Kjósum með, ekki á móti.
Nú er að kjósa. Ef þú vilt ekki Ólaf áfram, er bara ein leið. Ef þú ert ekki með okkur, ertu á móti Nýja Íslandi. Þá styður þú hið gamla, með allri sinni spillingu.
Þetta er einföldun sem oft er slegið fram þegar þarf að hópa fólki um viss málefni. Virkar líka oft. En þetta er meingölluð hugmyndafræði sem elur á ótta. Ef við viljum nýtt Ísland, ef við viljum breytingar, verðum við að hætta að vera hrædd. Það er nefninlega svo auðvelt að stjórna þeim sem hræðast.
Það eru sex frambjóðendur á kjörseðlinum. Ekki tveir. Sex valkostir, með sínum kostum og göllum. Við höfum heyrt þau og séð, vitum nokkurn veginn hvað þau vilja gera verði þau kosin. Það er okkar að móðga ekki lýðræðið og kjósa þann frambjóðanda sem við viljum sjá á Bessastöðum. Ekki kjósa á móti þeim sem við viljum ekki, heldur velja þann sem við viljum. Segja já, ekki nei.
Það tók mig töluverðan tíma að ákveða mig, en ég hef ákveðið að Andrea er minn frambjóðandi. Hún er ekki hrædd við að nýta embættið til að hjálpa heimilunum í landinu. Hún er ekki hrædd við að slá á puttana á ráðherrum sem eru ekki að standa sig. Hún er ekki hrædd við að vera í beinu sambandi við stjórnvöld og setja fram tillögur ef þjóðin fer fram á það. Hún yrði virkur forseti, og það er nákvæmlega það sem við þurfum á komandi árum. Forseti sem er með fingurinn á púlsinum og veitir Alþingi aðhald. Forseti sem lætur sig afkomu og hamingju þjóðarinnar varða. Forseti sem tekur fólkið í landinu fram yfir fjármagnsöflin.
Ég er ekki að kjósa Ólaf með því að velja Andreu. Ég er heldur ekki að kjósa Þóru með því að kjósa ekki Ólaf. Ég er að kjósa jákvæðar breytingar.
Athugasemdir
Einar Karl 30.6.2012 kl. 07:41
Þetta er „einmennings“-kosning, með einfaldri umferð, þar sem aðeins einn frambjóðandi er valinn. Það skiptir því ekki máli fyrir eiginlega niðurstöðu hver verður í öðru sæti eða þriðja sæti.
Auðvitað væri það að flestu leyti betra að hafa tvær umferðir.
Ég virði þína ákvörðun að sjálfsögðu. En hver og einn kjósandi ákveður einn og sjálfur hvaða forsendur HANN telur mikilvægastar, og hvernig hann beitir sínu atkvæði til að það hafi þau áhrif sem HANN telur mikilvægust.
Til hamingju með daginn!
http://blogg.smugan.is/einarkarl/2012/06/30/eg-raed-minu-atkvaedi/
Kolbrún Hilmars 29.6.2012 kl. 18:09
Nei, Villi – ekki tvær umferðir. Ég er búin að fá upp í kok af skítkastinu í þessari umferð og kýs ekkert frekar en að þessu fári ljúki á sunnudaginn kemur.
Reyndar var ég að hlusta á síðustu sólarhringskönnun fyrir kjördag á visir.is/bylgjan.is þar sem Ólafur mælist nú með 59% og aðeins 3% eru óákveðin. Ef sú spá stenst þarf hvort sem er ekki aðra umferð.
Það yrði kærkomið!
Villi Asgeirsson 29.6.2012 kl. 17:35
Takk fyrir það. Held að tvær umferðir myndu hjálpa til. Tveir síðustu forsetar voru kosnir með töluverðum minnihluta atkvæða. Vigdís 33% og Ólafur 41%, ef ég man rétt.
Svo held ég að fólk myndi þora að velja þann sem því þykir bestur í fyrri umferð.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir 29.6.2012 kl. 16:43
Flottur ertu, mikið er ég sammála þér um Andreu. Að vísu hef ég ákveðið fyrir löngu síðan að veita Ólafi Ragnari mitt atkvæði, en ég var ein af þeim sem skrifaði undir áskorun til hans. En ég verð að segja að Andrea hefur komið virkilega á óvart og ef hún verður í framboði 2016 mun hún að öllum líkindum fá mitt atkvæði. Ég er líka sammál þér í því að það er óhugnanlegt hvernig haldið hefur verið á málum í fjölmiðlum og tveimur.. aðallega einni hampað á kostnað annara frambjóðenda. Auðvitað á fólk að kjósa þann aðila sem hann treystir best, en ekki kjósa einhvern til að annar komist ekki að. Það er bara fáránlegt og illa hugsað.