þýði að við gerum okkur að opinberum fíflum. Með því að kæra fíflin fyrir að segja fíflalega hluti, erum við að gefa fíflunum tækifæri til að dreyfa fíflalegum hugmyndum sínum.
Besta vörnin gegn fíflum er að leiða þau hjá sér.