Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
Fjölmiðlun – Villi Asgeirsson

Browsed by
Category: Fjölmiðlun

Meira af Íbúðalánasjóði og seldum íbúðum

Meira af Íbúðalánasjóði og seldum íbúðum

Fyrir um viku skrifaði ég pistil í Kvennablaðið. Ég furðaði mig á að sjóðurinn hefði selt 153 íbúðir í ekkert rosalega opnu ferli. Eftir birtingu pistilsins, barst mér póstur frá starfsmanni sjóðsins. Ég var beðinn um að leiðrétta rangfærslu í pistlinum. Það var ekki alveg á hreinu hvar ég var að fara með rangt mál, svo ég svaraði póstinum og bað um frekari upplýsingar.

Hús í bænum (VGA 2015)
Hús í bænum (VGA 2015)

Svar hefur ekki borist, en ég hafði engar áhyggjur, þar sem ekkert liggur á. Nú sé ég að ÍLS hefur selt leigufélagið Klett og 450 íbúðir. Í einum pakka.

Það er kannski hægt að túlka það þannig að þetta hafi farið á opnum markaði, þar sem allir sem hafa efni á 450 íbúðum í einum bita gátu boðið í félagið, en þettta getur ekki átt að virka svona. Það getur ekki verið að sjóður sem er í eigu ríkisins, í okkar eigu, gefi okkur ekki tækifæri til að kaupa íbúðirnar sem voru (sennilega flestar) teknar upp í stökkbreyttar skuldir eftir hrun.

450 eignir. Og ég var að kvarta yfir 153 íbúðum.

Eins og ég sagði að ofan, hef ég ekki enn fengið svar frá ÍLS. Þau skulda mér svo sem ekkert, en það væri gott að vita hver rangfærslan var í pistlinum fyrir viku. Í ljósi þess að ÍLS virðist vera á fullu að losa sig við eignir til fjársterkra aðila, finnst mér það skipta máli fyrir almenning hvað mér og sjóðnum fór á milli. Hér fyrir neðan er hægt að lesa athugasemdina sem ég fékk í tölvupósti og minn svarpóst. Ég hef fjarlægt nafn starfsmanns sjóðsins.

19. maí 2016 í pósti til Steinunar Ólínu, ritstjóra Kvennablaðsins:

Í blaðinu ykkar í fyrradag birtist greint/frétt fá Vilhjálmi þar sem m.a. var vikið að sölu fasteigna hér hjá Íbúðalánasjóði. Í greininni eru atriði sem ég tel rétt að koma á framfæri athugasemdum við.
Ég hef ekki netfang hans eða aðrar tenglaupplýsingar og mér þætti vænt um ef þú kæmir þessu til hans. Ég óska eftir því við Vilhjálm að hann leiðrétti það sem ekki er rétt með farið í blaðinu ykkar og mér þætti vænt um ef þú sem ritstjóri myndir fylgja því eftir og að til skila komist þessar ábendingar mínar.
Það sem er aðalatriðið er að Íbúðalánasjóður leggur mjög ríka áherslu á að eignir sjóðsins séu seldar í opnum ferlum þannig að allir sem hafa áhuga á kaupum hafi kost á að kaupa þessar eignir. Á síðustu árum hefur sjóðurinn selt eignir fyrir um 50 m.a.kr, (50 þúsund milljónir króna). Við teljum að þetta markmið okkar að selja í opnum söluferlum hafi tekist nokkuð vel og vinnum með Félagi Fasteignasala á þann hátt að allar fasteignasölur í landinu geta unnið fyrir sjóðinn.

Hér er minn svarpóstur, sendur sama dag:

Sæl(l) xxx,

Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar ef ég hef farið með rangt mál. Það er sjálfsagt að leiðrétta pistilinn ef ég hef sagt eitthvað sem ekki stenst skoðun. Það sem ég skrifaði var byggt á frétt MBL (hlekkur í pistli) og upplifun á fréttum undanfarin ár. Auðvitað er það möguleiki að mín tilfinning sé ekki það sem virkilega gerðist.

Til að ég skilji hvar ég fór með rangt mál, langar mig að spyrja örfárra spurninga. Upplifun okkar á fréttum er ekki alltaf í takt við raunveruleikann, og því væri gott að geta skrifað grein sem byggð er á staðreyndum frá ykkur.

– Það eina sem ég sagði um ÍLS í greininni er að sjóðurinn hafi ekki selt þessar 153 fasteignir á almennum markaði þar sem einstaklingum var gert mögulegt að kaupa staka fasteign. Er það rangt skilið hjá mér?

– Ég geri ráð fyrir að setningin „Á meðan húsnæðisskortur er alvöru vandamál, eru hundruð íbúða seldar í lokuðu ferli.” sé vandamálið. Hafi ferlið verið opið, hverjum var það opið og hverjir höfðu möguleika á að kaupa eignirnar? Hvað buðu margir aðilar í eignasöfnin?

– Sjóðurinn tók til sín margar eignir eftir hrun. Hvað stór hluti þeirra hafa verið seldar í eignasöfnum, og hvað margar hafa verið settar á almennan markað þar sem en einstaklingar hafa haft möguleika á að kaupa þær?

– Af hverju eru eignir seldar í söfnum, frekar en á almennum markaði?

– Hvað eru fasteignir, að meðaltali, lengi í eigu ÍLS eftir að hann tekur þær til sín? Mér skilst að eignir standi oft tómar mánuðum, jafnvel árum saman. Er þetta rétt, og ef svo er, hvers vegna?

– Er eitthvað vitað um eignarhald fyrirtækja sem kaupa eignapakka af ÍLS? Hefur ÍLS áhuga á slíku og skiptir hann sér af því hvað á gera við fasteignirnar eftir sölu?

– Er eitthver samvinna milli ríkisstjórnar og ÍLS, til að reyna að leysa húsnæðisvandann?

Afsakið allar spurningarnar. Það eru sennilega margar ranghugmyndir um ÍLS í þjóðfélaginu og það væri gott að geta skrifað grein sem bygð er á upplýsingum frá ykkur.

Bestu kveðjur,
Vilhjálmur Ásgeirsson

Bloggið – 10 ár

Bloggið – 10 ár

Það var á þessum degi fyrir tíu árum að ég skrifaði mitt fyrsta blogg. Áhuginn hafði verið fyrir hendi í einhvern tíma, en það var ekki fyrr en Mogginn fór að bjóða upp á bloggsvæði sem ég lét slag standa. Í fyrstu var þetta bara tilraun, en það breyttist fljótlega.

Verði blogg...
Verði blogg…

Fyrsta færslan var um bloggið. Þar tókst mér að guðlasta og blanda Önnu Frank í dæmið, önnur færsla var um stuttmynd sem ég var að undirbúa tökur á og þriðja um mansal í tengslum við fótbolta. Eftir það fór ég að nýta bloggið til að gagnrýna stóriðjustefnuna, það var pallur sem ég notaði til að hrópa af í hruninu og í kjölfarið. Við bloggararnir tengdumst, urðum bloggvinir. Ég kynntist frábæru fólki eins og Láru Hönnu, Birgittu Jónsdóttur, Jórunni Sigurbergsdóttur og mörgum öðrum. Ég tel margt af þessu fólki nú til vina og lífið er skemmtilegra og meira spennandi fyrir vikið.

Bloggvinir
Bloggvinir

Moggabloggið virkaði vel í mörg ár. Þangað til Davíð varð ritstjóri. Hans áherslur voru annars staðar og bloggkerfið fór að safna ryki. Ofstæki og persónuárásir urðu tíðari í athugasemdum og bloggið missti mikið af sjarmanum sem það hafði haft. Á tímabili var ég mest lesni bloggarinn á Moggablogginu, en andinn var breyttur og ég fór. Ég setti upp blogg á eigin síðu, skrifaði á ensku, en setti af og til færslur inn á íslenska bloggið. Þær voru þó sjaldgæfar.

2012 setti ég upp mína eigin síðu á íslensku. Þessa sem þú ert að lesa. Ég hef verið að dunda mér við að setja gömlu moggafærslurnar inn svo allt sé á einum stað. Það er mikið verk og klárast þegar það klárast.

Moggabloggið
Moggabloggið

Í fyrstu færslunni, fyrir réttum tíu árum, spurði ég „Mun ég halda þetta út lengur en í viku?“. Það hefur tekist. Það er gaman að fletta í gegnum gömlu færslurnar. Skoða hvernig skoðanir og áherslur hafa breyst. Á tímabili var ég harður ESB andstæðingur, en sé nú kosti og galla við aðild og finnst að þjóðin eigi rétt á upplýstri umræðu og atkvæðagreiðslu um málið. Ég var skeptískur á nýju stjórnarskrána, en eftir að hafa lesið hana í gegn, hef ég snúist og finnst hún vera mikilvægasta verkefni sem framundan er. Sumt hefur þó ekki breyst. Fjórða færslan, þann 5. maí 2006, hét Nárapúkar. Hún fjallar um álfa sem ferðast til Reykjavíkur til að mótmæla því að borg þeirra sé sökkt. Umfangsefnið var Kárahnjúkar, sem þá voru í byggingu. Náttúruvernd var og er ein af grunnhugmyndunum sem ég lifi eftir.

Það sem ég hef kannski helst lært af blogginu er að þó allt breytist, áherslur og skoðanir, er alltaf undirliggjandi sannfæring sem breytist aldrei. Þessi þrá eftir sanngirni og virðingu við land og þjóð. Það má vel vera að einhver muni einhverntíma finna færslu sem fer beint á sannfæringu mína núna eða í framtíðinni, en ég er sannfærður um að breyttar skoðanir séu til komnar vegna meiri upplýsinga.

Margt hefur gerst á þessum tíu árum síðan fyrsta færslan var skrifuð. Það væri gaman að lesa í gegn um þetta allt einhvern daginn. Sjá hvað var að gerast og hvað mér fannst um þau mál á þeim tíma. Kannski næ ég að gera það í ellinni. Þá sit ég í ruggustólnum og les færslur síðustu 40 ára, því það er á hreinu að ég er ekkert að fara að hætta þessu. Það er okkar allra að sjá til þess að samfélagið haldi áfram að vera frjálst, að við getum haldið áfram að tjá okkur í friði fyrir yfirvöldum og að við höfum rétt á að móta eigin skoðanir og skipta um skoðanir ef nýja upplýsingar fást.

Þess vegna er það algert forgangsmál að tjáningarfrelsið verði tryggt um alla framtíð. Við getum ritskoðað okkur sjálf, en yfirvöld eiga aldrei að gera það.

Sjáumst á netinu.

RÚV framtíðarinnar?

RÚV framtíðarinnar?

Hlutverk RÚV hefur verið bitbein í mörg ár, jafnvel áratugi. Á það að vera pólitískt? Er það nógu hægri sinnað nú? Var það nógu vinstri sinnað í tíð Jóhönnu? Á það að veita aðhald, vera pirrandi fluga eða málpípa? Tilkynningaskyldan er löngu orðin óþörf, veðurfréttir fást hvar sem er, sjúklingar og sjómenn geta dánlódað hvaða lögum sem er, hvenær sem er, og þurfa ekki að hringja inn til að biðja um að þau séu spiluð í þar til gerðum óskalagaþáttum. Jón Múli er farinn og RÚV er bara ekki það sama án hans. Batteríð kostar milljarða og aðahlutverk þess er að vera bitbein stjórnmálamanna sem vilja skera niður og fólks sem vill halda í hefðina.

Hvað er til ráða?

Ég var að keyra heim úr vinnunni og einhver sagði „publieke omroep“. Þetta er hollenska og þýðir opinber fjölmiðill. Og ég fór að hugsa. Hér í Hollandi hafa félög og hópar lengi skipt rásum og stöðvum á milli sín. EO er Evangelische Omroep, eða kristilega sjónvarpsstöðin. Hún sendir ekki endilega út kristilegt efni, en það er oft lauslega tengt trúmálum. AVRO sendir út fræðsluþætti, sérstaklega um listir og menningu. BNN sendir út skemmtiþætti, VARA var stofnað 1925 sem málpípa fyrir verkalýðinn en sendir nú mestmegnis út þætti sem ætlað er að opna augu almennings fyrir málum líðandi stundar, loftslagsmálum og fleira. NOS sérhæfir sig í fréttum, fréttaskýringum og íþróttaviðburðum.

RÚVÖll félögin senda út eigið efni í bland við aðkeypt. Þau eru virk í útvarpi, sjónvarpi og á netinu. Þau eiga það öll sameiginlegt að vera ekki sjónvarpsstöðvar, heldur deila þau ríkisstöðvunum þremur á milli sín. NOS sér um fréttirnar, en þar á eftir kemur t.d. AVRO með heimildamynd um Picasso eða Queen. Nema VARA sé með þann tíma og sendi út þátt um borgaralaun. Síðan kemur EO með biómynd. Ein sjónvarpsstöð, margir fjölmiðlar.

Ég veit ekki nákvæmlega hvernig kerfið virkar hér, hvernig þessu er skipt og hvernig það virkar fjárhagslega, en ég lét mér detta í hug að hægt væri að breyta RÚV með svipuðu kerfi.

Gefum okkur að rekstur RÚV yrði stokkaður upp. Félagið sjálft hætti framleiðslu efnis, en leigði tímahólf í dagskránni. Tímahólfin hefðu þemu. Við viljum hafa fréttir á vissum tímum, fræðsluþætti hér og kvikmyndir þar. Fyrir utan að setja þemun og ákvarða lágmarksaldur á útsendirgarefninu á vissum tímum, myndi RÚV lítið skipta sér af dagskránni.

Kvikmyndaframleiðendur, fréttaveitur og félög sem áhuga hafa á útsendingum sjónvarps- og útvarpsefnis myndu leigja útsendingarkerfi RÚV.

Deginum yrði skipt í 10-15 mínútna hólf sem yrðu verðlögð eftir tíma dags. Það má gera ráð fyrir að útsendingar að nóttu yrðu tiltölulega ódýrar, en tíminn milli 18:00 og 23:00 yrði dýr. Framleiðendur myndu fjármagna framleiðslu og innkaup efnis með auglýsingum. Rekstur RÚV yrði tryggður, þar sem auðvelt yrði að gera fjárhagsáætlanir, og framleiðendur efnis fengju tækifæri til að þróa dagskrá sem stendur undir sér. Það má gera ráð fyrir grósku í kvikmyndaiðnaðinum ef þetta kerfi yrði innleitt. Útvarpsgjaldið yrði notað til að halda kerfinu við og styrkja gerð framúrskarandi efnis.

Helmingur styrkveitinganna yrði ákvarðaður af þjóðinni. Framleiðendur gætu, ef þeir vildu, búið til verkefni og auglýst þau. RÚV væri með síðu þar sem fólk gæti kosið um verkefnin. Segjum að Saga Film hafi keypt tímann 20:30-22:00 og fyrirtækið vilji framleiða framhaldsþætti til að fylla hluta þess tíma. Þau búa til stiklu og reyna að selja þjóðinni hugmyndina. Ef nógu margir kjósa verkefnið, fær Saga Film styrk. Ef ekki, þarf fyrirtækið að fjármagna dæmið sjálft og vona að auglýsingatekjurnar dugi. Því betra sem efnið er, því meiri líkur á að næsta verkefni verði skyrkt, og því líklegt að gæði íslensks sjónvarpsefnis aukist.

Hinn helmingurinn yrði valinn af nefnd. Það er ekki ólíklegt að „vinsæl“ verkefni fái flest atkvæðin, svo það er gott að leyfa nefndinni að ákveða að styrkja fræðsluþætti, þjóðlífsþætti og annað sem eykur á menningu okkar en er ekki beinlínis vænt til vinsælda í kosningu. Ég sé fyrir mér heimildamynd um uppbyggingu Selfoss, Sturlungaöldina, stofnun Alþingis árið 930 og allskonar stikluþætti.

Með þessu kerfi yrði áhugasömum gert auðveldara að hefja útvarpsrekstur. Stofnkostnaður er griðarlegur ef byggja á allt frá grunni. Tæki eru dýr og rekstrarkostnaður hár. Ef þetta yrði að veruleika, þyrftu framleiðendur aðeins að hafa áhyggjur af verðinu á tímarömmunum og hvort áhorfið yrði nægt til að standa undir útsendingum. Sé dæmið ekki að virka, geta þau einfaldlega hætt útsendingum og annar aðili leigir útsendingartímann.

Þetta er hugmynd í mótun. Ég er tilbúinn til að fá gagnrýni, jafnvel að vera skotinn í kaf ef þetta er arfavitlaust. En það væri gaman að sjá hvort hægt sé að þróa hugmyndina og koma henni í framkvæmanlegt form.

SaltExtrakt – eða rangt skal vera rétt

SaltExtrakt – eða rangt skal vera rétt

Ölgerðin Egill Skallagrímsson, eitt ástsælasta fyrirtæki landsins hefur orðið uppvíst að svindli. Eða ótrúlegu klúðri. Ég get ekki dæmt um það, enda hef ég aldrei unnið fyrir fyrirtækið og veit ekki hvað fer fram þar innandyra.

BBC eða einhver annar erlendur miðill fær nasaþef af málinu og vill vita meira. Hvers vegna þeir höfðu ekki samband við  Matvælastofnun eða Ölgerðina sjálfa, veit ég ekki. Þetta eru slöpp vinnubrögð sem maður hefði búist við af sumum miðlum, en ekki BBC. Kannski voru þeir með símanúmer RÚV eða fréttakonunnar á skrá og ákváðu að afgreiða málið á fimm mínútum. Þeim fannst þetta kannski ekki nógu spennandi til að eyða einhverri orku í málið. Kannski skoluðust staðreyndir til þegar spjallað var við hana, kannski var þessu „road“ orði bætt við eftirá. En það skiptir ekki máli.

saltextract

Ölgerðin hefur orðið uppvís að því að selja iðnaðarsalt til matvælafyrirtækja í 13 ár. Það er ekki eins og þetta hafi verið ein sending sem slapp í gegn af því fólk var ekki að taka eftir því sem stóð á umbúðunum. 13 ár eru langur tími, og þetta hlýtur því að hafa verið ákvörðun sem tekin var vísvitandi. Hvort þetta salt var ætlað á götur eða ekki, er það alveg á hreinu að það var ekki ætlað í matvæli. Það er málið og allt annað er útúrdúr.

Svo spyrja þeir hvort íslendingar séu sáttir við að víðlesinn fjölmiðill segi þá hafa borðað götusalt. Ég spyr á móti, heldur Ölgerðin að íslendingar séu sáttir við að þeir séu látnir éta iðnaðarvörur? Telja þeir virkilega að það bæti ímynd sína að siga lögmönnum á fólk út í bæ sem tjáir sig um málið? Ég held að það besta sem Ölgerðin geti gert sé að hringja í þennan víðlesna fjölmiðil og biðja hann að leiðrétta fréttina, sé hún röng. Svo geta þeir beðið þjóðina afsökunar og boðist til að fjármagna rannsókn á hugsanlegum langtímaáhrifum iðnaðarsalts á mannslíkamann.

Ölgerðin var eitt ástsælasta fyrirtæki landsins. Malt og Appelsín er þjóðardrykkur. Gullið hefur unnið til verðlauna víða um heim, ef marka má umbúðirnar. Ímynd getur horfið á augabragði, eins og við höfum verið harkalega minnt á síðustu misserin.

Upphaflega birt vegna þessarar fréttar.

Heiður…

Heiður…

…fyrir Michael Moore að vera í sama þætti og Birgitta. Þau eiga það sameiginlegt að ná eyrum fólks um allan heim og eru nógu skynsöm til að láta spillingaröflin ekki þagga niður í sér eða snúa.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það er sem fær fólk til að skipta um skoðanir, persónu jafnvel, þegar komið er inn á þing. Eru nýjir þingmenn færðir inn í bakherbergi og þeim lagðar reglurnar eða er þerra hræðsla við að missa vinnuna og þá bitlinga sem hún hugsanlega mun gefa? Eru það kannski vissir karakterar sem sækjast í þingmennsku? Fólk sem þráir völd, hvað sem það kostar?

Komist fólk í ríkisstjórn, svo ekki sé minnst á ráðherrastól, ígerist þessi persónuleikabreyting. Það er eins og slökkt sé á persónuleika viðkomandi og nýtt forrit sett inn.

Það verður fróðlegt að sjá hvað þeim Birghittu og Michael fer á milli. Chris Hedges er líka merkilegur maður. Hefur starfað sem blaðamaður í áraraðir og skrifað margar bækur. Hann er duglegur við að standa upp í hárinu á yfirvöldum vestanhafs. Hér fyrir neðan má sjá ýtarlegt viðtal við hann.

(Upphaflega myndbandið sem ég póstaði í janúar 2012 er horfið. Mig minnir að það myndband hafi verið hluti þáttarins. Þetta er allur þátturinn. VGA – 11.05.16)

 

Upphaflega birt vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu.

Gunnar Th. Gunnarsson 18.1.2012 kl. 14:41

Michel Morre er ómerkilegur pappír… og hreint hlægilegt að hann skuli vera viðurkenndur sem heimildamyndagerðarmaður. Allar hans myndir eru meira og minna falsaðar.

En þessi vinstrimaður græðir á tá og fingri fyrir verk sín, sem er ömurlegt, vegna þess að hann siglir undir fölsku flaggi. Hann er draumóramaður af svipuðum toga og rithöfundarbjálfinn, Andri Snær Magnason.

Villi Asgeirsson 18.1.2012 kl. 15:43

Myndirnar hans vekja fólk til umhugsunar. Flest sem hann segir er rökstutt.

Ég veit ekki betur en að draumórar rithöfundarbjálfians, hafi breyst í alvöru martraðir. Ekki komu Kárhnjúkar í veg fyri kreppu. Held að flest það sem hann hélt fram hafi komið fram.

Ef ég er að bulla, komdu þá endilega með dæmi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 18.1.2012 kl. 16:12

Sammála þér með Moore og Birgittu, og ég hef verið að hlusta á viðtalið sem þú linkar á á Hedges, er ánægð með hans sýn á hlutina.  Takk fyrir að setja það hér inn.

Arngrímur Stefánsson 18.1.2012 kl. 16:43

það eitt að vekja fólk til umhugsunar getur verið slæmt ef fólkið fær vitlausar staðreyndir til að melta.  Áróður vekur fólk oft til umhugsunar og sé fólk með rangar upplýsingar getur það komist að rangri niðurstöðu.

Villi Asgeirsson 18.1.2012 kl. 18:27

Ekkert að þakka, Ásthildur. Mín er ánægjan. Hin tvö eru vel þekkt á Íslandi en ég efast um að margir þekki Hedges.

Arngrímur. Michael Moore myndirnar eru skemmtilegar og hárbeitt ádeila á bandarískt samfélag. Ég get au’vita’ ekki vottað fyrir það að allt í öllum myndunum sé hreinn sannleikur, en myndirnar og athafnir hans ýfa fjaðrir þeirra sem hefta vilja frelsi einstaklingsing og gera heilsu fólks að söluvöru. Ekkert nema gott um það að segja.

 

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube