Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
Netið – Villi Asgeirsson

Browsed by
Category: Netið

Bloggið – 10 ár

Bloggið – 10 ár

Það var á þessum degi fyrir tíu árum að ég skrifaði mitt fyrsta blogg. Áhuginn hafði verið fyrir hendi í einhvern tíma, en það var ekki fyrr en Mogginn fór að bjóða upp á bloggsvæði sem ég lét slag standa. Í fyrstu var þetta bara tilraun, en það breyttist fljótlega.

Verði blogg...
Verði blogg…

Fyrsta færslan var um bloggið. Þar tókst mér að guðlasta og blanda Önnu Frank í dæmið, önnur færsla var um stuttmynd sem ég var að undirbúa tökur á og þriðja um mansal í tengslum við fótbolta. Eftir það fór ég að nýta bloggið til að gagnrýna stóriðjustefnuna, það var pallur sem ég notaði til að hrópa af í hruninu og í kjölfarið. Við bloggararnir tengdumst, urðum bloggvinir. Ég kynntist frábæru fólki eins og Láru Hönnu, Birgittu Jónsdóttur, Jórunni Sigurbergsdóttur og mörgum öðrum. Ég tel margt af þessu fólki nú til vina og lífið er skemmtilegra og meira spennandi fyrir vikið.

Bloggvinir
Bloggvinir

Moggabloggið virkaði vel í mörg ár. Þangað til Davíð varð ritstjóri. Hans áherslur voru annars staðar og bloggkerfið fór að safna ryki. Ofstæki og persónuárásir urðu tíðari í athugasemdum og bloggið missti mikið af sjarmanum sem það hafði haft. Á tímabili var ég mest lesni bloggarinn á Moggablogginu, en andinn var breyttur og ég fór. Ég setti upp blogg á eigin síðu, skrifaði á ensku, en setti af og til færslur inn á íslenska bloggið. Þær voru þó sjaldgæfar.

2012 setti ég upp mína eigin síðu á íslensku. Þessa sem þú ert að lesa. Ég hef verið að dunda mér við að setja gömlu moggafærslurnar inn svo allt sé á einum stað. Það er mikið verk og klárast þegar það klárast.

Moggabloggið
Moggabloggið

Í fyrstu færslunni, fyrir réttum tíu árum, spurði ég „Mun ég halda þetta út lengur en í viku?“. Það hefur tekist. Það er gaman að fletta í gegnum gömlu færslurnar. Skoða hvernig skoðanir og áherslur hafa breyst. Á tímabili var ég harður ESB andstæðingur, en sé nú kosti og galla við aðild og finnst að þjóðin eigi rétt á upplýstri umræðu og atkvæðagreiðslu um málið. Ég var skeptískur á nýju stjórnarskrána, en eftir að hafa lesið hana í gegn, hef ég snúist og finnst hún vera mikilvægasta verkefni sem framundan er. Sumt hefur þó ekki breyst. Fjórða færslan, þann 5. maí 2006, hét Nárapúkar. Hún fjallar um álfa sem ferðast til Reykjavíkur til að mótmæla því að borg þeirra sé sökkt. Umfangsefnið var Kárahnjúkar, sem þá voru í byggingu. Náttúruvernd var og er ein af grunnhugmyndunum sem ég lifi eftir.

Það sem ég hef kannski helst lært af blogginu er að þó allt breytist, áherslur og skoðanir, er alltaf undirliggjandi sannfæring sem breytist aldrei. Þessi þrá eftir sanngirni og virðingu við land og þjóð. Það má vel vera að einhver muni einhverntíma finna færslu sem fer beint á sannfæringu mína núna eða í framtíðinni, en ég er sannfærður um að breyttar skoðanir séu til komnar vegna meiri upplýsinga.

Margt hefur gerst á þessum tíu árum síðan fyrsta færslan var skrifuð. Það væri gaman að lesa í gegn um þetta allt einhvern daginn. Sjá hvað var að gerast og hvað mér fannst um þau mál á þeim tíma. Kannski næ ég að gera það í ellinni. Þá sit ég í ruggustólnum og les færslur síðustu 40 ára, því það er á hreinu að ég er ekkert að fara að hætta þessu. Það er okkar allra að sjá til þess að samfélagið haldi áfram að vera frjálst, að við getum haldið áfram að tjá okkur í friði fyrir yfirvöldum og að við höfum rétt á að móta eigin skoðanir og skipta um skoðanir ef nýja upplýsingar fást.

Þess vegna er það algert forgangsmál að tjáningarfrelsið verði tryggt um alla framtíð. Við getum ritskoðað okkur sjálf, en yfirvöld eiga aldrei að gera það.

Sjáumst á netinu.

Beint lýðræði?

Beint lýðræði?

Við búum í lýðræðissamfélagi, sem betur fer. Þjóðin fær að taka þátt í ákvarðanatökum og hafa áhrif á framtíð sína. Að takmörkuðu leyti þó. Við megum kjósa okkur fulltrúa á fjögurra ára fresti, en höfum lítil áhrif þess á milli. Þetta er betra en ekkert, en langt í frá fullkomið.

Beint lýðræði þar sem öll þjóðin gæti sagt álit sitt á öllum málum væri fullkomið lýðræði. Það yrði þó erfitt í framkvæmd. Það hafa ekki allir áhuga á öllum málefnum og fólk með sterkar skoðanir gæti haft of mikil áhrif. Þetta getur verið af hinu góða, en getur líka gefið öfgafólki of mikil völd. Þar sem þáttaka í atkvæðagreiðslum yrði sennilega ekki há, yrði einfalt að smala saman fólki til að koma málum í gegn, og ekki öll mál eru góð.

Íslensk sveit sem tengist færslunni ekki beint
Íslensk sveit sem tengist færslunni ekki beint

Annað vandamál er framkvæmdin. Hefðbundnar kosningar eru dýrar í framkvæmd og það tæki of langan tíma að koma málum í gegn. Kosningaþreyta myndi tæra kerfið og það á endanum falla um sjálft sig. Rafkosningar gætu leyst þetta vandamál að einhverju leyti, en tölvukerfi eru yfirleitt ekki hönnuð til að vera leynileg. Persónuvernd yrði vandamál og fólk gæti ekki treyst því að þeirra atkvæði væri leynilegt og órekjanlegt.

Það eru því þrjú vandamál sem standa í vegi fyrir beinu lýðræði. Það er dýrt í framkvæmd ef það á að vera fullkomlega leynilegt, það er auðveldlega misnotað ef smölun fer fram þegar fólk er orðið leitt á að kjósa um öll mál og það er engin trygging fyrir því að kosningar væru leynilegar ef þær færu fram á netinu.

Sennilega myndi einhverskonar blanda af fulltrúa- og beinu lýðræði virka best. Vefsíða yrði sett upp af ríkinu, þar sem allir á kjörskrá gætu skráð sig inn með Íslykli, gegn um heimabanka eða með auðkenni sem ríkið gæfi út. Þar yrðu þingmál á dagskrá útskýrð og útlistuð. Fólk gæti lesið sér til og kynnt sér þingmálin og hakað við þau mál sem því finnst eigi að fara í þjóðaratkvæði. Þetta yrði ekki „já“ eða „nei“, heldur eingöngu staðfesting á að viðkomandi vildi að kosið yrði um málið. Nái mál nógu mörgum „hökum“, yrði kosið um það á vefnum. Alþingi myndi kjósa um mál sem ekki yrðu hökuð nógu oft. Það er líklegt að mikil deilumál veldust í þjóðaratkvæðagreiðslu, en flest yrðu afgreidd eins og gert er í dag, af þingmönnum. Þetta myndi líka gefa þjóðinni tækifæri til að taka til sín mál þar sem Alþingi virðist vera úr takti við þjóðina.

Einnig mætti nota vefinn til að koma málefnum á framfæri við þingið. Nái það nægum stuðningi, yrði Alþingi að taka það til umræðu. Það er farið inn á þetta í nýju stjórnarskránni og hefur verið nýtt á vefnum Betri Reykjavík.

Missi ríkisstjórn traust þjóðarinnar, gæti þjóðin sett fram vantrauststillögu á vefnum. Fái sú tillaga vissan stuðning (hugsanlega 30% kosningabærra*), yrðu kosningar að fara fram. Hluti þjóðarinnar gæti því farið fram á kosningar og neytt ríkisstjórnina til að endurnýja umboð sitt.

Vefurinn yrði að vera vel gerður, því kerfið er einskis virði ef fólk nennir ekki að nýta sér það. Beint lýðræði virkar bara ef fólk tekur þátt í því.

Það virðist vera heppilegast að nýta netið til að koma á beinna lýðræði en nú er, en það verður þá að vera algerlega á hreinu að vefurinn haldi einungis utan um þær persónuupplýsingar sem þörf er á, og engar aðrar. Vefurinn myndi geyma upplýsingar um að viðkomandi einstaklingur hafi kosið um viss málefni, en ekki hvernig hann kaus.

Birgitta Jónsdóttir er nú á ráðstefnuni D-CENT sem fjallar um beint lýðræði. Þar koma fram athyglisverðar hugmyndir sem vert er að skoða. Framtíðin er spennandi.

* 30% virðist mér vera eðlilegt hlutfall, en það yrði að skoða og rökræða. Hlutfallið verður að vera nógu hátt til að ríkisstjórnir verði ekki reknar trekk í trekk, en þó ekki svo hátt að ákvæðið yrði ónothæft.

Rasistarnir

Rasistarnir

Í dag sá ég mynd á netinu. Þar var vitnað í samfylkingarkonu sem átti að vera að sleikja upp múslímana. Í athugasemdunum var hún kölluð kexrugluð sosíaldemókratakelling, vanhæfur vesalingur, og fáviti. Talað var um að við gætum alveg eins skikkað íslenskar konur til að ganga í búrkum.

Kristín SoffíaÉg skildi ekki textann á myndinni. Ég þekki konuna ekkert, en setningin hlaut að vera úr samhengi. Enda kom það í ljós þegar Kristín tjáði sig um málið.

Þetta er svo skemmtilegt svona algjörlega slitið úr samhengi. Á sama tíma og Moskuumræðan fór sem hæst þá var í gangi mikil umræða um slæma meðferð á grísum og margir lýstu því yfir að þeir ætluðu að hætta að borða svínakjöt. Þetta fannst Jóni Jónssyni og fleiri bitrum gömlum körlum svakalega merkilegt og gátu lesið allt í þetta. Svo var klesst mynd af Degi inn á þetta til að reyna að klekkja á honum. Flottir karlar.

Ég er alveg sammála því að Islam eru arfaslæm trúarbrögð. Þau eiga það sameiginlegt með flestum trúarbrögðum sem hafa verið mikið til óbreytt í aldaraðir. Heilu þorpin eru myrt í nafni Allah. Konur eru seldar í kynlífsánauð og krakkarnir drepnir. Mér er alveg sama hvort Islam séu friðsamleg trúarbrögð. Sumir áhangendurnir eru það ekki.

En sama má segja um kristni. Það þarf sennilega ekki að minnast á krossferðirnar og rannsóknarréttinn, nornabrennurnar og ofbeldið sem grasseraði í Evrópu miðaldanna, þegar kristni var sem sterkust. Allt var það í nafni Guðs og sonarins. Auðvitað sagði Jésú margt fallegt, en hvorki hann né faðirinn gátu stoppað geðveikissjúklinga sem drápu og nauðguðu í þeirra nafni.

Enn þann dag í dag eru kristnir öfgamenn að drepa í nafni frelsarans. Sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem fólk sem framkvæmir fóstureyðingar er reglugela drepið af „pro life“ aktivistum.

En það þarf ekkert trú til að gera fólk morðótt og snarbilað. Flestir vita sennilega að „blessað stríðið“ var mesti hildarleikur mannkynsins til þessa. Heilu borgirnar voru jafnaðar við jörðu, óbreyttir borgarar strádrepnir. En það endaði ekki í maí 1945 (eða ágúst í Asíu). Hefndarmorð voru daglegt brauð í Evrópu fyrstu 2-3 árin eftir stríð. Það eru til sögur af konum sem var nauðgað 5-10 sinnum á dag í nokkrar vikur. Þeim var nauðgað meðan þær héldu í höndina á barninu til að týna því ekki. Fjölskyldan var myrt meðan þær horfðu á og svo var þeim hópnauðgað. Börn voru pyntuð og drepin. Skotin eða hengd. Þjóðverjar (líka konur og börn) voru þvingaðir til að opna fjöldagrafir og svo var andlitum þeirra troðið ofan í rotnandi líkin þar til þau drukknuðu í slíminu.

Það voru engir múllar þar. Það þurfti ekki trúabrögð til. Aðstæðurnar voru „réttar“. Þegar aðstæðurnar eru þannig, bilast fólk og gerir hluti sem það myndi annars ekki láta sér detta í hug.

Fólk gerir ógeðslega hluti þegar aðstæðurnar eru þannig. Að ala á útlendingahatri býr til þannig aðstæður. Það býr til bil milli okkar (íslendinganna) og þeirra (innflytjendanna). Bil sem breikkar, því lengur og oftar sem við tölum um þetta útlendingapakk. Bil sem verður erfiðara að brúa, því lengur sem við leyfum fordómunum að grassera.

Ef við missum okkur í rasisma, eru líkur á því að innflytjur geri eins. Það er okkar, íslendinganna, að búa til samfélag sem hafnar rasima og öllum fordómum.

Þess vegna nenni ég ekki að taka þátt í umræðunni um moskuna, múslíma, pólverja. Innflytjendur, yfir höfuð. Flestir eru þeir sennilega voðalega venjulegt fólk. Ef annað kemur í ljós, ef einhverjir einstaklingar fara að brjóta lögin, er tekið á þeim. Við erum með dómskerfi sem sér til þess að fólk er dæmt fyrir ofbeldisverk.

Hálfur sannleikur er sennilega versta lygin. Þessi mynd sem flögraði um Facebook í dag er gott dæmi um hálfan sannleik sem verður að lygi.

Stærsti flokkur Norðurlanda er enginn leyndardómur

Stærsti flokkur Norðurlanda er enginn leyndardómur

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra skrifaði pistil um pírata. Sjá hér. Ég vil endilega svara spurningunum sem hann setur fram.

Fyrir nokkrum árum leit út fyrir að hreyfing kennd við pírata gæti orðið nýtt pólitískt fyrirbrigði í nokkrum Evrópulöndum. Loftið hefur alls staðar farið úr þeirri blöðru nema hér þar sem hún hefur þanist út síðustu vikur.

Eru píratar blaðra? Næstu kosningarnar munu skera úr um það. Hitt er annað, það er ekki hægt að bera íslenska pírata saman við erlenda. Í nágrannalöndunum hafa þeir haldið sig í upprunalegu hugmyndunum um mál- og netfrelsi. Píratar á Íslandi eru löngu hættir að takmarka sig við þessi mál. Aðstæður á Íslandi eru allt aðrar og flokkurinn hefur tekið upp ýmis mál sem betur mættu fara. Þeir vilja betri og gagnsærri stjórnsýslu og nýja stjórnarskrá sem tryggir meðal annars auðlindirnar í þjóðareign. Þetta eru mál sem þarf virkilega að vinna í á Íslandi eftirhrunsáranna, en minni áhugi er á erlendis.

Píratar eiga nú þrjá þingmenn. Fáir vita með vissu fyrir hvað þeir standa. Vel má líka vera að þeir viti það ekki svo gjörla sjálfir. 

Viti fólk ekki fyrir hvað píratar standa, er því velkomið að lesa píratakóðann. Allar ákvarðanir og stefnur verða að vera í takt við þessa átta punkta. Þeir virðast kannski óljósir við fyrstu sýn, en úr þeim má lesa að flokkurinn er á móti allri spillingu í stjórnkerfinu, þeir eru náttúruverndarsinnar, þeir eru fylgjandi alþjóðasamstarfi, og mannréttindi í hvaða formi sem er eru þeim heilög. Allar ákvarðanir flokksins verða því að fylgja kóðanum. Flokkurinn á því alltaf að geta verið samkvæmur sjálfum sér og kjósendur þurfa ekki að láta koma sér á óvart eftir kosningar.

En út frá hinu má ganga sem vísu að þingmennirnir þrír viti ekki meir en við hin um raunverulegar pólitískar hugmyndir þess mikla fjölda fólks sem lýsir yfir stuðningi við þá.

Það má gera ráð fyrir að stuðningsfólk pírata séu kjósendur sem búnir eru að fá nóg af baktjaldamakki, krókamökun, kjördæmapoti, vinagreiðum, einkavinavæðingum, stanslausri rányrkju, kvótabraski, verðtryggðum lánum, áhlaupum á heilbrigðiskerfið og endalausum óstöðugleika í fjármálum ríkissjóðs og þjóðarinnar. Stuðningsfólk pírata vill sennlega fá frið til að lifa sínu lífi, án þess að stjórnvöld séu endalaust að kippa undan þeim fótunum.

Eftir kosningarnar 2009 var í fyrsta skipti mynduð ríkisstjórn á lýðveldistímanum sem ekki byggðist á málamiðlun yfir miðjuna. Forysta Samfylkingarinnar færði flokkinn langt til vinstri og skildi eftir tómarúm næst miðjunni. Þegar að hálfnuðu því kjörtímabili kom fram í könnunum að kjósendur höfðu ekki áhuga á að færa Ísland til með sama hætti.

Þetta er einfaldlega rangt. Þjóðin fékk ekki nóg af vinstri stjórninni af því hún var svo langt til vinstri. Þvert á móti, skjaldborg var slegin um bankana og fjármálafyrirtækin, frekar en heimilin. Það hefur ekkert með vinstri að gera. Jóhönnustjórnin brást heimilunum, og því missti hún traust kjósenda. Sú stjórn var undir gífurlegu álagi. Ég ætla ekki að reyna að setja mig í spor þáverandi ráðherra, en það er á hreinu að hefði hún komið hreint og sköruglega fram og forgangsraðað öðru vísi, hefði hún ekki tapað fylginu eins og raunin varð. Þjóðin vissi að kjörtímabilið yrði erfitt og hefði fyrirgefið margt, en meint daðrið við fjármálafyrirtækin, IMF og ótímabær umsókn í ESB og Icesave klúðrið varð henni að falli.

Núverandi ríkisstjórn var mynduð undir merkjum hægri þjóðernispopúlisma. Sjálfstæðisflokkurinn hefur eigi að síður reynt að varðveita ábyrga ímynd í ríkisfjármálum. Það hefur þó ekki dugað til. Með samtengingu við þjóðernispopúlisma Framsóknar hefur Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega fjarlægst miðjuna.

Bjarni Ben og heilbrigðiskerfiðÉg ætla ekki að ræða Framsóknarflokkinn. Hann hefur skorað svo mörg sjálfsmörk að hann er sjálfkrafa úr leik. Ég vil halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki reynt að varðveita ábyrga ímynd í ríkisfjármálum. Þeirra fyrsta verk var að lækka auðlegðaskatt. Skatta á stóriðju, sem flytur mestallan hagnaðinn úr landi, á að lækka. Virðisaukaskattur á matvæli var hækkaður. Skattur á munaðarvöru var lækkaður, án þess að nokkrum dytti í hug að fylgjast með ferlinu og sjá til þess að lækkunin skilaði sér í lægra vöruverði. Svo má auðvitað nefna svik á einu stærsta kosningaloforðinu, kosningum um áframhald viðræðna við ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hefur leyft Framsókn að draga sig í svaðið, en hann á sínar gloríur. Þetta litla fylgistap sem hann hefur orðið fyrir, á hann fylliega skilið.

Með hæfilegri einföldun má segja að utanríkisstefnan hafi verið límið í pólitíkinni. Nú er hún helsta uppleysiefnið. Það er afgerandi breyting. … Í þessu ljósi verður fróðlegt að sjá hvernig nýja kjölfestan í pólitíkinni horfir á utanríkismálin og hvernig hún telur skynsamlegast að nálgast ákvarðanir á því sviði. Í fyrstu atrennu snýst sú spurning um hvort þessi stóra kjósendafylking stendur nær ómöguleikakenningunni eða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessum punkti er auðsvarað. Þjóðin á að velja. Píratar eru ekki allir sammála um ESB. Sumir vilja inn, en aðrir ekki. Allir eru þeir þó sammála um að þjóðin eigi að ráða. Þjóðin á að kjósa um ESB og stjórnvöld eiga að fara eftir niðurstöðunum. Það skiptir í raun ekki öllu máli hvort við göngum i ESB eða ekki, en við getum ekki verið föst í þessu máli ár eftir ár. Það er löngu kominn tími til að útkljá þetta og snúa sér að öðru. Af nógu er að taka.

Píratar eru ekkert leyndarmál, þeir eru ekki dulúðugir, ekkert leyndardómsfullir. Píratar eru fólk á öllum aldri, úr öllum stéttum, sem eru orðnir þreyttir á karpinu sem hefur haldið þjóðinni í skotgröfunum í áratugi.

Og að lokum. Sjálfstæðisflokkurinn færðist ekki frá miðju þegar Bjarni tók saman við Sigmund. Flokkurinn hætti að vera miðjuflokkur þegar Davíð tók við. Þetta veit Þorsteinn Pálsson sennilega betur en flestir.

Hrikaleg ógn við persónufrelsið

Hrikaleg ógn við persónufrelsið

Fréttin segir sína sögu. Verði þessi lög að veruleika, munu öll samskipti á netinu verða hleruð og ritskoðuð. Sért þú með „óæskilegar“ skoðanir, verðurðu settu(ur) undir smásjá. Yfirvöld munu engar heimildir þurfa, stórfyrirtæki í skemmtanabransanum geta rukkað þig fyrir að nota hluta úr dægurlagatextum. Vefsíður munu ekki geta fjallað um efni sem verndað er að höfundarétti. Wikipedia, youTube og Facebook gætu horfið, því enginn grundvöllur verður fyrir starfsemi þeirra.

Það sem mestu máli skiptir, er að netið verður eins og gamli sveitasíminn. Yfirvöld munu alltaf vita hvað þú ert að segja og gera.

Hér er myndband sem útskyrir í einföldu máli um hvað þetta snýst.

Og hér er hægt að setja sig á undirskriftalista gegn þessu skrímsli: http://www.avaaz.org/en/eu_save_the_internet/?tta

Ég vona svo sannarlega að íslenskir þingmenn hafi rænu á að samþykkja þessi lög ekki.

Athugasemdir af Moggablogginu.

Ásgrímur Hartmannsson 30.1.2012 kl. 16:57

Mikið held ég þeir í útlöndum öfundi íslensk stjórnvöld stundum… eða myndu gera ef þeir vissu hvernig hlutirnir gerast hérna.

Villi Asgeirsson 30.1.2012 kl. 18:08

Hví? Hér í ESB eru þessi lög samþykkt af ókosnum fulltrúum sem enginn veit hverjir eru. Það er töluvert þægilegra en að þurfa að stressa sig á endurkjöri og pirrandi blaðamönnum.

Alræðisríkið Ísland?

Alræðisríkið Ísland?

Ögmundur er að missa sig í ruglinu. Eftirfarandi frétt birtist á Pressunni, Er CERT-ÍS nýr stóri bróðir? Fær heimildir til að skoða netsamskipti Íslendinga án dómsúrskurðar.

Í frumvarpinu er CERT-ÍS fengin heimild til að skoða samskipti á netinu án dómsúrskurðar. Hvað er næst? Húsleitir án dómsúrskurðar ef einhver hefur það á tilfinngunni að maður sé ekki að hlýða lögum? Ég sé engan mun á því að yfirvöld gramsi í tölvupóstinum og venjulega póstinum, án þess að fá til þess heimild.

Þór Saari sagði eftirfarandi í athugasemd á fésbókarsíðu Evu Hauksdóttur. „Það var reynt að keyra frumvarpið gegnum þingið með hraði og án skoðunar fyriri jól en var stoppað af nefndinni (umhverfis- og samgöngunenfd) einmitt vegna þessara heimilda.“ Innanríkisráðherrann virðist ekkert vilja láta hið svokallaða lýðræði flækjast fyrir sér.

Þetta er skref í alræðisátt og verður að stoppa. Big brother is watching you.

Spurning af hverju ekki einu orði er eytt í þetta á MBL…

Hér er slóðin: http://www.pressan.is/frettir/lesafrett/er-cert-is-nyr-stori-brodir-faer-heimildir-til-ad-skoda-netsamskipti-islendinga-an-domsurskurdar

 

Athugasemdir af Moggablogginu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 26.1.2012 kl. 21:27

Það er allt að koma fram sem sagt hefur verið um kommúnistana í stjórnkerfinu, ég hefði aldrei trúað þessu.  En svo kemur það bara í ljós.  Er þetta ekki bara netlöggann hans Steingríms?

Villi Asgeirsson 27.1.2012 kl. 00:06

Þetta mál er stærra en Steingrímur. ESB var að skrifa undir alþjóðareglur sem banna alla notkun vörumerkja, lagatexta og alls höfundavarins efnis. Það á líka við um tölvupósta. Allt skal skannað, og finnist þeim þú brotleg, má framselja þig til landsins sem finnst það eiga eitthvað vantalað við þig.

Þetta er ekki kommúnismi. Þetta er líkara fasisma. Við verðum öll að berjast við þetta, nema okkur langi rosa mikið að upplifa 1984 eins og bókin lýsti því.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 27.1.2012 kl. 12:14

Ég er eiginlega ekki hissa í raun og veru vinur minn mikill hugsuður sem býr í Þýskalandi sagði við mig fyrir nokkrum árum.  Þeir eiga eftir að banna netið, því með því missa þeir of mikil völd.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube