Það er miður að þjóðin virðist vera að missa gestrisnina, vinalegheitin. Fólk er meira upptekið af sjálfu sér en það var. Þjóðin sem ég kynntist og elskaði er að hverfa.
Þetta sagði erlendur ferðamaður í upphafi tuttugustu aldar. Skrifað eftir minni svo orðin hafa eflaust skolast til, en merkingin er sú sama. Hann hafði ferðast um landið á seinni hluta nítjándu aldar, honum var alls staðartekið vel. Ferðalangurinn fékk að borða og halla höfðinu. Það skipti engu máli hversu fátækt fólkið var, alltaf var eitthvað aflögu fyrir þreyttan og svangan ferðalang. Þetta hafði allt breyst nokkrum árum seinna.
Auðvitað er erfitt að segja til um það hver þjóðareinkenni íslendinga eru. Erum við pirruðu víkingarnir sem þoldu ekki ofríki í Noregi? Erum við írsku þrælarnir sem teknir voru með á ferðinni yfir hafið? Erum við fólkið sem fór arkandi yfir höfðann til að höggva fjölskylduna á næsta bæ í spað? Erum við aumingjarnir sem húktu í moldarkofunum í aldaraðir, eða hetjurnar sem lifðu kuldaskeiðin af í sátt og samlyndi með öðrum? Sama fólkið þar á ferð. Erum við kannski kirkjunnar menn sem drekktu konum og sörguðu hausana af mönnum sem leyfðu sér að elskast í óþökk guðs eða konungs?
Ef ferðalanginum erlenda er treystandi, vorum við gestrisin og vingjarnleg þjóð á ofanverðri nítjándu öld. Því trúi ég vel. Elsta fólkið sem ég kynntist í æsku var fætt um og eftir 1880. Sögurnar sem ég heyrði hjá langafa, sem fæddur var 1893, lýstu sveitafólki sem stóð saman, gerði at í hvoru öðru og reyndi að snúa á sýslumann þegar víntunnurnar úr strönduðu skipunum ráku á land. Auðvitað voru erjur hér og þar, en af lýsingunum að dæma voru þær yfirleitt sakleysislegar og gerðar upp áður en í óefni fór.
Það sem eftir situr er að Ísland hafi verið hart og kalt, en fólk hafi reytt sig á hvert annað til að lifa af.
Við erum svo fá og við búum í svo fallegu og gjöfulu landi. Við eigum svo ríka sögu og við erum öll skyld. Við getum haft það svo gott ef við nennum. Verstu tímabil íslandssögunnar voru þegar þjóðin stóð ekki saman. Náttúruhamfarir og veðurfar gerðu okkur oft erfitt fyrir, en verst var þegar við svikum okkur sjálf. Þegar við létum nágrannaerjur fara svo úr böndunum að heilu fjölskyldurnar voru myrtar, þegar við leyfðum einokunarversluninni að svelta okkur í hel, þegar tortryggni og vantraust skyggðu okkur sýn.
Ísland tuttugustu aldarinnar var yfirborðskennt og það dó í október 2008. Þetta var sársaukafullur dauðdagi. Það er orðið algerlega ljóst að það verður ekki aftur snúið. Gamla kerfið er dautt. Við þurfum nýtt kerfi sem virkar og tekur mið af fólkinu í landinu, ekki hagnaðartölum. En nýja Ísland kemur ekki að ofan. Því er ekki útdeilt af stjórnmálamönnum og ríku köllunum. Það kemur heldur ekki að utan í formi fjárhagsaðstoðar, ESB eða kanadadollars.
Við erum þjóðin. Við ákveðum sjálf hvernig Ísland 21. aldarinnar mun verða. Hvað viljum við? Sturlungaöld eða endurreisn þar sem við stöndum saman? Viljum við þjóðfélag þar sem við vöknum við sverðið í brjósti okkar eða viljum við samfélagið þar sem fólk hleypur til þegar nágranninn þarf á hjálp að halda?
Við eigum hvoru tveggja til í okkur. Það er okkar að velja hvað við viljum.