Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
vgais – Síða 6 – Villi Asgeirsson

Browsed by
Author: vgais

Dýrahald í fjölbýli?

Dýrahald í fjölbýli?

Mikið er talað um dýrahald í fjölbýli eftir að öryrkjum og öðru fólki sem ekki getur staðið í stappi var gert að losa sig við húsdýrin sín. Innan 10 daga, takk fyrir. Því þannig eru reglurnar. Fólk hefði átt að vita þetta og því er engin vorkunn.

Þeir sem verja þessa tillögu tala um ofnæmi og ónæði.

Þessi hundur tengist málinu ekki beint.
Þessi hundur tengist málinu ekki beint.

Nú var ég að heyra að fólkið í blokkinni hefði kosið afgerandi að leyfa dýrunum að vera. 32 sögðu já. En hinir tveir? Annar var hlutlaus, hinn í útlöndum. Enginn valdi að losa blokkina við dýrin. Samt á að þvinga þetta fólk til að losa sig við fjölskyldumeðliminn. Því gæludýr eru ekki leikföng eða húsgögn. Þau eru lifandi verur, og oft hluti að fjölskyldunni. Oft einu vinirnir þegar fólk er lasið eða á erfitt með að vera í sambandi við annað fólk.

Að þvinga þetta fólk til að losa sig við gæludýrin er að dæma það í einveru og einmanaleika.

Eva Hauksdóttir skrifaði rafpóst á mennina sem tóku ákvörðunina. Ég mæli með að allir geri það sama. Látum þá vita hvað okkur finnst.

Netföngin eru gardar@brynjahus.is og bjorn.a.magnusson@brynjahus.is

Getum kallað tölvupóstinn: Vegna dýrahalds

Vinsamlegast komið eftirfarandi skilaboðum til stjórnar Brynju og takið þau einnig til ykkar sjálfir.

Ég á ekki orð til að lýsa vanþóknun minni á þeirri stefnu ykkar hjá Brynju að neita öryrkjum um að halda gæludýr.

Ég á hinsvegar eitt orð til þess að lýsa vanþóknun minni á þeim gerræðislegu vinnubrögðum að þvinga fólk til að losa sig við dýrin sín.

Það orð er „ógeð“.

Þið eruð ógeð.

Skammist ykkar.

Stríð og Friður

Stríð og Friður

Fyrstu dagarnir í maí eru sérstakur tími í mannkynssögunni. 1. maí er baráttudagur verkalýðsins, 3. maí 1937 var ráðist á Telefonica bygginguna í Barcelona og má sennilega segja að þá hafi anarkisminn dáið og fasisminn unnið borgarastríðið á Spáni. 4. maí er fórnarlamba stíðsátaka minnst í Hollandi og 5. maí er frelsisdagurinn, en þá gáfust nazistar upp í landinu. 8. maí 1945 gafst Þýskaland upp og friður komst á eftir hrikalegasta stríð sem mannkynið hefur séð. 10. maí 1940 réðist Þýskaland á Holland, Belgíu, Luxembourg og Frakkland, og Bretar hernámu Ísland.

Skilaboð á mynd sem ég tók í Belgíu 2014, 100 árum eftir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar.
Skilaboð á mynd sem ég tók í Belgíu 2014, 100 árum eftir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar.

Í gærkvöldi var fórnarlambanna minnst. Fólksins sem var dregið út úr húsum sínum og skotið á götunni. Flutt í útrýmingarbúðir. Fólkið sem tók þátt í andspyrnunni og var tekið af lífi fyrir.

Í Hoofddorp, bæjarfélaginu við Schiphol, tóku einhverjir krakkar sig til og öskruðu á meðan aðrir virtu tveggja mínútu þögnina. Krakkar sem aldrei hafa séð stríð, nema í tölvuleikjum og kvikmyndum. Krakkar sem skilja ekki að stríð er ekki afþreying, flottir effectar á skjá eða bíótjaldi. Krakkar sem vonandi þurfa aldrei að komast að því hvað stríð virkilega er.

Mér er sama um krakkana, en óvirðingin við fólkið sem lagði allt undir og tapaði, er óþolandi.

Strax eftir heimsstyrjöldina byrjaði Kalda Stríðið. Einhvert heimskulegasta tímabil í sögu mannkyns. Auðvitað hafa verið verri tímabil, en Kalda Stríðið var óþarft. Það gekk út á græðgi og sandkassaleiki. Það er eiginlega ótrúlegt að ekki hafi farið á versta veg.

Við höfum ekkert lært. Enn eru stríð um allan heim. Sennilega er það tímaspursmál hvenær við missum tökin á atburðarásinni.

Ég læt myndband fylgja með. Berlín í júlí 1945, tveimur mánuðum eftir að hún var lögð í rúst. Þetta er stríð. Þetta er gjöreyðing. Þetta er ekki leikur, ekki grín, ekki kvikmynd. Þetta er raunveruleikinn ef við pössum okkur ekki.

Borgaraleg óhlýðni og bleik tré

Borgaraleg óhlýðni og bleik tré

Gatan okkar í Halfweg, mitt á milli Amsterdam og Haarlem í Hollandi er týpískt skipulagsslys. Öðru megin eru fallegu húsin, byggð fyrir stríð. Okkar hús var byggt 1939 og hin um svipað leyti. Hinumegin eru skrípi byggð kringum 1985. Þau eru ekki ljót, þannig lagað, en þau passa ekki við gömlu húsin.

Hvað um það, gatan er stutt og tiltölulega róleg. Hér er lítil umferð, ef flugvélarnar eru undanskildar. Eitt það fallegasta við götumyndina eru trén sem blómstra á hverju vori.  En blómin eru ekki óumdeild.

Húsið okkar í HalfwegFyrir nokkrum árum datt bréf inn um lúguna. Bæjarstjórnin hafði látið gera úttekt á trjánum og komið hafði í ljós að þau væru sýkt og þyrftu að fara. Búið var að plana dæmið frá upphafi til enda. Einhvað fyrirtæki hafði verið ráðið til að planta nýjum trjám.

Við könnuðumst ekkert við að trén væru veikluleg og fórum fram á að sjá skýrsluna. Þá kom í ljós að sama fyrirtæki og átti að planta nýju trjánum hafði gert úttektina. Þetta fyrirtæki var tengt einhverjum á bæjarskrifstofunum. Þetta líkaði okkur ekki, og fórum því fram á að hlutlaus aðili gerði úttektina. Því var upphaflega neitað.

Þegar deilumál koma upp, er utanaðkomandi aðili fenginn til að skerast í leikinn. Þetta var dómari frá Amsterdam með engin tengsl í Halfweg. Hann var sammála okkur og fór fram á að ný úttekt yrði gerð. Þegar hún lá fyrir, kom í ljós að 2-3 tré voru sýkt, en restin heilbrigð.

Við settumst niður á bæjarskrifstofunum, ég, konan og  yndislegu,  gömlu dýralæknishjónin sem búa í sömu götu. Dómarinn frá Amsterdam var þarna, bæjarstjórinn okkar og einhver á vegum bæjarins. Við settum fram okkar rök, töluðum um hagsmunaárekstra og heilbrigð tré, götumynd sem yrði fátæklegri með hríslum í stað gamalla trjáa.

Bæjarstjórnin kom svo með sín rök. Man ekki nákvæmlega hver þau voru, en það var greinilegt að dómaranum fannst þau ekki merkileg. Hann virtist pirraður og fannst þetta mál greinilega vera tímasóun. Þegar bæjarfulltrúinn var búinn, spurði dómarinn, er þetta allt sem þú hefur að segja?
– Ha, já.
– Þetta eru rökin?
– Já.
– Þú hefur engu við þetta að bæta? Hver var ástæðan fyrir því að trén áttu að fara?
– Ja, sko, þau blómstra á vorin og það er svo mikill úrgangur, göturnar fyllast af blöðum og þegar rignir verður þetta svo ljótt.
– Ég skil. En hvað með að halda því fram að þau væru sýkt?
– Þau eru það.
– Flest eru heilbrigð.
– En ekki öll. Þau geta smitast.
– Af hverju var úttektin gerð af verktakanum og af hverju var þetta ekki boðið út?

Þá var lítið um svör.

Við og dýralæknishjónin litum á hvort annað. Við vorum búin að vinna. Dómarinn sagði bæjarstjóranum að endilega fjarlægja þessi 2-3 tré og planta svo sömu tegund í staðinn, en láta restina í friði.

Tré í HalfwegTrén standa því enn. Á hverju vori blómstra þau og hressa upp á götumyndina. Heimurinn verður fölbleikur og yndislegur.

Ég lærði tvennt á þessu máli.

1. Opinberir aðilar geta verið alveg jafn vitlausir og við og geta farið með sömu rökleysu og hver annar. Að vera yfirveld þýður ekki sjálfkrafa að þú getir gert hvað sem þér sýnist.

2. Með samstöðu og borgaralegri óhlýðni, getur maður haft áhrif á heiminn og samfélagið.

Gleðilegt sumar og megi framtíðin vera fölbleik og hlý!

Frekja

Frekja

1. maí hefur lengi verið haldinn hátíðlegur sem baráttudagur verkafólks. Yfirstéttin, þingmenn og aðrir sem verma mýkri sætin í þjóðfélaginu hafa yfirleitt haft vit á að hafa hægt um sig á þessum degi, eða þykjast styðja baráttuna um bætt kjör verkafólksins.

Núverandi ríkistjórn er þó sér á báti í þessu eins og svo mörgu öðru. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra birti eftirfarandi athugasemd á Facebook síðu sinni:

Head in HandsTil hamingju allir launþegar með 1. maí. 
Ég heyri forystuna segja að stöðugleika verði ekki náð ,,á kostnað launþega.“
En hvað með óstöðugleikann. Á hvers kostnað skyldi hann verða?

Óstöðugleika verður náð á kostnað launþega, já. Það er rétt. Orsakir hans eru þó ekki þeim að kenna, heldur Bjarna sjálfum, forsætisráðherranum og öðrum fígúrum í ríkisstjórninni.

Leggja af auðlegðaskatt. Gefa ríkisfyrirtæki fjölskyldumeðlimum. Tugprósenta launahækkanir til forstjóra, og bónusa þar ofan á, á meðan verkafólk fær frostpinna. Fella niður skatt á stóriðju. Gefa kvóta til bestu vina ráðherra.

Ef Bjarni er hissa á óstöðugleika og skilur ekki orsakir hans, má hann líta sér nær.

Að fullnægja athyglisþörf kompudrauganna

Að fullnægja athyglisþörf kompudrauganna

Á jörðinni búa sjö milljarðar. Allavega síðast þegar ég gáði. Hefur sennilega bæst eitthvað við síðan. Það þýðir að heimurinn er upplifaður á sjö milljarða vegu. Ekkert okkar skynjar heiminn eins. Sjónin er ekki sú sama, þar sem litaskyn og skerpa leika hlutverk. Heyrnin er mismunandi. Snertiskynið. Hvernig heilinn vinnur úr upplýsingunum sem skilningarvitin senda honum skiptir svo öllu máli.

Svo má ekki gleyma áhrifunum sem fæðingarstaður og búseta hafa. Ég er karlmaður, fæddur 1969 og bjó mín fyrstu ár á Skólavörðustígnum og þar í kring. Fór fyrstu tvö árin í Ísaksskóla, flutti í Smáíbúðahverfið og svo í Breiðholtið. Endaði svo með því að flytja til London og svo til Hollands.

Alexanderplatz, BerlinÉg sé því heiminn út frá þessum forsendum. Stelpa sem fæddist 1990 á Sauðárkróki og flutti sem unglingur á Egilsstaði, sér heiminn allt öðruvísi. Ef við hittumst einhvern daginn á Alexanderplatz í Berlín, er viðbúið að upplifun okkar af staðnum verði ekki sú sama.

En það er erfitt að mæla upplifun. Allt sem við getum gert er að virða upplifun hvers og eins. Allavega ef við erum svo þröngsýn að geta ekki haft áhuga á að reyna að skilja hana.

Því hvað er skemmtilegra en að sjá heiminn með augum annars fólks? Setja sig í spor þess?

Hvernig getur maður skilið heiminn ef maður skilur ekki samferðamennina?

Ég tók dæmi um stelpu frá Sauðárkróki, en ímyndum okkur ef ég hefði tekið dæmi um homma frá Addis Ababa. Eða Nairobi. Teheran.

Þá erum við að tala um eitthvað allt annað. Þá erum við að tala um manneskju sem hefur þurft að fela sína eiginlegu persónu allt sitt líf. Hefur kannski horft upp á elskhugann hengdan vegna kynhneigðar. Þá er ekki lengur gaman að setja sig í spor manneskjunnar, heldur lífsnauðsynlegt. Ekki bara fyrir útlenska hommann (sem okkur kemur við, hvað sem fólk segir) heldur fyrir okkur sem manneskju.

Það tók okkur þúsundir ára að losa okkur við bábiljurnar og kreddurnar sem kostuðu svo marga elskhugana lífið. Þess vegna get ég ekki annað en haft smá ógeð á fólki sem þolir ekki að allir séu ekki eins. Fólki sem vill afhomma. Vill ekki að krakkar heyri af samkynhneigð því þau gætu kannski smitast. Sitja í sínum kompum og rífa kjaft yfir því að einhver sé ekki alveg eins og þau vilji hafa hann.

FíflÉg spyr, hverjum er ekki fjandans sama hjá hverjum fólk sefur? Ef kompudraugurinn er ekki að spá í bólförum með hommanum, af hverju er hann þá að skipta sér af?

Þar fyrir utan. Þetta snýst ekki allt um kynlíf. Og því virðast hommahatararnir steingleyma. Þetta snýst um að ástfangnir einstaklingar megi elska í friði, lausir við þröngsýni, kreddur og tuð kompudrauganna.

Ég fæ ógeð þegar ég heyri hommahatarana jarma úr sínum holum, en ég virði rétt þeirra til að jarma. Ég virði rétt þeirra til að gera sig að fíflum í opinberri umræðu. Jarmið dæmir sig sjálft.

Þess vegna finnst mér það vera mistök af Samtökum 78 að kæra kompudraugana fyrir að láta heimskulega hluti út úr sér.

Tjáningarfrelsið á að vera heilagt. Við eigum öll að hafa rétt á að tjá okkur, jafnvel þó það þýði að við gerum okkur að opinberum fíflum. Með því að kæra fíflin fyrir að segja fíflalega hluti, erum við að gefa fíflunum tækifæri til að dreyfa fíflalegum hugmyndum sínum.

Besta vörnin gegn fíflum er að leiða þau hjá sér.

Hommar og þannig

Hommar og þannig

Umræðan undanfarið hefur mikið snúist um homma, lesbíur og transgender fólk. Allskonar einstaklinga og þjóðfélgshópa sem ekki fylgja þjóðtrúnni okkar, um heilaga þrennu og eðlilegt fjölskyldulíf.

023-freddie-mercury--theredlistEkki veit ég hvaðan þetta fólk kemur, en eitt veit ég. Á Íslandi býr hrein þjóð, hefur gert í rúm þúsund ár,  og þannig á það að vera. Hér er ekkert pláss fyrir allskonar afbrigðilegheit og týskusveiflur.

Fólk sem vill búa á Íslandi á að fylgja okkar venjum og siðum.

Því segi ég, sendum hommana og þannig fólk aftur til síns heima. Ég veit svo sem ekki hvar það er, en finnst líklegt að þeir komi flestir frá San Francisco og Amsterdam. Útlendingastofnun veit það sennilega, og ef ekki, veit innanríkisráðuneytið það.

Hommana heim!

 

 

Fyrir fólk sem ekki sér það, þessa færslu á ekki að taka bókstaflega. Hér nota ég sömu rök gegn hommum og trans fólki, sem ég hef ekkert á móti, og misviturt fólk hefur notað gegn þeim, innflytjendum og öllum sem því líkar ekki. 

Sturla Jónsson, skaphundur eða þjóðhetja?

Sturla Jónsson, skaphundur eða þjóðhetja?

Kaffið var heitt og sólin skein þegar ég opnaði tölvuna og horfði á tölustafina á hnettinum sem sögðu mér að fullt af fólki ætti erindi við mig. Þarna voru allskonar statusar, greinar sem nánir vinir voru að deila og svör við tuði gærkvöldsins.

Þegar þessu hafði öllu verið gerð skil, las ég það sem fólk hafði að segja á þessari vinsælustu vefsíðu veraldar. Færsla sem Sturla Jónsson setti inn byrjaði svona.

Sturla JónssonÞað var ein sem spurði mig í komendi hvort ég ætlaði að vera reiður alla ævi ?
Hann sæi ekki neina gleði i skrifunum hjá mér.

Það er ekki nema von að fólk spyrji hann hvort hann sé alltaf reiður, enda hefur hann áunnið sér nafn sem pirraði gaurinn sem rífst við sýslumenn, lögmenn, bankamenn, dómara og hvern sem á vegi hans verður.

En hann er ekki að tuða. Reiði hans er ekki vegna einhverrar skapvonsku eða persónuleikabrests. Reiði hans beinist gegn yfirvöldum, sem oftar en ekki eru gjörspillt og fara einungis eftir lögum og reglum þegar þeim hentar.

Ég skil svo sem hvernig það er að fá að heyra að maður sé „svo reiður“. Maður póstar einhverju, skrifar eitthvað, deilir einhverju. Og svo kemur athugasemdin.

Af hverju ertu svona reiður?

Ég er kannski mjúk skræfa, en ég reiðist þegar ég sé óréttlæti. Ég pirraðist hrikalega í síðustu viku þegar vinnufélagi var látinn fara vegna mistaka sem voru ekki hennar. Ég stuðaðist hryllilega þegar ég frétti af og sá myndir af dauðum krökkum í Miðjarðarhafi og bröndurum misvitra um að nú myndi velferðarkerfið spara peninga. Ég reiðist þegar ég sé silkibindiklædda karla haga lögum og reglum þannig að þeir græði á auðlindum sem við eigum saman, en láta öryrkja og fólk á lágum launum borga allan kostnað við að halda samfélaginu uppi. Ég brjálast þegar ég sé illa farið með börn og dýr. Hætti meira að segja að borða kjöt fyrir 14 árum því mér fannst það óréttlátt að dýr væri drepið því mig langaði frekar í steik en grænmetisborgara.

Svo ég skil Sturlu. Ég skil reiðina og pirringinn. Ég sé að réttlætiskenndin er drifkraftur hans. Og ég virði hann fyrir það.

Er ekki kominn tími á að við hættum að horfa á reiði sem einhvern löst? Það er ekkert að því að vera reiður þegar svínað er á manni. Það er ekkert að því að vera reiður fyrir hönd þjóðarinnar þegar hún er blóðmjólkuð, áratug eftir áratug.

Án reiðinnar hefðum við aldrei velt spilltum konungum, fengið kosningarétt, stoppað ESB rugl ríkisstjórnarinnar í fyrra og svo framvegis. Reiðin er verkfæri ef við nýtum hana rétt.

Í staðinn fyrir að spyrja af hverju Sturla er vona reiður, ættum við að rækta reiðina innra með okkur. Því við erum ekki hamingjusöm þjóð. Leyfum reiðinni að gera það sem hún á að gera. Hugsum hvar við viljum vera eftir eitt ár, tíu ár, tuttugu. Horfum í kringum okkur. Reynum að sjá hvað það er sem kemur í veg fyrir að íslenskt samfélag komist á þann stað. Að það virki, yfir höfuð. Beinum svo reiði okkar þangað.

Breytum Íslandi í það sæluríki sem við viljum að það sé, og þá þurfum við ekki að vera reið.

Ljósmyndun: Gamli Tíminn og Nútíminn

Ljósmyndun: Gamli Tíminn og Nútíminn

Þetta er amma mín, yndislegust. Það er henni að þakka að bernskuminningarnar á Bitru munu lifa lengur en við öll. Hún notaði Konica Autoflex T-4 myndavélina sína mikið í u.þ.b. tíu ár. Mig minnir að vélin hafi verið keypt 1976 eða 1977. Ammabjó  til margar gersemar. Sumar myndirnar voru svo vel heppnaðar að þær birtust í Lesbók Moggans. Hestarnir og krakkarnir á Birtu fylltu heilu síðurnar.

Fujifilm X-E2 með Konica Hexanon 50mm f1.7 2014-07-27 at 18-11-51
Fujifilm X-E2 með Konica Hexanon 50mm f1.7
2014-07-27 at 18-11-51

Augun virka ekki eins vel og þau gerðu. Það er synd, því amma er eins skörp og alltaf. Hún hefur ekki notað Konica vélina í mörg ár og er löngu búin að færa sig yfir til Canon, svo hún lét mig hafa gamla linsusafnið sitt fyrir einhverju síðan. Ég var orðinn þreyttur á stærð og þyngd speglavélanna frá Canon, svo þegar ég sá að einfalt var að nota gömlu linsurnar á speglalausu vélum nútímans, hoppaði ég yfir til Fujifilm.

Fujifilm X-E2 er nútíma vél. X-Trans sensorinn gefur skarpari og litameiri myndir en Canon vélin getur. €8 millistykkið sem ég keypti á eBay sameinar nútímatækni og sálina sem sést í ljósmyndum sem teknar voru fyrir tíma stafrænu tækninnar.

Vorið er komið. Allavega á meginlandi Evrópu. Það verður gaman að prófa allar linsurnar á komandi vikum og mánuðum.

Amma, takk fyrir allt. Ekki síst fyrir að hafa kynnt mig fyrir ljósmyndun fyrir löngu síðan.

Þetta fann í töskunni:
Tamron 28mm f2.8
Tamron 35-80mm f2.8-3.5 Macro
Konica Hexanon 50mm f1.7 (used for the attached photo)
Tamron 85-210mm f4.5 Macro
Konica Hexanon 135mm f3.2
2x tele converter, various extension tubes etc.

Sjáðu hana…

Sjáðu hana…

Þessi texti er þýðing mín á pistli eftir hollenska blaðamanninn Chris Klomp. Hlekk á upphaflega textann má finna hér.

Þetta er hún. Ein af þessum fjársjóðsleiturum. Hún klifraði um borð í bát til að stela af okkur velferðarkerfinu. Hún myndi sjá til þess að gamla fólkið okkar yrði af hjálpinni sem það þarf á að halda. Hún myndi valda óróa í samfélaginu okkar. Því það er það sem flóttamenn gera. Endalaust leitandi af heppninni. Dragandi okkur niður í svaðið sitt.

11149361_982955581714490_4405577642739949278_nSjáðu hana. Kannski var hún að spá í að fremja hryðjuverk. Það gerir þetta fólk frá þessum löndum. Múslímar, og því hryðjuverkamenn.

Horfðu á hana, fjandinn hafi það. Reyndu að skilja að þetta snýst um fólk. Ekki tölfræði. Um drauma og ótta. Viljann um að finna hamingjuna.

Örfáum klukkutímum áður sat hún sennilega í fangi móður sinnar. Móður sem örugglega sagði henni að þetta yrði allt í lagi. Að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Að betri heimur biði hennar. Að þar væri fólk sem myndi hjálpa henni. Af því að heimurinn er ekki bara stríð og fátækt. Því það væru til lönd þar sem fólk hefði það svo gott að það gæti hjálpað þeim sem minna mega sín.

Sjáðu hana, marandi í hálfu kafi. Í bleika kjólnum sínum. Kannski er þetta uppáhaldskjóllinn hennar. Reyndu að skilja að móðir hennar hafði rangt fyrir sér. Það er erfitt að horfast í augu við það, en þannig er það samt.

Ég hef, fjandinn hafi það, aldrei skammast mín eins mikið fyrir Evrópu og nú. Fyrir Holland (og Ísland (innsk. þýðandi)). Ég skammast mín fyrir að hér sé fólk sem er svo ruglað og með svo furðulegar hugmyndir að það getur ekki sleppt fordómunum og útlendingahatrinu í smá stund. Getur ekki sýnt fólkinu sem lenti í þessum harmleik smá virðingu.

Shame on you.

Atvinnuóöryggi

Atvinnuóöryggi

Ég var að vinna á flugvellinum í gær. Allt gekk vel. Farangurinn kominn í farangursrýmið, farþegarnir um borð. En þá fór allt í klúður.

Farþegi sem átti bókað í sama flugi daginn áður hafði komist í gegn og var um borð. Hann var vinsamlegast beðinn um að yfirgefa vélina og öryggisleit var gerð til að vera viss um að hann hefði ekkert skilið eftir. Við vorum vel á tíma, svo töfin varð ekki nema fimm mínútur. Ég bjóst við að vinnufélaginn fengi að koma á teppið, að hún fengi skriflega viðvörun. Hún var að þjálfa nýjan starfskraft, gerði ekki mistökin sjálf, en bar ábyrgð á lærlingnum. Auðvitað fengi hún að heyra það, en svo yrði allt í lagi. En ég var bjartsýnn.

Í dag komst ég að því að hún þyrfti ekki að mæta aftur. Hún var ekki rekin. Það sem þau gerðu er verra en brottrekstur.

Guy Standing er maður sem lengi hefur fjallað um borgaralaun. Hann hefur mikið talað um núll-tíma samninga (zero-hour contracts). Þeir virka þannig að viðkomandi er í vinnu hjá fyrirtæki, en enginn lágmarks vinnutími er tryggður. Ef lítið er að gera, er viðkomandi sendur heim. Launalaust. Núll tímar getur þýtt að engin vinna sé í boði.

Vinnufélaginn er með svona samning. Hefur ekki háð henni hingað til, því hún var á föstum vöktum og vann hátt í fulla vinnu. Það sem gerðist núna var að henni var bannað að vinna fyrir flugfélagið sem í hlut átti, en hún má vinna fyrir hin sem við höndlum. Vandinn er að hún hefur aldrei gert það. Hún hefur unnið hjá okkur í þrjú ár. Hún veit allt um hennar starfssvið, er örugg, gerir næstum aldrei mistök, er vingjarnleg við farþegana. Ég myndi hiklaust mæla með henni, ég myndi sjálfur ráða hana á stundinni ef ég ætti fyrirtæki.

En hún hefur sérhæft sig í þessu flugfélagi. Veit lítið sem ekkert um hin. Þyrfti að fara á námskeið til að læra innritunarkerfin og annað. Það getur orðið 2-3 mánaða bið. Hún var ekki rekin, en afleiðingin er sú sama. Nema að nú hefur hún engin laun og engan rétt á atvinnuleysisbótum. Hún er enn í vinnu, þannig séð. Staða hennar er verri en hefði henni verið sparkað.

feb_26_if_you_are_not_angry-d76Þetta er framtíðin. Fólk er ekki látið fara, því það kostar pening. Það er látið fljóta í einhverju limbó, þyngdarleysi. Hennar eina von er að finna aðra vinnu áður en reikningarnir og húsaleigan éta upp allan sparnaðinn sem ég vona (en efast þó) að hún eigi.

Og eitt enn um núll-tíma samninga. Þeir eru hugsaðir sem flex, þ.e. fyrir fólk sem vinnur óreglulega. Hjá okkur er vinnan plönuð þrjár vikur fram í tímann. Viðkomandi fengi því 70% laun í þrjár vikur. Eftir það, ekki krónu. Ekkert. Því ekki var búið að plana viðkomandi í vinnu og ekki förum við að plana veika manneskju. 70% af engum launum er núll. Það er ekki fyrr en að samningnum er rift af vinnuveitanda sem launþegi hefur rétt á bótum. Á meðan samningurinn er í gildi, er viðkomandi ekki atvinnulaus, og því réttlaus.

Þetta fyrirkomulag er stór ástæða fyrir því að ég vil alvarlega skoða borgaralaun. Það er orðið löngu augljóst að atvinnurekendur og stjórnvöld, sem oft eru í þeirra vasa, hafa lítinn áhuga á líðan þegnanna. Allt snýst um peninga og verkafólkið tapar. Við verðum að breyta samfélaginu þannig að ekki sé hægt að eyðileggja líf fólks, eins og gerðist í gær. Það er óþolandi að hægt sé að koma svona fram við manneskju sem hefur unnið samviskusamlega fyrir fyrirtækið í mörg ár. Það er óþolandi að sósíópatar geti ráðskast með líf fólks. Það er óþolandi að mannréttindi séu fótum troðin. Að þau réttindi sem kynslóðirnar á undan okkur börðust fyrir séu tekin af okkur.

Við verðum að sjá til þess að reikningsdæmið gangi upp og að borgaralaun virki, því núverandi kerfi er hrunið.

Meiri upplýsingar og umræður er að finna í Píratar: Borgaralaun. Endilega kíkið í heimsókn og takið þátt.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube