Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
Stjórnmál – Síða 4 – Villi Asgeirsson

Browsed by
Category: Stjórnmál

Bráðabirgðabúgí

Bráðabirgðabúgí

Þetta er búið. Simmi, Bjarni og fleiri hafa verið gripnir glóðvolgir. Vantrauststillaga mun verða borin fram á þinginu í dag og það þarf eitthvað mikið til að stjórnin standi þetta af sér, fullkomið siðrof stjórnarþingmanna. Ég geri ráð fyrir – trúi ekki öðru en – að stjórnin segi af sér. Ég neita að trúa að allir stjórnarþingmenn láti bendla sig við aflandsfélagamálið með því að styðja við sitjandi ríkisstjórn.

En hvað svo? Kosningar eftir 45 daga, eða bíðum við með það?

Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.
Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur.

Eftir 45 daga er 19. maí. Það er allt of stuttur tími til að vinna úr Panama skjölunum og fá heildarmynd. Það er því líklegt að við færum í kosningar, ekki vitandi allt um það hverjir eiga eignir í skattaskjólum og hvernig þessir 800 íslendingar eru tengdir. Við færum hálf blind inn í kjörklefann. Þetta mál er of stórt til að ana út í kosningar strax.

Smári McCarthy skrifaði í gærkvöldi að besta leiðin væri að koma núverandi stjórn frá, en skipa svo bráðabirgðastjórn. Hún gæti verið skipuð minnihlutanum á þinginu, utanþings- eða þjóðstjórn. Hver besta leiðin er, mun sennilega skýrast á næstu dögum.

Kosturinn við bráðabirgðastjórn er að hún gæti komið brýnum málum í gegn strax, sett lög sem auka á gegnsæi og eru hönnuð til að höggva á spillinguna sem hefur verið viðloðandi íslensk viðskipti og stjórnmál frá upphafi lýðveldisins.

Bráðabirgðastjórnin gæti líka samþykkt nýju stjórnarskrána. Það yrði því tiltölulega einfalt mál að kjósa um hana aftur strax eftir kosningar og koma henni í lög. Það þyrfti því ekki stutt kjörtímabil til. Við gætum verið komin með nýja stjórnarskrá eftir ár, ef við höldum rétt á spilunum.

Hvað sem gerist þegar þing kemur saman í dag, verðum við að vanda okkur. Ekki ana út í neitt. Við klúðruðum efnahagnum 2008 og höfum klúðrað endurreisninni síðan. Ýmist með fljótfærni, vanþekkingu eða brotavilja. Það er kominn tími til að vanda sig. Gera hlutina rétt. Steypa grunn sem hægt er að byggja mannsæmandi og réttlátt samfélag á.

Verum til friðs

Verum til friðs

Gleðilegt ár!!!

Nýtt ár á að þýða ný tækifæri. Við skiljum við það gamla. Gamlar kreddur víkja fyrir nýjum uppgötvunum, gamlar deilur víkja fyrir nýjum samböndum. Það er skylda okkar allra að lifa í sátt við hvort annað. Ef við sýnum hvoru öðru ekki ást og virðingu, þá látum við hvort annað í friði.

Nýársmorgunn á SchipholVinnufélögum mínum á Schiphol flugvelli var hótað í morgun. Einhver breskur fáviti (ekki brúnn með skegg) hótaði að sprengja vinnufélaga mína og farþega í loft upp. Í gærkvöldi var fólk á nálum í München vegna yfirvofandi sjálfsmorðsárásar og mér skilst að flugeldar hafi verið bannaðir í Brussel af sömu ástæðum. Skotárás í Tel Aviv var ekki bara hótun, heldur morð.

Þetta getur ekki gengið lengur. Við getum ekki leyft heiminum að sökkva ofan í forarpyttinn sem hryðjuverk og hatur eru. Við verðum að finna lausn. Að sprengja einhverjar borgir í mið-austurlöndum bætir ástandið ekki. Að loka landamærum og sparka fólki úr landi gerir það ekki heldur. Að vera í pissukeppni um hvaða guð er bestur, er ávísun á sundrung. Við þurfum að finna leið til að koma kærleikanum fyrir náunganum í hásæti, ekki peningum eða okkar eigin rassgati.

Örfáar hræður á Íslandi geta lítið gert. En við getum gert eitthvað. Við getum talað saman. Hugsað saman. Unnið saman. Og hver veit, kannski kemur eitthvað fræ frá okkur. Kannski getum við fundið hluta lausnarinnar.

Hér fyrir neðan er mynd af fávita og skelkuðum vinnufélögum og farþegum. Ég hefði getað verið þarna. En það skiptir ekki máli, fullt af öðru fólki var þarna og þau hafa jafn mikinn rétt á að fá að lifa í friði og ég.

Love to all.

PíS

PíS

Á morgun, laugardaginn 3 október verður stofnfundur PíS haldinn í Þingborg, austan við Selfoss. PíS eru Píratar í Suðurkjördæmi. Þetta verður eflaust spennandi fundur og ég myndi mæta ef ég væri ekki að rolast í útlandinu. En þarna verður gott fólk með góðar hugmyndir.

Hér er hægt að skrá mætingu og fá upplýsingar.
https://www.facebook.com/events/434905686710723/

Dagskrá fundar:

20:00 Fundur settur.
Kosning fundarstjóra, ritara, talninga- og umsjónarfólks kosninga á stofnfundi.
Umræða og kosning um lög.
Kosning í stjórn.
Kosning skoðunarfólks reikninga
21:00 Kaffihlé
21:20 Umræða um hvort bjóða eigi fram til Alþingiskosninga 2017.
Hafa framboðslista tilbúinn sem fyrst 2016.
Önnur mál.
22:00 Fundi slitið

Allir sem hafa áhuga á starfinu (og réttlátara þjóðfélagi) eru hvattir til að mæta. Ég meina, 36% fylgi? Ef það er að fara að gerast, munum við virkilega geta haft áhrif. Til þess þarf þó gott fólk með drifkraft.

FylgiOkt2015

100 milljarðar?

100 milljarðar?

Mogginn er upptekinn við að gera lítið úr þjáningum flóttafólks og mikið úr kostnaði og veseni okkar íslendinga. Nýjasta grínið minnist á 100 milljarðana sem það myndi kosta að taka við 5000 flóttamönnum.

Skopskyn MoggansMaður skilur svo sem að það kostar helling að koma fólki inn í samfélagið, en 100 milljarðar eru út úr kú. Þurfa allir sem koma að verkefninu að vera háskólamenntaðir með 15.000 kall á tímann? Er ekki hægt að fá sjálfboðaliða til að hjálpa til? Bara vera með fólkinu, tala við það, kenna því tungumálið og hvernig samfélagið virkar? Borga atvinnulausum og öryrkjum eitthverja þóknun fyrir að eyða tíma í þetta fólk?

Margir bótaþegar einangrast, og með sjálfboðastarfinu mætti koma í veg fyrir einangrun beggja hópanna.

Það má nýta húsnæði sem stendur autt. Atvinnuhúsnæði sem bankarnir hafa tekið til sín gætu orðið félagsmiðstöðvar sem fólk gæti nýtt til að komast inn í málið og menninguna, komast á netið, fá fréttir og leita að vinnu þegar þar að kemur. Tómt íbúðahúsnæði má svo nýta til að koma fólkinu fyrir á meðan það er ófært um að gera það sjálft.

Það er hægt að taka við flóttafólki án þess að það sé yfirdrifið dýrt. Auðvitað mun það alltaf kosta eitthvað, en ef maður á ekki pening, notar maður hugmyndaflugið. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Rasistarnir

Rasistarnir

Í dag sá ég mynd á netinu. Þar var vitnað í samfylkingarkonu sem átti að vera að sleikja upp múslímana. Í athugasemdunum var hún kölluð kexrugluð sosíaldemókratakelling, vanhæfur vesalingur, og fáviti. Talað var um að við gætum alveg eins skikkað íslenskar konur til að ganga í búrkum.

Kristín SoffíaÉg skildi ekki textann á myndinni. Ég þekki konuna ekkert, en setningin hlaut að vera úr samhengi. Enda kom það í ljós þegar Kristín tjáði sig um málið.

Þetta er svo skemmtilegt svona algjörlega slitið úr samhengi. Á sama tíma og Moskuumræðan fór sem hæst þá var í gangi mikil umræða um slæma meðferð á grísum og margir lýstu því yfir að þeir ætluðu að hætta að borða svínakjöt. Þetta fannst Jóni Jónssyni og fleiri bitrum gömlum körlum svakalega merkilegt og gátu lesið allt í þetta. Svo var klesst mynd af Degi inn á þetta til að reyna að klekkja á honum. Flottir karlar.

Ég er alveg sammála því að Islam eru arfaslæm trúarbrögð. Þau eiga það sameiginlegt með flestum trúarbrögðum sem hafa verið mikið til óbreytt í aldaraðir. Heilu þorpin eru myrt í nafni Allah. Konur eru seldar í kynlífsánauð og krakkarnir drepnir. Mér er alveg sama hvort Islam séu friðsamleg trúarbrögð. Sumir áhangendurnir eru það ekki.

En sama má segja um kristni. Það þarf sennilega ekki að minnast á krossferðirnar og rannsóknarréttinn, nornabrennurnar og ofbeldið sem grasseraði í Evrópu miðaldanna, þegar kristni var sem sterkust. Allt var það í nafni Guðs og sonarins. Auðvitað sagði Jésú margt fallegt, en hvorki hann né faðirinn gátu stoppað geðveikissjúklinga sem drápu og nauðguðu í þeirra nafni.

Enn þann dag í dag eru kristnir öfgamenn að drepa í nafni frelsarans. Sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem fólk sem framkvæmir fóstureyðingar er reglugela drepið af „pro life“ aktivistum.

En það þarf ekkert trú til að gera fólk morðótt og snarbilað. Flestir vita sennilega að „blessað stríðið“ var mesti hildarleikur mannkynsins til þessa. Heilu borgirnar voru jafnaðar við jörðu, óbreyttir borgarar strádrepnir. En það endaði ekki í maí 1945 (eða ágúst í Asíu). Hefndarmorð voru daglegt brauð í Evrópu fyrstu 2-3 árin eftir stríð. Það eru til sögur af konum sem var nauðgað 5-10 sinnum á dag í nokkrar vikur. Þeim var nauðgað meðan þær héldu í höndina á barninu til að týna því ekki. Fjölskyldan var myrt meðan þær horfðu á og svo var þeim hópnauðgað. Börn voru pyntuð og drepin. Skotin eða hengd. Þjóðverjar (líka konur og börn) voru þvingaðir til að opna fjöldagrafir og svo var andlitum þeirra troðið ofan í rotnandi líkin þar til þau drukknuðu í slíminu.

Það voru engir múllar þar. Það þurfti ekki trúabrögð til. Aðstæðurnar voru „réttar“. Þegar aðstæðurnar eru þannig, bilast fólk og gerir hluti sem það myndi annars ekki láta sér detta í hug.

Fólk gerir ógeðslega hluti þegar aðstæðurnar eru þannig. Að ala á útlendingahatri býr til þannig aðstæður. Það býr til bil milli okkar (íslendinganna) og þeirra (innflytjendanna). Bil sem breikkar, því lengur og oftar sem við tölum um þetta útlendingapakk. Bil sem verður erfiðara að brúa, því lengur sem við leyfum fordómunum að grassera.

Ef við missum okkur í rasisma, eru líkur á því að innflytjur geri eins. Það er okkar, íslendinganna, að búa til samfélag sem hafnar rasima og öllum fordómum.

Þess vegna nenni ég ekki að taka þátt í umræðunni um moskuna, múslíma, pólverja. Innflytjendur, yfir höfuð. Flestir eru þeir sennilega voðalega venjulegt fólk. Ef annað kemur í ljós, ef einhverjir einstaklingar fara að brjóta lögin, er tekið á þeim. Við erum með dómskerfi sem sér til þess að fólk er dæmt fyrir ofbeldisverk.

Hálfur sannleikur er sennilega versta lygin. Þessi mynd sem flögraði um Facebook í dag er gott dæmi um hálfan sannleik sem verður að lygi.

Framtíðin

Framtíðin

Marinó G. Njálsson setti fram athugasemd á Facebook í gær.

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson

Margt var einkennilegt í aðdraganda hrunsins og þó flestir hafi verið blindir fyrir því, og þar á meðal ég, þá höfum við þrjá kosti:
1) Að læra af reynslunni og betrumbæta samfélagið;
2) að láta sem ekkert hafi gerst og haldið áfram á sömu braut; eða
3) að læra af reynslunni og ganga ennþá lengra í ruglinu.
Ég held að almenningur vilji fara leið 1), a.m.k. stór hluti hans, stjórnmálin eru föst á leið 2), en fjármálageirinn, stór hluti fjárfesta og aðilar sem ég ætla ekki að nefna frekar eru á góðri siglingu eftir leið 3).

Á Pírataspjallinu spurði Pálmi Einarsson: Hvaða iðnað/atvinnuveg finnst ykkur við eigum að byggja upp hér á landi til framtíðar?

Hvaða stefnu eigum við að taka, sem þjóðfélag? Hvað eiga stjórnvöld að gera?

Ég er á því að stjórnvöld eigi að gera eins lítið og mögulegt er. Þeim ber að sjá til þess að allir geti lifað sómasamlegu lífi, séu yfir fátækramörkum. Hvort lausnin sé borgaralaun, neikvæður tekjuskattur eða sterkt velferðarkerfi er spurning sem þarf að svara. En það er alveg á hreinu að það verður að koma í veg fyrir að einhverjir þjóðfélagshópar gleymist og sökkvi í fen fátæktar. Auðvitað þarf heilbrigðiskerfið að vera sterkt og aðgengilegt fyrir alla.

2014-07-31 at 14-57-38Við erum búin að virkja nóg. Ísland framleiðir langmest rafmagn á haus í heiminum. Megnið fer í stóriðju sem skilar litlu í þjóðarbúið. Ég get ekki séð ávinninginn í að virkja það sem eftir er, til að byggja fleiri álver. Það dæmi hefur ekki gengið upp, og er ekkert að fara að gera það. Stóriðja, í eðli sínu, eykur á ójöfnuð í samfélaginu, því til að byggja stórar verksmiðjur þarf fjársterka aðila sem skapa örfá láglaunastörf. Stóriðja er fín – og nauðsynleg – í hófi, en við erum löngu komin fram út öllu hófi.

Stjórnvöld eiga að takmarka atvinnurekstur og afskipti af atvinnulífinu eins og hægt er. Þeim ber að búa til umhverfi þar sem fyrirtæki geta vaxið og dafnað í eðlilegri og heiðarlegri samkeppni. Að sjá ráðherra taka í hendur á auðjöfrum er ekki til þess valdið að styrkja trúna á heiðarlegt viðskiptaumhverfi þar sem allir eiga jafna möguleika. Að þingmenn og ráðherrar vinni leynt og ljóst fyrir stórfyrirtæki, sendir kolvitlaus skilaboð út í þjóðfélagið.

Það segir sig sjálft að við þurfum að hlúa að sprotafyrirtækjum, frekar en auðhringum. Hugvitið er stærsta auðlindin sem við eigum, og hún endurnýjast með hverri kynslóð ef hlúð er að.

Það þarf að sjá til þess að fjármálageirinn skili eðlilegum hagnaði, ekki ofurhagnaði á kostnað þjóðarinnar. Hvort bankarnir séu ríkisreknir eða ekki er aukaatriði, á meðan þjóðin hefur val og er ekki blóðmjólkuð. Það er klikkun að vextir á húsnæðislánum á Íslandi sé 3-4x hærri en í nágrannalöndunum.

Þar fyrir utan þarf að sjá til þess að viðskitabankar og fjárfestingabankar verði aðskildir.

2014-07-31 at 17-30-18Eftir höfðinu dansa limirnir. Ef við höfum á tilfinningunni að stjórnvöld séu að fela eitthvað, að þau séu að stunda óheiðarleg viðskipti, að þau mismuni fólki eftir efni og aðstæðum, getum við ekki gert ráð fyrir að fólkið í landinu hugsi um þjóðarhag. Á meðan stjórnmálamenn virðast vera uppteknir við að maka eigin krók, má gera ráð fyrir að þjóðin hagi sér eins.

Ef við viljum ekki endurtaka 2008 með enn hrikalegri afleiðingum, þurfum við að hætta að láta eins og það sé 2007. Við þurfum að byggja upp réttlátara samfélag þar sem við skiptum öllu máli.

Því hamingjusöm þjóð í fallegu landi hlýtur að vera markmið okkar allra.

Hugleiðingar um Stríð

Hugleiðingar um Stríð

Ég er að lesa bókina Savage Continent eftir Keith Lowe. Þar útskýrir hann hvernig Evrópa var eftir seinni heimsstyrjöldina. Hefði ekki átt að byrja á þessu, því of mikil þekking á atburðum þýðir að maður sér í gegn um mistur tímans. Maður kemst nær atburðunum. Það er ekki alltaf gott fyrir geðheilsuna.

SavageContinentMér hefur lengi fundist mannkynssagan vera einhverskonar teiknimyndasaga. Einfölduð útgáfa á því sem virkilega gerðist. Rómaveldi var soldið svona Ástríks dæmi. Rómverjarnir voru auðvitað sterkastir. Það voru engir gaulverjar sem lömdu þá í hakk, en þetta var stórveldi sem fann upp helling af hlutum sem við notum enn þann dag í dag. Jú, Jésú var krossfestur af rómverjum, svo þeir voru soldið brútal, en samt. Þetta var allt í lagi, þannig lagað. Fjarlægðin hefur gert rómverjana meinlausa.

En þeir helltu líka olíu yfir svín og sendu þau, öskrandi af sársauka, yfir til fjandmannanna. Það er ekki næs, en þetta var fyrir svo löngu síðan. Kemur okkur ekki við.

Nútímastríð eru löng og illskiljanleg og virðast aldrei enda almennilega. Seinni heimsstyrjöldin var þó röð atburða sem við getum skilið. Hitler var skítseyði sem réðist á alla. Góðu bretarnir og bandaríkjamenn náðu að vinna stríðið. Góðu kallarnir unnu. Happy ending.

Þetta var bara ekki svona einfalt. Hitler komst tl valda því bretar og frakkar höfðu tekið risalán til að halda úti stríðsrekstrinum 1914-1918. Og það stríð var ekki heldur þjóðverjum að kenna. En það er önnur saga. Bandaríkin vildu byrja upp á nýtt eftir fyrri heimsstyrjöldina, byrja á núlli. En einhver þurfti að borga. Bretar og frakkar höfðu tekið gríðarleg lán til að fjármagna stríðsreksturinn og einhver þurfti að borga. Þjóðverjar töpuðu, og því var sjálfsagt að senda þeim reikninginn. Afleiðingarnar voru óðaverðbólga og ónýtt samfélag í Þýskalandi.

