Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
Mannréttindi – Síða 3 – Villi Asgeirsson

Browsed by
Category: Mannréttindi

Fyrirmyndarlandið?

Fyrirmyndarlandið?

Hvernig getur þetta staðist? Það er nógu hrikalegt að fá krabbamein, þótt það þýði ekki gjaldþrot í leiðinni. Hvar er mannúðin í þeim sem semja fjárlögin? Hvað mun krabbameinsmeðferð kosta þegar sjúkrahús eru farin að láta eins og hótel?

Er þetta fyrirmyndarlandið? Er þetta Íslandið sem við viljum búa í? Erum við stolt af þessu?

En þetta er allt í lagi, því það er frítt að fara í kirkju. Spurning með að taka up gamla kerfið og biðja bara guð um hjálp ef maður veikist.

Þessi færsla var upphaflega birt á Moggablogginu. Þar er hægt að lesa athugasemdir við hana og finna hlekk á fréttina sem rætt er um.

Er þetta virkilega eitthvað sem við viljum ganga í?

Er þetta virkilega eitthvað sem við viljum ganga í?

Evrópa er ríkasta svæði í heimi. Þó leggjumst við svo lágt að heimsækja þriðjaheimsríki og biðja um peninga? Kína er á barmi hruns og við mjálmum í þeim að styðja Evrópu í krísunni?

Er ESB gengið af göflunum? Er ekki snefill eftir af sjálfsvirðingui hjá þessu fólki? Skilja þessir „háu herrar“ ekki að ef Kína fer að fjármagna einhverskonar gervibata – því án uppstokkunar kerfisins erum við ekki að leysa neitt – vilja þeir hafa eitthvað um evrópumál að segja? Trúum við virkilega að kínverjar muni hjálpa okkur af því þeir eru svo góðir í sér? Viljum við að ríki sem drepur þegnana án dóms og laga*, leyfir barnaþrælkun og gefur skít í mannréttindi yfirleitt hafi eitthvað með okkur að gera? Viljum við gefa Kína höggstað á okkur?

Svo er þetta skemmtilegt. „Barroso gerði lítið úr mótmælum og verkföllum í einstökum evruríkjum vegna efnahagsástandsins og sagði að það væri réttur fólks að mótmæla í opnum samfélögum.“ Auðvitað gerir hann lítið úr þessu, því Brussel elítunni er skítsama um hvað fólki finnst. Evrópustórnarskráin er gott dæmi. Þegar fólk í nokkrum evrópulöndum hafnaði henni, var nafninu breytt í Lissabonsáttmála og sett í lög. Það þarf nefninlega ekki að kjósa um einhvern sáttmála. Og þegar ekki er hjá kosningum komist, er kosið aftur og aftur þar til rétt niðurstaða fæst. Svo aldrei meir.

Ísland hefur ekkert í þetta samband að sækja. Ekki í bili allavega. Fyrst verðum við að taka til heima hjá okkar, koma efnahaginum í þokkalegt horf. Það getur ekki verið gott að setjast að samningaborðinu með allt niður um sig. Hvernig eigum við að geta samið um nokkurn skapaðan hlut í þeirri stöðu sem við erum nú? Svo er ágætt að bíða átekta þar til róast um evruna og ástandið almennt innan ESB áður en við ákveðum að ganga í sambandið.

ESB er ólýðræðislegt og smáríki hafa sama og engin völd. ESB málið hefur orðið til þess að núverandi stjórn hefur klofnað og ekki komið brýnari málum í verk.

Tökum þessu rólega. Vinnum í okkar málum og fylgjumst með ESB úr fjarlægð. Okkur liggur ekkert á.

* Sjá þessa frétt. Vara við myndum sem geta komið fólki úr jafnvægi. http://barbadosfreepress.wordpress.com/2008/10/03/would-bussa-have-accompanied-barbados-chief-justice-and-prime-minister-to-chinese-embassy-celebration/

Styður Jésú ritskoðun?

Styður Jésú ritskoðun?

Snorri í Betel er kominn í klandur eina ferðina enn. Hann virðist eiga eitthvað erfitt með að sætta sig við að allir eru ekki eins. Samkynhneigðir mega ekki vera samkynhneigðir í friði fyrir honum.

Hann reyndi að krafsa sig upp úr kviksyndinu á bloggsíðunni sinni. Ég setti inn athugasemd. Eins og oft vill vera með ofurkristið fólk, var hún ekki birt samstundis. Hann hefur ákveðið að athugasemdir skuli fyrst skoðaðar og samþykktar áður en þær birtast. Þar sem ég var ósammála honum, birtist mín ekki.

Snorri mælir í Jésú nafni, segir hann. Ég geri því ráð fyrir að Jésú styðji ritskoðun.

Eigum við þá ekki að láta það eftir Snorra að ritskoða það sem okkur er ekki þóknanlegt? Mér sýnist foreldrum barnanna sem hann kennir ekki vera skemmt. Meirihluti þjóðarinnar er ósammála Snorra, svo það væri rökrétt að birta engar fréttir um hann og hans skoðanir. Þegja hann í hel.

