Stríð og Friður
Fyrstu dagarnir í maí eru sérstakur tími í mannkynssögunni. 1. maí er baráttudagur verkalýðsins, 3. maí 1937 var ráðist á Telefonica bygginguna í Barcelona og má sennilega segja að þá hafi anarkisminn dáið og fasisminn unnið borgarastríðið á Spáni. 4. maí er fórnarlamba stíðsátaka minnst í Hollandi og 5. maí er frelsisdagurinn, en þá gáfust nazistar upp í landinu. 8. maí 1945 gafst Þýskaland upp og friður komst á eftir hrikalegasta stríð sem mannkynið hefur séð. 10. maí 1940 réðist Þýskaland á Holland, Belgíu, Luxembourg og Frakkland, og Bretar hernámu Ísland.
Í gærkvöldi var fórnarlambanna minnst. Fólksins sem var dregið út úr húsum sínum og skotið á götunni. Flutt í útrýmingarbúðir. Fólkið sem tók þátt í andspyrnunni og var tekið af lífi fyrir.
Í Hoofddorp, bæjarfélaginu við Schiphol, tóku einhverjir krakkar sig til og öskruðu á meðan aðrir virtu tveggja mínútu þögnina. Krakkar sem aldrei hafa séð stríð, nema í tölvuleikjum og kvikmyndum. Krakkar sem skilja ekki að stríð er ekki afþreying, flottir effectar á skjá eða bíótjaldi. Krakkar sem vonandi þurfa aldrei að komast að því hvað stríð virkilega er.
Mér er sama um krakkana, en óvirðingin við fólkið sem lagði allt undir og tapaði, er óþolandi.
Strax eftir heimsstyrjöldina byrjaði Kalda Stríðið. Einhvert heimskulegasta tímabil í sögu mannkyns. Auðvitað hafa verið verri tímabil, en Kalda Stríðið var óþarft. Það gekk út á græðgi og sandkassaleiki. Það er eiginlega ótrúlegt að ekki hafi farið á versta veg.
Við höfum ekkert lært. Enn eru stríð um allan heim. Sennilega er það tímaspursmál hvenær við missum tökin á atburðarásinni.
Ég læt myndband fylgja með. Berlín í júlí 1945, tveimur mánuðum eftir að hún var lögð í rúst. Þetta er stríð. Þetta er gjöreyðing. Þetta er ekki leikur, ekki grín, ekki kvikmynd. Þetta er raunveruleikinn ef við pössum okkur ekki.