Þess vegna komst Hitler til valda. Hann sagði þýsku þjóðinni að nú væri komið nóg. Peningunum væri betur varið í þjóðvegi og uppbyggingu Þýskalands. Hann vann kosningarnar, sem skiljanlegt er. Án nauðarsamninganna í Versölum 1919, hefðu þjóðverjar ekki litið við furðufuglinum með Chaplin skeggið.

In The RuinsHitler stóð við kosningaloforðin. Hann má eiga það. Autobahnarnir voru lagðir, verksmiðjur byggðar, allir fengu vinnu og lífið var fínt. Nema ef þú varst gyðingur, hommi eða sígauni. Þá varstu handtekinn og þú jafnvel drepinn. En það var ekkert ljóst í upphafi. Þegar þýska þjóðin komst að því hvað var að gerast, var það of seint.

Hitler réðist inn í Pólland, og svo restina af Evrópu. Seinni heimsstyrjöldin var mesti hildarleikur sem mannkynið hefur orðið vitni að. Tugir milljóna voru drepnir, enn fleiri misstu heimili sín, þúsund ára menningu Evrópu var eytt og heilu borgirnar voru jafnaðar við jörðu.

Sem betur fer tókst bandamönnum að stoppa þessa geðveiki.

Eða hvað?

Málið er að bandamenn voru ekkert betri. Þeir sprengdu heilu borgirnar í loft upp. Flestar þýsku borgirnar máttu þola gengdarlausar loftárásir, löngu eftir að ljóst var orðið að stríðið var unnið. Veturinn 1944-5 var öllum ljóst að það var tímaspursmál hvenær þjóðverjar myndu gefast upp. Samt voru gerðar loftárásir á Dresden, sem hafði ekkert hernaðarlegt gildi, en var full af flóttafólki. Þennan vetur voru þýskar borgir lagðar í rúst í hefndarskini.

Bandaríkin trompuðu svo allt með því að varpa kjarnorkusprengjum á tvær japanskar borgir. Sagnfræðingar hafa komist það þeirri niðurstöðu að árásirnar hafi ekki haft nein áhrif, heldur hafi japanir gefist upp eftir að rússar lögðu undir sig Manchuriu í Kína og voru að undirbúa árás á Japan. Allar stærstu borgir Japans höfðu verið lagðar í rúst. Eyðilegging skipti þá ekki máli. Það var landhernaður rússa sem þeir hræddust, ekki loftárásir Bandaríkjanna. Hernám rússa myndi hugsanlega þýða aftöku keisarans, og það mátti alls ekki gerast.

Rússar voru ekkert betri en bandamenn. Stalin á að hafa tafið hernám Varsjár til að gefa þjóðverjum tíma til að eyða henni og hann gaf sovéskum hermönnum frjálsar hendur þegar kom að þýskum konum. Nauðganir voru umbun fyrir vel unnin störf.

Eftir stríð, er okkur sagt, brutust út mikil fagðarlæti um allan heim og uppbyggingin hófst. Stríðinu lauk 8. maí í Evrópu og um miðjan ágúst í Asíu. Og þá skall á friður og allt var í fína lagi.

En svona einfalt var það ekki. Mestu fólksflutningar allra tíma áttu sér stað mánuðina eftir stríð. Ekki af því fólk vildi búa annars staðar, heldur var það yfirleitt vegna þess að fólk var ofsótt. Þjóðverjar voru strádrepnir í hefndarskyni hvar sem í þá náðist. Konum var nauðgað í milljónatali, karlmenn barðir til bana, börn pyntuð og drepin. Sögur eru til af sex ára krökkum í fangabúðum í Prag. Þau voru lamin, pyntuð og myrt, því þau voru þýskumælandi. Fólk var látið grafa fjöldagrafir fyrir sjálft sig og svo drepið á grafarbakkanum. Fólk sem átti eitthvað vantalað við nágrannana drápu þá án þess að nokkuð væri gert í því. Í einhverjum löndum var fólki leyft að ráðast á, drepa og pynta annað fólk fram á haustið 1945, eða lengur. Ef þú drapst mann rétt eftir stríð, gastu verið viss um að komast upp með það, því hann hafði sennilega gert þér eitthvað í stríðinu. Sumt fólk var réttdræpt þótt stríðið væri búið.

Milljónir barna voru munaðarlaus. Þau grófu kartöflur og rætur upp úr jörðinni til að lifa af, borðuðu epli af trjám, stálu sér til matar eða seldu líkama sinn. Börn leiddust út í vændi til að lifa af, því foreldrarnir voru dauðir eða horfnir.

Þannig var Evrópa eftir stríð. Morð, hungusneyð, barnavændi. Sagan er ekki eins hrein og fín og við höldum.

Það er þægilegt að leyfa sér að skoða söguna sem röð atburða sem koma okkur ekki við. Þetta er liðin tíð, búið. Við erum ekkert að fara að ganga í gegn um svona tíma núna. Við myndum ekki kjósa Hitler. Við myndum ekki brenna nornir á báli. Við myndum ekki notfæra okkur níu ára krakka sem lætur allt yfir sig ganga fyrir brauðmola eða epli.