Nei, það er ekki okkar að ákveða hvað fólki finnst og hvernig það lifir sínu lífi. Það er ekki okkar að segja fólki hvaða skoðanir það skal hafa. Fólk eins og Snorri gerir lítið úr kristinni trú, svokölluðum kristilegum kærleik og umburðarlyndi. Helvíti hart ef ég, trúleysinginn, er umburðarlyndari en maður sem mælir í Krists nafni. En hann um það.

Ég get ekki séð að það komi honum við hjá hverjum fólk sefur. Hann má trúa því að hommar fari til helvítis. En mikið væri það gott ef hann héldi þessu rugli fyrir sig og væri ekki að hræða skólakrakka með sögum af vítislogum og guði sem hatar þau.

 

Athugasemdir af Moggablogginu

Villi Asgeirsson 10.2.2012 kl. 18:56

En þetta með að þurfa einhvern guð til að vera ekki algerlega sneyddur réttlætistilfinningu er auðvitað kjaftæði.

Villi Asgeirsson 10.2.2012 kl. 18:53 Mér sýnist á öllu að Jésú hafi verið til, en boðskapur hans hafi verið brenglaður all hroðalega á þriðju öld. Það eru allavega til sannanir fyrir því að Pontíus hafi verið til.

En það skiptir svo sem ekki máli. það sem merkilegast er, er að fullorðið fólk skuli trúa á þetta dæmi. Spurning hvað það segði ef ég færi að boða trú á jólasveininn og skíta á einhverja þjóðfélagshópa sem gætu verið honum vanþóknanlegir.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir 10.2.2012 kl. 18:38

Doctor. Jesús var til, og var sönn persóna, eins og allir aðrir sem eru útskúfaðir úr trúarbragða-heimum. En peningaöfga-trúboðar afskræmdu hans persónuleika með því sem kallast trúarbrögð kristninnar.

Trúarbrögð hafa einungis skapað stríð fyrir mannkynið.

Ég hef aldrei lesið biblíu-ævintýra-skáldsöguna, og hef kannski þar af leiðandi náð að halda í mína sönnu trú á það sem er raunverulegt og kærleiksríkt.

Ég þarf sem betur fer engar trúarbragða-ævintýra-sögur til að sinna minni trú á kærleikann til náungans.

M.b.kv.

Óskráður 10.2.2012 kl. 07:58

Hlutverk Jesu var að koma með ógnir um helvíti og eilífar pyntingar til allra sem ekki aðhylltust kristni… Hættið að afsaka gaurinn, ekki tala um hann eins og hann hafi verið góður; Hann var dómsdagsspámaður með ógnir og terror… og það besta, hann var aldrei til… hann er uppskáldaður eins og Harry Potter.. og já, biblian styður ritskoðun á allt sem gagnrýnir hana

Anna Sigríður Guðmundsdóttir 10.2.2012 kl. 00:24

Það er undarlegt að kenna Jesús Jósefsson við jafn mikinn hrylling, eins og fölsk trúarbrögð eru. Enginn hefði verið ósáttari við slíkt, heldur en hann.

Þessi Snorri ætti nú að vinna við eitthvað annað, en að fræða börn. Svona öfga-trúarbragða-dómarar eru með þeim ósköpum gerðir, að umbera ekki náungann, heldur drottna yfir náunganum með óréttlæti og hroka.

Að skreyta sig með trúarbragða-kjaftæði til að upphefja sjálfan sig, og gera sig að dómara yfir náunganum, er álíka og að þurfa orður og titla til að upphefja sjálfan sig úr minnimáttar-kenndinni, og horfa svo niður til þeirra sem ekki þurfa slíkt rusl, sjálfum sér til upphefðar.

M.b.kv.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 9.2.2012 kl. 22:43

Svona lið er algjörlega óþolandi.  Þvílík hræsni, ætli Jésú hefði ekki kallað þennan mann farísea?

Ólafur Björn Ólafsson 9.2.2012 kl. 21:43

Sæll vertu

Mikið svakalega er ég sammála þér núna…

Mitt umburðarlyndi fyrir trúarhópum fer að nálgast endastöð ef þeir fara ekki að hætta þessarri hræsni. Það er hinsvegar gott að hitta á aðra trúleysingja sem hafa umburðarlyndi umfram það sem trúarritin boða.

Kveðja

Kaldi

Hryðjuverk?

Hryðjuverk?

Arion Banki ber fyrir sig hryðjuverkum. Að fái hann ekki að njósna um landsmenn, geti þeir stutt við bakið á hryðjuverkastarfsemi.

Mér hefur sýnst á undanförnum árum að bankarnir, ekki síst þessi, séu að fremja stærsta hryðjuverk sem íslendingar hafa orðið fyrir. Bankarnir tóku stöðu gegn krónunni. Þeir spiluðu fjárhættuspil með fé landsmanna. Þeir settu þjóðina á hausinn og græða nú á tá og fingri.

Maður þarf ekki að sprengja eitthvað í loft upp til að eyðileggja samfélag.

Hafi ég rangt fyrir mér, vil ég endilega heyra það.

 

Athugasemdir af Moggablogginu

Villi Asgeirsson 9.2.2012 kl. 21:08

Hún var ekki þannig, Snorri. En þú hefur svo sem sýnt að dómgreindin er ekki alltaf að flækjast fyrir þér.

Snorri Óskarsson 9.2.2012 kl. 18:39

Ég hendi órökstuddum og ómálefnalegum athugasemdum. Þín var þannig.

k.k.

Snorri

Kolbrún Hilmars 9.2.2012 kl. 17:35

Ég hef grun um að Arion banki fari bókstaflega eftir lögum Alþingis um peningaþvætti. Ekki endilega vegna þess að bankinn sá hafi meiri áhuga á persónunjósnum en hinir bankarnir, heldur að okkar alvitru þingmenn hafa trúlega samþykkt peningaþvættislögin án þess að ráðgast fyrst við persónuvernd.

Bíð spennt eftir að einhver kveiki á perunni hvað varðar samhengið. 🙂

Fólk pyntar fólk

Fólk pyntar fólk

Stundum les maður fréttir sem fær blóðið til að sjóða. Pyntingar á börnum er það ógeðslegasta sem hægt er að hugsa sér. Ég vona að Assad og aðrir með jafn viðbjóðslegt innræti mæti þeim örlögum sem þeir eiga skilið.

Því miður er það þó svo að maður er farinn að taka öllum svona fréttum með fyrirvara. Ekki að ég efist um að þetta sé að gerast, að sýrlensk börn séu tekin, brennd með sígarettum, gefið raflost og fleira. Að æsku þeirra sé rænt. Ég efast ekki um að svipaðir hlutir gerist í mörgum löndum, um allan heim. Svona fréttir koma bara svo oft upp vegna þess að vesturlönd vilja fara í stríð við viðkomandi land. Vonum að það sé ekki málið hér.

Þegar yfirvöld standa fyrir morðum og pyntingum, þurfa þau hjálp einstaklinga sem eru tilbúnir til að framkvæma voðaverk sem venjulegt fólk getur ekki ímyndað sér. Þetta gerist yfirleitt í nafni einhvers guðs sem fólk telur gefa sér einhvern rétt til að homa fram við aðra af algerri vanvirðingu því þeir aðhyllast ekki sömu hjátrú. Þetta gerist líka vegna óttans við einhvern leiðtoga. Maður er hlekkur í keðju og þorir ekki að fylgja samviskunni vegna þess að þá eru einhverjir bitlingar teknir af manni, eða að refsingin við að óhlýðnast er samviskunni yfirsterkari. Það er betra að pynta börn, en að eiga það á hættu að lenda á svarta lista yfirvalda. Stundum er það geðveiki sem fær fólk til að pynta og drepa, stundum meðvirkni og stundum ótti.

Bradley Manning á að hafa lekið skjölum sem voru svo birt af Wikileaks. Skjölum sem sýndu að hermenn bandamanna voru ekki alltaf að berjast við vondu kallana fyrir hin góðu öfl. Þau sýndu að hermennirnir okkar, sem við sendum til Íraks, Afganistan og Lýbíu með samþykki okkar, voru kerfisbundið að myrða og pynta óbreytta borgara. Skjölin sýndu að við erum ekki góði kallinn. Við erum nasistarnir sem stilltu fólki upp við vegg og skutum það fyrir minnstu sakir, rómverjarnir sem útrýmdu heilu þorpunum ef þau voru ekki til friðs. Við vorum innrásarherinn og við höguðum okkur þannig. Allt gerðist þetta í okkar nafni, því íslendingar samþykktu þessi stríð.

Hann á að hafa lekið þessum skjölum og var því hnepptur í gæsluvarðhald. Honum var haldið vakandi í 23 tíma á dag, hann fékk ekki að tala við neinn nema lögfræðing, hann fékk enga ábreiðu í pínulitla klefanum. Hann var pyntaður, niðurlægður og brotinn niður andlega. Haldið í þessu ástandi í hálft annað ár án þess að vera ákærður. Pyntaður án dóms og laga.

Bandaríkjamenn hafa reynt að þaga tilvist hans í hel síðan málið kom upp. Fæstir sem ég tala við hafa nokkra hugmynd um hver Bradley Manning er, þaðan af síður af hverju þau ættu að vita af honum. Þegar minnst er á hann í fjölmiðlum, er oft tekið fram að hann sé hommi, eins og til að gera minna úr málinu. Snúa því upp í hálfgert grín, beina umræðunni annað.

Af og til koma svo fréttir sem fá mann til að brosa og trúa á mannkynið.

Í dag tók Hreyfingin stórt skref þegar hún tilnefndi Bradley Manning til friðarverðlauna Nóbels. Hvort hann fái verðlaunin er erfitt að segja, en þetta mun auka umfjöllun um hann í heimspressunni. Fólk mun hugsanlega heyra af honum í fyrsta sinn, skilja af hverju hann hefur verið í haldi án dóms og laga og sjá að heimurinn er ekki endilega eins og okkur er talin trú um. Að við séum ekki endilega góðu kallarnir, að það sé ekki hægt að fara í stríð til að halda friðinn, að ástæðan er ekki að viðhalda mannréttindum og bjarga þjóðum heimsins frá illum einræðisherrum. Að það hangi alltaf eitthvað á spítunni þegar ríki fara í stríð. Kannski að fólk fari að skilja að fyrsta fórnarlamb hverrar styrjaldar er sannleikurinn. Almennir borgara fylgja svo fast á eftir.

Almenningsálitið endaði Víetnam stríðið. Það getur líka endað stíðið við hryðjuverkin ef fólk veit um hvað það snýst. Án þegjandi samkomulags þegnanna, geta ríki ekki farið í stríð. Án hermanna sem tilbúnir eru til að drepa, yrði ansi fámennt á vígvöllunum.

Hreyfingin er lítill flokkur á Íslandi, en í dag hafði hún mikil áhrif á heimsvísu. Hún sýndi að örfáir einstaklingar geta haft mikil áhrif. Að við skiptum öll máli. Ég óska þeim innilega til hamingju.

Hrikaleg ógn við persónufrelsið

Hrikaleg ógn við persónufrelsið

Fréttin segir sína sögu. Verði þessi lög að veruleika, munu öll samskipti á netinu verða hleruð og ritskoðuð. Sért þú með „óæskilegar“ skoðanir, verðurðu settu(ur) undir smásjá. Yfirvöld munu engar heimildir þurfa, stórfyrirtæki í skemmtanabransanum geta rukkað þig fyrir að nota hluta úr dægurlagatextum. Vefsíður munu ekki geta fjallað um efni sem verndað er að höfundarétti. Wikipedia, youTube og Facebook gætu horfið, því enginn grundvöllur verður fyrir starfsemi þeirra.

Það sem mestu máli skiptir, er að netið verður eins og gamli sveitasíminn. Yfirvöld munu alltaf vita hvað þú ert að segja og gera.

Hér er myndband sem útskyrir í einföldu máli um hvað þetta snýst.

Og hér er hægt að setja sig á undirskriftalista gegn þessu skrímsli: http://www.avaaz.org/en/eu_save_the_internet/?tta

Ég vona svo sannarlega að íslenskir þingmenn hafi rænu á að samþykkja þessi lög ekki.

Athugasemdir af Moggablogginu.

Ásgrímur Hartmannsson 30.1.2012 kl. 16:57

Mikið held ég þeir í útlöndum öfundi íslensk stjórnvöld stundum… eða myndu gera ef þeir vissu hvernig hlutirnir gerast hérna.

Villi Asgeirsson 30.1.2012 kl. 18:08

Hví? Hér í ESB eru þessi lög samþykkt af ókosnum fulltrúum sem enginn veit hverjir eru. Það er töluvert þægilegra en að þurfa að stressa sig á endurkjöri og pirrandi blaðamönnum.

Alræðisríkið Ísland?

Alræðisríkið Ísland?

Ögmundur er að missa sig í ruglinu. Eftirfarandi frétt birtist á Pressunni, Er CERT-ÍS nýr stóri bróðir? Fær heimildir til að skoða netsamskipti Íslendinga án dómsúrskurðar.

Í frumvarpinu er CERT-ÍS fengin heimild til að skoða samskipti á netinu án dómsúrskurðar. Hvað er næst? Húsleitir án dómsúrskurðar ef einhver hefur það á tilfinngunni að maður sé ekki að hlýða lögum? Ég sé engan mun á því að yfirvöld gramsi í tölvupóstinum og venjulega póstinum, án þess að fá til þess heimild.

Þór Saari sagði eftirfarandi í athugasemd á fésbókarsíðu Evu Hauksdóttur. „Það var reynt að keyra frumvarpið gegnum þingið með hraði og án skoðunar fyriri jól en var stoppað af nefndinni (umhverfis- og samgöngunenfd) einmitt vegna þessara heimilda.“ Innanríkisráðherrann virðist ekkert vilja láta hið svokallaða lýðræði flækjast fyrir sér.

Þetta er skref í alræðisátt og verður að stoppa. Big brother is watching you.

Spurning af hverju ekki einu orði er eytt í þetta á MBL…

Hér er slóðin: http://www.pressan.is/frettir/lesafrett/er-cert-is-nyr-stori-brodir-faer-heimildir-til-ad-skoda-netsamskipti-islendinga-an-domsurskurdar

 

Athugasemdir af Moggablogginu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 26.1.2012 kl. 21:27

Það er allt að koma fram sem sagt hefur verið um kommúnistana í stjórnkerfinu, ég hefði aldrei trúað þessu.  En svo kemur það bara í ljós.  Er þetta ekki bara netlöggann hans Steingríms?

Villi Asgeirsson 27.1.2012 kl. 00:06

Þetta mál er stærra en Steingrímur. ESB var að skrifa undir alþjóðareglur sem banna alla notkun vörumerkja, lagatexta og alls höfundavarins efnis. Það á líka við um tölvupósta. Allt skal skannað, og finnist þeim þú brotleg, má framselja þig til landsins sem finnst það eiga eitthvað vantalað við þig.

Þetta er ekki kommúnismi. Þetta er líkara fasisma. Við verðum öll að berjast við þetta, nema okkur langi rosa mikið að upplifa 1984 eins og bókin lýsti því.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir 27.1.2012 kl. 12:14

Ég er eiginlega ekki hissa í raun og veru vinur minn mikill hugsuður sem býr í Þýskalandi sagði við mig fyrir nokkrum árum.  Þeir eiga eftir að banna netið, því með því missa þeir of mikil völd.

Er einhver áhugi á uppgjöri?

Er einhver áhugi á uppgjöri?

Það er þá komið á hreint. Meirihluti þingheims hefur ekki áhuga á að gera upp hrunið. Það er rausað um að ljótt sé að kenna einum manni um það sem miður fór. Ég get ekki séð að nokkur maður sé að gera það. Málið snýst alls ekki um Geir H. Haarde.

Fleiri tóku þátt í fylleríinu. Auðmenn, bankamenn, útrásarvíkingar, stjórnmálamenn. Hrunið byrjaði um svipað leyti og uppsveiflan. Bankar voru seldir vinum fyrir lánsfé úr hinum bönkunum. Viðskiptalífið sveik, svindlaði og stakk undan á meðan embættismenn horfðu í hina áttina, fullir á freyðivíni í boði útrásarinnar. Geir var ekki einn um að gera ekkert. Allt kerfið var sjúkt.

Kosið var um hvort lögsækja ætti fjóra þingmenn. Á endanum var einn valinn, Geir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005 og forsætisráðherra til 2009. Það var fullkomið pólitískt klúður að sleppa hinum þremur, en það gerir Geir ekki stikkfrí. Ekki frekar en maður sleppti einum af því hinir þrír sem tóku þátt í ráninu (nauðguninni eða hvaða glæp sem framinn hefði verið) komust undan á hlaupum. Geir var í hringiðunni sem fjármála- og forsætisráðherra og hlýtur að bera einhverja ábyrgð. Hversu mikil hún er, veit maður ekki og það kemur ekki í ljós ef málið verður látið niður falla.

Hlutverk Landsdóms er ekki að hengja Geir. Ég hef engan sérstakan áhuga á að sjá hann í litlum klefa á Litla Hrauni. Efast um að margir hafi áhuga á því. Það sem ég vil sjá er uppgjör á áratugnum fyrir fall bankanna. Opið, hreinskilið og ýtarlegt. Það varð alsherjarhrun og við sjáum ekki fyrir endann á afleiðingunum. Ef við ræðum ekki málin, veltum steinum og skoðum ormana sem leynast undir þeim, komumst við aldrei upp úr þessu kviksyndi. Þjóðin á það skilið að vita hvað gekk á. Vita hvaða reikninga hún er að borga og af hverju.

Það er gott að halda til haga hvaða þingmenn kusu um málið og hvernig. Gæti hjálpað í næstu kosningum. Ég veit að enginn í „nei“ hópnum fær mitt atkvæði.

já:

Arna Lára Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús M. Norðdahl, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman

nei:

Atli Gíslason, Árni Páll Árnason, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Kristján L. Möller, Lilja Mósesdóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson

fjarvist:

Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson

fjarverandi:

Björgvin G. Sigurðsson 

Birt vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu:

Villi Asgeirsson 20.1.2012 kl. 23:25

Athyglisverð frétt. Listi yfir vitni.

http://www.visir.is/thungavigtarfolk-a-vitnalista-i-landsdomsmalinu/article/2011110519456

hilmar jónsson 20.1.2012 kl. 23:41

Vægast sagt athyglisvert Villi og skýrir margt.

Villi Asgeirsson 20.1.2012 kl. 23:45

Allir á vitnalistanum sögðu nei. Merkilegt.

hilmar jónsson 21.1.2012 kl. 00:16

Já mjööög merkilegt….

Óskráður (this is fake) 21.1.2012 kl. 00:17

Það er að koma betur og betur í ljós að ALLIR stjórnmálaflokkar hafa þegið styrki (MÚTUR) í gegnum tíðaina og eru allir jafn samsekir. Við horfum upp á toppinn á ísjakanum þegar Sjálfstæðismenn þurftu að skila sínum styrk (MÚTUM)  frá Fl-group. Nú er komið  að því að þeir félagar snúi bökum saman og passi upp á hvorn annan að ekkert ljótt falli a´þeirrra hvítflibba. Samsærið í hnotskurn í boði Alþingis gegn vægu verði.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir 21.1.2012 kl. 00:27

Góður pistill Villi !

Villi Asgeirsson 21.1.2012 kl. 08:24

Mér sýnist að Hreyfingin ein hafi greitt atkvæði á móti tillögunni. Eitthvað sem gott er að muna í næstu kosningum.

Agla 21.1.2012 kl. 12:10

Að þingsumræðu lokinni verður væntanlega naumur meirihluti þingmanna meðfylgjandi tillögu Bjarna Benediktssonar um  að ákæran á hendur fyrrverandi forsætisráðherra (Geir Haarde) verði afturkölluð.

Trúlega hefur meðferð Alþingis á þessu „vandræðamáli“ verið lögum samkvæm frá upphafi.  Hver skyldi þá verða staða fyrrverandi forsætisráðherra lögum samkvæmt?      Gæti hann  t.d. krafist bóta  fyrir mannorðstjón og kostnað sem fylgt hefur undirbúningi tengdum  fyrirhugaðri vörn sinni við ákærunni sem samþykkt var af Alþingi upprunalega?

Þorsteinn Siglaugsson 21.1.2012 kl. 12:13

Það hafa margir áhuga á uppgjöri á áratugnum fyrir fall bankanna. Málið gegni Geir verður aldrei slíkt uppgjör enda snýst það aðeins um hvað var gert eða ekki gert rétt áður en bankarnir féllu. Málið er í rauninni smjörklípa þar sem athyglinni er beint frá því sem máli skiptir að einhverju sem engu skiptir.

Villi Asgeirsson 21.1.2012 kl. 12:21

Agla, þetta er sennilega allt fullkomlega löglegt, en jafn siðlaust fyrir því.

Þorsteinn, ég get ekki ímyndað mér að vitnisburður allra ráðherra fyrri stjórnar og fleiri áhrifamanna hafi engin áhrif á uppgjörið, komi það nokkurntíma. Þetta er að dreyfa athyglinni einöngu vegna þess að það er tekið upp aftur. Þingið var búið að afgriða þetta og hefði átt að gefa landsdómi vinnufrið.

Þessu máli var klúðrað af Samfó. Ef eitthvað vítavert gerðist þar, er ekkert því til fyrirstöðu að setja upp mini-rannsóknarnefnd og skoða það.

Óskráður (this is fake) 21.1.2012 kl. 12:43

Eftir að hafa hlustað á þáttinn Í vikulokin á Rás 1 í morgun kemst maður betur að þeirri niðurstöðu að þingmenn hafa engan áhuga á niðurstöðu og vilja einfaldlega drepa málið niður. Hin mæta þingkona Guðfríður Lilja talaði um að koma á Sannleiksnefnd, en einni nefndinni, til að fá einhverja niðurstöðu.

Villi Asgeirsson 21.1.2012 kl. 12:49

Hvernig kom Margrét út? Skilst hún hafi verið þarna líka.

En nefndir. Nefndir. Fleiri nefndir. Mikið væri gaman ef þingmenn töluðu bara hreint út og kysu um málin í staðinn fyrir að þvæla öllum málum milli nefnda. Ég skil ekki að kerfið þurfi að vera svona þungt í þessu litla samfélagi.

Agla 21.1.2012 kl. 13:16

Ef þetta „ferli“ er allt lögum samkvæmt á þá ekki aumingja Geir Haarde rétt á upphefð æru sinnar og alls konar bótagreiðslum?

Villi Asgeirsson 21.1.2012 kl. 13:18

Jú, eflaust. Breytir engu. Við virðumst geta borgað allt sem einhverjum dettur í hug að láta okkur borga.

Agla 21.1.2012 kl. 13:25

Kannski hefði ég betur sagt „Ef þetta „ferli“ er allt lögum samkvæmt á þá aumingja Geir Haarde engan rétt á upphefð æru sinnar og alls konar bótagreiðslum???

Óskráður (thin) 21.1.2012 kl. 13:29

Sæll. Margrét stóð sig vel og kom sínum málum vel fram. Aftur á móti þá finnst mér Guðfríður Lilja dottin ofan í sama pyttinn og þorri þingmanna að vilja gera ekki neitt.  Nákvæmlega eins og þú segir setja allt í nenfdir.

Í þættinum var komið inn á Saltmálið vinsæla og vildu bæði Guðfríður Lilja og Guðlaugur Þór að rýna í hvað gerst hafi áður en gert er eitthvað meira. En það á ekki að draga neinn til ábyrgðar frekar en venjulega. Af hverju? Jú skv. því sem Margrét Tryggvadóttir sagði þá eru um helmingur yfirmanna stofnana pólitískt ráðnir í gegnum sína flokka. Og að sjálfsögðu þarf að hlífa þeim greyjum

 

Hvenær kemur Íslenska vorið?

Hvenær kemur Íslenska vorið?

Ég var að skoða bloggfærslur sem ég skrifaði fyrir þremur árum. Búsáhaldabyltingin var þá í fullum gangi. Ég skrifaði um táragasið sem lögreglan beitti gegn mótmælendum og þögnina úr forsætisráðuneytinu. Ísland var að upplifa eitt hrikalegasta efnahagshrun sögunnar og forsætisráðherrann sá enga ástæðu til að tala við þjóðina. Hann beitti lögreglunni þó óspart.

Er það þetta sem við vijum? Sjálfstæðisflokkinn í stjórn aftur? Flokkinn sem keyrði okkur upp í skerjagarðinn og kennir núverandi stjórn um hrunið? Flokkinn sem hikar ekki við að siga löggunni á mótmælendur?

Bjarni Ben vill að alþingi kjósi aftur um það hvort Geir eigi að fara fyrir Landsdóm. Það verður að vera þingmeirihluti fyrir því, segir hann. Var ekki þingmeirihluti til staðar? Var fyrri kosningin ómerk að einhverjum ástæðum? Ef svo er, væri þá ekki hugmynd að kjósa um ráðherrana fjóra sem rannsóknarnefndin mælti með að færu fyrir Landsdóm?

Bjarni er að leika sama leik og ESB, að kjósa um mál þar til rétt niðurstaða fæst og svo ekki meir.

En hvað um það, þetta mál er móðgun við þjóðina. Það er móðgun við fólkið sem missti allt, sem sá sér ekkert annað fært en að flýja land. Það er móðgun við þá sem stóðu á Austurvelli í janúarkuldanum, börðu á potta og pönnur í von um sanngjarnara þjóðfélag og lét sig hafa það að vera spreyjað með piparúða.

Það er sannarlega móðgun við níumenningana sem Ögmundur gat ekki skipt sér af vegna stöðu sinnar sem ráðherra.

Ég vona sannarlega að þingmenn hafi rænu á að fella þessa tillögu. Ekki af því ég vilji sjá Geir H. Haarde dæmdan og lokaðan inni. Alls ekki. Hann má sýkna ef Landsdómi finnst ekki ástæða til annars. Ég vil einfaldlega að allar upplýsingar sem þjóðin á skilið að fá, komi upp á yfirborðið svo hægt verði að gera hrunið upp. Án uppgjörs munum við halda áfram að sleikja sárin og vantreysta hvoru öðru. Við getum ekki byggt upp mannsæmandi samfélag ef við þorum ekki að horfast í augu við fortíðina.

Þjóðin á það inni hjá þingmönnum að þeir geri það eina rétta í stöðunni og láti dómsmál hafa sinn gang afskiptalaus.

Upphaflega birt vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir 20.1.2012 kl. 17:47

Það er undarlegt að hlusta á gamla klíku tala á alþingi í dag.

Hvar eru þeir sem skilja hversu óréttlátt það var að krefjast þess að níumenningarnir færu í dómssal, vegna sinna réttlátu mannréttindabaráttu við lífeyris og bankarænds almennings á Íslandi. Það er ekki nokkur maður sem hefur komið með kröfur um lagabókstafs-rök fyrir að nokkrir saklausir mótmælendur skyldu þurfa að þola það óréttlæti og niðurlægingu, sem þeir þurftu að þola, vegna síns kjarks að berjast gegn lögbrotum og óréttlæti íslenskar stjórnsýslu og dómskerfisins.

Þetta er rétti dagurinn til að minna á svívirðilegt lögbrot BARNAVERNDARNEFNDAR Reykjavíkur á Rögnu, móður Ellu Dísar, móður langveikrar 9 ára stúlku, sem fékk ranga sjúkdómsgreiningu hjá íslensku lyfjamafíu-læknasvikurunum. Landlæknir er talgervill lyfjamafíunnar á Íslandi, og vissi ekkert um raunveruleikann, miðað við hans svör um málið. Það er ekki þörf á landlækni á Íslandi, ef hann styður hættuleg læknamistök, eins og  raun ber vitni.

Rögnu, móður Ellu Dísar var meinað að fara úr landi með dóttur sína, til að bjarga lífi hennar, fyrir jólin. Barnaverndarnefndin meinaði móður að bjarga barninu sínu, með lífsnauðsynlegri læknismeðferð í öðru landi.

Mér er svo misboðið, að hlusta á lyfjamafíustýrða stjórnmála-glæpastýrða flokka á Íslandi, standa í stórræðum, til að bjarga Geir Hilmar Haarde, en ríkis-RÚV hefur ekki minnst einu orði á svívirðilegt mannréttinda og lagabrot gegn einstæðri 3 barna móður, sem berst fyrir lífi barnsins síns.

Hvert er raunverulegt hlutverk barnaverndarnefndar, yfirlækna og dómsstóla á Íslandi?

Ég ætlast til að höfuðpaurar íslenskrar mafíu-stjórnsýslu svari þessari spurningu undanbragðalaust, ef fólk í stjórnsýslu vill láta taka mark á sér, í sambandi við lög, rétt og mannréttindi óréttlátt dæmdra manna kvenna á Íslandi.

Það hefði verið siðferðislega, löglega og mannréttindalega, réttast að eyða þessum degi á alþingi Íslands, í að ræða lögbrot barnaverndarnefndar á Íslandi, ásamt rögbrotum klíkuflokkanna á mafíueyjunni Íslandi.

Barnaverndarnefnd hefur framið fleiri sálar-morð en nokkur önnur stofnun á Íslandi, og gagnvart varnarlausum börnum sem hún á að vernda fyrir sálarmorðum.

Sumum fannst nauðsynlegt að ræða staðgöngumæðrun fyrir nokkrum dögum síðan á alþingi Íslands. Það þykir ekki þörf á að ræða mannréttindi barna á Íslandi á sama tíma! Það eru dauðadæmd vinnubrögð á alþingi Íslands, svo mikið er ég svo sannarlega orðin endanlega viss um!

Útvarp Saga hefur fjallað um mál Rögnu, móður Ellu Dísar. Hægt er að fara inná útvarpsaga.is til að hlusta á það sem íslenska mannréttinda-brotakerfið og barnaverndaryfirvöld eru að gera.

Nú ætlar barnaverndarnefnd Reykjavíkur að svipta Rögnu, móður Ellu Dísar, forræði yfir börnunum sínum, í samráði við erlenda barnaverndarnefnd, vegna þess að hún er að berjast gegn íslenskum lyfjamafíu-stýrðum læknamistökum! Hún er sem betur  komin úr landi með barnið, og Ella Dís hefur farið í lífsnauðsynlega aðgerð, sem yfirlæknir barnaspítala Hringsins er væntanlega ábyrgur fyrir að reyna að stoppa í gegnum barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Nú er komið að Kastljósi stjórnmálaklíku-ríkisstjórnarinnar að fjalla um þetta grafalvarlega lögbrot siðlauss kerfisins á Íslandi. Læknaklíkan á Íslandi gerði þau mistök að sjúkdómsgreina barnið rangt, með hörmulegum afleiðingum fyrir barnið.

Það væri fínt að fá skoðun Róbert Spanó prófessors, á þessum lífshættulegu lögbrotum barnaverndarnefndar Reykjavíkur og yfirlækni barnaspítala Hringsins, gagnvart langveiku barni.

Hver er tilgangur stjórnvalda, barnaverndarnefndar, yfirlækna og landlæknis í raun? Ná engin lög yfir þeirra lögbrot?

M.b.kv.

Villi Asgeirsson 20.1.2012 kl. 18:00

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki mál Ellu Dísar. Kannski rökrétt, fyrst ekkert er talað um það. Það er auðvitað gömul saga og ný að læknar eru á spena hjá lyfjaframleiðendum. Á ekki við alla, en það þarf ekki nema einn til að eyðileggja líf manneskju sem leitar til hans.

Við munum auðvitað öll eftir svínaflensumálinu og offorsinu að kaupa bóluefni handa öllum. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað var í gangi þar.

Ég ætla að kíkja á Útvarp Sögu og skoða þetta. Ekki að óbreyttur bjáni útí bæ eins og ég geti haft einhver áhrif…

 

Götusalt?

Götusalt?

Er Ölgerðin orðin snarklikkuð? Þeir flytja inn iðnaðarsalt og selja sem matarsalt. Þegar einhver vogar sér að segja að iðnaðarsalt sé mestmegnis notað á götur þegar frystir, hóta þeir að senda lögræðinga á viðkomandi.

Þess má geta að hér í Hollandi var ein fyrirsögnin, Íslendingar strá götusalti yfir eggin sín. Ætlar Ölgerðin að eltast við alla þá sem réttilega sýna að þetta salt er ekki ætlað til matargerðar?

Kunna þeir ekkert að skammast sín? Er einhver í stjórnsýslunni sem ætlar að taka á þessu máli?

Ef ekki, þá er það þjóðarinnar að sneiða hjá vörum fyrirtækisins.

Upphaflega birt vegna þessarar fréttar.

Athugasemdir af Moggablogginu.

Þórður Ingi 19.1.2012 kl. 14:18

Þeir fréttamenn sem segja að það iðnaðarsalt sem notað var hér í matvæli sé það sama og er notað á götur gerast sekir um annað tveggja. Fávisku eða lygar.

Villi Asgeirsson 19.1.2012 kl. 14:26

Það má vel vera að þetta sé ekki sama salt og notað er á götur, en þetta er heldur ekki salt sem ætlað er í matvöru. Spurningin er því, er Ölgerðin sek um fávisku eða lygar?

 

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube