Framtíðin
Marinó G. Njálsson setti fram athugasemd á Facebook í gær.
Margt var einkennilegt í aðdraganda hrunsins og þó flestir hafi verið blindir fyrir því, og þar á meðal ég, þá höfum við þrjá kosti:
1) Að læra af reynslunni og betrumbæta samfélagið;
2) að láta sem ekkert hafi gerst og haldið áfram á sömu braut; eða
3) að læra af reynslunni og ganga ennþá lengra í ruglinu.
Ég held að almenningur vilji fara leið 1), a.m.k. stór hluti hans, stjórnmálin eru föst á leið 2), en fjármálageirinn, stór hluti fjárfesta og aðilar sem ég ætla ekki að nefna frekar eru á góðri siglingu eftir leið 3).
Á Pírataspjallinu spurði Pálmi Einarsson: Hvaða iðnað/atvinnuveg finnst ykkur við eigum að byggja upp hér á landi til framtíðar?
Hvaða stefnu eigum við að taka, sem þjóðfélag? Hvað eiga stjórnvöld að gera?
Ég er á því að stjórnvöld eigi að gera eins lítið og mögulegt er. Þeim ber að sjá til þess að allir geti lifað sómasamlegu lífi, séu yfir fátækramörkum. Hvort lausnin sé borgaralaun, neikvæður tekjuskattur eða sterkt velferðarkerfi er spurning sem þarf að svara. En það er alveg á hreinu að það verður að koma í veg fyrir að einhverjir þjóðfélagshópar gleymist og sökkvi í fen fátæktar. Auðvitað þarf heilbrigðiskerfið að vera sterkt og aðgengilegt fyrir alla.
Við erum búin að virkja nóg. Ísland framleiðir langmest rafmagn á haus í heiminum. Megnið fer í stóriðju sem skilar litlu í þjóðarbúið. Ég get ekki séð ávinninginn í að virkja það sem eftir er, til að byggja fleiri álver. Það dæmi hefur ekki gengið upp, og er ekkert að fara að gera það. Stóriðja, í eðli sínu, eykur á ójöfnuð í samfélaginu, því til að byggja stórar verksmiðjur þarf fjársterka aðila sem skapa örfá láglaunastörf. Stóriðja er fín – og nauðsynleg – í hófi, en við erum löngu komin fram út öllu hófi.
Stjórnvöld eiga að takmarka atvinnurekstur og afskipti af atvinnulífinu eins og hægt er. Þeim ber að búa til umhverfi þar sem fyrirtæki geta vaxið og dafnað í eðlilegri og heiðarlegri samkeppni. Að sjá ráðherra taka í hendur á auðjöfrum er ekki til þess valdið að styrkja trúna á heiðarlegt viðskiptaumhverfi þar sem allir eiga jafna möguleika. Að þingmenn og ráðherrar vinni leynt og ljóst fyrir stórfyrirtæki, sendir kolvitlaus skilaboð út í þjóðfélagið.
Það segir sig sjálft að við þurfum að hlúa að sprotafyrirtækjum, frekar en auðhringum. Hugvitið er stærsta auðlindin sem við eigum, og hún endurnýjast með hverri kynslóð ef hlúð er að.
Það þarf að sjá til þess að fjármálageirinn skili eðlilegum hagnaði, ekki ofurhagnaði á kostnað þjóðarinnar. Hvort bankarnir séu ríkisreknir eða ekki er aukaatriði, á meðan þjóðin hefur val og er ekki blóðmjólkuð. Það er klikkun að vextir á húsnæðislánum á Íslandi sé 3-4x hærri en í nágrannalöndunum.
Þar fyrir utan þarf að sjá til þess að viðskitabankar og fjárfestingabankar verði aðskildir.
Eftir höfðinu dansa limirnir. Ef við höfum á tilfinningunni að stjórnvöld séu að fela eitthvað, að þau séu að stunda óheiðarleg viðskipti, að þau mismuni fólki eftir efni og aðstæðum, getum við ekki gert ráð fyrir að fólkið í landinu hugsi um þjóðarhag. Á meðan stjórnmálamenn virðast vera uppteknir við að maka eigin krók, má gera ráð fyrir að þjóðin hagi sér eins.
Ef við viljum ekki endurtaka 2008 með enn hrikalegri afleiðingum, þurfum við að hætta að láta eins og það sé 2007. Við þurfum að byggja upp réttlátara samfélag þar sem við skiptum öllu máli.
Því hamingjusöm þjóð í fallegu landi hlýtur að vera markmið okkar allra.