Syrian girl, not quite 3 years old.
Syrian girl, not quite 3 years old.

Málið er að við höfum ekkert lært. Það er enn verið að drepa krakka í mið-austurlöndum. Við erum enn að halda með könum eða rússum í Úkraínu eins og þetta sé einhver fótbolti. Við erum að verja Ísrael eða Hamas því okkur finnst þeir vera betri gæjarnir. Við leggjum enn blessun okkar yfir stríð ef við höldum að við séum að styðja við góðu gæjana. Ísland hefur formlega stutt tvö stríð á undanförnum árum. Okkar hendur eru blóði drifnar, þótt við höfum ekki sjálf tekið í gikkinn.

Málið er að það eru engir góðir gæjar í stríði. Öll stríð eru slæm. Það er viðbjóður að setja af stað skipulögð morð, þar sem börn eru pyntuð og myrt. Hugsaðu þér. Ef þú átt barn. Kannski sex ára, níu ára. Hugsaðu þér að þú sért dauð eða dauður, að barnið þurfi að sjá fyrir sér í heimi sem er skítsama um krakkann. Að barninu sé hent í fangabúðir því það tala rangt tungumál. Eða er ekki með réttan húðlit. Svo er það lamið, því nauðgað eða það drepið.

Þetta gerðist 1945, þetta er að gerast í dag. Þetta hefur verið að gerast í þúsundir ára og það er ekkert að breytast.

Stríð eru ógeðsleg og eiga aldrei rétt á sér. Aldrei.

Hættum á láta eins og þau séu fótboltaleikir. Eins og það séu einhverjir góðir kallar. Það virkar ekki þannig.

Hver sá sem styður stríð, styður morð. Svo einfalt er það.

Hvað má barnið mitt heita?

Hvað má barnið mitt heita?

Ég er íslendingur, heiti íslensku nafni og á íslenskt vegabréf þótt ég hafi búið erlendis í yfir tvo áratugi. Eins og gengur, hafði ég það af að fjölga mér. Sonurinn kom í heiminn árið 2007. Hann fæddist í Amsterdam og er því sjálfkrafa hollenskur ríkisborgari. Ég reddaði þó íslenskum ríkisborgararétti þegar við komum með hann til Íslands, sumarið 2007.

MatsÞað snúnasta við að eignast barnið í útlandinu var nafnið. Við þurftum að berjast fyrir því, ég og ófríska mamman, að ég gæti gengist við kiðinu. Það var næstum ómögulegt. Hljómar fáránlega, en af því ég er ekki með ættarnafn, gat ég ekki gefið honum ættarnafn og gat því ekki verið faðir barnsins. Íslensk föðurnöfn eru ekki ættarnöfn og því geta börnin ekki tekið þau upp. Föðurnafn var ómöguleiki, því þau eru ekki viðurkennd í Hollandi. Maðurinn á sýslumannsskrifstofunni svaraði því játandi þegar ég spurði hvort barnið yrði föðurlaust í opinberum skjölum.

Málið endaði þannig að Þjóðskrá þurfti að senda bréf, þar sem kom fram að Ásgeirsson, þótt það sé ekki eiginlegt ættarnafn, virki á sama hátt. Þjóðskrá staðfesti að þau senda svona bréf daglega, því íslendingar um allan heim eru að lenda í þessu.

Málið var leyst. Barnið fæddist og ég fékk að gangast við því. Nafnið var þó ekki samkvæmt íslenskri hefð.

Mats Kilian Ásgeirsson.

Hann tók upp föðurnafnið mitt. Málið er þó ekki alveg búið.

Flugmaðurinn MatsEf við flytjum einhverntíma heim, vill Þjóðskrá að við breytum eftirnafninu í Vilhjálmsson. Við þurfum þess ekki, en þau „myndu meta það“. Ef við breytum nafninu ekki, mun eftirnafn hans barna ráðast af því hvar þau fæðast. Ef hann eignast barn á Íslandi, verður það Matsson eða Matsdóttir, því Ásgeirsson er ekki ættarnafn. Ef hann eignast barn erlendis, mun það heita Ásgeirsson, því það er hans eftirnafn.

Svo er það millinafnið. Kilian er ekki viðurkennt á Íslandi. Kiljan og Kilían eru viðurkennd, en ekki Kilian. Verður það vesen? Þurfum við að fara í mál ef við flytjum heim? Þurfum við að berjast fyrir því að barnið fái að halda nafninu sínu? Ég er ekki viss, og þessi óvissa er rugl. Það er fáránlegt að einhver nefnd á Íslandi geti tekið fram fyrir hendur foreldra og ákveðið að eitthvað nafn, eða stafsetning á nafni, sé þóknanlegt, en annað ekki.

Mér finnst að leggja eigi Mannanafnanefnd niður. Ríkinu kemur ekkert við hvað börnin heita. Einu skiptin sem yfirvöld eiga að skipta sér af nöfnum er ef foreldrar velja virkilega furðuleg nöfn. Ég get ímyndað mér að það sé ekki gaman að vera sex ára og heita Grýla, Leppalúði eða Satan. En það eru þá mannréttindamál og Barnaverndarnefnd getur séð um þau mál.

Þegar fullorðinn og sjálfráða maður, eins og Jón Gnarr, breytir um nafn, kemur það engum við nema honum sjálfum.

Það má búast við að samsetning íslensku þjóðarinnar muni breytast á komandi árum. Áður fyrr þurftu innflytjendur að skipta um nafn. Sonur George Harrison á víst íslenska kærustu. Segjum að hann flytji til Íslands. Áður fyrr hefði hann þurft að breyta nafninu úr Danii Harrison í Daníel Géorgsson, eða eitthvað álíka.

Sem betur fer erum við hætt þeim skrípaleik (og persónuránum). En stríðið er ekki unnið. Ekki fyrr en ríkið hættir að skipta sér að því hvað fólk vill kalla sig.

Vegurinn heim

Vegurinn heim

Hver vegur að heiman er vegurinn heim, sagði einhver. En hversu einfalt er það að snúa heim eftir búsetu erlendis? Hvað um sjúkratryggingar, rétt til bóta, innflutningstolla, gjaldeyrishöft og landvistarleyfi fyrir erlenda fjölskyldumeðlimi?

Íslendingur á íslandi
Íslendingur á íslandi

Ég setti upp fésbókarhóp með það í huga að komast að því hvað gert er fyrir íslendinga sem vilja flytja heim eftir dvöl erlendis. Það sem ég hef heyrt, er að fólk á ekki rétt á neinum bótum fyrst um sinn. Engar atvinnuleysisbætur, örorkubætur eða aðrar bætur sem fólk búsett á Íslandi á tilkall til.

Eins hefur mér verið sagt að íslendingar, nýfluttir heim, þurfi að taka út sjúkratryggingu í sex mánuði eftir heimkomu. Eitthvað sem aðrir þurfa ekki að gera.

Fólk þarf líka, í sumum tilfellum að greiða tolla og gjöld af búslóðum og bílum sem það flytur með sér. Mismikið eftir landi sem flutt er frá, aldri bíls og stærð búslóðar.

Mér sýnist því lítið sem ekkert gert til að laða fólk aftur heim. Það er eins og okkur sé alveg sama um fólkið sem flúði hrunið, fór erlendis í leit að tækifærum sem voru ekki til staðar hér, eða sóttu vinnu sem ekki var í boði á Íslandi. Íslendingarnir í útlöndum geta bara verið þar. Við þurfum ekki á þeim að halda. Eða hvað?

Það er mikilvægt að reyna að fá sem flesta til að snúa heim. Ekkert þjóðfélag getur lifað af mikla og viðvarandi blóðtöku, eða „braindrain“. Markir, kannski flestir, sem flytja erlendis, eru menntaðir. Fólk sem við megum ekki við að missa. Ef það vill snúa heim, megum við ekki setja óþarfa hindranir í veg þeirra.

Hópurinn sem ég setti upp hefur það markmið að koma auga á vandamál, óréttlát lög og reglur. Sé núverandi ferli flókið og erfitt, þarf að finna lausnir á því og gera fólki kleyft að snúa heim, óski það þess. Þess vegna er mikilvægt að safna saman reynslusögum og reyna að einfalda kerfið.

Hópinn má finna hér.

Útlendingar

Útlendingar

Íslendingar eru hrein þjóð, ómenguð af endalausum blöndunum sem aðrar þjóðir hafa þurft að þola í gegn um tíðina. Við erum afkomendur víkinga, erum hörkutól sem lifðu af þúsund ár í skítakulda og komum sterk og sjálfstæð inn í nútímann.

Það er um það bil svona sem við sjáum okkur. Eða sáum okkur. Held það sé að breytast. Við erum nefninlega merkilega blönduð. Einhver hluti genanna kemur frá Skandinavíu, einhver hluti frá Bretlandseyjum. En það er ekki allt. Við erum ekkert viss hvaðan við komum. Ég hef séð hreinræktaða íslendinga sem líkjast mið-austurlandabúum. Genin okkar koma víða að. Og þótt við værum óblönduð frá landnámi, vitum við ekki hvar genin voru fyrir þann tíma.

Nýlega las ég grein eftir Naomi Wolf. Hún er gyðingur, fæddist inn í gyðingafjölskyldu og ólst upp í þeirra trú. Hún trúði, eins og henni hafði verið sagt, að hún væri hluti að Guðs útvöldu þjóð. Í greininni sagði hún frá genaprufu sem fjölskyldumeðlimur fór í. Naomi komst að því að hún er alls ekki gyðingur. Hún á rætur að rekja til Líbanon og ýmsra landa í Evrópu. Hún er blanda af araba, persa og evrópubúa. Eiginlega allt annað en gyðingur.

En það er ekki allt. Flestir nútímagyðingar eru svokallaðir Ashkenazi gyðingar, eða þýskir gyðingar eins og það myndi þýðast. Þeir eru ekki blóðskyldir fólkinu sem bjó í Palestínu í fornöld, heldur koma þeir frá Kákasus og Evrópu. Þeir eru því ekki Guðs útvalda þjóð, allavega ekki erfðafræðilega séð.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er ekki að sverta Ísrael eða gyðinga. Alls ekki. Það sem ég er að reyna að segja er að við vitum oft ekkert hver við erum. Eða hverra. Við vitum að við erum fólk, við erum hluti af mannkyninu. Auðvitað er gaman að gramsa í fortíðinni og finna út hvaðan við komum, en það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli, er að við erum öll ein stór fjölskylda.

Serge er vinnufélagi og öskrandi dæmi um mann sem er ekki íslendingur, en algert gull af manni.
Serge er vinnufélagi og öskrandi dæmi um mann sem er ekki íslendingur, en algert gull af manni.

Innflytjendamál hafa verið mikið í umræðunni. Múslímar eru vandamál því þeir eru eins og olía sem blandast ekki við það sem fyrir er. Pólverjar eru heimskir glæpamenn sem stela vinnunni okkar. Eða voru það litháar? Allavega, þessir útlendingar eru vandamál sem við þurfum að halda frá okkur.

En það er bara ekkert þannig. Útlendingar eru líka fólk. Fólk með tilfinningar, þrár og von um betri heim. Stundum erum við sammála þeim, stundum ekki. Það skiptir þó engu máli, því við íslendingar erum ekkert sammála um allt. Vel heppnað samfélag snýst ekki um að allir séu sammála, heldur að fólk virði náungann og skoðanir hans.

Besta leiðin til að búa til innflytjendavanda er að útiloka innflytjendur frá samfélaginu. Láta þá finna að þeir séu óvelkomnir. Halda þeim frá vinnu og samfélagshópum. Þannig einangrast þeir og festast í fátækragildru. Fólk sem á ekki fyrir nauðsynjum og finnst það vera hatað, reiðist. Það fer að hata á móti. Fer að halda saman í hópum. Fer að vinna gegn samfélaginu sem fyrir er.

Besta lausnin á útlendingavandanum er því ekki að takmarka straum innflytjenda, gera þeim erfitt fyrir, banna þeim að vinna eða byggja sín guðshús. Þvert á móti. Ef við bjóðum þau velkomin og gerum aðlögunarferlið eins auðveldt og hægt er, getum við búist við hamingjusömum einstaklingum sem þykir vænt um (nýja) landið sitt og eru tilbúin til að leggja sitt af mörkum.

Mestu máli skiptir auðvitað að þjóðin sé opin og fordómalaus. Að við getum séð muninn á venjulegu fólki sem vill setjast að og hefja nýtt og betra líf í sátt við allt og alla, og þá sem vilja þvinga okkur til að taka upp þeirra siði með góðu eða illu. Fordómaleysið og virðingin verður að vera beggja megin. Ef upp koma vandamál, þurfum við að taka á þeim. Ef fólk lifir sínu lífi í sátt, þurfum við ekkert að hafa áhyggjur. Við verðum að sjá muninn og haga okkur eftir því, því annars búum við til vandamál þar sem ekkert var.

Gül (rós á tyrknesku) er fyrrverandi vinnufélagi, og ekki af norrænum ættum.
Gül (rós á tyrknesku) er fyrrverandi vinnufélagi, og ekki af norrænum ættum.

En hvernig er best að bjóða fólkið velkomið og gera því flutningana og menningarsjokkið eins auðvelt og hægt er? Ég væri alveg til í að sjá einhverskonar ráðstefnur eða hittinga þar sem fyrirtæki mæta og eru með bása, áhugasamt fólk mætir til að kynnast „nýbúunum“ (og fræðast, finna vinnu etc) og innflytjendur geta safnað saman upplýsingum um stjórnsýsluna, reglur, fyrirtæki, atvinnutækifæri, íslandssöguna og fleira.

Fyrirtækin myndu nota þetta sem leið til að kynna sig og ná í vinnuafl, innflytjendur til að komast inn í samfélagið (kynnast fólki og fyrirtækjum) og hið opinbera til að sitja fyrir svörum um mál sem geta komið upp.

Það yrði frítt inn, allir velkomnir.

Það skiptir nefninlega mestu að innflytjendur hafi á tilfinningunni að þeir séu velkomnir, að þeir komist í vinnu og kynnist fólkinu í landinu. Árekstrar verða nefninlega þegar þetta er ekki í lagi, því þá einangrast þeir.

Fólk sem lifir ekki í fátækt og einangrun er nefninlega sjaldnast til vandræða.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube