Deprecated: Function create_function() is deprecated in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/floating-social-media-icon/function.php on line 1200

Deprecated: Methods with the same name as their class will not be constructors in a future version of PHP; RSS_Import has a deprecated constructor in /var/www/virtual/vga.is/htdocs/wp-content/plugins/rss-importer/rss-importer.php on line 42
vgais – Síða 2 – Villi Asgeirsson

Browsed by
Author: vgais

Hugleiðingar um aðalfund

Hugleiðingar um aðalfund

Helgin var spes. Ég mætti á aðalfund Pírata í Rúgbrauðsgerðinni. Man ekki eftir að húsið hafi verið notað í annað en pólitíska fundi, veit ekki til að þar hafi rúgbrauð verið bakað í langan tíma, en það er önnur saga.

En allavega, ég var á aðalfundi stjórnmálaflokks. Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem ég tek þátt í þannig gjörningi. Ég hef engan sérstakan áhuga á að taka þátt í stjórnmálum. Ég vil helst láta aðra um það. Vandamálið við samfélagið eins og það er, er að þessir aðrir eru ekki að vinna í mína þágu. Þeir eru ekki að vinna fyrir þjóðina. Þeir eru að vinna fyrir sig og sína, svo ég hef ekkert val. Það er verið að ræna okkur um miðjan dag, og á nóttunni líka. Ég er ekki ópólitískur, ég hef skoðanir og réttlætiskennd og það er skylda mín að taka þátt í stjórnmálum núna svo ég geti hjálpað til við að laga samfélagið svo ég þurfi ekki að taka þátt í stjórnmálum seinna.

Þegar samfélagið er komið í þokkalegt lag, get ég farið að gera eitthvað skemmtilegra en að tuða um lagasetningar og reglur. En þangað til, hef ég ekkert val.

Þess vegna mætti ég á aðalfundinn.

Píratar
Píratar

Það sem kom mér sennilega mest á óvart um helgina var jákvæðnin. Það voru allir í góðu skapi, andinn var léttur, allir virtust njóta þess að vera þarna. Ég fann ekki fyrir neikvæðni, togstreytu, framapoti. Stjórnmálin og samfélagið eru kannski í klessu, en það var ekki uppgjöf eða pirringur í gangi á aðalfundi Pírata. Það sem dreif vélina var skilningurinn á því að það er mikið verk að vinna, og viljinn til að vinna það verk. Samfélagið okkar er ekki náttúrulögmál. Það er kerfi sem hannað er af fólki, fyrir fólk. Ef kerfið er gallað, getur fólk lagað það. Og við ætlum að laga það. Við ætlum að gera það betra, réttlátara, skilvirkara og jákvæðara.

Við ætlum að skríða upp úr skotgröfunum og planta blómum.

Væmið, en það skiptir engu máli. Þetta var myndmál. Raunveruleikinn er að Rúgbrauðsgerðin var stútfull af drullukláru fólki sem vill breyta heiminum. Vill skapa samfélag sem við getum öll lifað í og verið stolt af. Samfélagi sem er gott fyrir alla, hvort sem það eru öryrkjar, verkamenn, skrifstofufólk, fyrirtækjaeigendur eða sjómenn. Það skiptir ekki máli hver þú ert, hvort þú ert kona eða karl (eða þar á milli), gömul eða ungur, pírati eða ekki. Fólkið sem mætti á fundinn var fullt af von, krafti og sköpunargáfu og ég treysti því fyrir framtíðinni.

Ef við náum að halda áfram að vera svona jákvæð, klár og drífandi, getur framtíðin ekki verið neitt annað en betri en fortíðin. Við sýndum og sönnuðum að allir hafa áhrif, að allir eru jafnir og að örlög okkar eru í okkar eigin höndum. Við þurfum ekki forystu, elítu eða einhverja pabbakomplexa. Við getum séð um okkur sjálf. Þjóðin getur ráðið sér sjálf. Hún þarf ekki stóra bróður eða reyndan stjórnmálamann til segja sér hvað hún má gera, hvað hún á að gera.

Grasrótin ræður stefnunni. Grasrótin eru flokksmeðlimir, grasrótin er þjóðin.

Þetta var minn fyrsti aðalfundur. Ég hef aldrei verið flokksbundinn, aldrei tekið þátt í stjórnmálum. Aldrei fundið flokk sem passaði við mig. Ég hefði ekki átt að vera þarna, því ég var erlendis. En ég keypti mér flugmiða til að geta verið á svæðinu og ég sé ekki eftir einni einustu krónu sem fór í það.

Takk fyrir mig. Hlakka til að vinna með ykkur. Þið eruð æði. Öll. Hvert einasta. Þetta er ástarjátning, ef þið voruð ekki að fatta það.

Yarr…

Vegurinn Heim (ég er pírati)

Vegurinn Heim (ég er pírati)

Fyrir 23 árum steig ég upp í flugvél og hvarf á braut ævintýranna. Bláeygði íslendingurinn fór til London í nám. Ég lærði hratt. Ekki bara námsefnið, heldur um lífið. Ég skildi óttann við hin óþekkta eftir einhvers staðar á leiðinni. Heimsborgin, þar sem ég þekkti engan, var allt annar heimur en tiltölulega litla borgin við íshafið, þar sem fjölskyldan og vinirnir bjuggu. Ég steig inn í annan heim allt breyttist. Fjórum árum síðar var ég fluttur til Hollands, þar sem ég bý enn.

Það kemur því ekki á óvart að sumir hafi spurt hvað þessi hálf-útlenski flóttamaður sé að tjá sig um málefni á Íslandi? Hvað kemur honum við hvar er virkjað, hver vaxtaprósenta á húsnæðislánum er, hver lágmarkslaun eru, hver er í ríkisstjórn og hver situr á Bessastöðum? Maðurinn hefur ekki búið á landinu í aldarfjórðung og honum kemur þetta ekkert við.

Það er gamall sannleikur að íslendingar í útlöndum eru alltaf á leiðinni heim. Sumir koma fyrir lokin, aðrir ekki. En allir eru þeir á leiðinni heim, með hugann heima eða með rætur á Íslandi. Landið okkar, móðurjörðin, föðurlandið, sleppir aldrei alveg takinu. Rétti tíminn til heimferðar hefur þó ekki komið enn. Mér líkaði aldrei byggingakranaæðið fyrir hrun, þótt ég hafi komið heim og gert alíslenska kvikmynd á þessum árum. Þegar ég skrifaði mína fyrstu skáldsögu, gerðist hún á Íslandi. Hrunið skapaði tækifæri til að hugsa smafélagið upp á nýtt og þó mig hafi langað að koma heim og taka þátt í því, var lífið ekki á því að leyfa mér það á þeim tímapunkti. Ég var með barn sem þjáðist af athyglisbresti, konan í góðri vinnu, ég í fastri vinnu. Tíminn var ekki kominn.

Það er samt pínulítið þannig að tíminn kemur aldrei. Tækifærin hoppa ekki í fangið á manni. Það er enginn leiðarvísir, ekkert kort.

Þegar ég skrifa þetta, á miðvikudagsmorgni, er ég að bíða eftir flugvél sem mun bera mig heim. Hún er sein, tafirnar um tvær klukkustundir. Hefur eitthvað með verkföll á Íslandi að gera. Því allt er enn ekki orðið gott þar. En hvað um það, ég bíð þolinmóður.

Píratahönd
Píratahönd

Ég er ekki að koma til að heimsækja fjölskylduna. Afarnir og ömmurnar eru flest farin. Það er tómlegt á Íslandi. Nei, ég er að fara í flug til að geta tekið þátt í aðalfundi Pírata um helgina. Þar sé ég von um betri framtíð, tækifærið til að koma heim.

Við vorum í sumarfríi á Íslandi fyrir þremur árum. Strákurinn var að leika sér með risastóra taflmenn í Fossatúni í Borgarfirði á sólríku sumarkvöldi þegar konan sagði það. „Eigum við að flytja til Íslands?“ Ef ekki hefði verið fyrir góða tannlæknaþjónustu í Hollandi, hefði ég verið kominn með falskar og ég er viss um að ég hefði misst þær út úr mér. Svo hissa var ég. Ég hef búið í þremur löndum og gæti flutt til Buthan ef þannig bæri undir, en hún er ekki fyrir að umturna öllu. Þetta kom því á óvart.

Við fórum að skoða möguleikana. Suðurlandið, Selfoss, heimaslóðir afa og ömmu, þótt þau séu farin. Við fundum lóðir, ég hannaði hús, en eitthvað hélt í okkur. Var það verðtryggingin? Augljós spillinginn sem vall út um öll göt í samfélaginu? Það var eitthvað, svo nú, þremur árum seinna, erum við enn í Hollandi. Okkur langar, en þorum við? Okkur líður ágætlega í Hollandi, hér eru vextir lágir, verðlag stöðugt, við erum bæði í vinnu, strákurinn í góðum skóla. Það er miklu að tapa, en hver er ávinningurinn við að flytja heim?

Fjölskyldan spilar stórt hlutverk. Þótt afarnir og ömmurnar séu flest farin, eigum við aðra ættingja, vini og allskonar fólk sem okkur er kært um. Landið er fallegt, loftið er hreint, maturinn er hollur, fólkið er skemmtilegt. Ísland er land mitt og mér kemur það við, langar að koma heim. En það er ennþá verðtrygging, spilling, möppudýrahelvíti.

En það þarf ekkert að vera þannig. Ég hef fylgst með Pírötum síðan þeir hófu sín störf, hef verið meðlimur lengst af og hef tekið þátt í málefnastarfi og umræðum, eins mikið og hægt er á netinu. Píratar vilja tryggja að allar auðlindir verði alltaf í almenningseigu, að rétt verð fáist fyrir nýtingu þeirra, að heilbrigðiskerfið verði endurbyggt, að gamla fólkið geti lifað af laununum sínum, að allir hafi sömu tækifæri, að verðtrygging og vaxtaokur hverfi, að náttúruperlur verði friðaðar. Píratar eru ljós í myrkrinu. Hrunið var eins og heimatilbúinn ísjaki sem fæstir sáu, hann gerði sitt með skarkala og látum. Skipið sökk næstum því, en það náðist að halda flakinu á floti og nú siglir það aftur með reisn. Ekki af því það var lagað, heldur vegna þess að nú er holskefla í ferðamannaiðnaðinum. Við eigum ennþá eftir að laga skipið svo að siglingin verði ánægjuleg fyrir alla og svo það standi af sér storma framtíðarinnar. Píratar hafa sýn og þeim er ekki sama um landið og fólkið sem í því býr.

Ísland getur verið fyrirmyndarsamfélag ef okkur langar til að gera það þannig. Framtíðin er óskrifað blað og það er undir okkur komið hvert við viljum fara. Óttinn er versti óvinurinn, hæsti þröskuldurinn. Hendum honum út í hafsauga og sköpum samfélagið sem við eigum skilið.

Þess vegna sit ég hér og bíð eftir flugvélinni. Það er von, það er komin sýn á betri framtíð og mig langar til að taka átt í að skapa hana.

Sjáumst um helgina.

Þrælanýlendan, enn og aftur

Þrælanýlendan, enn og aftur

Þessi pistill birtist upphaflega í Kvennablaðinu, 28. maí 2016.

Húsnæðismálin á Íslandi fá mig til að hlæja og gráta, allt í senn. Ég er ekki hrifinn af tilfinningalegum rússíbönum þegar kemur að fjármálum, svo ég ætla að segja ykkur hvað er svona fyndið og sorglegt. Með því, vona ég að einhver vakni og að kerfinu verði breytt til hins betra.

17. maí s.l. birtist pistill eftir mig á síðum Kvennablaðsins (og hér). Þar bar ég saman vexti á húsnæðislánum í Hollandi og á Íslandi. Lægstu vextir sem ég nefndi voru 7,25% á Íslandi og 1,59%í Hollandi. Ég var að reyna að vera sanngjarn. Þetta eru lægstu almennir vextir sem ég fann.

Viðskiptabankinn minn, ABN Amro, býður nú húsnæðislán með 0,94% vöxtum. Auðvitað hangir eitthvað á spýtunni. Maður þarf þá að vera í viðskiptum við bankann, færa allt sitt til þeirra, en vextirnir eru 0,94%. Innan við eitt prósent.

Á sama tíma eru vextir á Íslandi sjö prósent eða hærri. Það kostar jafn mikið að borga vexti af einni íbúð á Íslandi og af átta íbúðum á sama verði í Hollandi.

En hvað gerist þegar vextirnir eru orðnir svo lágir að þeir skipta ekki mái og það er ekki lengur hægt að lokka fólk með þeim?

Í gær heyrði ég auglýsingu í útvarpinu. Nýtt húsnæðislán (hjá ING minnir mig) er ekki bara á lágum vöxtum, það er með tryggingu. Ef þú missir vinnuna eða verður óvinnufær, borgar bankinn sjálfur af láninu í sex mánuði. Hann gefur þér tíma til að finna nýja vinnu, hann gefur þér tækifæri til að láta þér batna eða gera aðrar ráðstafanir svo að þú lendir ekki í vandræðum með afborganir. Fyrstu sex mánuðina þerftu ekki að hafa áhyggjur af húsnæðisláninu, því bankinn tryggir það. Við fjölskyldan erum með eins tryggingu, en borguðum eitthvað smávægilegt fyrir hana. Nú getur fólk fengið trygginguna frítt.

Blokk í Reykjavík (VGA 2015)
Blokk í Reykjavík (VGA 2015)

Svona virkar samkeppni.

Á meðan, á Íslandi…

Ég var að spá í hvað ég ætti að kalla þennan pistil, en þrælanýlenda er það eina sem mér dettur í hug.

Að lokum… eftir að fyrri pistillinn birtist hér fyrir tæpum tveimur vikum, fékk ég póst frá ÍLS. Þar var sagt að ég færi með rangt mál, og hvort ég vildi leiðrétta mitt mál. Ég sagði að það væri sjálfsagt og sendi sjö spurningar til baka. Sagði að það væri gott að fá svör við þeim svo ég gæti skrifað nýjan pistil þar sem staðreyndirnar væru leiðréttar. Það væri betra en að breyta texta í pistli sem flestir eru búnir að lesa, því þá sér enginn leiðréttinguna. Það er vika síðan ég sendi spurningarnar, en engin svör hafa borist. Þau hafa sína hentisemi á því og ég hef engar áhyggjur. ÍLS hefur þó selt 450 eignir í „opnu ferli“. Opnu, fyrir þá sem geta keypt 450 íbúðir í einu. Lokuðu fyrir okkur hin.

Mér sýnast lánastofnanir á Íslandi vera í einhverjum allt öðrum viðskiptum en þær erlendu. Hér er okrað á fólki, eignirnar miskunnarlaust teknar af því og seldar í einhver fyrirtæki sem virðast vera tengd stjórnmálamönnum.

Þrælanýlenda.

Ég læt spurningarnar sjö til ÍLS fljóta með. Í póstinum sagðist ég vera tilbúinn til að biðjast afsökunar ef um rangfærslur var að ræða. Sjáum til hvernig það fer, en hér eru spurningarnar. Sjáum hvort svör berist. Vonum svo að Ísland komist í hóp siðaðri þjóða í náinni framtíð.

– Það eina sem ég sagði um ÍLS í greininni er að sjóðurinn hafi ekki selt þessar 153 fasteignir á almennum markaði þar sem einstaklingum var gert mögulegt að kaupa staka fasteign. Er það rangt skilið hjá mér?

– Ég geri ráð fyrir að setningin „Á meðan húsnæðisskortur er alvöru vandamál, eru hundruð íbúða seldar í lokuðu ferli.” sé vandamálið. Hafi ferlið verið opið, hverjum var það opið og hverjir höfðu möguleika á að kaupa eignirnar? Hvað buðu margir aðilar í eignasöfnin?

– Sjóðurinn tók til sín margar eignir eftir hrun. Hvað stór hluti þeirra hafa verið seldar í eignasöfnum, og hvað margar hafa verið settar á almennan markað þar sem en einstaklingar hafa haft möguleika á að kaupa þær?

– Af hverju eru eignir seldar í söfnum, frekar en á almennum markaði?

– Hvað eru fasteignir, að meðaltali, lengi í eigu ÍLS eftir að hann tekur þær til sín? Mér skilst að eignir standi oft tómar mánuðum, jafnvel árum saman. Er þetta rétt, og ef svo er, hvers vegna?

– Er eitthvað vitað um eignarhald fyrirtækja sem kaupa eignapakka af ÍLS? Hefur ÍLS áhuga á slíku og skiptir hann sér af því hvað á gera við fasteignirnar eftir sölu?

– Er eitthver samvinna milli ríkisstjórnar og ÍLS, til að reyna að leysa húsnæðisvandann?

Meira af Íbúðalánasjóði og seldum íbúðum

Meira af Íbúðalánasjóði og seldum íbúðum

Fyrir um viku skrifaði ég pistil í Kvennablaðið. Ég furðaði mig á að sjóðurinn hefði selt 153 íbúðir í ekkert rosalega opnu ferli. Eftir birtingu pistilsins, barst mér póstur frá starfsmanni sjóðsins. Ég var beðinn um að leiðrétta rangfærslu í pistlinum. Það var ekki alveg á hreinu hvar ég var að fara með rangt mál, svo ég svaraði póstinum og bað um frekari upplýsingar.

Hús í bænum (VGA 2015)
Hús í bænum (VGA 2015)

Svar hefur ekki borist, en ég hafði engar áhyggjur, þar sem ekkert liggur á. Nú sé ég að ÍLS hefur selt leigufélagið Klett og 450 íbúðir. Í einum pakka.

Það er kannski hægt að túlka það þannig að þetta hafi farið á opnum markaði, þar sem allir sem hafa efni á 450 íbúðum í einum bita gátu boðið í félagið, en þettta getur ekki átt að virka svona. Það getur ekki verið að sjóður sem er í eigu ríkisins, í okkar eigu, gefi okkur ekki tækifæri til að kaupa íbúðirnar sem voru (sennilega flestar) teknar upp í stökkbreyttar skuldir eftir hrun.

450 eignir. Og ég var að kvarta yfir 153 íbúðum.

Eins og ég sagði að ofan, hef ég ekki enn fengið svar frá ÍLS. Þau skulda mér svo sem ekkert, en það væri gott að vita hver rangfærslan var í pistlinum fyrir viku. Í ljósi þess að ÍLS virðist vera á fullu að losa sig við eignir til fjársterkra aðila, finnst mér það skipta máli fyrir almenning hvað mér og sjóðnum fór á milli. Hér fyrir neðan er hægt að lesa athugasemdina sem ég fékk í tölvupósti og minn svarpóst. Ég hef fjarlægt nafn starfsmanns sjóðsins.

19. maí 2016 í pósti til Steinunar Ólínu, ritstjóra Kvennablaðsins:

Í blaðinu ykkar í fyrradag birtist greint/frétt fá Vilhjálmi þar sem m.a. var vikið að sölu fasteigna hér hjá Íbúðalánasjóði. Í greininni eru atriði sem ég tel rétt að koma á framfæri athugasemdum við.
Ég hef ekki netfang hans eða aðrar tenglaupplýsingar og mér þætti vænt um ef þú kæmir þessu til hans. Ég óska eftir því við Vilhjálm að hann leiðrétti það sem ekki er rétt með farið í blaðinu ykkar og mér þætti vænt um ef þú sem ritstjóri myndir fylgja því eftir og að til skila komist þessar ábendingar mínar.
Það sem er aðalatriðið er að Íbúðalánasjóður leggur mjög ríka áherslu á að eignir sjóðsins séu seldar í opnum ferlum þannig að allir sem hafa áhuga á kaupum hafi kost á að kaupa þessar eignir. Á síðustu árum hefur sjóðurinn selt eignir fyrir um 50 m.a.kr, (50 þúsund milljónir króna). Við teljum að þetta markmið okkar að selja í opnum söluferlum hafi tekist nokkuð vel og vinnum með Félagi Fasteignasala á þann hátt að allar fasteignasölur í landinu geta unnið fyrir sjóðinn.

Hér er minn svarpóstur, sendur sama dag:

Sæl(l) xxx,

Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar ef ég hef farið með rangt mál. Það er sjálfsagt að leiðrétta pistilinn ef ég hef sagt eitthvað sem ekki stenst skoðun. Það sem ég skrifaði var byggt á frétt MBL (hlekkur í pistli) og upplifun á fréttum undanfarin ár. Auðvitað er það möguleiki að mín tilfinning sé ekki það sem virkilega gerðist.

Til að ég skilji hvar ég fór með rangt mál, langar mig að spyrja örfárra spurninga. Upplifun okkar á fréttum er ekki alltaf í takt við raunveruleikann, og því væri gott að geta skrifað grein sem byggð er á staðreyndum frá ykkur.

– Það eina sem ég sagði um ÍLS í greininni er að sjóðurinn hafi ekki selt þessar 153 fasteignir á almennum markaði þar sem einstaklingum var gert mögulegt að kaupa staka fasteign. Er það rangt skilið hjá mér?

– Ég geri ráð fyrir að setningin „Á meðan húsnæðisskortur er alvöru vandamál, eru hundruð íbúða seldar í lokuðu ferli.” sé vandamálið. Hafi ferlið verið opið, hverjum var það opið og hverjir höfðu möguleika á að kaupa eignirnar? Hvað buðu margir aðilar í eignasöfnin?

– Sjóðurinn tók til sín margar eignir eftir hrun. Hvað stór hluti þeirra hafa verið seldar í eignasöfnum, og hvað margar hafa verið settar á almennan markað þar sem en einstaklingar hafa haft möguleika á að kaupa þær?

– Af hverju eru eignir seldar í söfnum, frekar en á almennum markaði?

– Hvað eru fasteignir, að meðaltali, lengi í eigu ÍLS eftir að hann tekur þær til sín? Mér skilst að eignir standi oft tómar mánuðum, jafnvel árum saman. Er þetta rétt, og ef svo er, hvers vegna?

– Er eitthvað vitað um eignarhald fyrirtækja sem kaupa eignapakka af ÍLS? Hefur ÍLS áhuga á slíku og skiptir hann sér af því hvað á gera við fasteignirnar eftir sölu?

– Er eitthver samvinna milli ríkisstjórnar og ÍLS, til að reyna að leysa húsnæðisvandann?

Afsakið allar spurningarnar. Það eru sennilega margar ranghugmyndir um ÍLS í þjóðfélaginu og það væri gott að geta skrifað grein sem bygð er á upplýsingum frá ykkur.

Bestu kveðjur,
Vilhjálmur Ásgeirsson

Íbúðalánasjóður og Þrælanýlendan Ísland

Íbúðalánasjóður og Þrælanýlendan Ísland

Þessi grein birtist upphaflega í Kvennablaðinu.

Fyrir ári síðan skrifaði ég færsluna Þrælanýlendan Ísland, þar sem ég bar saman vexti af húsnæðislánum í Hollandi og á Íslandi. Það þarf sennilega ekki að taka fram að ekkert hefur breyst, þrátt fyrir loforð yfivalda um allskonar fyrir alla. Undanförnu ári hefur verið sóað í einkavinavæðingar, rifrildi um hitt og þetta, skandala og yfirklór.

Fluff.

Nú eru kosningar á næsta leyti. Fer eftir því hvenær núverandi stjórn ákveður að tíminn sé kominn, en það er kominn kosningaskjálfti í fólk. Það er kannski þess vegna sem Bjarni Ben hefur lofað að laga húsnæðisvandann með þessum orðum:

Reykjavík - VGA 2015Hús­næðismál. Áfram verður gert ráð fyr­ir 1,5 millj­örðum króna í áætl­un­inni vegna stofn­fram­laga til upp­bygg­ing­ar á fé­lags­leg­um leigu­íbúðum.

Á sama tíma selur Íbuðalánasjóður 153 íbúðir. Ekki á frjálsum markaði. Einstaklinum er ekki boðið að kaupa þessar íbúðir sem gerðar voru upptækar eftir að allt hrundi og fólk fór á hausinn í hrönnum vegna forsendubrests. Á meðan húsnæðisskortur er alvöru vandamál, eru hundruð íbúða seldar í lokuðu ferli. Hvað verður um þær veit ég ekki, en við getum öll ímyndað okkur að nú græði einhver vel á óförum fyrrverandi íbúðaeigenda. Eignafærslan frá almenningi er í fullum gangi.

Ríkisstjórnin ætlar því að setja milljarða að sameiginlegum sjóðum okkar, skattfénu okkar, í að lappa upp á kerfi sem virkar ekki. Í stað þess að selja þessar 153 íbúðir á almennum markaði, er þeim komið í hendur fjársterkra aðila og svo megum við, skattgreiðendur, borga enn meira en komið er í einhverja plástra sem ekki eru að virka.

Ég minntist á vaxtamun á Íslandi og í Hollandi hér að ofan. Ég fletti þessu upp aftur og hér eru niðurstöðurnar. Vextir hafa hækkað á Íslandi, en lækkað í Hollandi.

Ísland:
Óverðtryggt með 7,45% föstum vöxtum í 60 mánuði
Óverðtryggt með 7,30% föstum vöxtum í 36 mánuði
Óverðtryggt með 7,25% breytilegum vöxtum
Verðtryggt með 3,85% föstum vöxtum í 60 mánuði
Verðtryggt með 3,65% breytilegum vöxtum

Holland:
Breytilegir vextir: 1,59%
Fastir vextir í 1 ár: 1,25%
Fastir vextir í 5 ár: 1,25%
Fastir vextir í 10 ár: 1,78%
Fastir vextir í 20 ár: 2,40%
Fastir vextir í 30 ár: 2,84%

Í staðinn fyrir að setja milljarða af skattfé okkar í plástra á handónýtt kerfi, gæti fjármálaráðherra hugsað dæmið upp á nýtt. Leyft okkur að kaupa íbúðirnar okkar aftur á frjálsum markaði. Það kostar ríkið ekkert. Og komið vaxtastiginu niður í eitthvað sem gæti talist eðlilegt.

Það er eins og yfirvöld hafi engan áhuga á að bæta samfélagið og gera það lífvænlegt.

Óttinn, unga fólkið og turnarnir

Óttinn, unga fólkið og turnarnir

Upphaflega birt í Kvennablaðinu.

Það virkar öfugsnúið að eftir því sem fleiri aflands- og spillingarmál koma upp, bæta þeir flokkar sem helst eru vafnir í þann vef við sig. Hvernig getur Sjálfstæðisflokkurinn, með tvo aflandsráðherra og fleira gott fólk innanborðs, aukið við fylgi sitt í skoðanakönnunum? Ekki er þriðjungur þjóðarinnar í samkrullinu, farandi fram hjá gjaldeyrishöftunum og felandi peninga á paradísareyjum?

Ég trúi ekki að þriðjungur þjóðarinnar sé að lýsa yfir stuðningi við spillinguna og einginhagsmunapotið. Það hlýtur að vera eitthvað annað í gangi.

Hér er mín kenning. Og hún er bara kenning og kann að vera röng.

Viðja með fána - VGA 2013
Viðja með fána – VGA 2013

Um það bil þriðjungur þjóðarinnar er hræddur við breytingar. Þessi hluti er hræddur við að umturnun á leikreglum lýðveldisins muni skapa glundroða og kippa fótunum undan stöðugleikanum sem við erum víst að njóta. Það er svo sem ekkert við því að segja. Óttinn við breytingar er skiljanlegur. Eins og þeir segja í útlandinu, better the devil you know. Það skiptir þá engu þótt heilbrigðiskerfið sé að grotna niður, að komugjöld hækki margfalt, að menntakerfið sé að molna og menntafólk geti ekki lifað af lánunum. Þessum verðtryggðu lánum sem seint tekst að borga upp. Það skiptir ekki máli að við lifum við gjaldeyrishöft, þau okkar sem eiga enga peninga. Ekki heldur að vextir af húsnæðislánum hér séu fjórum sinnum hærri en í nágrannalöndunum. Óttinn við breytingar er svo sterkur að fólk lætur bjóða sér næstum hvað sem er. Allt fyrir stöðugleikann og óbreytta ástandið.

Lengi vel var um tvo turna að velja. Sjálfstæðisflokkinn og Pírata. Margir eru hræddir við Pírata, því þeir eru birtingarmynd breytinganna sem fólk er hrætt við. Það skiptir ekki máli þótt breytingarnar séu ný stjórnarskrá sem festir í sessi lýðræðisumbætur, eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og betri vinnureglur fyrir Alþingi. Fólk starir á þá staðreynd að ný stjórnarskrá sé Ísland 2.0 og það telur að Ísland 1.1 væri kannski ekki eins hættulegt.

Annað vandamál Pírata er að margir misskilja þá. Flokkurinn virkar róttækari en hann er. Eitt dæmi er tillaga um að losa um öll höft á leiguakstri. Allir sem eiga bíl gætu notað hann til að keyra aðra gegn gjaldi. 600 leigubílstjórar brjáluðust og hatur á flokknum varð landlægt innan stéttarinnar. Það kom svo á daginn að tillagan var hugarfóstur eins manns, hún var ekki nógu vel unnin og rökstudd og var hafnað af flokksmeðlimum. Auðvitað hefði verið einfaldast fyrir leigubílstjóra að hafa bein áhrif á ferlið, en þeir gerðu það fæstir. Hafa sennilega talið það vera erfitt, að þetta væri mál sem þeir gætu ekki haft áhrif á. Við erum nefninlega vön því að hlutirnig gerist bara án þess að við séum spurð álits. Málið er þó að allar stefnur og tillögur að stefnum innan Pírata eru opnar og hægt er að ræða þær fram og aftur, þar til kosið er um þær.

Að lokum eru innanflokkserjur ekki að hjálpa til. Þær eru að mestu gengnar yfir, en skaðinn er skeður. Þegar áhrifafólk innan flokksins notar fjölmiðla til að rífast um merkingu orðalags, nýta þeir fjölmiðlar sem hliðhollir eru óbreyttu ástandi tækifærið og magna þessi mál. Það sem byrjar sem orðaskipti á Pírataspjallinu – sem er löngu hætt að vera vettvangur pírata – endar oft sem flennifyrirsagnir í engu samhengi við það sem sagt var.

Turnarnir tveir eru því valtir. Annan geta margir ekki hugsað sér að kjósa því hann er útataður í spillingu. Hinn eru margir hræddir við. Þess vegna hefur þriðji turninn verið að vaxa.

VG hafa sloppið við aflandsmálið. Formaðurinn er sjarmerandi. Þeim sem ekki hugnast fyrri turnarnir fara til VG. Þeir eru lausir við aflandsstimpilinn, en eru samt gamaldags stjórnmálaflokkur sem fólk skilur. Það er því skiljanlegt að margir fari þangað. Aðrir flokkar virðast vera mikið til stefnulausir og fylgislausir. Það er ekkert annað í stöðunni en þessir þrír turnar.

Hver leiðir næstu ríkisstjórn fer eftir tvennu. Muni unga fólkið mæta á kjörstað, er líklegt að Píratar verði stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Það yrði því rökrétt að Píratar mynduðu stjórn með VG. Mæti unga fólkið ekki, er líklegra að Sjálfstæðisflokkurinn verði sterkari og þá er spurningin hvort VG vilji fara í stjórnarsamstarf með þeim.

Það er því unga fólkið og VG sem ákveða hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út.

Skáldsögur

Skáldsögur

Skáldsagan Under the Black Sand var gefin út 29. maí 2013. Hún gerist á Íslandi, en er á ensku.

Pétur býr á Íslandi eftirhrunsáranna þar sem viðskiptajöfrar reyna að efnast á ástandinu og stjórnmálamenn þykjast vera heiðarlegir. Hann lifir fyrir spennuna sem fjármagn og völd gefa og hann er staðráðinn í að leyfa engu að koma í veg fyrir að áætlanir hans muni ná fram að ganga. Ekkert hræðir hann, ekki einu sinni forsætisráðherra.

Under the Black Sand
Under the Black Sand

Martraðirnar, þar sem sama konan kemur endalaust fyrir eru pirrandi og hann reynir að leiða þær hjá sér. Þegar honum er gefin mynd af sér með henni, fer hann að velta fyrir sér hver veit af henni og hvernig tilvera hennar getur verið þekkt.

Skilin milli raunveruleika og ímyndunar hverfa þegar maður er myrtur á skrifstofu Péturs. Martraðirnar magnast og verða raunverulegri en heimurinn í hring um hann..

Rafbókina er hægt að nálgast í ePub formi í Kobo versluninni og Mobi formi á Amazon:
USA – UK – Germany – France – Spain – Italy– Netherlands – Japan – Brasil – Canada – Mexico – Australia – India

Einnig er hægt að nálgast kilju (€15) og harðspjaldaútgáfu (€25) hjá höfundi. Þær er einnig hægt að nálgast á öðrum stöðum, en eru þá dýrari og ekki áritaðar.

Dómar:
Amazon UK, 28 May 2014 – 5 out of 5 stars
Unusual fast moving story
Format: Kindle EditionVerified Purchase
I bought this book as I like stories based in Iceland. It sat in my ‘wish list’ for ages as I was unsure whether or not to buy. There were no reviews to guide me. However I am so happy that I did in the end purchase it.

This fast moving story is about a forceful businessman, set in todays post 2008 bank collapse Iceland, trying to get a large project passed a political and environmental restistance to his plan. As the story develops you get flashbacks to the past, his past, which eventually consumes his time. It is a story of love over the centuries, of struggle against hard times and also of murder. I cannot give to much away as this will ruin your enjoyment. If you like a slightly supernatural story this is for you. Very good.

Amazon NL, 21 January 2015 – 5 out of 5 stars
A unique story in a unique environment. 
A story unlike other love stories. Contains all the aspects that makes you want to keep on reading (power, lust, love and well described feelings and sceneries). Movie material.

Amazon USA, 6 February 2015 – 4 out of 5 stars
Gripping story – needs an editor

Format: Kindle Edition Verified Purchase
Very good story; starts a bit slow, but if you keep going it will eventually grip you. It made me want to watch the short movie in which the book is based. I very much enjoyed the way the history of Iceland is used as a backdrop for the story, that works very well. The pronunciation guide was a nice touch, by the way.

Minor nitpick: this book would benefit from being looked over by an editor. There are a few repeated errors that look like translation mistakes (like using “ore” where it should be “oar”, or “clique” for “cliché” – both of these several times), and at least once a character’s name is replaced with what looks like an English version of the name (Halla is referred to as Heather in one of the final scenes).
((The issues here have since been corrected and are not found in the version currently on offer – Villi))

Amazon USA, 10 May 2015 – 4 out of 5 stars
Nordic spirits and a Nordic Tiger.
Format: Kindle Edition Verified Purchase
This crime novel swings from standard mystery to very different mythology. Very pleasing story that is tied up well. Most of the characters are very real but not sympathetic. No sweethearts traipsing through this tundra. Great melding of ancient and contemporary conflict.

Tvær stiklur voru gerðar fyrir bókina Under the Black Sand:

Önnur skáldsaga, Blood and Rain, er mikið til tilbúin og verður gefin út við tækifæri.Hún er ekki framhald fyrri bókar, heldur fjallar hún um ungan íslenskan blaðamann í Barcelona árið 1937, á tímum borgarastyrjaldarinnar.

Krakkar, þið eruð klisja

Krakkar, þið eruð klisja

Aðdragandi kosninga er eins og vorið. Loforð um betri tíð með blóm í haga. Sterkara heilbrigðiskerfi sem fólk hefur efni á, lækkandi skatta með hækkandi sól, blóm í hnappagötum eins og fíflar í túni, menn í lopapeysum kyssandi börn fyrir framan myndavélar.

Og unga fólkið. Þessi furðudýr sem hugsa öðruvísi en miðaldra stjórnmálamennirnir, þessar kynjaskepnur sem þarf að skilja svo hægt sé að hala þær inn eins og fiska á öngli. Miðaldra pólitíkusinn stúderar bráðina svo hann geti veitt hana.

Barnið við styttuna (VGA 2013)
Barnið við styttuna (VGA 2013)

Það er bara eitt sem gengur ekki upp í þessu dæmi. Unga fólkið er ekki önnur dýrategund sem þarf að skilja. Unga fólkið er fólk með nokkurn vegin sömu þarfir og miðaldra fólk. Það er ekkert erfitt að skilja unga fólkið, nema maður hafi misst tengslin við eigin fortíð og sé búinn að gleyma hvernig var að byrja sjálfstætt líf, eða ef maður hefur aldrei verið þar og aldrei þurft að hafa fyrir neinu.

En allavega…

Krakkar, þið eruð klisja. Eða allavega hluti af stærri klisju.

Fyrir kosningar er talað um ykkur. Talað um að hlusta á ykkur, því þið eruð víst svo frábrugðin okkur gamla fólkinu að við getum ekki sett okkur í ykkar spor. Ykkur er lofað hinu og þessu. Betra LÍNi, fleiri leikskólum, betri framtíð með blóm í haga, betra heilbrigðiskerfi… og allt það. Þið þekkið þetta. Miðaldra mennirnir ætla að gefa ykkur dót til að leika með. Þeir ráða þessu. Þið munið bara að kjósa þá. Eða kjósa ekki, því eldra fólkið sér um þetta með því að kjósa sama gamla aftur og aftur.

Önnur klisja er að þið virðist gleypa við þessu. Virðist allavega ekkert vera að pæla neitt sérstaklega í því. Klisjan er að ungt fólk taki ekki þátt í stjórnmálum. Mörg ykkar láta hlutina bara gerast, annað hvort vegna áhugaleysis eða uppgjafar.

Uppgjöfin er skiljanleg. Hér varð hrun. Mamma og pabbi misstu kannski húsið, frændi framdi sjálfsmorð, afi dó eftir að hafa legið á ganginum á spítalanum vegna peningaskorts og myglusvepps og amma er orðinn farandelliheimilismatur því það er alltaf verið að flytja hana. Hún er ennþá sár yfir að hafa ekki fengið að búa með afa síðustu árin, því hann var veikur en hún ekki. Eina manneskjan sem virðist lifa þokkalegu lífi er frænka sem flutti til útlanda. Hún segir allavega að hún hafi það ágætt. Það er örugglega þannig, því allt er betra en þetta sker miðaldra (og þaðan af eldri) karla. Kannski maður flytji bara út.

Áhugaleysið er samt eiginlega stærra vandamál. Stjórnmál eru leiðinleg, miðaldra karlarnir eru leiðinlegir og þetta virðist ekki vera neitt nema tuð og rifrildi fólks sem á nóg af peningum. Alvörugefnir talandi hausar í sjónvarpinu þykjast vita allt og kunna allt. Boring. Stjórnmál eru samt ekki alveg þannig. Stjórnmál snúast um að hafa áhrif á samfélagið, stýra því í átt til framtíðar. Fólkið sem tekur þátt í stjórnmálum og kýs í kosningum hefur áhrif á framtíðina. Fólk sem nennir ekki að spá í þetta hefur engin áhrif.

Stjórnmál snúast ekki bara um leiðinleg mál eins og fjárlög sem enginn skilur hvort eð er. Þau snúast um stefnu samfélagsins. Stjórnmál nútímans hafa áhrif á framtíðina. Og þá er spurningin. Hver á að ákveða hvernig framtíðin lítur út? Miðaldra karlar, karlar sem ættu að vera að skríða á eftirlaun eða fólkið sem þarf að lifa í framtíðinni sem er sköpuð í dag?

Munum að það vantaði sex atkvæði á að Píratar kæmu inn manni í Hafnarfirði um árið. Sex atkvæði. Ég er ekkert að tala um Pírata, en þetta sýnir að örfá atkvæði geta haft áhrif.

Við getum haldið áfram á sömu braut. Haldið áfram að pæla ekkert í miðaldra körlunum sem lofa „unga fólkinu“ einhvers. Við getum haldið áfram að styðja (beint með atkvæðum eða óbeint með því að kjósa ekki) við gamla bitlingasamfélagið þar sem okkur er lofað hinu og þessu en það svo tekið af okkur strax eftir kosningar þegar stjórnarsamstarf er í húfi. Við getum leyft þeim að hola heilbrigðis- og menntakerfin að innan og lækka framfærsluviðmið LÍN eftir hentugleika.

Við getum líka tekið völdin sjálf. Unnið í hugmyndum um beint lýðræði, fundið lausnir á framfærslukosnaði í námi, reynt að koma vaxtaprósentunni á húsnæðislánum niður í það sem þekkist í löndunum í kring um okkur (þau eru nú 4x hærri á Íslandi en í ESB).

Unga fólkið þarf að vakna. Taka þátt í að skapa eigin framtíð, koma með hugmyndir, kjósa flokka sem virkilega virðast ætla að breyta einhverju. Taka þátt.

Það er nefninlega þannig að breytingar eru ekki endilega slæmar. Við þurfum ekki að vera hrædd. Eftir langan vinnudag er gott að breyta til og fara heim. Eftir 72 ár af því sama, er kannski kominn tími til að breyta til og gera íslenskt samfélag réttlátara og jákvæðara.

Unga fólkið getur breytt samfélaginu. Miðaldra karlarnir eru fastir í gamla farinu. Þeir eru ekki að fara að breyta neinu.

Krakkar, takið til hendinni. Takið þátt, kjósið. Skiptir ekki máli hvað, á meðan þið kjósið.

Ekki gera ekki neitt. Ekki vera áhugalaus um framtíðina. Hún er ykkar, ekki þeirra. Takið það sem ykkur ber. Hafið áhrif. Takið þátt.

Ekki vera klisja.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu.

Bloggið – 10 ár

Bloggið – 10 ár

Það var á þessum degi fyrir tíu árum að ég skrifaði mitt fyrsta blogg. Áhuginn hafði verið fyrir hendi í einhvern tíma, en það var ekki fyrr en Mogginn fór að bjóða upp á bloggsvæði sem ég lét slag standa. Í fyrstu var þetta bara tilraun, en það breyttist fljótlega.

Verði blogg...
Verði blogg…

Fyrsta færslan var um bloggið. Þar tókst mér að guðlasta og blanda Önnu Frank í dæmið, önnur færsla var um stuttmynd sem ég var að undirbúa tökur á og þriðja um mansal í tengslum við fótbolta. Eftir það fór ég að nýta bloggið til að gagnrýna stóriðjustefnuna, það var pallur sem ég notaði til að hrópa af í hruninu og í kjölfarið. Við bloggararnir tengdumst, urðum bloggvinir. Ég kynntist frábæru fólki eins og Láru Hönnu, Birgittu Jónsdóttur, Jórunni Sigurbergsdóttur og mörgum öðrum. Ég tel margt af þessu fólki nú til vina og lífið er skemmtilegra og meira spennandi fyrir vikið.

Bloggvinir
Bloggvinir

Moggabloggið virkaði vel í mörg ár. Þangað til Davíð varð ritstjóri. Hans áherslur voru annars staðar og bloggkerfið fór að safna ryki. Ofstæki og persónuárásir urðu tíðari í athugasemdum og bloggið missti mikið af sjarmanum sem það hafði haft. Á tímabili var ég mest lesni bloggarinn á Moggablogginu, en andinn var breyttur og ég fór. Ég setti upp blogg á eigin síðu, skrifaði á ensku, en setti af og til færslur inn á íslenska bloggið. Þær voru þó sjaldgæfar.

2012 setti ég upp mína eigin síðu á íslensku. Þessa sem þú ert að lesa. Ég hef verið að dunda mér við að setja gömlu moggafærslurnar inn svo allt sé á einum stað. Það er mikið verk og klárast þegar það klárast.

Moggabloggið
Moggabloggið

Í fyrstu færslunni, fyrir réttum tíu árum, spurði ég „Mun ég halda þetta út lengur en í viku?“. Það hefur tekist. Það er gaman að fletta í gegnum gömlu færslurnar. Skoða hvernig skoðanir og áherslur hafa breyst. Á tímabili var ég harður ESB andstæðingur, en sé nú kosti og galla við aðild og finnst að þjóðin eigi rétt á upplýstri umræðu og atkvæðagreiðslu um málið. Ég var skeptískur á nýju stjórnarskrána, en eftir að hafa lesið hana í gegn, hef ég snúist og finnst hún vera mikilvægasta verkefni sem framundan er. Sumt hefur þó ekki breyst. Fjórða færslan, þann 5. maí 2006, hét Nárapúkar. Hún fjallar um álfa sem ferðast til Reykjavíkur til að mótmæla því að borg þeirra sé sökkt. Umfangsefnið var Kárahnjúkar, sem þá voru í byggingu. Náttúruvernd var og er ein af grunnhugmyndunum sem ég lifi eftir.

Það sem ég hef kannski helst lært af blogginu er að þó allt breytist, áherslur og skoðanir, er alltaf undirliggjandi sannfæring sem breytist aldrei. Þessi þrá eftir sanngirni og virðingu við land og þjóð. Það má vel vera að einhver muni einhverntíma finna færslu sem fer beint á sannfæringu mína núna eða í framtíðinni, en ég er sannfærður um að breyttar skoðanir séu til komnar vegna meiri upplýsinga.

Margt hefur gerst á þessum tíu árum síðan fyrsta færslan var skrifuð. Það væri gaman að lesa í gegn um þetta allt einhvern daginn. Sjá hvað var að gerast og hvað mér fannst um þau mál á þeim tíma. Kannski næ ég að gera það í ellinni. Þá sit ég í ruggustólnum og les færslur síðustu 40 ára, því það er á hreinu að ég er ekkert að fara að hætta þessu. Það er okkar allra að sjá til þess að samfélagið haldi áfram að vera frjálst, að við getum haldið áfram að tjá okkur í friði fyrir yfirvöldum og að við höfum rétt á að móta eigin skoðanir og skipta um skoðanir ef nýja upplýsingar fást.

Þess vegna er það algert forgangsmál að tjáningarfrelsið verði tryggt um alla framtíð. Við getum ritskoðað okkur sjálf, en yfirvöld eiga aldrei að gera það.

Sjáumst á netinu.

2044

2044

Lýðveldið Ísland var stofnað fyrir 72 árum, þann 17. júní 1944. Það eru því 28 ár í 100 ára afmælið, árið 2044. Það gæti virst vera langur tími, en ef við förum 28 ár aftur í tímann, lendum við á 1988.

Fólk sem er tvítugt í dag verður tæplega fimmtugt á lýðveldisafmælinu.

Íslendingur á íslandi
Íslendingur á íslandi

Þetta er ekki langur tími. Margt getur breyst, en samfélagið getur líka staðnað. Við getum upplifað kreppur eða framfarir. Það er mikið til okkar að ákveða hvert við viljum fara og hvar við viljum vera á aldar afmæli lýðveldisins.

Mig langar því að spyrja alla tveggja spurninga. Svör má setja senda á vga[hjá]vga.is eða einfaldlega setja þau hér fyrir neðan. Það væri gaman að fá sem flest svör, svo við getum búið til stefnu sem hægt er að reyna að orða vel og setja í einhverskonar ferli.

  • Hvernig samfélag myndirðu vilja sjá á 100 ára afmælinu?
  • Hvað getum við gert til að það muni rætast?

Tökum endilega öll þátt í að búa til samfélagið sem við viljum búa í.

Visit Us On TwitterVisit Us On FacebookVisit Us On Youtube